Miðvikudagur, 4. maí 2011
Hví ekki að drepa ísbirni?
Litla samúð hef ég með ísbjörnum og mér að meinalausu, þá mættu þeir alveg deyja út.
Þess vegna finnst mér æði undarlegt, þegar fólk hefur samúð með þessum skepnum, þótt vitað sé að þeir ráðast á menn og drepa, nær undantekningarlaust, ef þeir eru í návígi við þá.
Margir vilja eyða milljónum í, að koma þessum kvikindum lifandi úr landi, á sama tíma og hægt væri að nota þessar sömu milljónir til að styrkja landa okkar, sem á hjálp þurfa að halda.
Það eru váleg tíðindi að ísbirnir eru farnir að sjást hér á landi, við óhefðbundnar aðstæður, þ.e.a.s. án þess að hafís sé fastur við landið. Enginn veit hver ástæðan er, talið er að ísbirnir hafi minni möguleika vegna bráðnun á hafís, þannig að þeir þurfa þá að finna sér bólfestu annarstaðar.
Hver sem ástæðan er, þá á að farga þessum skepnum, því þær eru hættulegar mönnum. Þótt sumum finnist þetta falleg dýr, þá sé ég litla fegurð við snjóhvítar og grimmdarlegar skepnur, sem auk þess eru afar luralegar í hreyfingum. En burtséð frá útlitinu, þá eru þetta hættuleg dýr.
Afstaða ísbjarnarvina kemur svosem ekki á óvart, til eru hópar hér á landi, sem finnst lítið til sinnar þjóðar koma og þrá ekkert heitar en að auka hér erlend áhrif. Þeir ganga svo langt, að taka málstað andstæðinga okar í Icesave deilunni og ganga þar fram á vasklegri hátt, en margir Bretar og Hollendingar. Það er til fullt af sérvitringum, en sérviskan á bara að vera til heimabrúks, en ekki sem ráðandi afl.
Mér er það til efs, að ísbjarnarvinirnir knáu, hafi nokkurn tíma verið nálægt þessum óargadýrum. Það er notalegt að sitja í hlýjunni heima hjá sér og dást að myndum af "krúttlegum" kvikindum.
Athugasemdir
Algjörlega sammála. Útrýma þessum kvikindum. Og líka krókódílum og skógarbjörnum. Og ljónum, þau hafa drepið marga menn. Ég vil líka útrýma tígrisdýrum og bara öllum kattarófétum sem eru hættuleg okkur mönnunum. Þessar skaðræðisskepnur eiga ekki að fá að valsa um eins og þær eigi svæðið.
Óli minn, 4.5.2011 kl. 18:41
Nú fórstu alveg með það nafni minn...
Jón Steinar Ragnarsson, 4.5.2011 kl. 22:23
Mér finnst að það megi skjóta hálfvita í heiminum, þeir eru afar silalegir í förum. Fyrir utan afkáralegt útlit, þá eru þeir hættulegir náunganum, og samfélaginu. Þeir setja hálfa heimsbyggðina á hausinn, ræna fólk, ganga í bandaríska herinn og taka myndir af sér við að pynta fólk, setja fólk í pyntingarbúðir á guantanamo, setja það sem kosningarefni að ekki borga og standa við skuldbindingar .... með öðrum orðum, þeir eru til ama og trafala fyrir alla, og stórhættulegir.
Ég hef enga meðaumkvun með þeim ... því ekki bara að skjóta alla hálfvitana.
Bjarne Örn Hansen 5.5.2011 kl. 13:10
BÖH þér eruð ekkert sérstaklega sérhlífinn verð ég að segja.
kallpungur, 6.5.2011 kl. 00:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.