Sunnudagur, 9. október 2011
Frjálshyggjan er mannræktarstefna.
Frjálshyggja í sinni tærustu mynd er sú heilbrigðasta stjórnmálastefna sem hugsast getur.
Í hreinni frjálshyggju hafa einstaklingarnir tækifæri til vaxtar og þroska. Heimurinn er enn í stöðugri mótun, oft verður fólki á, en mistökin eru til að læra af þeim.
Hrunið varð til þess, að margir fordæmdu frjálshyggjuna og sögðu hana hafa verið orsakavaldinn að öllu, en það er rangt. Það vantaði meiri frjálshyggju, þess vegna fór sem fór.
Ef að frjálshyggjan hefði ráðið för, þá hefði sennilega ekki orðið svona hressilegt hrun. Stjórnendur bankanna hefðu farið mun gætilegar í lánveitingar og krafist tryggari veða. Frjálshyggjan gerir nefnilega ekki ráð fyrir því að ríkið komi bönkum til bjargar. Ef þeir fara á hausinn, þá tapa eigendur þeirra aleigunni og rúmlega það.
En hvað með innistæðueigendur?
Gera þarf þá kröfu á banka að þeir hafi traustar innistæðutryggingar sem bæta innnistæðueigendum það sem þeir eiga.
Svo eru það skattarnir. Frjálshyggjan boðar lága skatta því það er réttur hvers og eins, að ráðstafa sínu aflafé samkvæmt eigin vilja. Það er líka nauðsynlegt fyrir ríkið, að hafa lágmarksfé til rekstrar, vegna þess að ríkið eyðir jafnóðum öllu því sem það kemst yfir að eyða.
Stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum lofa auknum ríkisútgjöldum fyrir kosningar, ef innistæða er til staðar og þá skiptir engu máli hvað flokkurinn heitir.
Vinstri menn reyna að telja fólki trú um að frjálshyggjumenn vilji senda aldraða og öryrkja út á guð og gaddinn, ekkert er fjarri sanni.
Þótt frjálshyggjan sem slík boði ekki opinbert velferðarkerfi, þá eru frjálshyggjumenn mannlegir eins og annað fólk.
Sá maður sem ekki vill hjálpa öldruðum og sjúkum er einfaldlega siðblindur eða óhæfur til að finna til með öðrum. En frjálshyggjumenn vilja ekki hjálpa þeim sem geta hjálpað sér sjálfir.
Ríkið á að rækja sínar skyldur, sjá borgurunum fyrir menntun og góðri heilbrigðisþjónustu. Skoða þarf hagkvæmustu leiðirnar til þess, en augljóst er að það hefur ekki verið gert til þessa. Einnig ber ríkinu skylda til þess að hafa löggæslumál í viðunandi horfi og greiða lögreglumönnum sanngjörn laun.
Frjálshyggjan hvetur einstaklinginn til þátttöku í samfélaginu, allir verða að leggjast á árarnar til þess að þessi litla þjóð geti lifað af. Hver og einn á að njóta sín á eigin forsendum.
Heimur jafnaðarstefnunnar fær illa staðist, vegna þess að of fáir eru til þess að vinna fyrir þörfum samfélagsins. Kröfurnar til ríkissins eru of miklar á kostnað kröfunnar til einstaklinganna.
Burtséð frá allri stjórnmálastefnu, þá berum við ábyrgð á hvert öðru. Ef einhverjum líður illa í okkar nærumhverfi, þá eigum við að styrkja hann eftir mætti. Sá sem er gefandi í dag getur orðið þyggjandi á morgun, heilsan er fengin að láni og við vitum ekki hversu lengi við fáum að njóta hennar.
Ræktum okkur sjálf og hugsum um hvert annað, notum leiðir frjálshyggjunnar, þá verða okkur allir vegir færir.
Við skulum ekki ríkisvæða náungakærleikann, heldur einkavæða hann.
Athugasemdir
Frelsi er fallegt orð,en frelsi án stjórnunar og reglna sem fara skal eftir er ekki til.
gissur jóhannesson 9.10.2011 kl. 08:07
Það er rétt hjá þér Gissur, skýrar reglur verða alltaf að vera til staðar, frjálshyggjan gerir ekki ráð fyrir stjórnleysi.
Ég ákvað hinsvegar af ásettu ráði að sleppa því að fjalla um reglur, vegna þess að ég á dyggan lesendahóp á vinstri kantinum sem ég hef ekki sinnt lengi.
Þeim líður ógurlega vel, ef þeir geta hankað mig á einhverju, einnig finnst þeim skoðanir mínar ægilega fyndnar og mér finnst gott að geta glatt fólk og jafnvel fengið það til að hlægja, en vinstri mennirnir, lesendur mínir, hlægja gjarna að skoðunum mínum.
Þér finnst kannski skrítið að ég skuli opinbera þennan ásetning minn, en það skiptir engu máli, varðandi vini mína á vinstri kantinum, ég kann á þá.
Þeir nenna yfirleitt ekki að lesa, flestir líta á fyrirsögnina og hún virkar sláandi á þá, þeir kommentera oftast á fyrirsagnir.
Svo ef þeir lesa pistilinn, þá vita þeir ekkert um hvað hann fjallar, en innsæið segir þeim að það sé ekki fjallað um reglur og þá langar þeim að hanka mig á því.
Jón Ríkharðsson, 9.10.2011 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.