Ísland, sjálfstæð og fullvalda þjóð.

Það er stórundarleg afstaða, að telja aðild að ESB redda okkur út úr samdrættinum. Ef það er staðreynd, hvernig stendur þá á vandamálum margra aðildarríkja ESB?

Það, að við erum utan ESB og með krónu, hefur gert samdráttinn minni, en hann hefði getað orðið. Verð á útflutningsmörkuðum hefur lækkað eða staðið í stað, það er samdráttur í heiminum og því ekki hægt að binda vonir við miklar verðhækkanir. Krónan okkar blessunin, hefur gert það að verkum, að samfylkingarmenn geta hrósað sér af hagstæðum vöruskiptajöfnuði. Ekki má heldur gleyma, að við erum með minna atvinnuleysi, en margar þjóðir í ESB.

Það að vera læs á eigin þjóð, er mikilvægur eiginleiki stjórnmálamanna.

"Hin tæra vinstri stjórn" er haldin ólæsi á þessu sviði.

Íslendingar eru lítt hrifnir af ströngum laga og regluboðum, samt erum við alls ekki óheiðarlegri en aðrar þjóðir. S.l. sumar var viðtal í Morgunblaðinu við breska konu sem flutti hingað til lands. Hún sagði margt athyglisvert um sitt eigið land, sem er eitt af voldugustu löndum ESB, einnig tjáði hún sig um Ísland.

Hún sagðist hafa alist upp í landi, þar sem fátækt þætti eðlilegt ástand, margir voru heimilislausir og bjuggu í pappakössum á götunni. Ekki er ég að segja, að það sé endilega ómögulegt að búa í Bretlandi, það hlýtur að hafa einhverja kosti, en mér fannst ofangreind atriði ekki vera eftirsóknarverð. Við þekkjum örfá svona dæmi hér á landi.

Hún sagði ennfremur, að Íslendingar litu miklu fremur á lög og reglur sem viðmið og taldi það betri kost, en strangar reglur í eigin landi.

Í fyllstu hreinskilni, þá þoli ég alls ekki fíflaleg laga og regluboð um hina ótrúlegustu hluti, ég vil einfaldar og skýrar reglur, ásamt skynsemi.

Almenn skynsemi segir okkur, að við eigum ekki að ganga á rétt annarra, við eigum að vera heiðarleg og hjálpfús í mannlegum samskiptum. Fólk sem fylgir þessum einföldu reglum, þarf ekki stöðugt að þola það, að stjórnvöld andi ofan í hálsmálið á því í tíma og ótíma.

Í byrjun síðasta árs var ég staddur í Bremenhaven, við vorum að selja fisk. Ég ræddi við nokkra þjóðverja og forvitnaðist um afstöðu þeirra til evrunnar og ESB. Þeir voru allir á þeirri skoðun, að eftir að evran kom, þurfti hinn vinnandi maður að leggja meira á sig. Þeir voru ekki ánægðir með ESB, töldu það ekki þjóðverjum til hagsbóta, en þeir eru eitt af burðarríkjum ESB. En vafalaust eru ESB aðdáendur einnig til í Þýskalandi og Bretlandi, mér finnst samt rök þessara ágætu manna ansi góð.

ESB stefnir í að verða eitt ríki, að mati margra fræðimanna. Ef við göngum inn, verðum við ekki lengur íslensk þjóð, heldur lítið þorp í Evrópu. Ef menn geta sætt sig við að vera ekki lengur íslendingar, heldur þorpsbúar í Evrópu, verður svo að vera. En ég sætti mig seint við það, mér finnst það vond tilhugsun, því kostirnir við að tilheyra lítilli þjóð hafa meira vægi í mínum huga, heldur en að vera hluti af stóru ríki.

Íslendingar hafa verið að tala um spillingu hér, í ESB er líka spilling eins og allsstaðar. Hvernig dettur mönnum í hug, að í ófullkomnum heimi, sé hægt að finna land laust við spillingu?

En það að vera svona lítil þjóð hefur m.a. þá kosti, að hér ríkir meira návígi við stjórnmálamenn og tiltölulega auðvelt aðgengi að þeim. Hvað halda menn að þýði að biðja Össur Skarphéðinsson hreppstjóra að rétta hlut Íslandshrepps fyrir ESB? Þeir brosa kumpánlega og klappa honum á kollinn; "þú ert ágætur kallinn minn", svo fara þeir að tala um veðrið.

Ef við förum í ESB missum við yfirráðaréttin yfir öllum okkar auðlyndum, þetta er ekki svartsýnisspá, heldur staðreynd, það verður bara spurning um tíma. Auðlyndir okkar er það eina sem við höfum upp á að bjóða. Halda menn kannski, að ESB taki við okkur án þess að við látum eitthvað í staðinn?Og hvað höfum við annað að bjóða þeim? Ekkert sem hönd á festir.

Þetta snýst bara um það, hvort menn vilji áfram ráða sínum málum sjálfir eða láta ESB gera það fyrir þá. Þetta snýst um baráttu eða uppgjöf.

Það er vissulega þægilegra að láta stórveldin sjá um sig, um það verður ekki deilt, að það er erfitt fyrir litla þjóð að standa undir öllum þeim skuldbindingum sem sjálfstæð þjóð þarf að gera.

En erfiðleikarnir herða okkur og þroska, uppgjöfin minnkar í okkur frumkvæðið og þróttinn. Stóra spurningin er þessi, viljum við berjast áfram og bera höfuðið hátt, eða skoða tærnar á okkur í skilyrðislausri uppgjöf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Sæll Jón.

Þessi grein þín er framúrskarandi.Þú kemur að hug hins almenna borgara bæði hér á landi,og ekki síður erlendis.

Við fyrirspurnum til almennings erlendis,um veru landa í ESB,eru yfirleitt sá sami,og lífkjör þeirra hafa í flestum tilfellum versnað.Það virðist vera svo,að það sé einungis fólk,sem hafa komist á spena stjórnarinnar í Brussel,sem sjá allt í hyllingum um veru í sambandinu.

Eitt svar frá grískum mikilsmetnum manni,við spurningu eldri Íslending,sem ég heyrði af, segir all nokkuð.

Ef þú ert að hugsa um hag þinn,þá er þetta í lagi.En ef þú ert að hugsa um afkomendur þína,Guð forði þér frá því.

Ingvi Rúnar Einarsson, 5.1.2010 kl. 14:12

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Tek algjörlega undir það sem þú skrifar hér fyrir ofan.

Við þurfum að varveita frelsið sem forfeður okkar og mæður börðust fyrir á sínum tíma.

Megi almáttugur Guð vera með þér.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 6.1.2010 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband