Þriðjudagur, 20. ágúst 2013
"Eftirlit með hlutleysi RÚV."
Á fésbókinni er síða sem nefnist "Eftirlit með hlutleysi RÚV" og takmark hennar er að stuðla að upplýstri umræðu um sameign þjóðarinnar.
Vitaskuld eru skiptar skoðanir um hlutleysi stofnunarinnar og íslensk umræðuhefð gengur út á sterkari lýsingarorð en nauðsynlegt er. En öllum skoðunum er hleypt á síðuna og í hópnum fann ég tvo nafngreinda einstaklinga sem oftast eru í harðri andstöðu við ríkjandi skoðanir hópsins.
Það kallast lýðræðisleg umræða og Frosta Sigurjónssyni, stofnanda síðunnar til mikils sóma. Það virðist engum hent úr hópnum fyrir það eitt að vera á öndverðum meiði við flesta meðlimi hans.
Það getur hver sem er skoðað síðuna, umræðan þar er ekki rætnari en gengur og gerist á netinu. Flest er málefnalegtm kannski má finna einstaka ummæli sem hægt er segja á gráu svæði.
En Lára Hanna Einarsdóttir finnur hópnum flest til foráttu og segir hún að á síðu hópsins vaði uppi rógur, lygar og fasismi. Svo mikið blöskrar henni að hún segir innlegg síðunnar misbjóða heilbrigðri skynsemi og siðferði.
Þá er eins gott að hún lendi ekki í því sama og Halldór Laxness, að vera stundum ósammála sjálfri sér.
Hún segir eftirfarandi um Sjálfstæðisflokkinn í einni bloggfærslu; "Sjálfstæðisflokkurinn gerði út um fylgið á landsfundinum um síðustu helgi. Aðeins gallhörðustu frjálshyggjumenn, frambjóðendurnir sjálfir og nánasta fjölskylda kýs flokkinn enda segir Styrmir að hann sé ógeðslegur, prinsipplaus og stjórnist af tækifærismennsku og valdabaráttu. Á fundum er boðið upp á te".
Varla getur hún staðið við þessa færslu því nýfrjálshyggjumenn (þeir eru raunar ekki til, en þetta orðskrípi hefur merkingu sem flestir þekkja) eru ekki nógu margir í Sjálfstæðisflokknum, hvað þá frambjóðendur og þeirra nánasta fjölskylda, til að dekka þann fjölda sem kaus Sjálfstæðisflokkinn.
Svo rangtúlkar hún ummæli Styrmis Gunnarssonar, en hann sagði að íslenskt þjóðfélag væri ógeðslegt og prinsipplaust, átti ekki við Sjálfstæðisflokkinn einan og ef ummælin eru tekin hrá, þá er Lára Hanna líka ógeðslega prinsipplaus, hún er jú hluti af íslensku þjóðfélagi.
Sem betur fer eru engar líkur á að Lára Hanna gerist sjálfstæðiskona, því þá þyrfti hún margra ára sálfræðimeðferð sem tæki hressilega í budduna.
Ef hún er dæmd með hennar hætti, þá er hún væntanlega fasisti, rógberi og lygari sem ásundar svæsinn hatursáróður.
En hún er það líklega ekki heldur kona með sterkar skoðanir og takmarkaðan tíma eða of litla dómgreind til að meta raunverulegar staðreyndir.
Síðasta setningin var raunar rétt, það er boðið upp á te á landsfundum Sjálfstæðisflokksins og raunar kaffi líka, því flokkurinn tekur tillit til allra þarfa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.