Fimmtudagur, 10. febrúar 2011
Styrkir ESB aðild fullveldið?
Það er fremur kómískt oft á tíðum, að fylgjast með málflutningi ESB sinna.
Þeir halda því fram að sambandsaðild þýði ekki afsal fullveldis og utanríkisráðherrann hæstvirti og knái, sagði hróðugur, að fullveldið myndi styrkjast við inngönguna.
Fyrrum lögspekingur sambandsins sagði í Kastsljósviðtali að þjóðir afsöluðu sér ekki fullveldi, heldur deildu þær fullveldi sínu með hinum aðildarríkjunum, þegar þær gengju í sambandið.
Öllum er vitanlega frjálst að hafa sína skoðun á kostum og göllum aðildar, en svona staðreyndarvillur eru engum til framdráttar.
Hugtakið fullveldi þýðir vitanlega það, að fullvalda ríki mótar leikreglur samfélagsins á eigin spýtur, óháð öðrum.
Færa má rök fyrir því, að með ýmsum samþykktum á EES tilskipunum deilum við nú þegar fullveldinu með öðrum þjóðum, einnig gerum við það í samtarfi okkar við NATÓ og SÞ.
Með ESB aðild afsölum við fullveldinu enn frekar, því ESB lög eru lögum einstakra aðildarríkja æðri, einnig vilja Brusselmenn okkur ekki að eiga fiskinn okar í friði, það kom einnig fram í Kastljósinu.
Ekki hætti ég mér frekar út hina hina hálu braut lögspekinnar, en verð samt að segja, að ég er afar óhress með að láta útlendinga vasast í fiskveiðiauðlindinni og verð öskuillur yfir þessari leiðinda áráttu þeirra að banna hvalveiðar.
Vilja menn ekki jafnrétti og hvers vegna á að hlífa hvölum frekar en þorskræflinum, sem er óskaplega sakleysileg og yndæl skepna?
Auðvitað þurfum við að veiða öll kvikindi, sem ekki eru í útrýmingarhættu, við erum jú kjötætur að stærstum hluta.
Fræðimaðurinn sagði ennfremur í viðtalinu, að nauðsynlegt væri fyrir smærri þjóðir á borð við Bretland, Þýskaland og Frakkland að standa saman og mynda varnir gegn stórveldum á borð við Bandaríkin, Indland og Kína.
Við þurfum ekki að óttast fyrrgreind stórveldi, þau hafa komið betur fram við okkur heldur en einstök ríki innan ESB. Við höfum átt prýðileg samskipti við Bandaríkin svo dæmi sé tekið.
Vandséð er að íslendingar hefðu það betra, þótt við værum í sambandinu. Varla myndu Írar taka undir það sjónarmið, Grikkir sennilega ekki heldur né Spánverjar. Almenningur í þessum löndum býr við atvinnuleysi og leiðinda blankheit.
Það þýðir ekki að hlusta á stjórnmálamenn, í öllum ríkjum heims hafa pólitíkusar það nokkuð þokkalegt miðað við almenning, sama hversu aumt ástandið er í þeirra löndum.
Mótmælin á götum ríkja ESB bera þess glöggt vitni, að fólk hefur það slæmt, það á frekar að taka mark á því heldur en að lesa stöðugt einhverjar reglugerðir frá Brusselmönnum sem líta þokkalega út, við fyrstu sýn.
Þótt ég vilji ekki fyrir nokkurn mun sjá inngöngu í Evrópusambandið, þá þurfa ekki allir að vera á sömu skoðun varðandi það.
En að halda því fram að í því felist styrking á fullveldinu, það er óttaleg della.
Athugasemdir
Sæll Jón.
Nú má ekki lengur tala um afsal fullveldisins. Priris tók það skýrt fram að um "deilingu" á fullveldi væri að ræða, fyrst og fremst til styrktar smáríkjunum Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi gegn stórþjóðunum Bandaríkjunum og Kína!
Við munum því "deila" fullveldinu til ESB. Menn geta svo velt vöngum um hver okkar áhrif verða hér á landi eftir þá "deilingu" fullveldisins, þegar við munum hafa 0,06% yfirráð yfir okkar fullveldi!
Það hefði kanski ekki verið vitlaust ef fréttamaður RUV, sem tók viðtalið við Priris, hefði beðið manninn um skilgreiningu á því hvað hann teldi ríki eins og Ísland vera, þegar hann talar um Þýskaland, Frakkland og Bretland sem smáríki.
Annars er þetta nokkuð góð grein hjá þér, að vanda.
Gunnar Heiðarsson, 10.2.2011 kl. 07:22
Sæll Gunnar og þakka þér fyrir innlitið.
Ætli hann sé ekki að tala um þessi ríki í samanburði við stórveldin sem hann nefndi. Ísland er vitanlega ægilega lítið ríki, sennilega örríki á heimsmælikvarða, en engu að síður mjög gott örríki sem á að standa á eigin fótum, því við búum við öðruvísi aðstæður en löng á meginlandi Evrópu.
Mér finnst að það eigi að segja sannleikann, vitanlega þýðir það afsal fullveldis að ganga í ESB.
Sumum kann að finnast það í lagi og jafnvel betra en að við ráðum okkar málum sjálf, það er sjónarmið út af fyrir sig.
Svo eru stjórnmálamenn einnig að tala um "könnunarviðræður" þegar við erum í aðlögunarferli.
Það er verið að aðlaga regluverkið okkar að lögum ESB.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2011 kl. 09:05
Sæll Jón.
Auðvitað er þessi svokallaða "deiling" á fullveldinu ekkert annað en afsal, þar sem okkar vægi innan ESB verður vart mælanlegt.
Gunnar Heiðarsson, 10.2.2011 kl. 10:16
Sæll aftur Gunnar, ég er sammála þér í þessu eins og svo mörgu öðru.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2011 kl. 10:28
Smáinnlegg inn í þessa umræðu:
Fyrsta hugmynd um EBE kom frá þingmönnum breska Íhaldsflokksins! Þeir vildu byggja upp n.k. varnarbandalag V-Evrópu gegn gríðarlegum útþenslumarkmiðum þáverandi Ráðstjórnarríkjanna (Sovét). Þessi hugmynd þróaðist í u.þ.b. áratug og það var Kola- og stálsamband Evrópu sem tók af skarið og úr varð bandalag nokkurra ríkja Evrópu byggða á samvinnu um verslun með þessi mikilvægu hráefni. Síðar var þessi hugmynd færð út í áföngum sem við þekkjum í dag. Mjög líklegt er að þessi þróun verði áfram þar sem samningsfrelsi er viðurkennd en unnt er að semja um nánast hvað sem er. Þannig er ekki útilokað að við Íslendingar getum vænst þess að fá viðurkenningu EBE á sérstöðu okkar og einhæfum atvinnuvegum og þannig átt okkar fiskimið í friði fyrir ágengni annarra þjóða. Reynslan okkar af fiskveiðistjórnun er virt af EBE þó menn séu kannski ekki sammála um atriði eins og kvótakerfinu.
Eigum við ekki að sjá til hvernig þessi EBEmál þróast áður en öllum dyrum er skellt aftur harðlæst eins og sumir vilja? Við getum hins vegar orðið auðveld bráð Kínverja sem þegar eru að koma sér fyrir og eru að undirbúa stærsta sendiráð sitt á öllum Norðurlöndum hérlendis enda fyrir þá eftir töluverðu að slægjast.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 10.2.2011 kl. 10:53
Ég get fallist á það sjónarmið hjá þér Mosi, að við þurfum að gæta okkar vel í samskiptum við Kínverja.
Mér finnst þeir óttalega frekir og þar vísa ég til hótana þeirra sem þeir beittu Norðmenn þegar ákveðið var að veita Kínverska andófsmanninum Nópelsverðlaunin.
Viðskipti eru sannarlega enginn barnaleikur og ráðamenn okkar, þurfa vissulega að standa sig betur í vörn og sókn fyrir þjóðina.
Það hefur enginn sagt að það sé auðvelt að vera lítið land, en smæðin getur líka verið kostur, þetta veltur allt á íslendingum sjálfum.
Það er nokkuð ljóst að okkur mun reynast erfitt að halda fiskimiðunum út af fyrir okkur ef við göngum í ESB, óvíst er hversu lengi undanþágur halda ef þær verða einhverjar.
Einnig er bann við hvalveiðum gjörsamlega út í hött, hvalurinn er í samkeppni við okkur varðandi fiskveiðar og þeir taka hraustlega til matar síns hvalirnir.
Erfitt er líka að sjá fyrir þróun ESB á næstu árum, það eru miklir erfiðleikar hjá sambandinu vegna efnahagskreppunnar, og tíminn leiðir í ljós hvernig gengur að greiða úr þeim.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2011 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.