Sunnudagur, 1. september 2013
"Eftirlit með hlutleysi RÚV."
Ég hafði verið skráður í þennan ágæta hóp í talsverðan tíma þegar Lára Hanna skammaðist út í hann. Fyrir forvitnis sakir ákvað ég að skoða síðuna og þekkti þar nokkra sem tóku þátt í umræðunni.
Ekki var hægt að finna neina rætni hjá hægri mönnum, en vissulega er hægt með góðum vilja að telja ýmislegt á gráu svæði, því stór lýsingarorð falla hjá flestum þegar verið er að tjá sig um hitamál.
Fljótlega fór ég að tjá mig á síðunni og þá varð ég var við fasisma hjá gjaldkera Samfylkingar, Vilhjálmi Þorsteinssyni. Ekki að hann boðaði fasisma, heldur sagði hann mig boða fasisma, en frá því hef ég áður sagt á þessari síðu.
Markmið hópsins er að hafa áhrif á RÚV og sjá til þess að öll sjónarmið hafi jafnt vægi. Hægri menn og vinstri menn eiga að njóta sanngirni og hafa tækifæri til að boða sínar stefnur og tjá sínar skoðanir á landsmálunum.
Hópurinn "Eftirlit með hlutleysi RÚV" á erindi til allra sem vilja opna og víðsýna umræðu um fjölmiðil allra landsmanna. Þótt ég vilji helst einkavæða stofnunina, þá er hún ennþá í eigu ríkisins.
Að mínu viti er þessi síða ekki vettvangur til að tjá sig um einkavæðingu eða ríkisrekstur, hægt er að stofna aðra síðu til þess og þar mun ég líka glaður taka þátt. Með því að ræða um tvö óskyld mál á sömu síðu er líklegt að hún nái ekki markmiðum sínum til fulls.
En ég hvet alla til að skoða síðuna og taka þátt, við hægri menn þolum ekki fasisma, enda vitum við öll hvaða afleiðingar sú stefna hefur haft.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.