Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Alþjóðasamstarf.
Við íslendingar eigum mikla möguleika á góðu samstarfi við aðrar þjóðir. En til að þeir geti orðið að veruleika, þá þurfum við að huga að okkar ímynd á alþjóðavettvangi.
Við getum átt góð samskipti við Bandaríkin, Evrópusambandið, Kína osfrv. Allir þessir aðilar geta reynst okkur vel. En við þurfum að hefja tiltekt hjá okkur sjálfum, það gerir það enginn fyrir okkur.
Þegar ríkisstjórnin gefur það í skyn og svokallaðir fræðimenn fullyrða, að við séum hálfgerðir kjánar sem getum ekki stjórnað okkur og viljum ekki greiða skuldir, þá er eðlilegt að umheimurinn sé hugsi yfir þessari þjóð.
Útlendingar trúa fræðimönnum okkar og ég tala nú ekki um ríkisstjórninni.
Það þarf að vera viðsnúningur í þessum málum ef við viljum vera sjálfstæð þjóð og marktæk í samfélagi þjóðanna. Það er ekkert vandamál að tileinka sér það besta sem þekkist í stjórnkerfi ESB. Við getum lært margt af örðum þjóðum, en það þarf ekki að vera nauðsynlegt að sameinast þeim.
Með því að ganga í ESB þá erum við búinn að takmarka frelsi okkar til að gera samninga við önnur ríki. Einnig neyðumst við til að gangast undir lög sambandsins öll, hvort sem okkur líkar það betur eða ver.
EES samningurinn þótti mikið afrek, samt var hann stór þáttur í hruninu. Bankakerfinu var að stærstum hluta stjórnað með Evrópskum reglum, sem síðar reyndust meingallaðar. Brusselmenn hafa nú þegar viðurkennt þá staðreynd.
Ekki ætla ég að segja að EES hafi eingöngu haft galla í för með sér, en mér finnst þeir samt vega ansi þungt. Frjáls flutningur á vinnuafli, hefur þjóðin í heild sinni notið góðs af því? Ég tel að lítill hluti þjóðarinnar hafi notfært sér þessi hlunnindi. En við fengum fullt af vinnuafli frá Evrópu og í dag sjá menn ýmsa galla við það, sem óþarft er að tíunda frekar.
Opin útboð á Evrópska efnahagssvæðinu, hefur þjóðin notið góðs af því?
Íslenskir verktakar hafa ekki reynst samkeppnishæfir vegna þess að þeir greiða hærri laun, í mörgum tilfellum, heldur en mörg Evrópsk verktakafyrirtæki. Hefði ekki verið ágætt að halda vinnutekjum fyrir hinar ýmsu stórframkvæmdir hér heima og leyfa ríkinu og einstaklingum að njóta góðs af því?
Svo skerðir samningurinn mannréttindi unglinga að vissu leiti. Mörg ungmenni hafa löngun til að taka þátt í atvinnulífinu eins og ungmenni íslensk hafa gert um aldir og haft gagn af. EES bannar unglingum að vinna. Það á nefnilega ekki eingöngu að hugsa um rétt fullorðinna til að vinna og skapa sér tekjur.
Það er þvættingur í aðildarsinnum þegar þeir segja andstæðinga sína vera á móti ESB. Við eigum að hafa samstarf við sambandið, enginn heldur öðru fram.
Það skal viðurkennt að mikla vinnu þarf til að halda úti sjálfstæðri þjóð við þann veruleika sem við búum við. Kannski er það þægilegri leið að ganga í ESB. En þægilega leiðin er ekki alltaf best.
Við höfum stutta sögu sem sjálfstæð þjóð. Við höfum ekki frekar en aðrar þjóðir skapað fullkomið samfélag. En miðað við aðstæður, þá má teljast kraftaverk hversu langt við höfum komist, fyrirmyndar velferðar og heilbrigðiskerfi, lítið atvinnuleysi og lítil spilling miðað við mörg önnur lönd sem eldri eru. Við erum samfélag í mótun og ástæðulaust er að gefast upp.
Lífið býður upp á endalausa möguleika, það er okkar að nýta þá.
En það þyngir róðurinn til muna ef ríkisstjórnin og fræðimennirnir hennar halda áfram að segja það á alþjóðavettvangi, að við séum vanhæf til að stjórna okkur sjálf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.