Miðvikudagur, 8. maí 2013
Hvað er líkt með Jóni Gnarr og Winston Churchill?
Jón Gnarr hefur náð að höfða til samúðar fólks með því að segja frá þeirri hörðu lífsreynslu sem hann hefur þurft að þola. Margir telja hann eiga að njóta friðhelgi af þeim sökum og þess vegna er hann meðhöndlaður með silkihönskum af fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni.
Erfið æska, ADHD og ýmsar andlegar veilur duga ekki til að réttlæta vanhæfni hans í embætti borgarstjóra.
Allir hafa heyrt um Winston Churchill og flestir vita að hann er af mörgum talinn fremsti stjórnmálaskörungur allra tíma. Færri vita að hann átti við sambærileg vandamál að stríða og Jón Gnarr.
Þegar Winston Churchill hóf sína barnaskólagöngu þjáðist hann mjög, því hann gat ekkert lært. Stærðfræðin var honum hin mesta kvöl og pína, hann hataði flestar námsbækurnar því hann skildi ekkert hvað í þeim stóð.
Sjálfsmynd hans var mjög döpur því hann var sonur stjórnmálamanns sem tilheyrði háaðlinum breska og faðir hans leyndi því ekki að honum fannst Winston litli vera fábjáni.
Alla ævi þjakaði minnimáttarkenndin þennan mikla skörung. Með reglulegu millibili fékk hann þunglyndis og kvíðaköst sem hann deyfði með áfengi.
Þetta er sameiginlegt með Winston Churchill og Jóni Gnarr, en hvað skilur þá að?
Jón Gnarr hefur enga hæfileika til að vera leiðtogi en það hafði hinn í ríkum mæli. Strax í upphafi byrjaði Churchill að tileinka sér aðferðir sem virka í pólitík, það hefur Jón Gnarr aldrei gert.
Jón Gnarr lyppast niður er hann mætir andstreymi en Churchill færðist allur í aukanna. Breska þingið lýsti yfir vantrausti á Churchill. Þá flutti hann magnaða varnarræðu og sagði að þingið gæti jú sett hann af. Ef það yrði gert þá vonaðist hann til að eftirmaður hans í embætti fengi sanngjarnari umfjöllun.
Hættum þessari meðvirkni, Jón Gnarr hefur enga hæfileika til að stjórna borginni og andlegar veilur eða erfið æska ná aldrei að afsaka neitt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.