Mánudagur, 17. janúar 2011
Mér hugnast ekki mótmæli.
Ég hef aldrei séð framliðnar verur og ég hef aldrei séð framtíðina birtast mér ljóslifandi eins og á sýningartjaldi, því ég virðist gjörsneyddur því sem skyggnigáfa kallast.
Samt minnist ég þess að hafa sagt við skipsfélaga mína þegar lætin hófust á Austurvelli í hitteðfyrra, að það kæmi ekkert nema einhver helvítis vitleysa út úr þessum mótmælum.
Þeim fannst þetta eðlilegt sjónarmið hjá mér, þar sem þeir þekkja glöggt mínar skoðanir á pólitík, en þeir sögðu að þessi bylting myndi kasta íhaldinu burtu og það væri von til þess að alvöru ríkisstjórn kæmist að, eftir ógnarstjórn íhaldsins.
Þá setti ég upp spámannssvip og sagði að vinstri stjórn myndi ekki laga neitt, heldur gera illt verra. Í framhaldinu minnti ég þá á ýmis atvik úr tíð fyrri vinstri stjórna og kom með nokkra punkta varðandi ágæti íhaldsins, þá gerðu þeir það sama og vanalega, sögðu að ég væri hálfviti og hristu höfuð sín af hneykslun yfir heimsku minni.
En ég hafði rétt fyrir mér þótt ég sé kannski hálfviti, en hálfvitar eru prýðisfólk og enginn þarf að skammast sín fyrir að tilheyra þeim góða hópi. Þeir segja ekki mikið í dag félagar mínir um borð þegar ég rifja þetta upp fyrir þeim, þeir vita að ég hafði rétt fyrir mér.
Mótmælin á morgun skila heldur engu nema einhverjum leiðinda látum, kannski verður eggjum eða tómötum hent í ráðamenn og þinghúsið, ég tek ekki þátt í svoleiðis æfingum.
Reiðin lagar ekki nokkurn skapaðan hlut, það þarf að hafa jákvætt hugarfar og þolgæði þegar erfiðleika bera að höndum. Vinstri stjórnin er afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar, þeir sem að henni stóðu verða að sætta sig við það.
Ég dunda mér áfram við að mótmæla með aðstoð tölvunnar, einnig rífst ég við alla vinstri menn sem ég hitti og reyni það ómögulega, að sveigja þá til réttrar stefnu.
Þolinmæði og æðruleysi í þrengingum hefur ávallt virkað best. Það er sama hversu slæmt ástandið verður, það birtir æ um síðir.
Boða til mótmæla á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála Jón, hálfvitar eru prýðisfólk. Og einn er sá hópur, sem ber af af mannkostum, og þú gleymir að telja upp, og það eru við sauðirnir.
Ég hef aldrei skilið hvað fólk firrtist við þegar það er kallað hálfvitar, ekki komu þeir heiminum á heljarþröm, það voru allt saman gáfumenni sem teymdu okkur út i foraðið.
En mundu að múrinn stæði ennþá ef enginn hefði mótmælt.
Og þau mótmæli byrjuðu aðeins með tveimur hálfvitum, sem vildu láta skjóta sig.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 17.1.2011 kl. 09:08
Já Ómar, hálfvitar eru sannarlega prýðisfólk, ég tók eitt sinn í höndina á einum skipsfélaga mínum og þakkaði honum hólið eftir að hann sagði mig hálfvita vegna minna skoðana. Vesalings maðurinn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, en ég sagði honum að það væri nýtingin sem máli skiptir.
Þar sem mér tókst að gera sömu hluti og hann, þótt hann væri svona afskaplega gáfaður, þá hlyti ég að nýta það litla sem ég hef til fulls og rúmlega það, en hann nýtir sitt eingöngu til hálfs. vesalings maðurinn var marga túra að fatta þetta.
Ég er alltaf efins um mótmæli, þú talar um fall Berlínarmúrsins að ég tel, annars er ég hálf syfjaður núna því ég gat ekkert sofið í nótt. Ég lenti nefnilega í smávægilegu slysi í brælunni um daginn, þannig að ég verð að vera heima. Það fylgja þessu hvimleiðir verkir.
Mig minnir að stemmingin á þessum tíma hafi verið sú, að Kommúnisminn var að deyja út, Gorbi karlinn byrjaði á því var það ekki? Svo steypti Jeltsín honum af stóli.
Ég veit ekki hvort bylting hafi verið nauðsynleg, ég tel múrinn hafa hrunið samt, en það kann að vera misskilningur.
Við erum vissulega í leiðindamálum, en búum samt við betri kjör en Kommúnistaríkin sálugu, þannig að mínu mati höfðu íbúar A-Berlínar ríkari ástæðu til byltinga en við.
Þessar byltingar hjá okkur eru svo ómarkvissar finnst mér og leiðinlegar.
Kannski er ég svona latur, ég hreinlega nenni ekki að taka þátt í þessháttar mótmælum sem boðaðar eru í dag, mér finnst þægilegra að sitja við tölvuna og ansi hressandi að rífast við vinstri menn með sterkum rökum og jafnvel rituðum samtímaheimildum.
En kveðja til þín úr höfuðborginni Ómar minn og til ykkar fyrir austan. Ég kom stundum til Eskifjarðar á tímabili þegar við vorum á veiðum fyrir austan. Þetta er snotur bær og margt ágætt fólk sem ég spjallaði við.
Jón Ríkharðsson, 17.1.2011 kl. 09:40
Jón.
Ein merkustu mótmæli sögunnar, leidd af íhaldsmönnum, enduðu með timamótaplaggi, þar sem kveðið var á um rétt manna til lífs og eigna, var ritað árið 1776, og er ennþá í notkun í Bandaríkjunum.
Og ein verst heppnuðu mótmæli voru þau sem enduðu með valdatöku bolsévika í Rússlandi, í og með vegna þess að íhaldsmenn héldu sig til hlés, eða studdu fallið þjóðfélagskerfi.
Á Íslandi hófust mótmæli, með orðunum "Vér mótmælum allir", þau leiddu til stofnunar flokks sem kennir sig við sjálfstæði, og síðan sjálfstæðis þessarar litlu eyþjóðar, sem átti þá ekki neitt til neins, nema fisk og viljann til að veiða hann.
Ég skal taka undir að ein verst heppnuðu eru þau sem kennd eru við búsáhaldarbyltinguna, en það var full þörf á þeim. Þeim var stolið, stolið af valdagráðugum stjórnmálamönnum, líklegast vegna þess að þið hægri menn héldu ykkur heima.
Í dag fáið þið tækifæri til að bæta úr syndum ykkar því í dag er verið að mótmæla sömu hlutum, fyrirhuguðum skuldaþrældómi almennings.
Og Jón, slæmt var ástandið í Berlín, en fá dæmi er um verri örlög þjóða, en þeirra sem bíða íslensku þjóðarinnar, ef öll erlendu lánin ganga eftir.
Það þýðir endalok alls þess sem gengnar kynslóðir byggðu upp, sjálfstæði landsins og velmegun.
Skulaþræll er ófrjálsari maður en bandingi, því hann sér ekki fjötra sína. En þeir meina honum eðlilegs lífs, og meina honum framtíð handa börnum sínum.
Og stærri glæp, en þann að meina börnum okkar framtíð, er ekki hægt að fremja.
Jú Jón, hægri menn mótmæla, þeir eru reyndar forsenda vel heppnaðra mótmæla, því íhaldssemi þeirra og rótfesta, kemur i veg fyrir vanhugsaðar breytingar.
Og öll erum við fólk sem vill framtíð barna okkar.
Þess vegna, og aðeins þess vegna þurfa núverandi stjórnvöld að víkja, kemur flokkapólitík ekkert við.
Við höfum ekki efni á henni í dag.
Kveðja að austan og austar en sá ágæti staður Eskifjöður.
Ómar Geirsson, 17.1.2011 kl. 12:38
Sameinuð stöndum vér - til varnar landi og þjóð - gegn mismunun og valdníðslu stjórnvalda - VIÐ erum þjóðin. Mótmæli eru nauð-vörn þjóðar.
Benedikta E, 17.1.2011 kl. 14:48
Já þetta með mótmælin Ómar, ég er nú engu að síður á móti svona mótmælum eins og viðhöfð voru niður á Austurvelli.
Tveir þekktir andófsmenn af sitthvoru kyninu koma upp í huga mér nú.
Það eru þau móðir Theresa og Gandhi sálugi, þetta voru alvöru mótmælendur að mínu mati og þau náðu sínu fram.
Með friðsemd, ákveðni og festu en beittu engu ofbeldi. Þótt vissulega sé hægt að segja að hávaða mótmæli og jafnvel blóðug mótmæli hafi skilað árangri, þá fylgja þeim óþarflega mikil reiði. Reiði er tilfinning sem mér er ákaflega illa við og sjaldan læt ég undan hennar kröfum, þótt oft sæki hún fast að mér.
Það eru til fleiri leiðir til að mótmæla heldur en að standa niður á Austurvelli innan um misjafna sauði..
Það yrði t.a.m. áhrifaríkt ef menn söfnuðu undirskriftum sem sýndu hversu margir vilja stjórnina frá völdum, enda mætti hugsa sér, ef það gæti ríkt samstaða, að allir legðu niður störf þar til hún hyrfi frá völdum osfrv., ég væri til að taka þátt í þessháttar aðgerðum af fullum krafti.
En standa niður á Austurvelli og fylgjast með trylltum lýð, þótt vissulega sé friðelskandi fólk í meirihluta, það hugnast mér alls ekki.
Svo gæti ég það heldur ekki í dag, ég fékk helvíti slæma byltu í síðasta túr, þannig að ég þarf að hafa hægt um mig.
En ég virði hins vegar skoðanir allra, þeir sem vilja geta mætt þarna niður eftir mér að meinalausu, ekki mun ég hnýta í friðsamt fólk þar sem það er að mótmæla og bera fram sanngjarnar kröfur. Ég hef heyrt að einhverjir flokksfélagar mínir ætli að mæta, þótt engar staðfestar heimildir hafi mér borist þar að lútandi, ég hef bara lesið um það á netinu.
En kær kveðja austur til þín og þinna frá Reykjavík Ómar minn, ég komi í flestar hafnir fyrir austan þegar ég var á síldveiðum fyrir tuttugu árum, austfirðingar eru upp til hópa mjög hressir og skemmtilegir að ræða við.
Jón Ríkharðsson, 17.1.2011 kl. 15:06
Hafðu góðan bata Jón.
Þegar þeir friðsömu sitja heima, þá móta hinir mótmælin. Næstum því orðrétt í Gandhi, sem var mikill mótmælandi.
Og í alvöru talað, ég hef miklar áhyggjur af ástandinu.
Ef það tekst ekki í tíma að losna við ríkisstjórnina, þá sýður upp úr. Og þá verður lítt hlustað á hina hófsömu.
En við skulum ekki heldur vanmeta okkar hlutverk, að skrá hugsanir okkar á þann hátt að aðrir nenna að lesa, er líka mikilvægt. Bæði skapar það umræðu, sem og hitt það fókusar bæði reiði og pirring fólks.
Undirtektirnar gefa svo vísbendingu um það sem ólgar undir niðri.
En það er ekki þannig að ég skilji ekki hvað þú ert að meina, þér líkar ekki sá skrípaleikur sem atvinnumótmælendur standa fyrir um allan heim. En þeir eru ekki almenningur, og almenningur þarf að rísa upp þegar á honum er brotið.
Það er eiginlega forsenda friðar, að valdhafar virði viss takmörk. Og þeir gera það ef þeir óttast reiði almennings. Og þegar fólk sem er seinþreytt til vandræða, segir hingað og ekki lengra, þá eiga valdhafar að hlusta, og reyna að ná sáttum.
Í dag er ekki hlustað, engin sátt er reynd.
Og það að reyna ekki að ná sátt, það hefur verið helsta vandamál þjóðarinnar allan þennan áratug. Lýðræðið er ekki alvald meirihlutans, heldur er honum falið að móta stefnu, en stefnan þarf að vera allra, og þá er ég að meina í meginatriðum.
Þetta var styrkur bandaríks þjóðfélags til skamms tíma, valdajafnvægi og sátt ólíkra hópa.
Og daginn sem ég sé VG liða og íhaldsmenn taka höndum saman niðri á Austurvelli, þá er þessi stjórn farin, alveg eins og það dugði í Póllandi og víðar í Austur Evrópu, það var samstaðan sem rak kúgarana á braut.
En borgarastyrjöld eyðir öllu.
En hvað um það, við erum að lýsa sama fílnum þó við séum ekki staddir á sama líkamshluta við lýsingar okkar, og ég held að allflestir landa okkar vilji það sama. Líka þeir í Samfó, þó þeir eigi erfiðast með að skilja það.
Og ég er alveg sammála þér um eitt, Austfirðingar eru gott fólk, og þau kynni sem ég hef haft af öðrum landshlutum, gefa mér sömu tilfinningu. Og útlendingar sem ég hef rætt við, og einhver kynni hafa haft af landanum, bera honum góða sögu, það er því sem er inn við beinið.
Við erum góð þjóð og eigum ekki þessi ósköp skilið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 17.1.2011 kl. 16:30
Við erum algerlega á sammála í þessu máli Ómar, þú ert einn af fáum hér í bloggheimum sem getur skilið hugsanir manna, þótt orðalagið sé kannski hægt að hártoga.
Ég get sagt þér það alveg eins og er, að ef hópurinn niður á Austurvelli væri eingöngu samansettur af mönnum eins og þér, Jóni Val, Lofti, Óskari Helga og þeim sem haga sér af yfirvegun og skynsemi, þá myndi ég glaður mæta og taka fullan þátt.
Ég myndi mála mótmæla spjöld og búa til, ég væri góður í því, ég lærði trésmíði fyrir fjölmörgum árum og starfaði við fagið í nokkur ár. Ég myndi sem sagt leggja mig allan í þannig mótmæli.
En mér hugnast alls ekki að vera í kring um þá sem þú réttilega kallar "atvinnumótmælendur".
Svo sendi ég aftur hinar sömu kveðjur til ykkar austfirðinga héðan úr höfuðborginni.
Jón Ríkharðsson, 17.1.2011 kl. 16:42
Benedikta, ég er sammála því sem þú segir, svarið til Ómars getur líka verið svar til þín.
Jón Ríkharðsson, 17.1.2011 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.