Sunnudagur, 21. ágúst 2011
Er kominn sértrúarsöfnuður ESB sinna?
Aldrei hef ég komið auga á nauðsyn þess að ganga í ESB, en sumir eru á annarri skoðun.
Átök á milli ólíkra sjónarmiða eru nauðsynleg í öllum lýðræðisríkjum og því ber að fagna upplýstri umræðu, en þegar málsvarar ESB haga sínum málflutningi með sama hætti og hörðustu talsmenn sértrúarsafnaða, þá hlýtur það að veikja þeirra málstað.
Þorsteinn Pálsson hefur til þessa ekki talist öfgamaður, en hann er aðildarsinni og þekkt er að margir breytast við inngöngu í hina ýmsu sértrúarhópa.
Það nýjasta hjá Þorsteini er að halda því fram, að nú hafi Sjálfstæðisflokkurinn skaðað sjálfan sig, með því að lýsa yfir andstöðu við Evrópusambandsaðild. Hann vill meina að með því takmarki flokkurinn möguleika sína í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka.
Það væri hægt að brosa góðlátlega að þessu bulli, ef einhver annar en Þorsteinn úr hópi aðildarsinna hefði haldið þessu fram. En öllu nöturlegt er að sjá þetta ritað eftir fyrrum forsætisráðherra þjóðarinnar og mann sem þekktur er af ágætum gáfum.
En svona eru sértrúarsöfnuðir, fólk tapar allri dómgreind.
Á alþingi sitja fimm flokkar og aðeins einn flokkur hefur sagt það hreint út, að hann vilji ganga í ESB.
Vinstri grænir eru upp til hópa andstæðir aðild, sama má segja um Framsóknarflokkinn og Hreyfingin hefur ekki gefið neina afgerandi yfirlýsingu varðandi ESB. Þess vegna er erfitt að sjá það, að afstaða Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum geti skemmt fyrir hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum.
Vissulega eru litlir möguleikar á að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking nái saman vegna ólíkrar afstöðu í Evrópumálum, en það eru til aðrir möguleikar, eins og frjálslyndir og víðsýnir menn hljóta að sjá.
Athugasemdir
Mér finnast viðbrögð aðildarsinna við ummælum Bjarna og einnig vegna ummæla Sigmundar Davíðs, lýsa fyrst og fremst örvæntingu eða jafnvel móðursýki.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað gegn aðild og í ljósi þess, þá hlýtur umsókn og aðilidar/aðlögunnarferli að vera útúr kortinu. Frasinn um að einhverjir vilji ,,ræna" þjóðina þeim rétti að fá að kjósa um aðild, er í besta falli hlægilegur. Fyrir það fyrsta verður, ef til kemur, þjóðaratkvæðið um aðild aðeins leiðbeinandi. Alþingismönnum ber hins vegar skv. stjórnarskrá, að fylgja eigin sannfæringu, en ekki leiðbeiningum kjósenda sinna. Þjóðaratkvæðið er því í rauninni ekkert annað en risastór skoðannakönnun.
Hins vegar var þjóðin aldrei spurð, hvort hún vildi eyða skattfé sínu í þetta ferli allt. Í veg fyrir það komu aðildarsinnar á þingi. Einu spurninguna í þá veru, má kannski með extra góðum vilja, sjá í stefnuskrá Samfylkingarinnar, fyrir síðustu kosningar. Þeirri stefnuskrá, gáfu hins vegar aðeins 29% atkvæði sitt.
Hvað ummæli Sigmundar Davíðs varðar, þá voru þau mjög skynsamleg og rétt greining á stöðunni. Það ESB sem umsóknin var send til, er ekki lengur til og enginn veit hvernig það kemur til með að líta út eftir nokkra mánuði, hvað þá eftir eitt til tvö ár, þegar aðlögunnarferlinu lýkur. Það er því æpandi forsendubrestur varðandi umsóknina og ætti hver skynsamur maður að sjá, að gæfulegra sé að staldra við og sjá hvað verður. Það hlóta menn að sjá, hvort sem þeir eru fylgkandi eða andvígir aðild.
Það að einhverjir geri sér ummæli Sigmundar Davíðs að átyllu til þess að hlaupa út undan sér úr flokknum, er í rauninni bara ,,píp" og lítur út líkt og þessir aðilar hafi bara beðið tækifæris á því að yfirgeffa flokkinn.
Kristinn Karl Brynjarsson, 21.8.2011 kl. 11:36
Þetta er rétt hjá þér Kristinn Karl og við megum heldur ekki gleyma sögu Sjálfstæðisflokksins, en hann var m.a. stofnaður til þess að berjast fyrir og varðveita sjálfstæði og fullveldi Íslands.
Sjálfstæðisflokkurinn gengur í berhögg við stefnu sína og arfleifð ef hann fellst á aðild að ESB, það er svona álíka stefnubreyting og ef VG myndi fara að berjast fyrir einkavæðingu heilbrigðis og menntakerfisins.
Jón Ríkharðsson, 21.8.2011 kl. 11:51
Þetta er aldeilis alveg ljómandi hjá ykkur báðum. En það er umhugsunar vert að nokkrir einstaklingar skuli geta skuldbundið heila þjóð til að borga svona andskotans vitleysu.
hhraundal 21.8.2011 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.