Hvað átti ríkisstjórnin að gera í upphafi?

Strax í byrjun hefði ríkisstjórnin átt að einhenda sér í það, að róa almenning í landinu og sýna lit, með því að lækka höfuðstól lána um t.a.m. 20%. Ríkið keypti lánasöfn hinna föllnu banka með 60% afföllum, þannig að með höfuðstólslækkuninni, þá hefði afslátturinn verið 40%, sem ætti að vera ásættanlegt og meiri sátt skapast.

Í stað þess að væla yfir erfiðum verkefnum, þá hefði ríkisstjórnin átt að setja allt á fullt varðandi álver í Helguvík, það er hægt að fá orku með virkjun neðri hluta Þjórsár, fólk þarf að færa fórnir á erfiðum tímum og þetta hefði skapað þónokkur störf og aukið bjartsýni.

Heilsutengd ferðaþjónusta var í undirbúningi á Varnariðssvæðinu, hana hefði átt að setja á fulla ferð, auka aflaheimildir osfrv.

Stjórnvöld hefðu ennfremur átt að senda hæfa einstaklinga til að ræða við Breta og Hollendinga um Icesave, geyma alla samningaviðræður þar til búið væri að gera upp þrotabúið og á sama tíma átti að vera her sendimanna út um allan heim að afla stuðnings fyrir okkar málsstað, ásamt því að beita Breta hörku og úthrópa það á alþjóðavettvangi, að þeir hefðu skaðað okkur verulega með beitingu hryðjuverkalaganna.

Ríkisstjórnin hefði á þessum tíma átt að halda uppi stöðugum samræðum við þjóðina, hvetja hana til góðra verka og hrósa henni fyrir þrautseigju og úthald ásamt því, að upplýsa hana um aðgerðir þær sem miðuðu að endurreisn samfélagsins.

Ríkisstjórnin átti ekki að leiða hugann að ESB umsókn næstum því strax, því mikil óvissa ríkir þar og óvíst er um vilja þjóðarinnar í þeim efnum, auk þess kosta viðræðurnar óhemjufé sem hefði verið hægt að nýta í annað.

Fjármálaráðherra hefði mátt sleppa því að dæla peningum í sparisjóðina og Sjóvá-Almennar, betra hefði verið að nota það fjármagn í annað, við höfum þar að auki nóg af tryggingafélögum og bönkum til að halda uppi þjónustu við landsmenn.

Í stað skattahækanna hefði átt að fara í fyrirframgreiðslur á skatti af séreignasparnaði.

Það er nefnilega ekki flókið að stjórna þessu landi fyrir venjulegt fólk, en vinstri stjórnin tæra gerir hina einföldustu hluti nær óleysanlega.

Og þetta eru ekki eftiráskýringar, heldur staðreyndir sem hafa blasað við öllum nema stjórnarliðum allan tímann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband