Föstudagur, 18. mars 2011
Ánægjuleg niðurstaða.
Mannskepnan er að sönnu óútreiknanlegt fyrirbæri og seint hægt að skilja hana til fulls.
Í aldanna rás hefur þótt ágæt leið til sáluhjálpar, að spjalla við Guð og líða snöggtum betur á eftir. Vissulega hafa verið skiptar skoðanir varðandi tilvist æðri máttarvalda, mörgum hefur þótt fremur ólíklegt að eitthvað sé til, sem er æðra þeim sjálfum, en það mun vera óþarflega mikið sjálfshól, því varla getur maðurinn í vanmætti sínum og breyskleika, verið æðsta birtingarmynd sköpunar heimsins.
Þótt margir hafi allt á hornum sér varðandi trú og trúarbrögð, þá hafa þeir látið okkur í friði sem aðhyllumst þá skoðun, að Guð hljóti að vera til.
En nú eru trúleysingjar farnir að sækja í sig veðrið og sumir í þeirra hópi, halda því fram að það sé börnum beinlínis skaðlegt að líta augum hin fallegu tákn kristinnar trúar, þótt það verði að teljast fremur hæpin vísindi.
Þess vegna var það ánægjulegt að Mannréttindadómstóll Evrópu skyldi hafa komist að þeirri niðurstöðu, að börn hljóti engan skaða af því að horfa á kross í skólastofunni.
Kristinn boðskapur hefur haft jákvæð áhrif á heiminn og ágætt væri, ef Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar kynnti sér sjónarmið Evrópumanna í þessum efnum, það munu vera einhverjir í þeirra hópi sem dást að ESB og finnst allt gott sem frá þeim kemur.
Þótt sagan sýni mörg dæmi um hrottaverk kristinna manna, þá er meira af kærleiksverkum úr þeirri áttinni og fólk ætti frekar að horfa á hið fagra í tilverunni.
Í lagi að krossar séu í skólastofu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú virðist vera algerlega úti að aka í þessu máli.
1. Rökin gegn trúaráróðri í skólum eru ekki að það sé beinlínis skaðlegt.
2. Þetta er ekki spurning um að trúleyingjar "láti [þá sem trúa á guð] í friði", heldur að kristið fólk sé ekki að níðast á þeim sem eru ekki kristnir.
Hvað þætti þér um það að það væri stór og myndarlegur sjálfstæðisflokks-fálki í öllum skólastofum? Eða kannski fallegt rautt blóm í laginu eins og V? Það væri örugglega ekki "beinlínis skaðlegt" að líta þau tákn augum.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.3.2011 kl. 17:13
Við erum ekki sátt við þessa niðurstöðu. Trúartákn eiga ekkert erindi í skólastofurnar, hvorki krossar, davíðsstjörnur né annað. Ef hins vegar það ætti að ríkja jafnræði, þá væru tákn allra trúarbragða (sem skipta tugum) uppi á veggjum í öllum skólastofum. Það yrði vart gerlegt, en mikið auðveldara að taka niður einn kross.
Á sama hátt og það sé ekki ásættanlegt að hafa lógó þeirra stjórnmálaflokk sem mynda ríkisstjórn hverju sinni á veggjum skólanna, eins og Hjalti bendir á, sama hvað skólastjórnendum kann að klæja mikið í fingurna.
V, 18.3.2011 kl. 18:06
Hjalti, ekki er ég sammála því að ég sé úti að aka í þessu máli, ekki finnst mér þú heldur vera í ökuferð með tilvísun til þinnar skoðunar.
Þetta eru og verða alltaf tilfinningamál og tilfinningar er oft erfitt að rökstyðja.
Ég hef sagt mína skoðun á trúartáknum, mér finnst þau frekar til prýði og mér finnst ekki sambærilegt að nefna stjórnmálaflokka í þessu samhengi.
Ætli við verðum ekki að vera sammála um að vera ósammála í þessu máli Hjalti minn, fólk hefur ólíka upplifun á tilverunni.
Jón Ríkharðsson, 19.3.2011 kl. 00:54
Ég get sagt það sama við þig Liberty, ég er ekki sammála ykkur, en svona huglæg tilfinningamál er erfitt, jafnvel illmögulegt að rökræða.
Eflaust er þetta líka partur af íhaldssemi hjá mér og fleirum, kristin trú hefur verið við líði ansi lengi í okkar menningu.
Fyrir mér er íhaldssemi góð, á sumum sviðum, þar á meðal á trúarsviðinu.
En það þurfa ekki allir að vera sammála, reyndar væri lífið óttalega litlaust ef allir væru sammála í einu og öllu.
Jón Ríkharðsson, 19.3.2011 kl. 00:59
Krossar og kossar - hvorugt á að banna!
Jóhanna Magnúsdóttir, 19.3.2011 kl. 09:58
Þakka þér fyrir Jóhanna mín, ég er innilega sammála þér.
Það er reyndar til slatti af snertifælnum einstaklingum, ég ætla rétt að vona að þeir fari ekki að stofna hagsmunasamtök og banna snertingar og kossa.
Þetta eru annars svo undarlegir tímar sem við lifum á, þannig að erfitt er að segja til um, hvað verður næst.
Jón Ríkharðsson, 19.3.2011 kl. 13:13
Já, um að gera að auka kossa og faðmlög í skólum landsins. Burt með tepruskapinn!
V, 19.3.2011 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.