Hver er svo glæpurinn?

Hver hefur ekki heyrt þá umræðu, að Bjarni Benediktsson sé með æði vafasama fortíð í viðskiptum og að Guðlaugur Þór eigi að segja af sér hið snarasta, vegna þess að hann fékk svo mikla styrki í prófkjörinu sínu.

Þeir sem hæst láta þykjast útbelgdir af helgri réttlætiskennd og segjast ekki þrá neitt heitar, en réttlátara samfélag.

Slæmt er þeirra réttlæti, þannig að ég vona sannarlega að þeir sýni ekki sína ranglátu hlið.

Bjarni Benediktsson tók þátt í viðskiptum sömu gerðar og voru almennt stunduð á árunum fyrir hrun Segja má að einstaklingar í viðskiptaheiminum hafi verið veruleikafirrtir vegna þess að peningar flóðu í stríðum straumum og allir héldu að þeir væru ríkari en þeir voru.

Jú Bjarni var þátttakandi í þessari vitleysu, sem reyndar virtist ekki svo vitlaus á sínum tíma.

Sennilega þekkja sjálfskipaðir dómarar dómsstóls götunnar ekki þá alkunnu staðreynd, að það sem virðist rétt í dag, getur verið rangt á morgun. Í dag vitum við að þetta voru galnir tímar, en það var ekki vitað þá.

Það merkilega er, að Bjarni Benediktsson er ekki grunaður um neina glæpi, af hefðbundnum dómsstól, dómstóll götunnar dýrkar Gróu á Leiti, þannig að hann er ekki marktækur.

Guðlaugur Þór þáði styrki, það var ekki óeðlilegt þá og engin umræða var um hámark styrkja til stjórnmálamanna, hann braut ekki lög.

Engum hefur tekist að sýna fram á að Guðlaugur hafi veitt neinar óeðlilegar fyrirgreiðslur, kjaftasögur sem duga sem vitnaleiðslur hjá dómsstólnum sem stofnaður er til heiðurs Gróu gömlu hafa ekkert vægi í eðlilegu réttarríki.

Steinunn Valdís óskarsdóttir framdi heldur engan glæp, en hún var fengin til að segja af sér, til að bæta ímynd Samfylkingarinnar og vitanlega fékk hún fínan bitling í staðinn.

Fyrsta skrefið, ef raunverulegur vilji er til þess að bæta siðferði þjóðarinnar, hlýtur að vera að rannsaka mál á hefðbundinn hátt.

Móðursýkislegar upphrópanir  dómara hjá dómsstólnum sem stofnaður er til heiður Gróu frá Leiti, eru til skammar fyrir þjóð sem byggir á siðmenntuðu réttarríki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óljúgfróður sem er á landsfundi Sjallana sagði mér að Bjarni Ben hafi gert mínútu hlé í sinni ræðu, svo viðstaddir gætu grátið grimm örlög Geirs Gungu, en hann ku vera á leiðinni í Litla-Hraun. Hinsvegar gleymdist að gera slíkt hið vegna Baldurs Innherja Gunnlaugssonar, sem verður líklega herbergisfélagi Geirs á fyrrnefndri stofnun. Í hléum skáluðu menn svo ótæpt í fríu rauðvíni, að vísu ódýru mjög (bara níska í LÍU), fyrir kúlulánum Þorgerðar Katrínar og arðgreiðslum. En aftur gleymdist að gera slíkt hið sama fyrir kúlulánum Tryggva Þórs. Þannig fór margt úr skorðum. Hinsvegar var fimmaura-bröndurum Dabba vel tekið, gott ef ekki með “standing ovation”. Allt í allt, lágkúruleg Sjalla-samkunta, sem verður eftir nokkra daga jafn spennandi og gömul veðurspá.

Haukur Kristinsson 20.11.2011 kl. 09:24

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er ekki spurning um hvort einhver framdi glæp Jón. Þeir munu væntanlega hljóta makleg mállok. Þetta er spurning um trúverðugleika og virðingu. Því miður eru allir þeir sem tóku þátt í störfum Alþingis fyrir hrun, rúnir virðingu og margir trúverðugleika. Bæði Bjarni og Guðlaugur og reyndar Steinunn Valdís líka, eru kannski ágætis fólk og vel hæft til starfa á Alþingi, en meðan trúverðugleiki og virðing er ekki til þessa fólks, á það ekkert erindi á þing.

Gleggsta dæmið um hversu kolrangt okkar þjóðfélag er orðið eru núverndi forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Þetta fólk braut kannski ekki beint af sér fyrir hrun, alla vega ekki Jóhanna, en traust til þeirra er ekkert, engin virðing eða trúverðugleiki, enda bæði ráðherrar í hrunstjórninni. Steingrímur Jóhann, sem sagðist vera saklaus af hruninu var samt á Alþingi allan þann tíma er leið frá því að EES samningurinn var samþykktur og fram að hruni. Sumir trúðu reyndar þessu bulli í honum fyrir síðustu kosningar, en innræti hans hefur sannarlega komið í ljós eftir setu sem ráðherra í tæp þrjú ár.

Því þarf að skipta öllum þingmönnum út sem voru á Alþingi fyrir vorið 2009, reyndar nokkrum af þeim sem komu ferskir inn í þeim kosningum líka, þar sem þeir hafa sumir hverjir verið ótrúlega fljótir að tileinka sér gömlu sýktu pólitíkina. Það þarf ekki að nefna nein nöfn í því sambandi, þó mörgum detti auðvitað fyrst í hug einn skipstjóri sem nú situr á þingi.

Sá stjórnmálaflokkur sem lengst gengur í slíkri endurnýjun mun eiga mestann möguleikann í næstu kosningum, sem verða vonandi sem fyrst!

Gunnar Heiðarsson, 20.11.2011 kl. 09:48

3 identicon

Mér þykir þú taka þér sæti hátt uppi Gunnar. Það er auðveldara að dæma en að vera sanngjarn, það voru engin lög brotin og siðferði er nokkuð sem er jafn afstætt og mennirnir eru margir. Á 2007 tímunum þótti nokkuð öruggt að sá sem ekki var með heilsíðu auglýsingar eða gljá kynningarbæklinga, hann var nokkuð örugglega að eyða sínu og annara tíma með framboði og enginn möguleiki að ná kosningu. Þetta var tíðarandinn og hann var dýr. ALLIR sem voru í alvöru framboði þurftu á styrkjum að halda og þá var bara að fá frá fyrirtækjum og samtökum sem voru hliðholl viðkomandi frambjóenda. Þannig var þetta í langan tíma fram að hruni og engum fannst þetta neitt stórmál þá,ekki fyrr en þeir sem ekki nutu traust til að vera styrktir og áttu því lítinn séns í þessu kerfi sáu sér leik á borði eftir hrun og hrópuðu "siðspilling" og "burt með styrkjapakkið" en aldrei hefur það verið tengt við fyrirgreiðslu mála að þingmaður hafi gengið óeðlilega fram fyrir málstað styrkveitenda. Ég get aftur á móti verið þér sammála um að svona amerískar kosningabaráttur eru ekki góðar þar sem það sitja ekki allir við sama borð.

Sveinn Úlfarsson 20.11.2011 kl. 13:05

4 Smámynd: kallpungur

Það er til ágætis orð á engilsaxnesku sem lýsir vel ástandinu á Vinstri-bloggurum, pottymouth sem þýðir koppkjaftur. Einnig er hægt að kalla það bloggræpu. Þeir hafa núna hamast eins og trítilóðir við að ausa úr koppum sínum yfir Sjálfstæðismenn. Engin málefnaleg andstaða, einungis skítkast.

kallpungur, 20.11.2011 kl. 14:54

5 Smámynd: Þórólfur Ingvarsson

Mig langar að spyrja þig Gunnar hvar er virðingin fyrir þessum þriðjungi þingmanna sem komu nýir á þing, ekki merki ég hana.

Þórólfur Ingvarsson, 20.11.2011 kl. 21:03

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

'EG tek undir þín orð Jón og vel það,svo þó ég kæmist ekki á landsþingið vegna veikinda,horfi ég á alt á netinu,ég mun styðja þig í framboð næst kæri bloggvinur/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 20.11.2011 kl. 21:17

7 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Allt satt og rétt. Haukur hér að ofan er ágætis dæmi um málflutning, sem tíðkast nú á vinstri væng og einkar dæmigerður. „Koppkjaftur“ er ekki svo vitlaus lýsing á þessu fólki sem hellir úr sínum eigin koppi og skít yfir sjálfstæðismenn og það sem meira er, þeir komast upp með það með ekki síst, Egil Helgason, skoðanastjóra RÚV í fararbroddi. Hann er kannski agnarlítið kurteisari, en koppkjaftur samt. Á svipuðu róli eru Baugs- þjónarnir Guðmundur Andri, Illugi Jökulsson og margir fleiri. Það er ömurlegt að þurfa að sitja undir þessu.

Vilhjálmur Eyþórsson, 20.11.2011 kl. 23:34

8 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Pólitíks spilling er ekki eitthvað sem endilega þarf að vera dómtækt í lögfræðilegum skilningi, þó stór hluti þingmanna, illu heilli kannski, hafi verið lögfræðingar að menn nýskriðnir út úr námi með nánast enga reynslu að íslensku atvinnulífi, en það er annað mál. En það sem skiptir málið í stjónmálum, eða ættli alla vega að skipta þar einhverju máli, er siðfræði og trúverðugleiki. Þegar þetta hverfur frá þingmanni, þá á hann engra annarra kosta völ en að segja af sér. Flokkseinræðið er þó þannig að flokkar virðast getað hangið með fólk af þingi óþægilegalengi sem þar á ekki heima.....

Ómar Bjarki Smárason, 21.11.2011 kl. 00:45

9 identicon

Þú þarft að komast í vettvang dagsins hjá Agli Helga með þennan boðskap. Ótækt að verið sé að gagnrýna svo sjálfsagðan hlut eins og að menn dragi sér bótasjóð vátryggingafélags til að leika sér með. Hafa menn aldrei heyrt talað um viðskipti eða hvað?

Einn blár 21.11.2011 kl. 12:26

10 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Haukur, Gunnar, Kallpungur, Þórólfur,  minn góði blogg og facebookvinur Halli, Vilhjálmur, Ómar Bjarki og Einn blár.

Ég þakka ykkur öllum fyrir innlitið og málefnaleg skoðanaskipti. Menn takast á um skoðanir en eru ekki með persónulegt skítkast hver í annan, það er merki um þroska hjá þeim sem tjá sig að þessu sinni.

Fyrir mér er þetta alveg á hreinu, ég tek ekki þátt í einhverri yfirborðskenndri PR mennsku, sem gengur út á það að hafa heppilegt andlit til að auglýsa flokkinn og sópa þeim í burtu, sem skaða ímyndina. Ímyndarumræða er of yfirborðskennd, að mínu mati.

Bjarni Benediktsson var örugglega ekki að leika sér með neina peninga, en hann var þátttakandi í öllu bullinu. Það getur þroskað hann, ef hann tekur þann pól í hæðina.

Ég hef klúðrað útgerð á bát, því ég gerði mistök, sem ég hefði ekki átt að gera, en það gerðist nú samt. Það þroskaði mig og ég geri aldrei aftur sömu mistökin og eftir það, þá hef ég farið gætilega í fjármálum og stend alveg þolanlega að vígi, þótt seint geti ég talist auðugur af fé.

Kjarni málsins hjá mér er ósköp einfaldur.

Ef stjórnmálamenn gerast sekir um glæpsamlegt athæfi, þá er þeim ekki treystandi, nema að þeir sýni djúpa iðrun og ávinni sér traust á ný.

Hafi stjórnmálamenn hins vegar gerst sekir um mistök í sínum fyrri störfum, þá er ekki ástæða til að refsa þeim á neinn hátt, en þeir verða vitanlega að sanna sig og fá tækifæri til þess.

Árin fyrir hrun voru glórulaus, það vita allir. 

Þeir sem komið hafa nýjir á þing og eru saklausir af öllum gjörningum á fjármála og viðskiptasviði, í þeirra hópi eru einstaklingar sem ég treysti alls ekki neitt og þeir hafa ekki reynst traustsins verðir.

Bjarni Ben er vaxandi að mínu mati, en hann hefur gert sín mistök sbr. Icesave. Ég fullyrði ekkert um hann fyrr en hann hefur fengið tækifæri til að leiða ríkisstjórn, þá fyrst reynir á hann. Þar sem hann hefur verið í forystu á erfiðum tímum og ekki gefist upp, þá vil ég gefa honum tækifæri til að sanna sig enn frekar.

Jón Ríkharðsson, 21.11.2011 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband