Sunnudagur, 22. nóvember 2009
Breiðu bökin.
Núna hefur vinstri stjórnin fundið "breiðu bökin" til að axla hinar þungu byrðar efnahagshrunsins, það erum við sjóararnir, sem skulum standa undir byrðunum. Loksins, þegar við sjáum fleiri aura í buddunni okkar, þá ágirnist ríkisstjórnin þá. Meðan gengið var sem hæst þurftu sjómenn að þola launalækkun, ekki var mikið grátið yfir því. Sjómenn eru vanir því, að þola tímabundnar launalækkanir, stundum vegna minni fiskgengdar, lækkandi verðs á mörkuðum osfrv. Er hægt að finna marga sjómenn sem eru beinlínis ríkir af peningum? Vafalaust eru þeir fáir, ætli við teljumst ekki til hinnar fjölmennu millistéttar, svona launalega séð. Þórólfur Matthíasson titlaður prófessor hefur haldið því fram, að sjómenn og útgerðarmenn þoli auknar byrðar, en það er með það eins og margt annað sem frá vinstri mönnum kemur. Á góðri íslensku heitir það "bull". Sjómannaafslátturinn frægi, sem þeir sjá nú ofsjónum yfir, er ekki beinlínis skattfríðindi vegna þess að sjómenn séu mikið í burtu. Ríkið hljóp undir bagga með útgerðarmönnum og hjálpaði þeim við að rétta kjör sjómanna, þannig kom hinn frægi sjómannaafsláttur. Ef það á að taka hann af, þá er ríkið að svíkja gerða samninga. Það heitir á íslensku máli "samningsrof" og er ólöglegt. Fjölmiðlar hafa gaman af því að flytja neikvæðar fréttir og ef þeir geta sagt frá einhverjum, sem hefur það slæmt, þá líður þeim vel. Ef einhver lendir í hörmungum, slysi eða dauðsfalli, þá er það stórfrétt, einnig ef fyrirtæki fer á hausinn. Sjaldan er fjallað um vel rekin fyrirtæki, nú eða fólk sem er lánsamt í lífinu. En þegar skrifað er um sjómenn? Þá er talað um þá sem hafa mestu tekjurnar og skipin sem afla mest!!Þeir gleyma þeim, sem rétt skrimta af tryggingu, en hún er í kring um 190.000. kr. á mánuði. Lífeyrissjóðirnir gorta af góðri stöðu og er það ánægjulegt, en það má ekki velta byrðunum á þá. Tillögur sjálfstæðismanna varðandi skattlagningu inngreiðslna eru góðar, því samkvæmt þeirra eigin sögn, standa þeir vel. Nei, forsvarsmenn lífeyrissjóða neita öllum svoleiðis áformum, þeir væla eins og stungnir grísir ef þeir þurfa að leggja til samfélagsins. Ég borga í lífeyrissjóð eins og flestir, en ég get ekki verið öruggur með góð eftirlaun, hvort sem inngreiðslur eru eður ei. Það veit enginn hvernig þeir standa þegar ég verð gamalmenni. En það er í góðu lagi að leggja auknar byrðar á sjávarútveg og sjómenn, sem eru rétt að byrja að sjá til sólar eftir erfiða tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.