Miðvikudagur, 28. júlí 2010
Er hrunið EES og Samfylkingunni að kenna?
Er hrunið EES og Samfylkingunni að kenna? Það má draga þá ályktun af úrdrætti úr ræðu Ingibjargar Sólrúnar sem birtist í Herðubreið árið 2003, þar segir m.a.:
"En svo skall á frostaveturinn mikli með fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddsonar árið 1991 og þessi krafa um endurnýjun varð hálft í hvoru úti. Ef frá eru taldar breytingar í efnahags og viðskiptalífi sem urðu til vegna EES samningsins undir forystu Jóns Baldvins og Jóns Sigurðssonar, og einkavæðing ríkisbanka, hefur harla lítið borið til tíðinda í íslenskum stjórnmálum í tíð Davíðs Oddsonar".
Það er vitað að EES þrýsti mjög á um einkavæðingu banka. En ræða Ingibjargar er lituð af hennar skoðunum og ber að skoða sem slíka. Árið 2006 að mig minnir kom hingað formaður eða framkvæmdastjóri samtaka evrópskra smáfyrirtækja. Var hann að boða stefnu ESB? Nei, hann var að kynna sér það sem hann kallaði "Oddsonisma", hann taldi þá stefnu hafa skilað miklu betra umhverfi smáfyrirtækja heldur en ESB.
Fyrri hluti pistilsins var skrifaður til að hvetja menn til að gæta sín á þvargi í þessari flóknu umræðu, heldur að kynna sér staðreyndir. Mér dettur ekki til hugar að kenna Samfylkingunni um hrunið né Ingibjörgu Sólrúnu. Það var græðgi nokkurra manna og vankunnátta í fjármálum sem orsakaði það. En því er ekki að neita, að EES samningurinn veitti þeim dygga aðstoð.
Margir halda að það hafi verið okkur lífsnauðsyn að ganga í EES. Fátt bendir til þess því það var ágætt að lifa á Íslandi áður en hann kom til. Ég mynnist alla vega ekki tiltakanlegra vandræða við að draga fram lífið á árunum fyrir 1991, en þó var ég kominn með fjölskyldu og farinn að vinna fyrir mér talsvert fyrir þá tíð.
Auðvelt er að draga þá ályktun að EES samningurinn hafi verið til talsverðra vandræða. Ef svo hefði farið, að við hefðum ekki tekið upp regluverk þeirra, ekki einkavætt banka né farið í útrás, hver væri staðan þá?
Við værum ekki að takast á við hrun bankakerfis af þessari stærðargráðu þannig að samdrátturinn væri mun viðráðanlegri, ímynd okkar erlendis væri mun betri osfrv.
En það þýðir ekki að gráta mistökin, heldur að læra af þeim. ESB býður upp á ýmsa möguleika en hvers virði eru þeir á heildina litið? Við eigum kost á að reka hér öflugt samfélag áfram utan Evrópusambandsins. Nauðsynlegt er að eiga viðskipti við sambandið sem og önnur ríki utan þess. Sem lítil þjóð með marga vel menntaða einstaklinga getum við tileinkað okkur margt gott frá öðrum þjóðum. En að múlbinda sig við einn hluta heimsins, sem er eins ófullkominn og raun ber vitni, það getur ekki talist vænlegt til árangurs. En vissulega er hægt að fá húsaskjól, mat og einhverja aura með því að vera í ESB. Það er sem sagt vel hægt að lifa þar inni. En erfitt að þróa metnaðarfullt samfélag á eigin forsemdum.
Við ættum að taka frumherjana til fyrirmyndar. Forfeður okkar stofnuðu hér alþingi, eitt það elsta í heiminum og ástunduðu merkilega lýðræðis stjórnskipun. Þeir voru einna fyrstir í heiminum til að koma með samhjálp, þ.e.a.s. menn bættu hver öðrum ýmsan skaða sem hlaust af völdum ýmissa búsifja. Eða viljum við vera svo út þynntir af alþjóðahyggju að við viljum ekki hlúa að þeim eiginleikum og rækta sem forfeðurnir sáðu?
Athugasemdir
Vildi Gylfi Þ. Gíslason Alþýðuflokksmaður leggja íslenskan landbúnað af? Á þessum árum sem við gengum til samninga við EES?
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.7.2010 kl. 02:09
Athyglisverður punktur. Söguskýring Össurar alla vega að hrunið hefði ekki orðið ef við hefðum verið komin inn í ESB fyrir 10 árum stenst alla vega engan veginn.
Jón Baldur Lorange, 29.7.2010 kl. 09:32
Þakka ykkur báðum innlitið Jón Baldur og Jóna Kolbrún.
Jóna Kolbrún, ekki man ég hvort þetta hafi verið eins og þú segir, en kratarnir verða seint taldir til vina íslensks landbúnaðar.
En vitað er að margir í kratahópnum vilja frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum, þeir hörðustu vilja afnema tolla á þeim. Það þýðir vitanlega ekkert annað en endalok íslensks landbúnaðar.
Jón Baldur, það er rétt hjá þér, söguskýringar Össurar verða seint taldar í háum gæðaflokki.
Jón Ríkharðsson, 29.7.2010 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.