Við megum aldrei gefast upp.

Vinstri mönnum og ýmsum þeim, sem búa við skort á sjálfstrausti þykir æði notaleg hugsun að láta aðra hugsa fyrir sig. Þá er hægt að skammast út í pólitíkusa fyrir að hafa ekki staðið sig betur, ef illa fer, eða halda áfram að aulast í gegn um lífið ef ekkert alvarlegt kemur upp á í efnahagsmálunum.

Við megum aldrei gefast upp á því, að heimta frelsi og meira frelsi. Of mikil afskiptasemi misvitra stjórnmálamanna er bara til ills og heftir þroska okkar sem þjóðar.

Við erum ungt lýðveldi og eigum margt eftir að læra. Fjármálakerfið hrundi, en það gerir ekkert til þótt við töpum öllum okkar eignum, við getum alltaf unnið þær til baka.

Þótt ekki sé beinlínis verið að óska eftir því að tapa,  þá er það engu að síður staðreynd, að margir eru í þeirri stöðu í dag og það er vissulega erfitt hlutskipti og sárt.

Þótt fjármálakerfið hafi hrunið í höndum einkaaðila, þá er ekki þar með sagt að  við þurfum að hverfa aftur til fortíðar og láta ríkið sjá um alla hluti fyrir okkur.

Þjóðin þarf að draga sinn lærdóm af því sem gerðist og halda áfram.

Tökum ungabörnin til fyrirmyndar, þau byrja að taka fyrstu skrefin og detta. Oft eru það ansi slæmar byltur, sárt högg á höfuðið, skráma eða kúla á hausinn.

Börnin gefast ekki upp, þau halda áfram og læra að ganga, vegna þess að vinstri mennska er sem betur fer ekki meðfæddur galli, heldur áunninn.

Ef ungabörnin væru almennt vinstri sinnuð, þá væri heimurinn troðfullur af skríðandi fólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Che

Þótt ég sé ekki vinstrisinnaður almennt (aðhyllist félagslega frjálshyggju), þá finnst mér þú, Jón, alhæfa einum of mikið. Þótt Steingrímur og Ögmundur séu skríðandi ánamaðkar í quislingastjórn Jóhönnu, þá máttu ekki gleyma, að það er verkalýðsflokkunum og vinstrisinnunum á 5. og 6. áratugnum að þakka að alþýðustéttin fékk að lokum launagreiðslur sem entust til næstu mánaðamóta. Þannig að þá (ólíkt nú) stóðu vinstrimenn í lappirnar og neituðu að skríða fyrir vinnuveitendum, sem þá fóru með verkalýðinn sem þræla.

Þetta breyttist að sjálfsögðu allt á 7. áratugnum og nú er saga Íslands orðin sláandi lík "skáld"sögunni Animal Farm. Persónulega er ég enn að bíða eftir alvöru byltingu á Íslandi. Femínistabyltingin árið 2009 gerði aðeins illt verra, en var nauðsynleg til að við getum nú skotið í kaf sérhverja staðhæfingu um að konur séu betri stjórnendur en karlmenn.

Che, 13.5.2011 kl. 17:09

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Che.

Ekki finnst mér ég alhæfa neitt sérstaklega mikið, ég neyðist víst til að tjá mínar skoðanir sem byggjast á mínum tilfinningum, ásamt því að leitast við að lesa mér til.

Verkalýðsbarátta hér á landi hefur verið rekin á kolvitlausum forsendum, því of mikil áheyrsla hefur verið lögð á fleiri krónur í budduna en menn hugsuðu minna um verðmæti peninganna.

Kaupið hækkaði um einhverjar krónur, svo hækkaði vöruverð og verðbólgan komst á skrið. Það var ekki fyrr en í þjóðarsáttinni 1990 sem verkalýðsbarátta var rekin af einhverju viti og ekki skal ég gera lítið úr hlut þeirra vinstri manna sem að henni stóðu.

Faðir minn var verkamaður og hans laun dugðu aldrei út mánuðinn, það þurfti alltaf að láta kaupmanninn skrifa matvörurnar, en við vorum heppin því pabbi þekkti sjómenn sem gáfu okkur stundum fisk í soðið, það bjargaði miklu.

Ég er ættaður úr verkalýðsstétt og tilheyri henni sjálfur, ég er verkamaður á sjó, en aldrei hefur mér fundist neitt annað en þras og leiðindi koma frá forystumönnum hennar, því miður. Það hefur verið búinn til óþarfa ágreiningur milli verkalýðs og atvinnurekenda, að mínu viti var betra í upphafi að leita samvinnu og sátta meðal allra stétta.

Ég veit að það hefur verið ágreiningur milli þesara tveggja stétta í gegn um tíðina, því hvorugur aðilinn hefur leitað sátta, á raunhæfan hátt.

En ekki skal ég taka það af vinstri mönnunum, að það var gott framtak hjá þeim að sjá til þess, að verkafólk gat fengið viðunandi húsnæði og almannatryggingar voru vissulega gott framtak.

En því skal haldið til haga, að sjálfstæðismenn áttu líka sinn þátt í því að koma á fót almannatryggingakerfinu, þannig að vinstri menn eiga ekki allan heiðurinn af því.

Ég tek undir það, að félagsleg frjálshyggja hljómar mjög vel og konur eru ekki betri stjórnendur en karlmenn.

Þær eru vitanlega jafngóðir stjórnendur.

Jón Ríkharðsson, 13.5.2011 kl. 19:11

3 Smámynd: Che

Böl þessa lands stafar af kolrangri efnahags- og atvinnuvegastefnu alveg frá stofnun lýðveldisins (og jafnvel fyrr), þar sem allt erlent fjármagn var gert tortryggilegt, iðnaður fékk aldrei að þróast vegna einokunar, og spilling og haftastefna lamaði þjóðfélagið svo mikið, að öll endurreisn varð mjög takmörkuð. Öfugt við hin Norðurlöndin, þróaðist hér molbúasamfélag stjórnað af fáfróðum, metnaðarlausum pólítíkusum, þjóðfélag sem enn í dag svo efnahagslega frumstætt, að allt blæs um koll um leið og kveikt er á viftu.

Ísland er þjóðfélag, stýrt af viðrinum, sem aldrei hafa skilið hvernig á að byggja upp iðnað til að styrkja innviði þjóðfélagsins, hvernig á að virkja þann mannauð sem þjóðin býr yfir, hvernig á að byggja upp traustan efnahag sem getur borið uppi sterkan gjaldmiðil. Ástæðan fyrir því að krónan hefur verið svo veik er ekki vegna smæðar, heldur vegna fábrotinna atvinnuvega, sem stafar af pólítískri skammsýni, metnaðarleysi og heimsku. Afleiðingarnar eru þær að menn eltast ýmist við sápukúlur eða fara á hausinn. Æ ofan í æ. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri einkennist af tækifærisstefnu í staðinn fyrir að einbeitingu að raunverulegum vandamálum: Hvernig er hægt að auka fjölbreytni atvinnuveganna/útflutningsgreinanna. Þjónustugreinar einar sér skapa engan hagvöxt. Og þjóðfélag sem reiðir sig ætíð á sjávarútveg og landbúnað og ekkert annað er gífurlega viðkvæmt fyrir breytingum. Sérstaklega þegar þjóðfélagið, eins og það íslenzka, hefur ofurselt sig fjármálageiranum.

Che, 13.5.2011 kl. 20:16

4 Smámynd: Che

Með iðnaði á ég við hvers konar framleiðslufyrirtæki, sem geta selt afurðir sínar bæði innanlands og utan með hagnaði og geta þar með ráðið fólk til starfa og þjálfað starfsmenn. Mig dreymir um þannig iðnað á Íslandi. Ekki aðeins innan sjávarútvegs og landbúnaðar eins og er í dag, heldur þúsunda annarra framleiðslusviða, eins og tíðkast í öðrum löndum.  

Che, 13.5.2011 kl. 20:29

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Núna er ég sammála hverju orði sem þú segir Che.

Jón Ríkharðsson, 13.5.2011 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband