Laugardagur, 2. janúar 2010
Hvers vegna er ég sjálfstæðismaður?
Oft hef ég fengið að heyra þessa spurningu; "hvers vegna ertu sjálfstæðismaður?", frá samferðarmönnum mínum til sjós og lands. Ég kem úr verkalýðsstétt langt aftur í ættir, mínir forfeður voru bændur og sjómenn að stærstum hluta. Menntamenn eru tiltölulega fáir í minni ætt og engan veit ég um sem státar af miklu fjármagni. Í uppvexti mínum var lítið um peninga og eftir að ég fullorðnaðist hef ég ekki mikið af þeim séð, en mér hefur tekist að halda sjó og hef nóg fyrir mat og nauðynjum.
Samt er ég í hópi alhörðustu sjálfstæðismanna landsins, ég hef aldrei hitt neinn sem er meiri sjálfstæðismaður en ég.
Sjálfstæðisstefnan snýst ekki eingöngu um peninga, heldur fyrst og fremst frelsi öllum til handa. Frelsið er dýrmætast af öllu. Sjálfstæðismenn boða stétt með stétt, enda ekki hægt að tala um stéttskiptingu hér á landi, ég hef a.m.k. aldrei fundið fyrir henni, ég á ágæta vini í öllum stéttum og stigum þjóðfélagsins, þó ég tilheyri sjómannastétt, sem er ekkert verri en aðrar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að hver og einn ráði sér sjálfur og fái að nýta öll tækifæri, hvort sem það er til menntunar eða auðssöfnunar. Auðmenn eru nefnilega ekki verri menn en aðrir, þeir hafa meiri áhuga á peningum en gengur og gerist. Margir auðmenn og virkur markaður eru góðar undirstöður fyrir samfélagið.
Jafnaðarstefnan og sósíalisminn gengur út á stjórnsemi og forsjárhyggju. Þeir ákveða hversu ríkir menn mega vera. Ef einhver verður of ríkur að þeirra mati, grípa þeir til aukinnar skattlagningar. Þeir eru líka haldnir stórkostlegri blekkingu, hún er sú að allir séu fæddir jafnir.
En samt er það rétt, það eru allir jafnir. En ekki samkvæmt almennum viðmiðum sem menn hafa búið til í aldanna rás. Það hafa ekki allir möguleika á að læra, sumir geta það ekki og ekkert slæmt við það. Það geta ekki allir unnið líkamlega vinnu og ekkert slæmt við það heldur. Það geta ekki allir orðið auðugir af fé.
Þetta er samt hið stórkostlegasta í mannlegum samfélögum, menn eru skapaðir í ólík hlutverk, sem eiga að njóta sömu virðingar. Læknirinn og öskukallinn vinna báðir mikilvæg störf, við getum ekki án þeirra verið. Þeir eru báðir menn sem hafa þörf fyrir viðurkenningu og eiga skilið að fá hana. En öskukallinn getur ekki fengið sömu laun og læknirinn.
Það er vegna lögmálsins um framboð og eftirspurn. Heimurinn framleiðir marga einstaklinga sem geta gegnt starfi öskukalls, því það er tiltölulega einfalt starf En hann framleiðir fáa sem geta orðið læknar, þannig að það er minna framboð af læknum en öskuköllum. Auk þess bera læknar meiri ábyrgð en öskukallar, þótt báðir séu þeir heiðursmenn og samviskusamir. Há laun eru líka hvati fyrir menn til að leggja á sig langt nám og mjög krefjandi starf.
En öskukallinn þarf ekki að vera verr settur en læknirinn, þótt hann geti ekki veitt sér eins mikinn veraldlegan munað. Öskukallinn hefur nefnilega meiri tíma fyrirbörnin sín en læknirinn alla jafna og lifir við minni streitu í starfi.
Svo er það blessaður markaðurinn, fáir virðast skilja að, hann samanstendur af kaupanda og seljanda og báðir hafa jafna möguleika. Seljandinn getur ekki selt á hærra verði en kaupandi sættir sig við. Staðreyndin er sú, að kaupandinn lætur allt yfir sig ganga og nöldrar yfir háu verði. Þetta er svo einfalt, að börnin hafa skilning á því. Þau vita, að ef þau komast upp með eitthvað, halda þau áfram. Seljandinn heldur áfram að hækka verð, af því hann kemst upp með það.
Sjálfstæðismenn vita, að frelsi er besta leiðin til þroska. Við stöndum frammi fyrir efnahagserfiðleikum, en ég er viss um að hægt er að læra mikið af mistökum fortíðar. Ég tapaði stórfé á að trúa glaðlegum ungling sem sat bak við skrifborð í banka. Í dag veit ég að bankamönnum á ekki að treysta, þeir eru sölumenn og reyna að selja sem mest. Ef ég tek áhættu, verð ég að vera viss um að þola að tapa öllu, án þess að fara á hausinn.
Ég hef heyrt jafnaðarmenn segja, að það auki ófrið í samfélaginu ef misskipting á fé er mikið. Þetta finnst mér eitt það alvitlausasta sem ég hef heyrt, jafnvel frá vinstri manni. Ef það eykur ófrið, þá þarf samfélagið að hugsa sinn gang. Öfund er einn versti löstur mannsins. Ég horfði á marga græða gífurlegt fé og eiga einkaþotur, lystisnekkjur og þyrlur í góðærinu fræga. Aldrei man ég eftir að það hafi raskað mínu jafnvægi. Meðan ég er saddur og hef þak yfir höfuðið er ég sáttur.
Vinstri stjórnir hafa alltaf viljað lofa svo miklu fé til borgaranna, að ríkið hefur aldrei getað staðið undir því. Enda hafa þeir svikið það jafnharðan. Einnig hefur það verið svo, að þegar vinstri menn hafa tekið við af sjálfstæðismönnum, hefur flest farið á verri veg. Skattar hafa hækkað og allskonar reglugerðir og vitleysishugmyndir farið á flug.
Íslendingar eru fámenn þjóð, sem getur ekki staðið undir eins miklum fjáraustri og stærri þjóðir. Við höfum lengst af lifað um efni fram, en við stöndum undir því, enda dugmikil þjóð. En mér þætti gaman að vita, fyrst okkur gengur ekki betur en svo, að fjármagna velferðarkerfið í núverandi mynd, hvernig getum við þá fundið meira fé?
Vinstri menn vilja ná því með auknum sköttum og álögum.
Sjálfstæðismenn vilja framleiða meira og fá inn erlent fé, þeir vilja líka lægri skatta og eru sér samkvæmir í því. Lægri skattar ásamt einföldu skattkerfi skilar meiri tekjum.
Hvenær hafa vinstri menn stuðlað að raunverulegri tekjuöflun erlendis frá?
En sjálfstæðismenn eru ekki fullkomnir, þeir gera mistök. En þeir hafa einu stefnuna sem virkar fyrir þjóðina.
Þess vegna er ég einn af hörðustu sjálfstæðismönnum landsins, þó að margt sé hægt að klaga upp á flokkinn. Heimurinn er nefnilega ófullkominn í eðli sínu.
Athugasemdir
Hver og einn fái að raða sér sjálfur segir þú að Flokkurinn vilji,það er einmitt það sem útrásavíkingjarnir fengu í nafni Flokksins.kv
þorvaldur Hermannsson, 2.1.2010 kl. 04:09
Ég þakka þér þessa góðu færslu sem ég tek heilshugar undir.
Þórólfur Ingvarsson, 2.1.2010 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.