Fimmtudagur, 11. október 2012
Ég ætla að segja nei.
Brátt kemur að því, að landsmönnum gefst kostur á að segja sína skoðun á tillögum stjórnlagaráðsins.
Ég mun mæta á kjörstað og segja nei við tillögunum og vonast til að þær verði ekki samþykktar.
Flestir vita hvar ég stend í pólitík og þeir sem mæla fyrir tillögunum segja að við sálfstæðismenn fylgjum forystunni í blindni og gerum eins og okkur sé sagt, því við höfum enga sjálfstæða skoðun.
Ég er sjálfstæðismaður og í því felst að allar mínar skoðanir eru sjálfstæðar. Einnig get ég rökstutt mína afstöðu, þótt talsmenn tillagnanna haldi öðru fram.
Veigamestu rökin að mínu mati eru þau, að það er alþingis að breyta núverandi stjórnarskrá eða semja nýja, stjórnarskráin mælir svo um. Ef þingmenn treysta sér ekki til að gegna sinni mikilvægustu skyldu, þá eru þeir vanhæfir til flestra verka.
Persónukjör þykir mér ekki góður kostur. Ég er fylgjandi því að hafa hlutina einfalda því það er hagkvæmara og minni líkur á mistökum. Þess vegna vill ég að fólk kjósi flokka og framboð.
Því fylgir ábygð að búa í lýðræðisríki, þess vegna ættu kjósendur að taka virkan þátt í starfi þeirra flokka sem endurspegla þeirra afstöðu og raða fólki á framboðslista.
Svo finnst mér umræðan um auðlindarákvæðin villandi og óábyrg, fylgjendur stjórnlagaráðsins og sumir meðlimir þess segja að með því að kjósa tillögurnar, þá verði loksins komið á réttlátri skiptingu aflaheimilda.
Auðlindaákvæðin segja ekkert til um fiskveiðistjórnunarkerfi, það er í höndum stjórnmálamanna. Það kemur m.a. fram í grein sem Þorkell Helgason, meðlimur í stjórnlagaráði ritaði í september.
Lögmenn hafa bent á, að það tæki dómsstóla langan tíma að túlka ákvæðin. Það er ekki búið að túlka til fulls öll ákvæði núverandi stjórnarskrár, þannig að líklegt er að verði tillögurnar að veruleika, þá komast dómsstólar á byrjunarreit varðandi túlkun á stjórnarskrá og það mun bitna á þeirra störfum.
Þorvaldur Gylfason segir að Rna hafi beðið um nýja stjórnarskrá. Hið rétta er að hópurinn sem fjallaði um siðferði hvatti til breytinga á einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Bent hefur verið á að núgildandi stjórnarskrá hafi haldið í kjölfar hrunsins og enginn hefur hrakið það.
Skynsamlegt er að endurskoða núgildandi stjórnarskrá og bæta í hana ákvæðum sem henta breyttum tímum. Skynsamlegt er að setja ákvæði um beint lýðræði, því líklegt að það verði framtíðin.
Einnig er ágætt að setja skýrt ákvæði sem kveður á um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni, um það ríkir sátt í öllum flokkum. Það mótmælir því enginn að þjóðinn eigi fiskveiðiauðlindina.
En allar auðlindir sem ekki eru í einkaeign, þær skuli í þjóðareign, það er óábyrgt að setja slíkt í stjórnarskrá landsins.
Enginn veit hvað verður auðlind í framtíðinni, auðlind er ekkert annað en náttúruafurð sem hugvit breytir í auðlind. Það virkar ekki hvetjandi á nýtingu hugvits, sem er okkar dýrmætasta auðlind, efþað á svo að þjónýta afrakstur þess.
SUS hvetur kjósendur til að segja nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú hefur ekki sjálfstæða hugsun karlinn, þú ert bara að apa upp það sem þér var fyrirlagt
DoctorE 11.10.2012 kl. 13:13
Þetta er fyndið, virkilega fyndið.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.10.2012 kl. 14:00
Jón. það þarf ekki mikið til að gleðja hjarðkettina. Þeir vita ekki hvað sjálfstæð skoðun er!!!!
Eyjólfur G Svavarsson, 11.10.2012 kl. 14:14
Þú mátt ekki segja að ég sé svona svakalega þrjóskur og mikill einstefnumaður DoctorE, ég get alveg tekið rökum.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 14:16
Það er nú frekar sérstætt að þykja þetta fyndið Axel, en vissulega gott að geta hlegið að sem flestu.
Þú lifir þá lengur.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 14:17
Dugir nafnið sjálfstæðismaður til að gera hjarðhugsunina úr Valhöll að persónulegri og sjálfstæðri skoðun? Þú ert sjúkari en þú litur út fyrir að vera Eyjólfur!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.10.2012 kl. 14:18
Eyjólfur minn, þetta gleður þá ekki neitt. Þetta er gamalkunn taktík, hjá rökþrota mönnum að segja menn vitlausa, fyndna og fleira í þeim dúr.
Þetta eru íhaldsamir menn sem notast við mörgþúsund ára aðferð sem á rætur að rekja til Grikklands hins forna. Hún gengur út á að gera menn sem hafa andstæðar skoðanir tortryggilega, þeir líta á pólitíska umræðu sem slagsmál.
Gallinn við þessa tvo er sá, að þeir eru ekki eins andríkir og Grikkir til forna og margir sem stunda þessa úreltu að ferð. Þess vegna nenni ég ekki að svara þeim af neinu viti, enda hefur það engan tilgang.Þeir sem kuna ekki rökræðu eru ekki svaraverðir, ég eyði í þá örfáum orðum fyrir kurteisissakir eins og þú sérð.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 14:21
Ég er ekki Sjálfstæðismaður og reikna ekki með að feta þá braut norn tíma. Þessi grein hjá honum Jóni Ríkharðssyni þykir mér afspyrnu góð, eins og flest það sem hann sendir frá sér. Ég get tekið undir flest og sérstaklega það að það er ENGIN þörf á nýrri stjórnaskrá. Eins og áður hefur komið fram í bloggi hjá mér, þá þyrfti kannski að skerpa á einstaka atriðum...
Jóhann Elíasson, 11.10.2012 kl. 14:40
Ég vara við því að setja sífellt flokksmerki á skoðanir fólks og samasemmerki við skoðanir og stefnu flokksforystu og almennra stuðningsmanna flokka. Hef á áður sýnt með tölum úr skoðanakönnunum að skoðanir þeirra og forystumannanna fara síður en svo alltaf saman.
20. október fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla, ekki flokkaatkvæðagreiðsla
Ómar Ragnarsson, 11.10.2012 kl. 15:24
Formaður SUS kemur og segir öllum sjálfstæðismönnum að segja nei, Jón bloggar stax og lýsir því yfir að hann sé með sjálfstæða hugsun.. og ætlar að gera eins og forystusauðurinn lagði fyrir :)
Þú ert bara svona bot karlinn minn
DoctorE 11.10.2012 kl. 15:27
Heill og sæll Jón fornvinur Ríkharðsson; sem og aðrir gestir, þínir !
Jón síðuhafi !
Enn; sem fyrr, lætur þú glepjast, af skrumi og sýndarmennsku þessa liðs, sem kennir sig, við hið falska Sjálfstæði, ágæti drengur.
Ómar Ragnarsson !
Þið; auðvirðilegir snatar og attaníossar Jóhönnu og Steingríms, og kenndir eruð við Stjórnlagaráðs óráðið, ættuð að halda ykkur á mottunni - og vera ekki að vanvirða okkur þau hin, sem úthýst var úr íslenzku samfélagi; Haustið 2008.
Í dag; lít ég fremur á mig, sem Argentínumann eða Mongóla - ekki Íslending; enda er það niðrun ein, að kenna sig við samfélag, sem tilheyrir 5. Heims ríki, ef ekki þess 6., eins og málum háttar hér, núorðið.
Tíma ærlegs og heiðarlegs fólks; þann 20. Október, n.k., er betur varið til annarrs fremur, en að elta kjörstaði íslenzks stjórnmála hyskis, og annarra afætna, viðlíkra !
Með; fremur þurrum kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason 11.10.2012 kl. 15:48
Sægreifar, silkihúfur og Sjalfstæðismenn segja nei, það er löngu ljóst og ástæðurnar auðvitað augljósar.
hilmar jónsson, 11.10.2012 kl. 16:13
Mín afstaða er Nei. Ég er ekki sjálfstæðismaður en hef sjálfstæða hugsun.
1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
Hér segi ég einfaldlega Nei, hið fyrsta ég treysti ekki núverandi stjórn fyrir svona loðnu svari, þeim er í lófa lagt að breyta, skæla, toga og teygja frumvarp stjórnlagaráðs og segja svo; Við höfðum tillögurnar til grundvallar.
Nú spyr ég einfaldlega, hverjir treysta þessari stjórn, sem undanfarið hefur myndað Skjaldborg um þegna sína að hætti Norrænnar velferðarstjórnar.
Kjartan 11.10.2012 kl. 16:39
Eru Sjálfstæðismenn eithvað verri en aðrir menn? Ég held ekki,þeir hafa skapað meiri atvinnu í þessu þjóðfálagi en Afglaparnir sem eru nú við stjórn.Allir vitibornir menn segja NEI við tillögum Stjórnlagaráðs 20okt.
Vilhjálmur Stefánsson, 11.10.2012 kl. 17:14
Þakka þér Jóhann sammála því sem þú segir.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 17:18
Sammála því sem þú segir Ómar. Ég hef ekki þessa skoðun af því að ég er í Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna leitaðist ég við að færa rök fyrir mínum eigin skoðunum.
Ég geri ráð fyrir að við séum sammála um, að fólk eigi að ræða málefni en ekki persónur. Þá geta menn komist að ásættanlegri niðurstöðu, verið sammála um að vera ósammála eða fundið málamiðlun, sem er oftast best.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 17:21
Úff DoktorE, þú hrósar mér allt of mikið. Tvisvar í röð, ég roðna og fer í flækju, ekki gera mér þetta.
Nóg að sýna mér einu sinni að ég sé á réttri leið, nú ef þú verður sammála mér, þá þarf ég að endurskoða mína afstöðu.
Það er engum hollt að fá svona mikið hól, en ég veit að þú gerir þetta af góðum hug.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 17:24
Sæll fornvinur kær, þú hefur sagt þínar skoðanir og það er gott.
Með góðum kveðjum úr Grafarvogi/ Jón Ríkharðsson.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 17:25
Rétt Hilmar, ástæðurnar eru augljósar eins og ég benti á í pitlinum.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 17:25
Það er gott að hafa sjálfstæðar skoðanir Kjartan, best væri að sem flestir hefðu þær.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 17:26
Rétt Vilhjálmur, en sjálfstæðismenn eru hvorki verri né betri en gengur og gerist. En ef fólk tileinkar sér sjálfstæðisstefnuna, þá bætir hún alla.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 17:27
Merkilegir þessir vinstrimenn, þegar maður sem er hægrimaður hefur skoðunn þá er hann sagður ósjálfstæður að fylgja einhverjum leiðtoga, að hann "fatti það ekki" og fleira í þeim dúr. Og alltaf það sama hjá þeim öllum, mætti halda að einhver leiðtogi samfylkingarinnar hafi hlaðað niður skoðunum á viðkomandi
Brynjar Þór Guðmundsson, 11.10.2012 kl. 18:04
Eg hef aldrei heyrt um sjalla með sjálfstæða skoðun. Aldrei nokkurn tíman. Allt þeirra svokallaða hugarstarf innifelst í línu sem þeir fá frá valhallarkofanum og ef það dugar ekki eru þeir lamdir leiftursnöggt í hausinn.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.10.2012 kl. 18:46
Það er verið að leggja til að endurskoða og breyta heillri stjórnarskrá en við fáum aðeins sex spurningar, þar af fimm sem snerta tillögurnar sjálfar. Er stjórnarskráin svo lítil og ómerkileg að það nægi aðeins að leita álits kjósenda á fimm atríðum?
Spurningarnar sem við fáum snúa að málefnum sem er hægt að setja upp á ýmsa vegu og hverjir munu sjá um það? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að farið verði eftir niðurstöðum kosninganna sem eru ekki bindandi fyrir stjórnvöld?
Það hafa áður verið gerðar breytingar á stjórnarskránni án þess að það sé sett í þjóðaratkvæðisgreiðslu, hví ekki núna? Mér finnst þetta lykta illa, það sé verið að fíflast með fólk til að fela eitthvað annað.
Svo er kjörseðillinn illa uppsettur, fyrst kemur spurning um hvort styðjast eigi við tillögur stjórnlagaráðs og svo koma fimm spurningar um tillögurnar. Hvað ef fólk merkir við Nei í fyrstu spurningu en Já við þeim sem á eftir koma, hvernig á að túlka það?
Kannski að maður hunsi báðar fylkingar, mæti á kjörstað en skili ógildu.
Jóhannes 11.10.2012 kl. 19:01
Maður tekur eftir því að allir þeir sem hingað til hafa kommentað á bloggið þitt Jón, þeir sem eru að því er virðist ósammála þér setja fram engin málefnaleg rök eða a.m.k. yfirlýsingu í hverju andstæð skoðun þeirra felst. Eina sem þeir bjóða upp á er hroki, fliss eða skítkast. Merkilegt ekki satt. Það segir sitt um þessa stuðningsmenn frumvarpsins. Það ber að geta þess að Ómar Ragnarsson sem stuðningsmaður frumvarpsins er undantekningin hingað til, ekkert skítkast, ánægjulegt.
kallpungur, 11.10.2012 kl. 19:26
Vinstri-forystu-fylgjandi-sauðirnir sem hér að ofan sjá flokkadrætti allstaðar og hafa margsinnis kallað mig öllu ljótu fyrir að verja Sjalla eru hér að stunda það sem almennt kallast skítaslettupólitík og gengur útá að maka sem mestum skít á þeim andstæðar hugsanir.... alveg sama þó viðkomandi séu að drukkna í skít í haughúsi egin ímynda.
Þarna eru til atkvæða bornir bæði slæmir og góðir kostir eins og í kosningum almennt og kvet ég alla ofangreinda til að kynna sér hlutina óhlutdrægt frá báðum hliðum áður en að skítkastinu kemur .... hvað þá kosningunni sjálfri.
Óskar Guðmundsson, 11.10.2012 kl. 20:11
Það má gera fáð fyrir því að þetta verði nokkuð jafnt með 1 spurninguna ég mun segja NEI.
Óðinn Þórisson, 11.10.2012 kl. 21:29
Þeir eru eins og rispaðar plötur Brynjar. Þegar ég skrifa pistil, þá veit ég oftast hverjir koma með athugasemdir og ca. hvað þeir segja.
Bara gaman að þessum fuglum:)
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 22:02
Duglegur strákur Ómar minn, enginn sjalli hefur sjálfstæða skoðun og þeir eru allir bjánar og asnar sem láta Valhöll stjórna sér, þú kannt alla frasanna upp á hár.
Þú færð örugglega nammi frá Jóhönnu, voða, voða duglegur:)
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 22:03
Rétt Jóhannes, þetta allt mjög skrítið. Ég ætla að segja nei við öllum tillögunum, ég vill ekki nýja stjórnarskrá, en það er nauðsynlegt að endurskoða þá gömlu og þingið á að sjá um það.
Ef þingmenn geta ekki fundið út úr því, þá eru þeir gagnslausir með öllu.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 22:05
Óskar, þessir menn sem þú nefnir sletta engum skít. Þeir mjálma einhverja marklausa þvælu, en að hún hafi einhver áhrif?
Nei, ekki nema á þessa fáu sem dvelja á sama plani og þeir.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 22:06
Sammála þér Óðinn, mun gera það sama.
Jón Ríkharðsson, 11.10.2012 kl. 22:07
Fyrirgefðu Steini kallpungur, þetta eru sérstæðir menn sem þú nefnir, það er til of mikils mælst að þeir verði málefnalegir greyin, þeir eru frekar laust tengdir við þann veruleika sem flestir lifa í. Þess vegna geta þeir ekki komið með rök.
Þeim langar til að vera fyndnir en það gengur ekki mjög vel hjá þeim.
Ég er löngu hættur að láta þessa fugla hreyfa við mér, hef bara gaman af þeim.
Stundum, þegar ég byrja að blogga, þá giska ég í huganum á hvað DoctorE mun segja. Oftast er ég nálægt því, hann kemur sjaldan á óvart blessaður öðlingurinn.
Jón Ríkharðsson, 12.10.2012 kl. 02:24
Jón Ríkharðsson,
Góður pistill hjá þér.
Ekki að ég komi til með að kjósa um þessa svokallaða stjórnaskrá, en ef ég færi á kjörstað þá væri NEI mitt val.
Síðasta málsgrein í þínum pistli er mjög góð.
Það að þjóðnýta allar auðlyndir er of djúpt í árina tekið, vegna þess að auðlynd er ekki skilgreind.
Er vindurinn auðlynd?
Ef svo er, þá getur ríkið leyft orkufyrirtækjum að fylla tún bóndans af vindmillum, og það yrði gert samkvæmt lögum í stjórnarskrá.
Þetta er nátúrulega bara fáviska að láta svona atriði í stjórnarskrá.
Kveðja frá Las Vegas
Jóhann Kristinsson, 12.10.2012 kl. 16:10
Já það er ágætt að það eru ekki allir eins og DoctorE sem greinilega gengur út frá því að allir séu eins og hann, lætur segja sér hvað má segja...
Að segja nei við þessum spurningum er ekkert annað að gera og að segja að Alþingi geti ekki unnið að breytingum á Stjórnarskránni okkar er bara ekki rétt og segir frekar allt um þann verkstjóra sem við völd er Jóhönnu Sigurðardóttur...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 13.10.2012 kl. 08:37
Athyglisverður pistill sem mig langar að fjalla efnislega um.
Það er eitthvað til í því að alþingismannanna sé að breyta stjórnarskrá en þeim hefur í gegnum tíðina ekki tekist nógu vel til. Hversu lengi höfum við búið við ójafnt vægi atkvæða t.d. og er þá ekki alþingi búið að vera vanhæft í nokkuð langan tíma. Mér finnst rangt að Einar Guðfinnsson hafi fleiri atkvæði en ég og eðli málsins samkvæmt finnst mér rangt að hann sé ráðandi aðili með það.
Persónukjör er hægt að hafa fleiri en eina skoðun á.Flestir hljóta þó að vera sammála um að það er skrefinu nær beinu lýðræði en núverandi fyrirkomulag og frambjóðendur yrðu þá ábyrgari gagnvart kjósendum en nú er. Bent hefur verið á að útstrikunarreglan þjóni þar tilgangi en hún kom ekki í veg fyrir að maður sem færður var niður um sæti af kjósendum var síðan gerður að ráðherra.
Auðlindirnakaflinn er eitthvað sem menn hafa gengið út frá að hafi verið misskilinn.Ég skil hann þannig að auðlindir megi aldrei selja úr landinu og þín rök um að enginn vita hverjar auðlindir framtíðar verða eru öflugri rök að mínu mati fyrir þessu ákvæði en gegn.Sem dæmi veit enginn ef við seljum jörðina að Grímstöðum hvað við værum að ræna af komandi kynslóðum.
Þú nefnir ekki þjóðaratkvæðagreiðlur,jöfnun atkvæða eða þjóðkirkju(þar sem við munum hitta á að greiða eins atkvæði)en ég sé ekki hvaða rök munu mæla því mót. En ég gleðst yfir því að menn séu farnir að færa rök fyrir sínu atkvæði önnur en "helvítis stjórnin" "esb kjaftæði" og þess háttar fáfræði.Ég get með öðrum orðum virt þín rök þó ég skilji þau ekki
Páll Heiðar 13.10.2012 kl. 12:37
Ágætur pistill Jón. En hvers vegna hafa Sjálfstæðismenn alltaf verið svona hikandi við að setja auðlindarákvæði inn í stjórnarskrá eins og hefur verið á stefnuskrá hinna flokkanna í mörg ár? Þetta var t.d. reynt fyrir kosningarnar 2009 en ekki vildu Sjálfstæðismenn það þá. Líka: Það eru minnir mig 6 spurningar á kjörseðlinum. Ætlar þú að svara hinum spurningunum eða bara láta þá fyrstu duga? Er ekki líka fínt að tjá skoðanir sínar á hinum spurningunum?
Skúli 13.10.2012 kl. 14:55
Þakka þér góða athugasemd Jóhann og ég hef engu við hana að bæta.
Sendi bara kveðju til Las Vegas frá Vsetfjarðarmiðum.
Jón Ríkharðsson, 13.10.2012 kl. 16:57
Það má deila um hversu vel hefur tekist hjá þingmönnum að breyta stjórnarskránni Palli, henni hefur verið breytt, en rétt er að það má gera betur.
Varðandi jöfnun atkvæða, þá þarf að breyta kjördæmaskipan. Ég er sammála því að best er að hafa landið eitt kjördæmi og öll atkvæði jöfn. En það þarf að gera mikla vinu til að það geti tekist.
Persónukjör gæti ég trúað að gæti flækt talningu atkvæða, mér persónulega þykir einfaldast að hafa núverandi fyrirkomulag, en vissulega þarf sú skoðun ekki að vera hin eina rétta.
Ég held að það sé ansi flókið að selja auðlindir úr landi, mér finnst orðalagið of loðið í ákvæðinu. Það væri örugglega hægt að ná sátt um þetta tiltekna mál, með góðum vilja og vinnu. Ég tel það réttlátt að þeir sem skapa auðlindir fái að njóta þeirra. En það er sjálfsagt að koma í veg fyrir að auðlindir verði veðsettar og seldar úr landi.
Beint lýðræði er framtíðin, ég held að flestir sjái það og ég hef ekki trú á að það væri mikill ágreiningur um það ef þingið hefði unnið verkið.
Bent hefur verið á að auðlindar og náttúruverndarákvæðin gætu skapað heilmiklar og flóknar lagadeilur, ég vil hafa einfaldar og skýrar reglur.
Svo finnst mér kostnaðurinn við tillögurnar ekki réttlætanlegur á meðan ekki er hægt að kaupa tæki fyrir sjúkrahúsin, sem geta auðveldað krabbameinsmeðferðir.
Ég er einfaldlega andvígur öllu varðandi þessa vinnu, finnst að betra væri að fá virta og góða lögspekinga til verksins, margt er klaufalega orðað, eins og að allir eigi að hafa vernd gegn ofbeldi á heimilum, þar er stjórnarskráin farin að líkjast um of almennum lögum.
Jón Ríkharðsson, 13.10.2012 kl. 17:08
Inga mín, DoctorE er æðislegur, hreint út sagt. Það væri kannski ekki gott fyrir þjóðina að hafa marga eins og hann, en hann er flottur eins og hann er. Það er nauðsynlegt að hafa furðufugla sem hægt er að hafa gaman af.
Jón Ríkharðsson, 13.10.2012 kl. 17:09
Ég býst við að ástæðan sé sú Skúli, að sjálfstæðismenn eru hikandi við allt sem heitir þjóðnýting og ég er sammála því.
Persónulega vill ég að einkageirinn hagnist sem mest og ríkið sem minnst. Þegar sagt er að þjóðin eigi að fá arð og hún fær arð, þá þýðir það fleiri peninga fyrir stjórnmálamenn að eyða í vitleysu.
Satt að segja hef ég ekki mikla trú á nytsemi þessarar atkvæðagreiðslu, það er ekki sjálfgefið að sama stjórn sitji áfram og þá er líklegt að öll vinna stjórnlagaráðs verði til lítils og peningarnir sem fóru í þetta verða þá glatað fé.
Það hefur heldur enginn getað útskýrt, hvað verður gert með atkvæði sem svara sumum spurningum játandi og öðrum neitandi. Ég vill eiginlega mótmæla öllum þessum peningum sem fóru í þessa vinnu og mér hugnast ekki tillögurnar og heldur ekki orðalagið, þótt vissulega sé hægt að taka undir ýmislegt.
Jón Ríkharðsson, 13.10.2012 kl. 17:14
Ég mun setja "já" við stjórnarskránna íslensku, veit ekkert hvar ég stend í pólitík lengur.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.10.2012 kl. 23:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.