Dýrmætasta auðlyndin býr í börnum þessa lands.

Stundum verður mér það á, að hugsa of mikið um pólitík og í framhaldi af því, koma þau skötuhjú Jóhanna og Steingrímur Joð upp í hugann.

Þrátt fyrir ágætis jafnvægi, þá skal það viðurkennast, að of mikil hugsun um þjóðarleiðtoga okkar getur valdið hjá mér hálfgerðu ergelsi.

Til þess að dreifa huganum ákvað ég að gleðja hundinn minn og skreppa með hann í göngutúr, við gengum að skólanum sem er rétt við heimili mitt og hundsins.

Lítil telpuhnáta vék sér að okkur og spurði hvort hún mætti klappa hundinum, hún fékk fúslega heimild til þess, því hundurinn er barnelskur mjög og hin mesta gæðaskepna.

Stúlkan vék þvínæst tali sínu að mér, eftir að hafa klappað hundinum og sagði mér fréttir úr sínu lífi.

Bróðir hennar á afmæli í dag og móðir þeirra er að hennar sögn, afar leikin í bakstri og býr til bestu smápizzur í heimi.

Ég smitaðist mjög af gleði telpunnar, þannig að ég gleymdi því algerlega um stund, að það væri vinstri stjórn við völd um þessar mundir.

Þvínæst tjáði hún mér það, að stóra systir hennar væri ekki nógu viljug til að leika við hana og hún fékk aldrei að vera í herbergi systur sinnar.

Við ræddum það drjúga stund, hversu óréttlátt það væri að börn þyrftu að þola öll þessi boð og bönn, en komumst að sameiginlegri niðurstöðu þess efnis, að það væri nú samt nauðsynlegt.

Annars lærðu börnin aldrei að þekkja muninn á réttu og röngu.Síðan urðum við sammála um það, að samband þeirra systra yrði örugglega gott þegar þær yrðu fullorðnar.

Eftir nokkurra mínútna spjall við þessa skemmtilegu hnátu, gengum við heim á leið, ég og hundurinn. Mér varð hugsað til þess, hversu mikið börnin gefa af sér, án þess að hafa nokkuð fyrir því.

Í framhaldinu var mér hugsað til ábyrgðar okkar sem fullorðin erum. Með því að gefa okkur tíma til að spjalla við börnin, þá getum við verið að skapa góðar minningar hjá þeim.

Ég leiddi hugann að því, hvort þessi litla stúlka ætti eftir að minnast þessarar stundar með "karlinum með hundinn".

Sjálfur á ég góðar minningar frá mínum bernskuárum, þegar fullorðið fólk gaf sér tíma til að spjalla við mig og hlusta á mínar hugmyndir um hin ýmsu mál, það eru góðar minningar.

Ekki veit ég hvort ég hitti þessa stúlku einhvern tíma aftur, enda skiptir það engu máli.

Og ekki veit ég heldur hvort hún muni nokkuð eftir mér.

Hvorugt skiptir nokkru máli, það eina sem máli skiptir er, að við eigum oftar að hugsa til barnanna og spjalla við þau þegar færi gefst.

Það eru þau sem eiga eftir að taka við landinu, þegar við sem nú lifum, höfum kvatt þessa jörð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Börn eru yndisleg og hafa margt til að kenna okkur.

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.4.2011 kl. 20:53

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er víst alveg örugglega rétt hjá þér Jóhanna mín, í börnunum er mikill fjársjóður falinn.

Jón Ríkharðsson, 11.4.2011 kl. 22:11

3 Smámynd: Elle_

Ég smitaðist mjög af gleði telpunnar, þannig að ég gleymdi því algerlega um stund, að það væri vinstri stjórn við völd um þessar mundir.

Sniðugur þarna, Jón.  Og ég held að stelpan muni muna eftir manninum með hundinn, manninum sem hlustaði. 

Elle_, 12.4.2011 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband