Mánudagur, 28. febrúar 2011
Að afnema sjómannaafsláttinn.
Loksins hefur hinni tæru vinstri stjórn tekist það ætlunarverk sitt, að afnema sjómannaafsláttinn í kjölfar þess, að skattar á landsmenn voru snarhækkaðir og flækjustig skattkerfisins var aukið til muna.
Stjórnarliðar kváðust ætla að gera skattkerfið hvað líkast því sem væri á hinum norðurlöndunum, en þau gleymdu víst einu í því samhengi þegar ákveðið var að afnema sjómannaafsláttinn.
Frændur vorir á hinum norðurlöndunum bera meiri virðingu fyrir sjómönum en íslendingar, þótt engin norðurlandaþjóð sé eins háð sjómönnum og okkar ágæta þjóð að Færeyjum undanskildum, en vinir okkar þar í landi eru með fiskimannafrádrátt og hann er 15%. Engum heilvita manni þar í landi dytti til hugar að afnema frádráttinn eða lækka.
Munurinn á afslætti hinna þjóðanna er sá, að hjá okkur var ekki upphaflega sjónarmiðið að láta sjómenn greiða lægri skatta, heldur var ríkið að koma til móts við útgerðarmenn, en þeir treystu sér ekki til að borga hærri laun.
Hvað skyldi svo búa að baki skattaafslætti frænda vorra?
Jú þeir benda á þá staðreynd, að sjómenn vinni hættuleg störf fjarri heimahögum og noti samfélagsþjónustu minnst hinna vinnandi stétta. Þetta virðist nokkurskonar þakklætisvottur frá þeim, sjómönnum til handa.
En hér á Íslandi sitja kaffihúsaspekingar og aðrir vinstri menn sveittir við að ergja sig á ofurlaunum sjómanna og ósanngjörnum skattaafslætti. Þeir gætu ekki spókað sig á kaffihúsunum ef við sjómenn, værum ekki að leggja okkur í stórhættu til, að gera þeim það mögulegt.
En illa launar kálfurinn ofeldið eins og þekkt er.
Svo má að lokum nefna eitt dæmi um þá mismunun sem við sjómenn þurfum að þola, en það ratar ekki í fjölmiðla því við erum lítið fyrir að væla yfir hlutunum.
Skipverji nokkur á togara varð fyrir því óláni að fá hjartaáfall. Ekki var mögulegt að senda þyrlu honum til bjargar, þannig að sigla þurfti með hann í land, það tók nokkra klukkutíma. Sem betur fer lifði hann það af, en ekki er hægt að þakka stjórnvöldum vorum fyrir það. Þar voru æðri kraftar að verki.
Athugasemdir
Það voru ekki aðeins vinstrimenn í stjórn þegar ákveðið var að afnema sjómannaafsláttinn. Því var frestað svo að sjómannasamtökin og LÍU gætu samið.
Ég þekki því miður ansi fáa sem eru sammála okkur um að viðhalda sjómannaafslættinum. Í raun ætti að hækka hann.
Stefán Júlíusson 28.2.2011 kl. 12:39
Það er rétt hjá þér Stefán, afslátturinn hefur líka verið ansi mörgum sjálfstæðismönnum þyrnir í augum.
En ég verð að játa að sjónarmið hinna norðurlandanna gagnvart sjómönnum vakti mig til umhugsunar um okkar stöðu.
Hvernig stendur á því að þjóðir sem hafa takmarkaðan sjávarútveg, skuli hafa jákvæðara viðhorf gagnvart sjómönnum, en þjóð sem byggir sitt efnahagslíf að mestu leiti á störfum þeirra?
Jón Ríkharðsson, 28.2.2011 kl. 12:57
Orð í tíma töluð Jón. þessi skömm vinstri stjórnarinnar bætist á langan lista vondra verka þessarar ríkisstjórnar þar með talið blóðsköttun, atvinnuleysi, eyðileggingu atvinnutækifæra og dekur við ræningjana úr hruninu svo eitthvað sé nefnt sem snýr að vasa launafólks þessa lands. Vissulega voru það þeir (hinir tæru vinstri menn) sem afnema sjómannaafsláttinn skv. bandormslögunum við fjárlögin núna síðast þó þeir reyni að kenna öðrum um.
Sveinn Egill Úlfarsson, 28.2.2011 kl. 13:08
Ég finn fyrir því í Berlín að fólki finnst þetta spennandi. Það veit að þetta er mikil vinna og sjómenn eru lengi í burtu frá fjölskyldu og vinum. Það er eins og að það skipti engu máli á Íslandi.
Við sjáum í umræðunni á Íslandi að peningar hafa meira vægi en fjölskylda. Peningar virðast vera númer eitt og peningar númer tvö. Menn telja að án peninga sé ekki hægt að draga að sér andan. Þess vegna ríkir öfund yfir því að sjómenn hafa hærri laun en aðrir, í augnablikinu. Við vitum báðir að laun sjómanna voru ekki spennandi fyrir nokkrum árum síðan. En hverjum er ekki sama.
Ég er búinn að rífast mikið síðustu mánuði og ár yfir afnámi afsláttarins. Það virðist ekki síast inn í landkrabbana á Íslandi.
Stefán Júlíusson 28.2.2011 kl. 13:11
Þakka þér fyrir Sveinn Egill, það er víst alltaf að bætast á þennan blessaða lista sem þú talar um, hann lengist og lengist.
Jón Ríkharðsson, 28.2.2011 kl. 13:57
Þakka þér Stefán, þessi umræða um laun sjómanna hefur alltaf verið út í hött.
Ég man ekki til þess að hafa séð nöfn sjómanna þegar rætt er um tekjuhæstu einstaklinga landsins, enda er þetta ekki hátekjustétt yfir höfuð.
Það ræða margir um grunnlaun og okkar grunnlaun eru 197.000. krónur á mánuði. Svo fáum við hlut eftir því sem fiskast hverju sinni. Við höfum haft það ágætt undanfarið vegna veikingar krónunnar, en það er aldrei á vísan að róa varðandi sjómennskuna, allir sjómenn þekkja það.
Kaffihúsaliðið þykist vita mikið um okkar kjör, samt hefur það lítið nálægt sjómennsku komið.
Jón Ríkharðsson, 28.2.2011 kl. 14:45
Svo er áhætttan á að verða öryrki meiri en hjá öðrum stéttum. Mannvirkjagerð og sjómennska eru hættuegustu störfin.Álag og skerðing á lífeyri hlýtur að verða því meiri hjá lífeyrissjóðum þeirra. Þess vegna er fólk sem vinnur áhættuminni störf með minna álag og skerðingu af þessum orsökum.Ef menn eru svona jafnréttissinnaðir ættu menn þá að jafna örorkuálaginu milli lífeyrissjóða .
Hörður Halldórsson, 28.2.2011 kl. 18:17
Ekki bjóst ég við að svona harður sjálfstæðismaður færi að vekja athygli á einu af því fáa sem þessi ríkisstjórn hefur gert af viti.
Ríkisstjórn er kannski ekki eins vonlaus og ég hélt.
Hinsvegar er ég mjög hissa á að sjá vinstri stjórn standa fyrir þeirri hægri stefnu sem hún hefur ekki verið þekkt fyrir að boða.
Þá hægri stefnu að láta fyrirtækin sjálf borga laun starfsmanna sinna. Sem er stefna sem ég styð og er allavega hægri sinnaður hvað það varðar. Ég vil ekki að ríkið borgi laun fyrirtækjanna, það er bara gert í Kína og Norður-Kóreu.
Theódór Norðkvist, 28.2.2011 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.