Fimmtudagur, 19. júlí 2012
Er skynsamlegt að tengjast Kínverjum náið?
Taka ber fram að ég ber mikla virðingu fyrir Kínverjum, þeir eru duglegir og mjög agaðir og þeirra stærsti kostur er, að þeir hugsa fyrst og fremst um hagsmuni eigin þjóðar.
Við íslendingar og þá sérstaklega stórnvöld, gætum margt lært af Kínverjum, varðandi þau mál.
Flestir eru sammála um að vinátta sem byggist á gagnkvæmri virðingu er byggð á traustum grunni, en hverjar eru forsendur áhuga Kínverja á okkur?
Við þurfum að horfast í augu við þá leiðinlegu staðreynd, að útlendingar bera ekkert sérstaklega mikla virðingu fyrir okkur um þessar mundir, ímynd þjóðarinnar laskaðist eftir hrun og það tekur tíma að byggja hana upp á ný.
Fyrir utan okkar ímynd, þá hafa Kínverjar þá skoðun á vesturlandabúum að þeir séu hálfgerðir kjánar, en þeir eru ægilega ánægðir með sjálfa sig og telja að þeir eigi helst að stjórna hagkerfi heimsins. Að mörgu leiti er innistæða fyrir því, en Kínverjar hafa líka stóra galla eins og títt er með fólk sem státar af góðum kostum.
Þeir eru lítt gefnir fyrir tjáningafrelsið og frelsi almennt, þeir eru mjög móðgunargjarnir og hörundsárir, benda má á viðbrögð þeirra við Nópelsverðlaunum Kínverskum andófsmanni til handa. Norðmönnum var hótað. Kínverjar þola alls ekki gagnrýni, en þjóðir sem eru í nánu samstarfi þurfa að geta tekist á um ýmis mál.
Kínverjar sjá hagsmunum sínum vel borgið með samstarfi við íslendinga, þess vegna eru þeir mjög vinalegir í okkar garð.
Ákvarðanir sem teknar eru í dag geta skapað okkur velsæld og mikinn hagnað. Það getur verið mjög gott, en stundum þarf að hugsa til þess, að vonandi lifir heimurinn lengur, þrátt fyrir ótta margra við að hann sé að farast.
Í ljósi þess, þá er ágætt að binda ekki hendur afkomenda okkar í þrúgandi samstarfi við væntanlega herraþjóð sem hefur aðra menningu en við þekkjum og mjög ólík viðmið og venjur.
Kínverjar eru herskáir, hvað gerist ef verðmæti auðlinda minnka, sem Kínverjar ásælast svo mjög í dag?
Ef valið stendur á milli þess að vernda hagsmuni íslendinga eða Kínverja, kannski eftir áratugi, öld eða aldir, þá hugsa Kínverjar sennilega ekki um okkar hagsmuni heldur sína eigin.
Athugasemdir
Mikið rétt, þetta sem nú er að gerast á Grímsstöðum er glapræði að mínu mati. Það á að ganga hægt um gleðinnar dyr. Kínverjar hugsa í öldum meðan við hugsum í sekúndum. Þeir ætla sér að hagnast á norður Atlandshafsslóðinni það er alveg öruggt. Og við bara þvælumst þarna fyrir þó þeir segi það ekki beint.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.7.2012 kl. 11:54
Hvað myndir þú gera Ásthildur, ef einhver auðkífingur kæmi til þín með tugi milljarða og ætlaði að færa þér?
Þú ert of skynsöm til að hlaupa grátandi til hans og knúsa fyrir góðvildina.
Ríkisstjórnin hefur engan skilning á eðli viðskipta. Ef fjármálamenn eru tilbúnir til að borga háar upphæðir fyrir eitthvað, þá er það öruggt að þeir gera ráð fyrir að hagnast meira en þeir borga fyrir það sem þeir kaupa.
Jón Ríkharðsson, 19.7.2012 kl. 12:18
Ég myndi þakka pent og vita að þar lægi eitthvað annað á bakvið. Enginn sem hefur aurað saman peningum kastar þeim á glæ. Það vita allir, þess vegna eru menn ríkir. Þessi ríkisstjórn og þeirra ráðleggjendur eru eins og börn fædd í gær, þau hafa ekki neina hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér og er eiginlega alveg sama, bara ef þau geta hangið á þeim völdum sem þau náðu á fölskum forsendum vitandi að þeim verður fleygt eftir næstu kosningar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.7.2012 kl. 13:01
Góður pistill Jón.
Er ánægður yfir því að þú sérð kosti Kínverja, því þeir eru margir.
Einnig er ég ánægður að þú sérð líka hvaða óskosti þeir bera, því það skiptir máli í heildarsamhenginu.
Vonandi ber þjóðin gæfa til að fá góða leiðsögn í þessu Grímsstaðamáli, ekki veitir af, því mikið liggur undir og of seint er að vera vitur eftir á.
Sigurður Alfreð Herlufsen, 19.7.2012 kl. 14:06
Rétt Ásthildur, þú ert skynsöm kona og sérð í gegn um hlutina, betra væri ef fleiri hugsuðu eins.
Jón Ríkharðsson, 19.7.2012 kl. 14:55
Þakka þér Sigurður minn, það er rétt að kostir Kínverja eru bæði mjög góðir og margir.
En gallarnir þeirra, þótt þeir séu færri að tölu en kostirnir, eru þess eðlis að ég er andvígur of nánum samskiptum við þá. En það er okkur mjög hollt að læra af þeim og tileinka okkur dugnaðinn, framsýnina og agann.
Jón Ríkharðsson, 19.7.2012 kl. 14:57
Heill og sæll Jón. Gamli félagi , það er nokkuð merkilegt ,hafandi lesið flesta þína pistla fram að þessu,þar sem þú ,endalaust dásamar stjórn hægriaflanna hér á landi,skulir þú sjá ástæðu til fara þessum dásemdarorðum um stjórnkerfi kínverja,mestu vinstri afla sem sögur fara af.hver eru rökin Jón , eða hljópstu á þig með þessum skrifum þínum,þér til upplýsinga ,þá hef ég átt viðskipti við kínverja í allnokkur ár ,og það verð ég að segja Jón að þeir standa við það sem þeir segja og gera.
hvernig væri nú Jón að skoða hlutina í samhengi, og skapa sanngjarna umræðu um pólitík hér og nú,kapitalisminn ,sem þú hrífst svo mjög að, beið Skipbrot ekki satt?
opnaðu augun maður og hættu þessum hræðsluáróðri fyrir Sjáfsstæðisflokkinn,hvað var svona gott fyrir hrun? vorum við ,alþýðan ekki grandalaus?Hverjir voru við stýrið þá?
manstu það Jón ,eða þarf ég að rifja upp orð Göbbels forðum, Manstu?
með vinsemd og virðingu, Denni
sveinn Zophoniasson 19.7.2012 kl. 23:32
Sæll og blessaður Denni minn, mér finnst gaman að heyra frá þér, en þú hefur verið ansi æstur í þessi tvö skipti sem þú hefur komið með athugasemdir hjá mér.
Ef þú hefðir lesið pistilinn í rólegheitum, þá myndir þú skilja að ég var eki að dásama stjórnkerfið í Kína. Þótt ég hafi ekki sagt það berum orðum, þá veit ég af okkar kynnum að þú ert ágætlega greindur og nokkuð rólegur allajafna, en fjári hrekkjóttur. Ég man eftir skemmtilegu samræðunum sem við áttum, róandi saman tveir á trillu.
En ég skal svara þinni athugasemd eins vel og ég get og leiðrétta misskilninginn þinn.
Ég sagði það sama og þú, Kínverjar eru mjög agaðir og þess vegna er vel hægt að treysta þeim í viðskiptum, það sem að þeir segja, það stendur. Þess vegna er gott að hafa viðskipti við þá en mér finnst landakaupin og þessi ofurvinsemd sem þeir sýna leiða til of náinna samskipta og það líkar mér ekki.
Eins og þú skammaðir mig fyrir síðast, þá er ég frjálshyggjumaður sem þýðir að mér er illa við þessa stjórnsemi í þeim og hugsanlega afskiptasemi af okkar innanríkismálum sem ég óttast og benti á hótanir þeirra í garð Norðmanna, ef við gerum eitthvað sem þeim líkar ekki þá vitum við ekki hvað gerist.
Kapítalisminn beið ekki skipbrot, en fjármálakerfið hrundi af ýmsum ástæðum sem tengjast ekki Sjálfstæðisflokknum. Ef þú læsir rannsóknarskýrsluna, fyrsta bindið á bls. 58., þá er sagt frá ofurtrausti sem myndaðist á fjármálamörkuðum og flóknum fjármálagjörningum sem urðu til Við íslendingar tókum þátt eins og aðrar þjóðir, það vissi enginn að þetta myndi fara svona, það sér víst enginn framtíðina því miður.
Rannsóknaskýrslan og fleiri heimildir benda líka á að í tíð sjálfstæðismanna voru undirstöður hagkerfisins gerðar traustar, skuldir greiddar niður, þannig að höggið var mildara af þeim sökum þótt það hafi orðið mjög harkalegt.
Ég er ekki með neinn hræðsluáróður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þú hefur greinilega misskilið fleiri pistla en þennan. Það eina sem ég hef sagt er að stefna hans er sú besta sem komið hefur fram á Íslandi og sjálfstæðismönnum hefur gengið best allra flokka í landsstjórninni.
Ég hef bent á stór mistök hjá sjálfstæðismönnum, eyðsla á opinberu fé var aukin um fleiri hundruð milljarða og störfum fjölgað úr hófi fram, þeir tóku sannarlega þátt í dansinum kring um gullkálfinn.
Árin fyrir hrun voru ekki góð, en Sjálfstæðisflokkurinn færði margt til betri vegar, lækkaði skatta á fyrirtæki og afnam aðstöðugjöld, það kom sér vel fyrir hagkerfið, greiddu niður skuldir og margt fleira.
Maðurinn er því miður heltekinn af græðgi, það er alþjóðlegt fyrirbæri og ekki bundið við stjórnmálastefnur. Peningamál heimsins eru í molum því það er of mikið af flóknum gjörningum, peningaprentunum og fleiru. Við þurfum öll að endurmeta afstöðu okkar í þeim málum og stokka spilin upp. Ég hef aldrei verið með neinn hræðsluáróður fyrir einu eða neinu, heldur haldið mínum skoðunum á lofti og túlkað mína sýn á tilveruna.
En meðan við vorum saman á sjónum þá spekúleraði ég lítið sem ekert í pólitík, það gerðist aðallega eftir hrun, því þá sá ég hvað það þýðir að hafa vinstri stjórn yfir sér. Í breyskum heimi þar sem stjórnmálaflokkar eru jafnbreyskir og heimurinn allur, þá kýs ég Sjálfstæðisflokkinn því hann er að mínu viti það besta sem völ er á, en langt frá því að vera fullkominn, ég er líka alltaf að gera mistök án þess að ég telji mig vonlausan.
Jón Ríkharðsson, 20.7.2012 kl. 02:15
Heill og sæll gamli félagi og takk fyrir andsvörin,það kom mér ekki á óvart að þú hefur svör við öllu því sem ég hef fram að færa, enda geri ég mér grein fyrir því að heimsins ráðgátur og vandamál verða ekki leyst í örfáum orðum,hef reyndar ekki haft svo mikil afskipti af pólitík og þeim sora sem þeim fylgir. þökk sé mér,
ég lifi eftir fremsta megni af landsins gæðum ,sem eru þónokkur ef vel er að gáð,eins og þú veist.það er nú samt þannig ,að ég ber mikla viringu fyrir öðru fólki almennt og þeirra skoðunum og hef alltaf gert, alhæfingar um pólitískar skoðanir annara eiga því engan vegin rétt á sér , við erum jú öll jafn rétthá jafnt fyrir guöi sem mönnum, en að öllu slíku tali slepptu mikið væri gaman að hitta þig aftur gamli skipsfélagi, þetta eru orðin alltof mörg ár sem hafa liðið ,það var einkar ánægjulegt að hafa þig sem starfsmann Jón og hafðu bestu þakkir fyrir ánægjulegar samverustundi og vel unnin störf, vertu endilega í sambandi þú veist hvar ég el manninn
kv Denni
sveinn Zophoniasson 21.7.2012 kl. 21:36
Sæll aftur Denni minn og afsakaðu töfina á svari, var í ferðalagi með fjölskyldunni og hef ekkert verið að tölvast á meðan.
Ég get tekið undir það með þér, að okkar samstarf var mjög gott og mörg ánægjuleg samtöl áttum við á sjónum. Ekki efast ég um að þér gangi vel að lifa á landsins gæðum.
Ég hef ansi ákveðnar pólitískar skoðanir eins og þú hefur tekið eftir, en ég dæmi enga manneskju eftir stjórnmálaskoðunum enda á ég vini sem eru allavega stemmdir á því sviði.
Ég hef samband fljótlega, verst að ég komst ekki á Sigló í þeta skiptið en reyni næst.
Kveðja,
Jón R.
Jón Ríkharðsson, 28.7.2012 kl. 00:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.