Fimmtudagur, 10. desember 2009
Við erum lánsöm þjóð.
Fjölmiðlamenn þurfa að gæta sín á, að fara ekki offari í flutningi á neikvæðum fréttum. Í landinu búa margar viðkvæmar sálir, þeim hættir til að taka neikvæðnina, óþarflega mikið inná sig. Það fer ekki framhjá neinum, að við göngum í gegnum efnahagsþrengingar og höfum þá hlandvitlausustu ríkisstjórn, sem setið hefur á lýðveldistímanum. Stjórnarherrarnir eru vissulega ekki að hjálpa fólki, að viðhalda bjartsýni, við þurfum að gera það sjálf. Þrátt fyrir fáránlega ICESAVE samninga og óhóflegar skattahækkanir, þá stöndum við vel. Við erum matvælaframleiðsluþjóð, þannig að við þurfum ekki að óttast hungursneyð, við höfum ágætt velferðarkerfi, svo flestum er hjálpað, við byggjum á kristilegu siðkerfi, okkur er annt um hvert annað. Við höfum ódýra hita og vatnsveitu. Einnig býr þjóðin, fyrir utan nokkra vinstri menn, yfir bjartsýni og dugnaði. Við skulum líka muna, að allt tekur að lokum enda, við lifum bjartari tíma aftur. Dramatískir einstaklingar í pólitík, hafa sagt að við séum á leið í gjaldþrot, stöndum eins að vígi og árið tólfhundruð og eitthvað (ég man ekki nákvæmlega hvaða ár við afsöluðum fullveldi okkar til Noregs, það er orðið það langt síðan) og við blasi óyfirstíganlegir erfiðleikar. Þjóð sem hefur brotist úr moldarkofum menntunarlítil og snauð, unnið bug á aldalagamalli þröngsýni og brotist til mennta, breytt hugarfari sínu í átt til nútímans, þjóð sem hefur þróað fiskveiðar, frá því að vera á brothættum skeljum í að stunda stórútgerð með öruggum skipum, sem skila miklum tekjum í þjóðarbúið, þjóð sem lifði við gífurlegan ungbarnadauða öldum saman og tókst, að koma í veg fyrir hann að mestu leiti, hlýtur að geta lifað við hlandvitlausa ríkisstjórn og efnahagserfiðleika í einhvern tíma. Þeir sem komust til vits og ára í byrjun síðustu aldar, voru fegnir því, að þurfa ekki að sofna svangir. Þetta fólk upplifði kreppuna árið 1930, en kvörtuðu lítið, þeir sem koma af árabátum á skútur, sögðu skútulífið hreinan lúxus. Jafnvel þó að enginn nútímamaður gæti hugsað sér það. Einnig þótti skútumönnum það mjög þægilegt líf, að vera á togara, þótt menn þyrftu að vaka sólahringum saman, við stórhættulegar aðstæður og erfiða vinnu, vinnu sem enginn nútímamaður gæti hugsað sér. Í kreppunni 1930 var nánast ekkert velferðarkerfi komið, samt lifðu hana flestir af. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Þó við höfum minna á milli handanna, þá er það bara tímabundið, erfiðleikarnir þroska okkur. Ef við t.a.m. færum að segja einstakling frá stríðshrjáðri þjóð frá aðstæðum okkar og kvarta, þá væri það eins og að sitja á líknardeild og barma sér yfir kvefi, í eyru deyjandi manns. Við þurfum að skilja, hve lánsöm við erum. Kraftinn, bjartsýnina og eljuna geta veikir stjórnmálamenn ekki tekið frá okkur. Þess vegna skulum við halda fast í þessa eiginleika, þeir munu fleyta okkur í gegn um samdráttinn.
Athugasemdir
Heill og sæll; Jón, og velkominn, í spjallvinahóp minn !
Þakka þér fyrir; bjartsýni mikla, og eindræga, þó svo, ég sjálfur telji hyggilegast, að hafa borð fyrir báru - á komandi tímum, þér að segja.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason 10.12.2009 kl. 12:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.