Mánudagur, 14. febrúar 2011
Veruleiki íslenskra sjómanna.
Sjávarútvegurinn hefur verið í umræðunni undanfarin misseri og mörgum finnst við sjómenn hafa óþarflega hátt kaup. Það er fólk sem þekkir ekki mikið til sjómennsku, það myndu fáir nenna að vera úti á sjó nema fyrir góð laun, en ekki má gleyma því að margir sjómenn hafa ekki góð laun, tryggingin er tæpar tvöhundruð þúsund á mánuði og margir þurfa að lifa á henni nokkra mánuði á ári.
Mig langar að lýsa fyrir þér lesandi góður, veruleika þeim sem menn búa við þegar vetur ríkir hér á landi og óveður geisa.
Það er komið ræs og þú hefur væntanlega sofið illa, því skipið veltur mikið og stanslaus brot lemja skipið, þegar það gerist þá kastast skipið til og þú heyrir hávaða af högginu.
Þú ert kominn í borðsalinn og það þarf að gæta vel að drykkjarílátum og matardiskum. Ef menn gleyma sér brot úr sekúndu, .þá ertu búinn að setja diskinn með sósunni og öllu tilheyrandi eða hella úr bollanum yfir sessunaut þinn. Þú færð þá kaldar kveðjur, því blíðmælgi er ekki ríkjandi í svona veðrum, þau eru öllum hvimleið mjög.
Þegar þú ert búinn að borða kemur fljótt að vaktaskiptum. Þú heyrir í kallkerfinu;"fastur", þá veistu hvað það getur þýtt, leiðindabras.
Þú klæðir þig í gallann og ferð upp á dekk, hlerarnir eru komnir upp og þú ferð að lása úr hleranum. Það þarf að fara gætilega því hlerinn getur slegist og það er frekar óþægilegt vægast sagt, að verða sleginn af þrjúþúsund kílóa járnstykki.
Meðan þú ert að lása úr, þá skvettist sjórinn yfir þig og þú ert í vandræðum með að sjá hvað þú ert að gera, því augun eru full af sjó.
Nú ertu búinn að lása úr og trollið er híft inn, þú sérð fljótt að það er mikið rifið. Þú setur stroffuna á belginn og þarft að passa þig, því hann slæst til og frá og getur mölbrotið þig ef hann slær þig. Þegar trollið er komið innfyrir, þá er eftir að gera hitt klárt og kasta því, síðan kemur að því að bæta rifna trollið.
Menn þurfa að vera berhentir í því, annars gengur ekkert við að bæta, sjórinn sem skvettist yfir skipið kælir hendurnar til muna, en þú mátt ekki hugsa um það, þú þarft að halda áfram kengboginn í brjáluðum veltingi, það er ekki heilbrigð líkamstaða, en ekkert þýðir að fást um það. Þetta verk tekur alla vaktina og jafnvel lendir hin vaktin í þessu líka.
Það segir sig sjálft hvernig það er að standa í kulda og vosbúð með stanslausar skvettur yfir sig í sex tíma, en samt ertu ansi heppinn.
Þú hefðir getað lent í því að fá trollið óklárt eða hlerana saman, það er ægilegt bras í haugabrælu þannig að netavinnan er þrátt fyrir allt þægilegri.
Ef þú ert heppinn, þá getur verið mikið fiskerí, en það þýðir heilmikið púl að standa í aðgerð í brjáluðum veltingi, ég tala ekki um að vera í lestinni. Svo ef lánið leikur mikið við þig, þá er brjálað fiskerí og þú þarft að standa á frívaktinni. Það er gott fyrir budduna, en afskaplega þreytandi fyrir skrokkinn, þótt menn gleðjist alltaf yfir góðu fiskeríi, gleðin vissulega gerir púlið margfalt léttara.
Svona veður geta varað í nokkra daga og þótt veðrinu sloti, þá tekur tíma fyrir sjóinn að detta niður.
Svo má ekki gleyma því, að ein röng hreyfing í brjáluðu veðri getur kostað menn heilsuna og jafnvel lífið, þannig að það er nauðsynlegt að menn viti hvað þeir eru að gera.
Ef borgað er lægra kaup, þá fæst verri mannskapur og það bitnar á meðferð aflans auk þess að skapa slysahættu.
Taka skal fram að menn velja þetta starf af fúsum og frjálsum vilja, einfaldlega vegna þess að það gefur ágætlega af sér. Sjómennskan sameinar ekki vinnu og áhugamál hjá meginþorra sjómanna, það er nokkuð ljóst, launin eru nánast eini hvatinn.
Þeir sem eru á tryggingu eru oftast að bíða eftir betra plássi eða að fiskeríið fari að lagast hjá þeim.
Ágætt er að þeir sem vilja tjá sig mikið um sjómenn yfir höfuð kynni sér raunveruleikann, það er betra að vita um hvað er verið að ræða.
Athugasemdir
Það sakar ekki að minna fólk á að sjómennska á fiskiskipum er kannski einhver erfiðasta og jafnframt hættulegasta vinna sem til er, a. m.k. var svo á þeim árum þegar ég var viðloðandi sjóinn á milli tvítugs og þrítugs. Reyndar var þetta svo erfitt líkamlega að varla var bjóðandi öðrum en fullfrískum ungum karlmönnum. Á minni bátum voru engar vaktir þannig að t.d. á trollinu var aldrei hægt að sofa eða hvílast lengur en tvo þrjá tíma í einu áður en aftur þurfti að hífa. Á netunum var verið draga frá sex á morgnana langt fram á kvöld. Og ekki nóg með það. Svo þurfti líka að skríða ofan í lest til að landa aflanum. Eins og þú segir þurftu margir þá, eins og greinilega einnig nú að lifa á tryggingunni sem var þá sem nú smánarlega lág. Fólkí landi veit lítið hvað það talar um þegar talið berst að sjómennsku.
Vilhjálmur Eyþórsson, 14.2.2011 kl. 12:24
Það er rétt sem þú segir Vilhjálmur, ég hef verið á öllum veiðarfærum.
Þekki þetta með netin og á snurvoðinni þurftum við að standa oft í þrjá sólahringa, við fengum að leggja okkur í klukkutíma til einn og hálfan í senn. Og þá slefaði kaupið oftast trygginguna, þannig að þetta var ekki vel borgað.
Svo er það náttúrulega uppsjávarveiðarnar sem allir eru að öfundast út í, en það gleymist oft að það geta oft verið ansi langar vökur á nótinni.
Jón Ríkharðsson, 14.2.2011 kl. 12:53
Mér finnst mikið vanta á að þingmenn okkar nú til dags hafi reynslu úr atvinnulífinu t.d. verið til sjós, verið í sveit sem unglingar. Flestir hafa enga þekkingu á grunnatvinnulífinu,bara þekkingu á að meðhöndla pappíra við skrifborð og rína á tölvuskjái.
Ragnar Gunnlaugsson, 14.2.2011 kl. 13:38
Ég er sammála þér Ragnar, það er slæmt að hafa svona marga á þingi sem þekkja ekki hina almennu lífsbaráttu af eigin raun.
Jón Ríkharðsson, 14.2.2011 kl. 13:46
"Það sem helst hann varast kann ,varð að koma yfir hann" segir máltækið og það á þarna við,það ætti sko að láta þessa fólk þar á Alþingi bæði konur og kalla að vinna við þetta!!!! ,ekki spurning,Það verður bara að gera eitthvað í því,!!!jú þarna er einn skipstjóri V.G./en við skulum bara skora á þá að mæta/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 14.2.2011 kl. 17:47
Þetta er ágæt hugmynd hjá þér Halli minn, en ég væri ekki æstur í að vera með vissum vinstri mönnum á vakt.
Það er hætt við að þeir væli mikið þegar brælan kemur, en svo eru hraustmenni innan um sem ég gæti vel hugsað mér að vinna með.
Jón Ríkharðsson, 14.2.2011 kl. 18:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.