Við höfum öll jöfn tækifæri.

Fyrir nokkrum dögum heyrði ég hluta af viðtali við mann á Útvarpi Sögu. Þessum ágæta manni var mikið niðri fyrir og hann sagði að við værum öll þrælar, þ.e.a.s. almenningur í landinu. Maðurinn talaði af mikilli sannfæringu og sagði að góðu þrælarnir vildu að húsbændunum vegnaði vel, en til væru þrælar, væntanlega eins og hann, sem vildu breytingar og frelsi úr ánauðinni.

Margir í þeim hópi sem segjast vera þjóðin og tala umboðslitlir fyrir hennar hönd, ala á reiði og biturð. Það hlýtur að hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks, ef það upplifir sig sem þræla og þverrandi sjálfsvirðing er ekki það sem við þurfum um þessar mundir, við eigum að bera höfuði hátt, því við erum frjálsir borgarar í frjálsu landi.

En það er erfitt að hrekja þessi rök hans með hefðbundum hætti, því þau standast alveg, miðað við vissar forsendur sem fólk með óhefðbundnar skoðanir gefur sér..

Atvinnurekendur eru þá þrælar starfsfólksins, því þeir eru háðir því, einnig eru þeir þá þrælar sinna viðskiptavina, því þeir verða að þóknast þeim.

Stjórnmálamenn eru á líka þrælar kjósenda því þeir þurfa að þóknast þeim, við erum þá öll þrælar og þar af leiðandi jöfn. Bankamennirnir eru þá þrælar matsfyrirtækja og þeirra sem fjármagna þá osfrv.

Þá eru allir í sömu sporum, allir eru þrælar einhvers, miðað við röksemdir mannsins.

En þessi rök halda ekki miðað við raunverulegar forsendur, því enginn neyðir neinn til að gera nokkurn skapaðan hlut sem er gegn hans vilja, en þrælar eru neyddir til að  vinna gegn þeirra vilja.

Tækifærin eru til staðar, við þurfum að nýta þau. Alla tíð hefur verið hópur af góðu fólki sem reynir að telja mér trú um að ég sé fórnarlamb og verið sé að fara illa með mig.

Það er rangt, enginn hefur farið illa með mig og ég hef getað gert allt sem mig hefur langað til, af því að ég er frjáls maður í frjálsu landi.

Ég ólst upp við mikil blankheit, við vorum þrír bræður í einu herbergi og íbúðin var sextíu fermetrar að stærð. Foreldrar okkar eru ómenntaðir og ekkert sérstaklegavar lagt að okkur að fara í nám.

Ég byrjaði ungur á sjó og hef verið það mestalla starfsævina. Svo á ég bróður, sem ólst upp við nákvæmlega sömu aðstæður og ég og enginn munur var á okkar uppeldi.

Bróðir minn er aftur á móti útibússtjóri Landsbankans úti á landi og hann fær þrjúhundruð fermetra hús til afnota, flottan jeppa og góð laun. Hann gekk menntaveginn og hefur unnið hjá Landsbankanum alla sína starfsævi.

Ég er stoltur af stráknum, hann gerði það sem hann vildi og uppskar vel.

Ef ég hefði nennt að vera í skóla og farið sömu braut, þá þyrfti ég ekki að berjast úti á sjó í allavega veðrum og vera langdvölum að heiman.

En þetta var mitt val og ég er sáttur við það, sjómennskan hefur marga góða kosti eins og öll störf.

Ef ég er ósátur í vinnu, þá hætti ég. Ef ég væri ósáttur við íslenskt samfélag, þá myndi ég flytja til útlanda og ef ég væri ósáttur við menntunarskortinn minn, þá færi ég í skóla.

Þetta allt get ég vegna þess, að ég er ekki þræll, heldur frjáls maður í frjálsu landi.

Við höfum öll jöfn tækifæri, en stundum kostar það fyrirhöfn að nýta þau.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Við erum það sem við höldum. Ef þú grefur djúpt í hvað þú, eða einhver annar er í raun og veru, þá er erfitt að finna eða skilgreina það. Ef maðurinn telur sig vera þræl, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að þrældómur lýsir vel ástandi mannsins. Ég er ekki í minni vafa um að maðurinn er þræll vegna innri aðstæðna en ekki ytri. Þrældómur mannsins er sjálfskaparvíti. Til að losna úr þrældómnum verður hann að fara að hugsa á annan hátt.

Ég er með þessu að segja sama hlutinn og þú gerir í þínum góða pistli, Jón, á annan hátt.

Hörður Þórðarson, 28.9.2011 kl. 19:09

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Eins og ég hef einhvern tíman bent á, er bæði kúgun og fátækt fyrst og fremst huglæg fyrirbrigði. Til dæmis hafa munkar nánast engin mannréttindi og búa við sára fátækt, en þeir una glaðir við sitt. Fólk í frumstæðum samfélögum langt inni í frumskóginum býr við miskunarlausa kúgun og sára fátækt samkvæmt skilningi Vesturlandabúa, en þeir eru ánægðir með sitt hlutskipti, því þeir hafa aldrei heyrt minnst á hugtök eins og kúgun eða fátækt. Annars er þetta alveg ágætur pistill hjá þér Jón, eins og oft áður.

Vilhjálmur Eyþórsson, 28.9.2011 kl. 19:38

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Mjög fínn pistill Jón

Guðmundur St Ragnarsson, 29.9.2011 kl. 00:30

4 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Allir eru þrælar, en hver á sinn hátt, og það er gott á meðan fólk á í sig og á. ekki geta Líeyrisþegar, hverju nafni sem þeir nefnast flutt úr landi í skjól fyrir ræningjunum, nei mér datt þetta svona í hug, hafðu það sem allra best Jón minn, og það er gott að þú ert ánægður með þin kjör í lífinu. kv.

Eyjólfur G Svavarsson, 30.9.2011 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband