Vill þjóðin nýja stjórnarskrá?

Erfitt er að færa rök fyrir því að þjóðin vilji nýja stjórnarskrá, en augljóst er að hluti þjóðarinnar vill það.

Í stað þess að staldra við og hugsa, þá er skammast út í Sigurð Líndal sem er manna fróðastur um eðli og hlutverk stjórnarskrárinnar.

Tillögur stjórnlagaráðs eru að sumu leiti of pólitískar og taka mið af stemmingunni sem ríkir í þjóðfélaginu um þessar mundir. Auðlindarákvæðið er gott dæmi um það.

Enginn stjórnmálamaður hefur lýst því yfir að hann vilji ekki að fiskveiðiauðlindin sé í þjóðareigu, það ríkir þverpólitísk samstaða um það, en á það endilega erindi í stjórnarskrána?

Og þurfa allar auðlindir að vera í þjóðareigu, sem ekki eru nú þegar í einkaeigu? Talað er um að þjóðin eigi að taka fullt gjald fyrir nýtinguna en er það endilega til góðs?

Íslenskir stjórnmálamenn, þvert á flokka, hafa ekki ráðstafað opinberu fé með ábyrgum hætti. Núverandi ríkisstjórn hefur lofað því, berum orðum, að setja tuttugu og sex milljarða í atvinnuskapandi verkefni. Er það vilji þjóðarinnar að ríkisstjórnin setji peninga í áhættusöm verkefni á meðan skuldir og vextir af þeim eru illviðráðanlegir?

Vitanlega er það betra fyrir þjóðarhag, að útgerðin njóti hagnaðar af fiskveiðunum. Það hækkar laun sjómanna og gerir útgerðinni kleyft að endurnýja flotann og safna í digra sjóði til að mæta erfiðum tímum sem koma alltaf með reglulegu millibili sökum lækkandi verðs á mörkuðum og aflabrests.

Hvað þýðir það svo fyrir dómstóla landsins að fá fjöldan allan af nýjum ákvæðum til að dæma eftir? Bent hefur verið á það, af lögfróðum mönnum að slíkt geti reynst dómstólum afar dýrt og það er óábyrgt að skella skollaeyrum við því.

Stjórnarskrá á að vera einföld og skýr. Hvað táknar það að allir eigi rétt til að lifa með reisn? Er þá ríkið bótaskylt ef einhver getur ekki lifað með reisn? Það tekst því miður ekki öllum.

Einnig benti einn stjórnlagaráðsmaður á það í blaðagrein, að auðlindaákvæðið myndi ekki binda hendur stjórnvalda varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið sem þau kjósa að notast við. Samt hefur stjórnmálaflokkur verið stofnaður og hann berst fyrir nýrri stjórnarskrá á þeim forsendum m.a. að þá fáum við réttlátt kerfi í fiskveiðimálum. Er þá verið að boða markleysu til að veiða atkvæði?

Allir flokkar á þingi eru tilbúnir til að skoða beint lýðræði og þeir vilja að nýtingarrétturinn á sjávarauðlindinni sé í þjóðareign. Það eru þessi tvö mál, aðallega sem fylgisfólk stjórnlagaráðs virðist vilja berjast fyrir.

Augljóst er að það er auðvelt að ná þverpólitískri samstöðu um þessi tvö mál á þingi, þannig að í ljósi þess ætti þingið að geta sinnt sínu hlutverki, sem er að breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem hún sjálf boðar.

Kostnaðurinn í kring um samningu tillagnanna hleypur á hundruðum milljóna, á sama tíma treystu stjórnvöld sér ekki til að kaupa nauðsynlegt tæki fyrir krabbameinssjúka.

Í ljósi alls þessa, þá er það nokkuð ljóst að allur kostnaðurinn við vinnu stjórnlagaráðs er til einskis, líklegt er að næsta ríkisstjórn vilji ekert með þær hafa. Þjóðin sem slík hefur aldrei kallað eftir nýrri stjórnarskrá. Það eru ekki allir netmiðlar fullir af greinum eftir fólk sem kallar á nýja stjórnarskrá, heldur virðist þetta frekar fámennur en afskaplega hávær hópur. 


mbl.is Reynt að tefja og snúa út úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Allir eiga rétt á að lifa með reisn." Eftir að hafa haft 17 mánuði til að kynna sér stjórnarskrána er nú byrjað að hártoga jafn einfalda hluti og þennan.

Þetta ákvæði segir ekkert um það hvort einstaklingum takist að lifa með reisn heldur um það, að það sé beitt órétti, ef því er meinað það að ósekju, til dæmis með einelti.

Það hefur verið rætt um þörf á þvi að setja lög eða reglur um varnir gegn einelti. En einelti byggist á því að einn maður eða hópur manna taki sig til og reyni eins og hægt er að niðurlægja ákveðna persónu og gera henni lífið illbærilegt eða óbærilegt.

Með því er þessari persónu, sem veður fyrir eineltinu, meinað að lifa með reisn og viðurkenningu á því að hún hafi einstaklingseinkenni, sem sumum kann að finnast óæskileg.

Með því að meina manneskju að lifa með reisn á forsendum einstaklingseinkenna sinna á sér stað frelsissvipting og kúgun.

En svo er að sjá sem sumir geti alls ekki fellt sig við það einstaklingarnir eigi neinn rétt á að hafa nein önnur þau persónueinkenni en þau sem einhverjum hópum eða valdamiklum einstaklingum er að skapi.

Og því miður virðast margir þeir, sem í orði tala um frelsi einstaklingsins, hallast mest að því að taka þessa einföldu setningu út úr nýju stjórnarskránni með því að hártoga hana og afflytja á allan hátt.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2012 kl. 09:43

2 identicon

Ómar, yrði stjórnarskrárbrot að stríða fólki? Er það sem þessi blessaða setning á að segja okkur?

Örvar 27.12.2012 kl. 10:30

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er margt sem ég get sagt þér til hróss Ómar minn Ragnarsson. Þú hefur veitt mér mikla gleði frá barnæsku, en ég er af þeirri kyslóð sem ólst upp við lögin þín og Stikluþættirnir eru þvílík snilld að enginn leikur þá eftir. Ég á þessa þætti og horfi stundum á þá, það er gaman að sjá fólk ljóslifandi á skjánum, sem er látið og tilheyrir horfinni kynslóð sem hafði margt til brunns að bera, sem við þekkjum varla í dag.

Hafðu kæra þökk fyrir það minn kæri.

Svo máttu líka eiga það, að þú ert alltaf málefnalegur í athugasemdum og kurteis, en það sama er því miður ekki hægt að segja um alla sem veja tillögur stjórnlagaráðs.

Hafandi lesið margt eftir virta lögfræðinga og rætt við lögfræðinga sem ég þekki, auk þess að notast við mínar persónulegu skoðanir, þá á ég vont með að viðurkenna þessar tillögur sem drög að stjórnarskrá. Mér finnst þær valda svolitlum ruglingi.

Það er fallegt að berjast gegn einelti, slíkt er hryllilegt fyrir þolendur þess. En hvort ákvæði sem berst gegn einelti eigi heima í stjórnarskrá, það er svo annað mál. Við höfum lög og reglur, auk þess ýmis óskrifuð lög, sem kallast m.a. félagsleg viðmið og refsingar við þeim kallast félagslegt taumhald. Þú skilur vafalaust hvað átt er við.

Samkvæmt almennum skilningi lögfróða manna, þá er stjórnarskrá einhverskonar leiðbeiningar fyrir löggjafann og dómstóla í landinu og hún þarf að vera einföld og skýr.

Þetta er í fyrsta skiptið sem ég sé að ákvæðið um að lifa með reisn fjalli um einelti, en öll stjórnarskrárákvæði geta hugsanlega valdið deilum. Ekki veit ég hvernig á að dæma eftir stjórnarskrárákvæðinu, ef hópar verða fyrir miklu einelti, svo dæmi sé tekið.

Eins og ég nefndi í pistlinum, þá hefur Sigurður Líndal m.a. gagnrýnt þetta ákvæði og hann hefur góða þekkingu á stjórnarskrám, hefur kennt þær í háskólanum lengi.

Menn segja að lítið sé að marka Sigurð, sumir segja hann verja sérhagsmuni. Það er einfaldlega rangt, þú manst væntanlega eftir því þegar hann skammaðist út í sjálfstæðismenn þegar sonur Davíðs Oddssonar var ráðinn í dómarastöðuna. Það bendir til þess að Sigurður túlki sínar skoðanir, sem byggðar eru á mikili þekkingu á lögum, eingöngu á fræðilegum nótum.

Jón Ríkharðsson, 27.12.2012 kl. 12:03

4 identicon

Er ekki rétt að staldra við og anda aðeins með nefinu og jafnvel að hugsa aðeins.  Efnahagshrunið varð ekki vegna stjórnarskrárinnar, það var einungis verið að finna einhverja "ástæðu" til þess að gera eitthvað.   Venjan er sú að þegar stóráföll ríða yfir þá er sá sem fyrir áfallinu verður settur í áfallahjálp en ég veit ekki til að nokkur einasta sála hafi fengið áfallahjálp eftir að efnahagshrunið reið hérna yfir.  Þá er það einnig algjörlega óþekkt að nokkur taki einhverjar stórar ákvarðanir um framtíð sína í kjölfar mikils áfalls, sem hann hefur gengið í gegnum EN ALLT STJÓRNARSKRÁRMÁLIÐ ER DÆMI ÞESSStrax í kjölfar hrunsins var efnt til svokallaðs þjóðfundar og sagt var að niðurstaðan af honum væri sú að þjóðin vildi nýja stjórnarskrá.  Ef ég man rétt þá var HVERGI minnst á nýja stjórnarskrá þegar niðurstöður fundarins voru skoðaðar.  Ef stjórnarskráin núverandi er skoðuð kemur í ljós að hún er nokkuð góð þó vissulega séu nokkur atriði sem mætti skerpa á en það er alveg út í hött að skipta henni ALLRIút fyrir eitthvað alveg stórgallað óskaplagg sem sett er saman í einhverju "byltingar andrúmslofti".............

Jóhann Elíasson 27.12.2012 kl. 12:44

5 Smámynd: Málfundafélagið Óðinn

flott

Málfundafélagið Óðinn, 28.12.2012 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband