Að forgangsraða rétt.

Ég er mikill aðdáandi hinna ýmsu lista og nýt þess mjög að skoða fögur málverk, fara á tónleika og þá helst sinfóníutónleika ásamt því að gera mikið af því að lesa góðar bókmenntir.

Listin finnst mér auðga andann og líf án listar gæti ég varla hugsað mér.

Samt hefur það verið svo á þeim tímum sem ég hef haft minna fé handa á milli, þá hef ég ekki eytt krónu í list eða aðra afþreyingu. Ég get nefnilega lifað án þess tímabundið og einnig get ég gluggað í gamlar bækur og hlustað á geisladiska, það kostar ekki neitt.

Það sem skiptir mig mestu máli er að hafa nóg að borða handa mér og mínum sem og brýnustu nauðsynjar eins og húsnæðisafborganir, læknisþjónusta osfrv.

Heilsan er það mikilvægasta af öllu og eitt sinn eyddum við hjónin síðustu peningunum í lyf handa barninu okkar, við áttum ekki krónu í nokkra daga, þá var bara lifað á kartöflum og fiski.

Núna hefur ríkisstjórnin boðað niðurskurð í opinberum gjöldum.

Það heyrist mest af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, en ekkert er skorið niður í listum og menningu og ekki hefur heldur heyrst um niðurskurð í utanríkisþjónustunni, sem þó hefur bólgnað of mikið út á síðustu árum. 

Fjölmiðlastofa sem er okkur ekki eins mikilvæg og heilsa landsmanna er ekki lögð niður, þrátt fyrir að hafa verið fjármögnuð með lánsfé, ekki er heldur verið að fækka í þeim störfum sem bætt hefur verið við í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Sú ríkisstjórn sem getur haldið áfram óþarfa bruðli á ýmsum sviðum og á sama tíma skorið niður heilbrigðisþjónustu hefur ekki hjarta sem slær í takt við hinn almenna borgara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dagný

sammála hverju orði!!!

Dagný, 3.10.2010 kl. 22:05

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hver getur notið lista ef hann eða hún á ekki fyrir mat?  Mér finnst þú ekki skilja vandann sem blasir við okkur þjóðinni,.....  Þú ert sjómaður, sjómenn eru yfirleitt hátekjumenn.  Gætir þú lifað og borgað alla reikninga ef útborguð laun þín væru aðeins 130.000 krónur?  Það er veruleiki margra annarra en mín...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.10.2010 kl. 02:55

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Jóna Kolbrún, þú hefur algerlega misskilið það sem ég var að fjalla um í pistlinum.

Ég var að segja það að ríkisstjórnin ætti að einbeita sér að miklum niðurskurði í listum og menningu auk utanríkisþjónustunnar en reyna að hlífa heilbrigðis og velferðarkerfi eins vel og kostur er.

Mér finnst ekki ástæða til að vera að eyða fé í listir og styrki handa listamönnum meðan stór hluti þjóðarinnar býr við þröngan kost.

Það sem fyrir mér vakti var að segja frá því, að þegar ég er blankur þá eyði ég engu í menningu og listir.

Ef þú heldur að ég þekki ekki þennan veruleika sem þú talar um, þá er það mikill misskilningur.

Árið 1993 var ég háseti á litlum bát. Fyrstu þrjá mánuði ársins var ég nær tekjulaus því eigandi bátsins fékk ekki greitt fyrir fiskinn sem við veiddum.

Ég get nefnt fleiri svona dæmi, því fer víðs fjarri að það sé samansem merki á milli þess að vera sjómaður og hafa góðar tekjur.

En ég skal viðurkenna það að í dag er ég nokkuð heppinn, ég hef ágætar tekjur og er þakklátur fyrir það.

En þú mátt trúa því að ég finn sárlega til með öllum sem hafa þær tekjur sem þú nefndir, ég þekki þessar aðstæður ágætlega.

Lengi býr af fyrstu gerð, ég ólst upp í tómu peningabasli, það var rétt hægt að kaupa mat því faðir minn hafði svo lágar tekjur og móðir mín var heimavinnandi.

ÉG veit það fullvel að ekki er hægt að lifa af 130.000. krónum á mánuði, það segir sig sjálft.

Jón Ríkharðsson, 4.10.2010 kl. 09:26

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Sumir hafa greinilega verið syfjaðir og ekki lesið eins vel og venjulega   Þá ég við sjálfa mig, ég biðst afsökunnar á fljótfærni minni.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.10.2010 kl. 16:37

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er í góðu lagi Jóna Kolbrún, mistök og fljótfærni skil ég mjög vel því ég er oft sekur um hvorttveggja. Ég hef nú talsvert miklar mætur á þér og finnst gaman að lesa eftir þig bloggin. Ég kann alltaf vel að meta konur með bein í nefinu.

Jón Ríkharðsson, 4.10.2010 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband