Föstudagur, 27. nóvember 2009
Hugleiðingar um ICESAVE.
Ég veit að allir eru orðnir hundleiðir á þessu Icesave máli, en ríkisstjórnin hefur sýnt ótrúlegan kjánaskap í því máli. Það er alþekkt í ágreiningsmálum, að tvö eða fleiri sjónarmið eru til staðar og reyna menn þá yfirleitt að finna milliveg, sem báðir geta sætt sig við.
En vinstri stjórnin okkar, hún tekur sjónarmið Breta og hollendinga fram fyrir okkar. Þetta er svo vitlaust, að ég get varla orðið reiður yfir þessu, aldrei hefði ég trúað því, að aðrir eins kjánar kæmust til valda. Forsætisráðherrann okkar tjáði Gordon Brown í bréfkorni, sem hún ritaði honum, hógvær að sjálfsögðu, því ekki má eyðileggja möguleikann á að komast í ESB, að við hefðum tekið á okkur þessar skuldbindingar, án þess að okkur bæri fullkomin lagaleg skylda til þess. Það stendur hvergi í lögum, að ríkið eigi að ábyrgjast fífldirfsku fjármálamanna.
En í hræðslu og aumingjaskap lyppaðist ríkisstjórnin niður, og gekk að flestöllum þeim kröfum sem "vinaþjóðir" okkar settu fram. Ef ég ætti vini, eins og bresku og hollensku ríkisstjórnirnar eru, myndi ég leita mér nýrra vina. Indriði H. Þorláksson sagði eftir heimkomuna, að Bretar og hollendingar teldu okkur hafa gert góðan samning.
Fyrir mörgum árum lét ég plata inná mig ónýtri bíldruslu, af óheiðarlegum manni, hann sagði að ég hefði gert góðan samning. Styrmir Gunnarsson skrifaði ágæta bók um hrunið sem ég dundaði mér við að lesa úti á sjó, þar sagði m.a. að Írar og Þjóðverjar hefðu gefið það formlega út, að ríkisábyrgð fylgdi bönkum þeirra. Það segir mér einfaldlega það, að smkv. EES samningnum er ekki ríkisábyrgð á bönkunum, enda hefur enginn getað sýnt fram á það. Ég hef ekkert vit á lögfræði, en veit þó, að ef tvö eða fleiri sjónarmið eru í gangi, þá sigrar það sjónarmið sem hefur sterkustu málsvarana.
Það segir sitt um íslensku samninganefndina, þeir lágu eins og gamlir hundar, með tunguna lafandi og hlýddu Bretum og hollendingum í einu og öllu. Svo er það allra furðulegasta, ef í ljós kemur, að okkur beri ekki skylda til að greiða, þá er möguleiki á að samningarnir verði endurskoðaðir, en ekki sjálfgefið. Er þetta einhver ný tegund af lögfræði, sem gengur útá það, að segja já við öllu sem kemur frá andstæðingunum? Því miður held ég, að Samfylkingin sé að koma með þannig nýbreytni, því ekki má styggja toppanna í ESB. Hvað hefur orðið um kraft og höfðingsdirfsku íslensku þjóðarinnar? Þessi litla þjóð sem barðist með kjafti og klóm gegn Bretum í þorskastríðinu, og hafði sigur að lokum. Þessi þjóð sem hefur brotist útúr moldarkofum og fátækt á örskömmum tíma, byggt upp gott samfélag, vel menntað og til fyrirmyndar á mörgum sviðum.
Vissulega er það svo, að öll él birtir um síðir. Sem sjómaður við Íslandsstrendur hef ég oft lent í lífshættulegri baráttu við Ægi konung, sem og allir sjómenn íslenskir og fyrir guðs mildi hefur allt farið vel að lokum, á eftir stormi kemur logn. Ég hef oft verið ansi blankur og einnig haft fyrir salti í grautinn, þannig er bara lífið og mótlæti þroskar einstaklinginn. Ég hef líka áður upplifað vinstri stjórnir á Íslandi, þær staldra ekki lengi við í einu, en eru eins og stormurinn, þær koma alltaf aftur. En það er ekkert lögmál, með vinstri stjórnir.
Menn þurfa að vera sæmilega læsir, eða leita sér aðstoðar í kjörklefanum til að kjósa ekki þessa afglapa. Hávaðinn á Austurvelli var svo mikill að ég greindi varla hvað var verið að tala um. Voru menn að biðja um vanhæfa ríkisstjórn eða að segja að þáverandi ríkisstjórn væri vanhæf? Ég er ekki viss, en allavega fengu þeir vanhæfa ríkisstjórn, reyndar ekki skuldlaust. Annars má svosem hlægja að þessu eftir einhver ár, næstu kynslóðir geta hent gaman af kjánunum sem sendu tvö gamalmenni, með takmarkaða reynslu af samningagerð til að semja um eitt stærsta mál seinni tíma, einnig má hlægja að viðkvæmni forsætisráðherra fyrir gagnrýni á hin Norðurlöndin, reiði aðstoðarmanns forsætisráðherra útaf ágætri málsvörn Evu Joly og ýmsu öðru fyndnu í verkum vinstri stjórnarinnar. Á sinni tíð, er ég viss um að Bakkabræður hafi verið mörgum hvimleiðir, en þeir eru fyndnir í dag. Við komumst yfir þessar skuldir að lokum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.