Þriðjudagur, 5. október 2010
Þjóðkirkja til hvers?
Vitanlega eru til rök bæði með og á móti hinni ágætu þjóðkirkju, en á tímum sem þessum þarf að líta til hagkvæmnisjónarmiða fyrst og fremst. Hver er tilgangur þjóðkirkjunnar?
Hann er vitanlega sá hinn sami og annarra safnaða í grunninn, að boða Guðsorðið og predika það. Einnig að veita sáluhjálp þeim til handa sem á þurfa að halda.
En það er til fullt af kristnum söfnuðum sem rækja þetta hlutverk með stakri prýði. Erfitt er að réttlæta allan þann fjáraustur sem fer í kirkjuna, þá peninga má nýta betur á öðrum sviðum án þess að ergja himnafeðgana að nokkru leiti, en meginmarkmið kristins safnaðar hlýtur að vera að þóknast þeim Guði og Jesú Kristi.
Ég hef ekki trú á öðru en að Drottinn bæði og Kristur verði sáttir við ríkisstjórnina þótt hún leggi þjóðkirkjuna af. Jesú var nú ekki par hrifinn af hégóma og óþarfa prjáli meðan hann lifði á jörðinni. Hann var nefnilega fullkominn sonur Guðs og vissi fullvel hvað veraldlegir hlutir skipta litlu máli í óendanleika alheimsins. Hvers vegna halda menn að hann hafi ákveðið af fæðast úr skauti fátækrar móður í jötu og deila kjörum með hinum almenna borgara? Hann hefði alveg eins getað fæðst hjá einhverjum auðmanni, jafnvel konungi og haft það mjög gott á okkar mælikvarða, sem nú ekki alltaf er réttur.
Ef sanngirni er gætt þá er hægt að segja að prestar hafi hjálpað mörgum og séu prýðismenn upp til hópa. Taka ber fram að þeir sem hafa óeðlilegar kenndir eru í miklum minnihluta og ekki er hægt að dæma heila stétt eftir sjúkum einstaklingum sem tilheyra henni. En þeir eru ekki nauðsynlegir, við eigum fullt af góðum sálfræðingum og félagsfræðingum, einnig starfa prýðis sálusorgarar hjá hinum ýmsu söfnuðum sem geta séð um allar kirkjulegar athafnir.
Fyrir utan hagsmuni starfsmanna hennar, þá er enginn hagur fyrir samfélagið í heild að halda þjóðkirkjunni uppi. Þess vegna þarf að leggja hana niður, því við verðum að lágmarka allan kostnað meðan við erum að komast út úr kreppunni.
Athugasemdir
Hvað áttu, kæri nafni, við með því að segja þörf á að "leggja niður" Þjóðkirkjuna?
Viltu setja þvingunarlög á hana, þar sem félagafrelsi þessa fólks verði óvirt?
Það eru ekki nema um 1,5 milljarðar sem í reynd koma úr ríkissjóði til hennar á ári.
Hitt eru sóknargjöld, sem aðrir söfnuðir fá líka – en ekki frá ríkinu.
Ég áttaði mig nýlega á því, að miklu lakari hliðstæða við Þjóðkirkjuna er til hjá okkur.
Menn voru að tala um BBC í Bretlandi og gagnrýna ríkisreksturinn á því batteríi.
Þar er í gangi pólitískur vinstri réttttrúnaður, gjarnan tekin línan frá The Guardian.
Gagnrýnandi kallaði þetta "nýja ríkiskirkju" sem öllum væri ætlað að trúa á og styðja!
En er því ekki eins farið með Rúvið okkar, gamla hróið?
Fær það ekki forréttindaaðstöðu hér á landi meðal fjölmiðla og margfalt meiri styrk af skattfé okkar en Þjóðkirkjan? Rúvið tekur til sín um 3,6 milljarða á ári með þvingaðri skylduáskrift af nánast öllum.
Svo fáum við Samfylkingar-meðvirkan áróðurinn og ESB-áróðurs- og landráða-daðrandi þættina og sífellt þessa sömu þáttastjórnendur sem fá að matreiða sinn (félags)pólitíska rétttrúnað ofan í landsmenn og velja sjálfir viðmælendur sem eru sjaldnast andstæðir þeim í viðhorfum.
Meðallaun á Rúv voru 500.000 kr. á mánuði árið 2007, sjá hér: Rúvarar eru sukkarar í ríkiskerfinu, og þar voru 324 starfsmenn!!!!!!
Í ljósi þessa sýnist mér lögboðið og umsamið fjárframlag ríkisins til Þjóðkirkjunnar blikna í samanburði. Það er reyndar bara kaup kaups – ekkert annað en jafngildi afgjalds af sjöttu hverri jörð á landinu, sem ríkið fekk í staðinn frá kirkjunni. (Sjá um það nánar hér: Gegn árásum á Þjóðkirkjuna.)
Ég er viss um að þú heldur áfram að hugsa þessi mál, skýr og glöggur eins og þú ert, og hér kveð ég þig með beztu óskum!
* PS. Gleymdu því ekki, að ríkisstjórnir – bæði hægri og vinstri – hafa ítrekað stolið (gjarnan 7%) af sóknargjöldunum, frá öllum trúfélögunum!
Jón Valur Jensson, 5.10.2010 kl. 18:54
"... á okkar mælikvarða, sem nú ekki alltaf er réttur." Þetta er gullkorn.
Annars er ég sammála Jóni R. Auðvitað á að leggja þjóðkirkjuna sem slíka niður. Ég hélt ekki, Jón Valur, að þú værir fylgjandi því að hér starfaði trúfélag, sem er lítið annað en taglhnýtingur stjórnvalda, undir því yfirskyni að um kirkju væri að ræða.
Ég leyfi mér að líta svo á að sk. þjóðkirkja sé ekkert annað en afleiðing þess að yfirvöld vildu á sínum tíma ná undir sig kirkjueignum og um leið vera með puttana í því hvað kirkjan boðaði. Sk. þjóðkirkja er nk. opinber trúarbrögð svipað og dýrkun hinnar æðstu veru á dögum ógnarstjórnar frönsku byltingarinnar.
Þess vegna á að leggja hana niður og ég sé ekki að það hafi neitt með félagafrelsi að gera. Vilji menn, karlar og konur, stofna evangelíska kirkju þá er enginn sem bannar það. En trúfélag sem nýtur stjórnarskrárbundinna forréttinda auk þess að vera sett undir vald veraldlegra stjórnvalda er einfaldlega vond hugmynd.
Emil Örn Kristjánsson, 6.10.2010 kl. 16:25
Það er rétt, Emil Örn, að ég var aldrei "fylgjandi því að hér starfaði trúfélag, sem [væri] lítið annað en taglhnýtingur stjórnvalda, undir því yfirskini að um kirkju væri að ræða."
En þú átt bágt með að sanna þá frumforsendu þína, sem fram kemur í lokaorðum þessarar tilvitnunar. Og fjarri fer því, að Þjóðkirkjan hafi almennt og lengstum starfað sem "taglhnýtingur stjórnvalda", en undir einhverju fölsku yfirskini. Þjóðkirkjan er söfnuður, fyrst og fremst trúaðs fólks, og bara í 2 eða 3. lagi hin leiðandi yfirbygging hennar. Þó að yfirbyggingin hafi yfirgefið kristna kenningu í afgerandi málum nýlega, þá eru söfnuðirnir ennþá saklausir af því, eða veiztu til þess að nokkrir þeirra hafi samþykkt umturnun á helgisiðum og kenningu kirkjunnar og á Biblíutextum?
Þjóðkirkjan er ekki "opinber trúarbrögð" í merkingunni trúarbrögð stjórnmálastéttarinnar, enda hygg ég þá stétt að meira eða minna leyti trúlitla eða trúlausa, ekki sízt í ráðandi flokkum.
Þjóðkirkjan er sáralítið "sett undir vald veraldlegra stjórnvalda", Emil, forsetinn er að vísu formlega höfuð hennar, en sjálft kirkjumálaráðuneytið er nánast ekki til lengur, enda er Þjóðkirkjan sjálfráða um kenningu sína, helgisiði, agamál, fjármál og innri stjórn skv. lögum frá 1997.
Þetta er mikið til rétt, sem sr. Gunnlaugur Stefánsson, sr. Þórhallur Heimisson og sr. Halldór Gunnarsson í Holti hafa hver með sínum hætti verið að benda á: að Þjóðkirkjan er í reynd aðskilin að langmestu leyti frá ríkinu. Þess vegna eru skoðanakannanir Gallup um það "hvort menn séu hlynntir eða andvígir aðskilnaði ríkis og kirkju" vitlausar og leiðandi spurningar sem eiga ekki rétt á sér og gera það helzt "gagn" að afvegaleiða fólk.
Allt stendur það óhaggað, sem ég sagði hér ofar um tekjur kirkjunnar (nema hvað sértekjurnar frá ríkinu eru um 1,6 milljarðar fremur en 1,5).
Annars var það Jón Ríkharðsson, sem ég beindi máli mínu til, Emil minn.
Jón Valur Jensson, 7.10.2010 kl. 00:10
Þakka ykkur báðum fyrir innlitið Jón Valur og Emil, einnig þakka ég ykkur fyrir innleggin.
Nei kæri nafni, þvingunarlög vil ég alls ekki setja á félagafrelsi fólks.
Það eina sem ég átti við með þessum pistli var að ríkið þarf að skera niður.
Ef það er þannig að ríkið er að greiða með eða til kirkjunnar þá tel ég þeim peningum betur varið í þarfari hluti. Þjóðkirkjan er ekki að skila neinum verðmætum sem ég veit um.
Þetta verður alltaf erfið umræða þegar á að skera niður og allir þeir sem þurfa að þola niðurskurð mótmæla því og benda á nauðsyn sinna starfa í þágu samfélagsins.
Samfélagið hvorki versnar né batnar við það að leggja niður þjóðkirkjuna, fólk getur alltaf ástundað sína trú hvað sem ytri umgjörð líður.
Á erfiðum tímum þarf að taka ákvarðanir sem eru sárar fyrir marga, því miður. Það þarf að skoða kosti og galla við það að hafa þóðkirkjuna í núverandi mynd með tilliti til allra þessara kirkjujarða osfrv., þetta snýst um debet og kredit en ekki persónur. Mér er vel til prestanna og allra þeirra sem að kirkjumálum starfa.
Þetta er eingöngu spurning um kostnað.
Jón Ríkharðsson, 10.10.2010 kl. 21:25
Nei ekki þvingunarlög - aðeins að gefa fólki færi á að reka sína eigin kirkju - á sinn kostnað - velja sinn eigin prest -
Vilji kirkjurnar hafa einhverskonar samstarf sín á milli - fínt - en ekki gera það að lagaskyldu.
Vilji söfnuðirnir halda einhverskonar landsfund - fínt - þeirra mál og þeir sem vilja ekki taka þátt láta það ógert. Hinir mæta.
En aðskilnað sem fyrst-
Ólafur Ingi Hrólfsson, 11.10.2010 kl. 06:06
Aðskilnaðurinn er löngu kominn að flestu leyti, Ólafur Ingi.
Svara Jóni seinna.
En það versta við Þjóðkirkjuna er ekki tekjur hennar, heldur fráfall margra presta frá trúnni.
Jón Valur Jensson, 11.10.2010 kl. 07:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.