Er okkar hagsmunum best borgið í ESB eður ei?

Umræðan um Evrópusambandsmál er óskaplega heit um þessar mundir og sitt sýnist hverjum. Því er ekki að neita að umræðan er nú farin að nálgast marklaust þvarg sem engu skilar. Þess vegna vil ég leitast við að skapa opna umræðu á yfirvegaðan hátt. Það er háleitt markmið og óvíst að vel takist til.

Evrópusinnar leita allra leiða til að koma sínum málstað á framfæri, það gera andstæðingarnir líka. Ég er yfirlýstur andstæðingur aðildar, þannig að varla get ég óháður talist. En víðsýni getur varla skaðað.

Og einmitt af einskærri víðsýni og fróðleiksfýsn skrapp ég á vef Evrópusinna. Á forsíðunni var tekið dæmi um einlægan samstarfvilja ESB og vitnað til Grikklands. Pistlahöfundur kvað það hafa verið einfalt fyrir ESB að láta Grikkland afskiptalaust, en sökum velvilja og langrar samvinnuhefðar ESB, þá ákváðu sambandsríkin að koma Grikklandi til hjálpar, sum þó með semingi.

Ekki vakti þetta hjá mér löngun til að gerast stuðningsmaður aðildar. Stutt er síðan Grikkland var mikið í fréttum og ég man ekki betur en að aðildarlöndin hafi neyðst til að hjálpa Grikklandi, annars væri hætta á hruni evrunnar og minnkandi tiltrúar á hlutabréfamarkaði á evrusvæðinu. Þetta fannst mér ódýr og auðhrekjanleg röksemdarfærsla hjá þessu ágæta fólki.

Svo þvældist ég um blogg hinna ýmsu aðildarsinna og fann þar sama þvargið, einhverjir voru að rífast um laun embættismanna ESB forkólfanna og ýmislegt annað miður gáfulegt.

Nei, það þarf að reyna að átta sig á heiminum og sögu hans. Þekkt er að stóru ríki er erfitt að stjórna svo vel sé, það eru svo margir þættir sem þarf að taka tillit til. Margt bendir til þess að ESB stefni í áttina að því að verða eitt ríki.

Ég er ekki að fullyrða að sú verði raunin, en það virðist vera möguleiki á því. Það eitt er nóg til þess að ég vilji ekki aðild. Ég hef nefnilega engan áhuga á að búa í stóru ríki.

Hægt er að þvarga endalaust um tölur fram og til baka og koma með hin ýmsu rök með og á móti. Eftir stendur að það er enginn hætta á ferðum. Íslendingar geta vel haldið uppi sjálfstæði ríki í náinni framtíð. Hér er líka ágætt að búa þótt vissulega megi ýmsu breyta.

Ef ESB væri virkilega svona gott, hvers vegna vilja þá margir t.a.m. í Bretlandi ganga úr sambandinu? Það bendir til þess að ESB er alls ekki algott.

 ESB er mikið í mun að stuðla að mannréttindum, það er íslendingum líka. Hvað breytist við aðild að því leiti? ESB mun færa stjórnsýsluna til betri vegar, gott og vel. En í skýrslu greiningardeildar á vegum ESB kom sú umsögn um íslenska stjórnsýslu að hún væri í meginatriðum góð og tiltölulega laus undan pólitískum afskiptum. Til að allt komi fram, þá bentu skýrsluhöfundar á, að margt mætti betur fara varðandi ráðningu dómara. En hverju myndi þá ESB breyta ef okkar stjórnsýsla er í meginatriðum góð?

Reyndar finnst mér það ekki góð manréttindastefna að banna unglingum sem eru fullir af dugnaði og starfsorku að vinna. Sjálfur byrjaði ég að vina í fiski 13. ára gamall og 16. ára var ég farinn á sjóinn. Ég er ekki einn um þessa lífsreynslu og tel hana hafa bætt mig frekar en hitt. Það þroskar ungmenni að læra fljótt að vinna. EES samningurinn er nú þegar búinn að eyðileggja valfrelsi ungmenna að þessu leiti.

Ef ég nota hámarksbjartsýni, þá get ég komist að þeirri niðurstöðu að ekki fari allt á annan endann þótt við göngum í ESB.

En hvað breytist raunverulega?

Við fáum mögulega nýja kosti og nýja galla, þannig að þegar upp verður staðið þá höfum við aðeins endurnýjað kosti og galla.

Og greitt fyrir það peninga sem hægt hefði verið að nota til handa þeim sem minna mega sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband