Þvargarar.

Samfélög heimsins samanstanda af fjölbreyttri og litskrúðugri mannlífsflóru. Athyglisverðasti hluti hinnar stóru flóru nefnast "þvargarar". Skal nú leitast við að fjalla aðeins um þennan áhugaverða hóp, en taka skal fram að ítarleg rannsóknargögn vantar, þannig að þetta er enginn heildarúttekt byggð á vísindalegum grunni, heldur eingöngu frásögn forvitins sjómanns sem hefur mikinn áhuga á öllu sem að mannlegu eðli snýr.

Þegar börn fæðast þá skynja þau heiminn út frá sjálfum sér eingöngu. Eftir að hafa þroskast og lifað í nokkur ár, ca. 4-5  þá kemur sú uppgötvun að til eru fleiri skynjanir en þeirra eigin. Þvargarar eiga möguleika á að lifa sömu ævilengd og aðrir, verða oft mjög gamlir, en halda ávallt að þeirra skilningur sé sá eini. Það er eins og þeir komist ekki á eðlilegt þroskastig að þessu leiti.

Sterkt einkenni þvargara er sú árátta að finna eitt atriði í mikilvægum málefnum, oft það sem tiltölulega litlu máli skiptir og blása það út. Þótt þvargarar séu yfirleitt meinlausir, þá geta þeir tafið málefnalega umræðu og fengið fólk til að líta framhjá staðreyndum. Taka má hina heilögu ritningu sem dæmi, en þar segir frá mörgum góðum heilræðum og staðreyndum sem frelsarinn gaf mönnum. Í stað þess að nota heilræðin og fylgja þeim eftir, þá fóru þvargarar að hártoga það hvort hann væri virkilega eingetinn eða hvort hann hafi getað satt allan mannfjöldann á örfáum fiskum. Einnig fannst þeim ólíklegt að Jesús hafi getað gengið á vatninu forðum.

Þetta þvarg varð til þess að margir gleymdu kjarnanum í boðskap frelsarans.

Þvargarar eru einnig með afbrigðum næmir fyrir öllum misfellum í málflutningi þeirra sem eru á öndverðri skoðun, en gagnvart skoðanabræðrum sínum geta þeir umborið nánast allt.

Þessi ágæti hópur er mjög ríkjandi hér í bloggheimum. Þetta eru einstaklingarnir sem dæma menn strax ómarktæka fyrir það eitt að hafa aðra lífsskoðun en þeir. Þeir nota einnig sterk orð máli sínu til stuðnings, t.a.m. "gróft brot á mannréttindum", "spilltasta land í heimi", "þjóðernisöfgamenn" osfrv.

Þegar betur er að gáð, þá eiga þessi stóru orð eingöngu við það, að stjórnvöld fara gegn þeirra vilja eða að einhver hópur er á öndverðri skoðun við þá.

En þeir eru verðugt rannsóknarefni fyrir sálfræðinga og mannfræðinga. Borga mætti þeim ágætlega tímabundið fyrir að mæta upp í háskóla landsins og  segja sínar skoðanir.

Það sem gerir þá svona áhugaverða er, að þrátt fyrir allar upplýsingar og aukinn skilning mannsins á heiminum, eru ennþá til menn sem sjá ekkert nema sína eigin skoðun.

Athyglisverðast við þá er sú staðreynd, að þeir upplifa sjálfa sig sem afskaplega fróða og víðsýna menn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband