Þriðjudagur, 15. febrúar 2011
Það þarf ærlegt uppgjör.
Það voru mikil mistök að hætta allri rannsóknarvinnu eftir að Rannsóknarnefnd alþingis kláraði skýrsluna um hrunið, það þarf að halda áfram og rannsaka einnig verk núverandi ríkisstjórnar.
Ennfremur þarf að rannsaka hvort satt sé, að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafi gerst sekir um spillingu á einhvern hátt, þ.e.a.s. mútur og hverskyns ólöglega gjörninga sem grunsemdir eru um.
Undirskriftasöfnun á netinu hefur rutt sér til rúms og það hefur skilað góðum árangri, hægt er að vísa til synjun forsetans á Icesave lögunum, en þá hafði undirskriftasöfnunin mjög þungt vægi í því máli.
Það er óásættanlegt með öllu að heyra þingmenn og fleiri í samfélaginu saka nafngreinda einstaklinga um mútuþægni og spillingu, það er engum manni bjóðandi að hafa slíkt yfir höfði sér. Þess vegna ber að rannsaka þær ásakanir til hlítar og þingmenn sem hafa sett fram rangar ásakanir, ef sú verður raunin, þurfa þá að svara fyrir það og sæta ábyrgð samkvæmt lögum um rangar sakagiftir.
Að sjálfsögðu eiga þeir sem sakaðir eru um fyrrgreinda glæpi að sæta ábyrgð verði þeir sekir fundnir.
Og skora þarf á alþingi að setja lög þess efnis, að verði þingmaður eða ráðherra sekur um að fara með ósannindi, þá ber honum að víkja tafarlaust úr embætti og er hann þá búinn að afsala sér öllum réttindum sem hann hefur áður notið.
Það ætti að vera auðvelt verk að fá fólk til að skrifa undir áskorun þess efnis, að alþingi stofni rannsóknarnefnd sem skipuð verður með sambærilegum hætti og nefndin sem gerði skýrsluna frægu.
Vill nokkur maður lifa í landi þar sem lýðskrum er stundað af þingmönnum, þar sem leyfilegt er að saka menn um glæpi, án þess að rökstuddur grunur liggi að baki?
Eftir að bloggheimar voru stofnaðir, þá er nauðsynlegt að setja skýrar reglur er varða það sem ritað er. Ekki er verið að tala um að hefta tjáningarfrelsi manna, vitanlega verður aldrei ólöglegt að saka fólk um vanhæfni og heimsku, enda er hvorttveggja fullkomlega löglegt og í flestum tilfellum umdeilanlegt.
Hins vegar á að setja lög sem banna dvalargestum bloggheima, að viðlagðri refsingu, að saka menn um ólöglegt athæfi. Enginn á að þurfa að þola ásökun um fyrrgreinda glæpi, nema rannsókn hafi farið fram og viðkomandi verið dæmdur.
Þvargararnir þurfa engar áhyggjur að hafa, þeir mega segja að íhaldsmen séu asnar, fífl og fávitar. Þeir þurfa bara að sleppa því að saka menn um lögbrot, þeim er enginn vorkunn með að læra grundvallaratriði réttaríkisins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.