Fimmtudagur, 7. mars 2013
Málflutningur byggður á sandi.
Hafi fólk trú á því að núgildandi stjórnarskrá hafi verið einn af orsakavöldum hrunsins og að tillögur stjórnlagaráðs feli í sér leiðir til að auka réttlæti og jafnvel koma í veg fyrir annað hrun, þá er sjálfsagt að virða þá skoðun.
En þegar komið er með innihaldslaust þvaður um að verið sé að brjóta á vilja meirihluta þjóðarinnar, þá er ástæða til að blanda sér í málið og benda á staðreyndir.
Það er ekkert sem bendir til þess að meirihluti þjóðarinnar vilji nýja stjórnarskrá. Kosningaþátttaka í kosningum til stjórnlagaþings var tæp 40% og sá fjöldi sem greiddi rágefandi atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs taldi tæp 50%. Sá sem að telur 34% eða tæp 50% vera meirihluta ætti að skoða stærðfræði þekkinguna örlítið betur.
Segja má það mistök hjá þeim er voru andvígir nýrri stjórnarskrá, að sleppa því að mæta. En ástæðan var sennilega sú að mörgum þótti þessi kosning þvæla og nenntu ekki að ergja sig á henni.
Hvernig hefði dæmið litið út ef raunverulegur meirihlutavilji væri fyrir tillögunum?
Skoðum Icesave, það var allt logandi í netheimum og mikill fjöldi fólks tjáði sig um andstöðu við samninganna og þjóðaratkvæðagreiðslurnar varðandi þá endurspeglaði raunverulegan meirihlutavilja. Rúm 60% tók þátt í fyrri kosningunni og yfir 70% í þeirri seinni.
Ef skoðuð er umræðan almennt, þá eru ekki margir að berjast fyrir tillögum stjórnlagaráðs en þessir fáu hafa ansi hátt.
Niðurstaðan hlýtur að vera sú, að meirihluti þjóðarinnar vill ekki nýja stjórnarskrá og flestum þykja tillögurnar alls ekki góðar.
Málflutningur þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá er byggður á sandi og þingmenn í þeirra hópi eru alþingi til skammar.
Hvar er allt fólkið sem mætti og kaus? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Jón, er ekki villa með, tæp 4 % á ekki að vera tæp 40%.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 7.3.2013 kl. 11:36
Þakka þér kærlega fyrir ábendinguna Hallgrímur,þetta var klaufalegt hjá mér og ég leiðrétti strax.
Ég met það alltaf mkils þegar fólk leiðréttir mig því vissulega vil ég hafa allt kórrétt.
Jón Ríkharðsson, 7.3.2013 kl. 11:54
Sæll Jón. Ég er með nokkrar spurningar. Í kosningunum um Icesave 3 í apríl 2011 var kosningaþátttakan 75,4% og þar af sögðu 59,8% nei skv. vef Hagstofunnar. Ef þú reiknar það eins og þú reiknar hér að ofan kemur í ljós að 45% landsmanna sögðu nei. Er niðurstaðan þá ekki nei þó ekki hafi meirihluti kjósenda sagt nei? Jú að sjálfsögðu og sem betur fer, eins og komið hefur í ljós. En þar var niðurstaðan samt ekki sú að meirihluti landsmanna sagði nei en ekki já heldur. Þetta fer alltaf bara eftir því hve margir ákveða að mæta á staðinn en ekki hverjir sitja heima. Eins er það með stjórnarskrármálið, þar sem um 2/3 (64,2%) þeirra sem kusu sögðu "já" við nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðsins. Kjörsóknin var samt ekki góð eins og allir vita en eins og þú segir er hægt að kalla það mistök hjá þeim er voru andvígir nýrri stjórnarskrá, að sleppa því að mæta. En hvort skiptir þá máli, að taka mark á meirihluta þeirra sem kusu eða þeirra sem kusu ekki? Hvernig hefði sá meirihluti farið? Finnst þér þá í lagi að hunsa niðurstöður kosninganna algjörlega af því að rétt um 50% kusu en niðurstaðan var samt meira afgerandi en í Icesave?
Einnig, þjóðarakvæðagreiðslan um ESB verður líka ráðgjafandi. Vilt þú að farið verði eftir niðurstöðum þeirra kosninga? Hvað með ef kjörsókn verður léleg? Hvernig fyndist þér ef niðurstöðurnar væru afgerandi í kosningunum en Alþingi myndi hunsa þær eins og það virðist að miklu leyti gera nú, t.d. ef meirihluti þjóðarinnar segði já en Alþingi nei? Fyndist þér það eðlilegt?
Skúli 7.3.2013 kl. 12:16
Sæll Skúli. Tigangur minn með þessum pistli er ekki að ræða djúpt um úrslit kosninga og kjörsókn. Þess vegna nefndi ég þáttöku í þessum kosningum til að benda á að fólk virtist hafa mikin áhuga fyrir Icesave en lítinn áhuga fyrir nýrri stjórnarskrá.
Dæmin um kosningarnar voru sett fram sem aukaatriði, raunverulega til að rökstyðja aðalatriðið.
Kjarni málsins er sá að áhugi þjóðarinnar fyrir nýrri stjórnarskrá er lítill, ekki mættu margir á fundinn á Austruvelli og fáir tjá sig um nauðsyn þess að tillögur stjórnlagaráðs verði samþykktar. Það þýðir að fátt bendir til að meirihlutavilji sé til staðar, þess vegna er rangt að fullyrða að svo sé.
Vonandi svarar þetta spurningum þínum.
Jón Ríkharðsson, 7.3.2013 kl. 12:47
Að bera saman þjóðaratkvæði um Icesave, og svo þessa 5 spurninga könnun um nýja stjórnarsrká er eins og að bera saman epli og þyrlu.
Ekkert sameiginlegt.
Í Icesave kosningunni veistu að atkvæði þitt skiptir máli, og að niðurstaða meirihluta kjósenda ræður úrslitum um málið sem kosið er um.
Í þessari könnun varðandi stjórnarskrá, er verið að spyrja hvort nota eigi skjalið til grundvallar....
Hvað þýðir það??
Og svo kom í ljós að meirihlutinn vildi halda ákvæði um þjóðkirkju, sem stjórnlagaráð vildi taka út.
Þannig að niðurstaðan var að það yrði að breyta tillögunum, en samt nota tillögurnar.....???
Síðan er því líst yfir fyrirfram að niðurstaðan sé ráðgefandi, og bindi engan.
Til hvers að vera að ómaka sig að keyra á kjörstað, að greiða atkvæði um eitthvað þar sem er búið að lýsa yfir fyrifram að niðurstaðan ráði engu um framhaldið?
Í Icesave réð þjóðin.
Í stjórnarskrármálinu ræður þjóðin engu, og því engin ástæða að láta draga sig á asnaeyrunum á kjörstað og taka þátt í þessari vitleysu.
Það sem er sorglegast við síðustu 4 árin, er að við erum búin að borga tugum þingmanna laun fyrir að vera í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn sem þarf enga stjórnarandstöðu.
Núverandi ríkisstjórn hefur verið fullfær um það einsömul að stöðva og klúðra öllum sínum stefnumálum og loforðum án nokkurrar aðstoðar frá stjórnarandstöðunni.
Bæði þetta mál, sem og flest önnur.
Sigurður 7.3.2013 kl. 12:58
Já Sigurður, hún er fullfær um það sjálf eins og hefur oft sýnt sig. Ég vil nú samt trúa því að þessi kosning um stjórnarskrána hafi skipt máli, a.m.k. gefið til kynna hvað landsmenn (a.m.k. þeir sem fóru á kjörstað) vildu sjá í hugsanlega nýrri stjórnarskránni. En þetta með þjóðkirkjuna er rétt hjá þér, það þarf að útskýra það mál betur eins og margt annað, en málið var held ég ekki hugsað þannig að þingið átti að gera allt nákvæmlega eins og stjórnlagaráðið kom fram með. Svo er það þeirra að ákveða hvernig þau tækla það. Ég bar Icesave málið saman við þetta einungis vegna þess að með því að skoða niðurstöðurnar þar og úr kosningunni fyrir um hálfu ári er hægt að túlka þær á hinn og þennan veginn eftir því hvar skoðanir manna liggja, t.d. hægt að sjá út frá báðum niðurstöðum að ekki er meirihluti kjósenda á bak við niðurstöðurnar þó þær hafi hvoru tveggja verið afgerandi. En rétt er það, áhuginn fyrir nýrri stjórnarskrá er ansi lítill. En eins og í þessari atkvæðagreiðslu (eða skoðanakönnun eftir því hvað menn kjósa að kalla það) er niðurstaðan einungis ráðgefandi líkt og í ESB málinu. Samt ætlast flestir til þess að þingið fari að vilja meirihluta þjóðarinnar í því máli.
Skúli 7.3.2013 kl. 16:28
Sigurður, ég skil þig mjög vel og við höfum greinilega sömu skoðunina á þessu máli, mig langaði ekki á kjörstað og ég nenni helst ekkert að hugsa um þetta mál, mér finnst það della.
En ég fór á kjörstað og hvatti alla til að gera slíkt hið sama. Það var til þess að þeir sem berjast fyrir tillögunum gætu ekki notað það sem rök, að meirihluti þjóðarinnar vildi þessar tillögur. Ef meirihlutinn hefði kosið á móti þeim, án þess að það hafi haft raunveruleg, þá væri ómögulegt fyrir Hreyfinguna og fleiri að halda því á lofti að nauðsynlegt væri fyrir þingið að samþykkja tillögurnar.
Jón Ríkharðsson, 7.3.2013 kl. 19:09
Samkvæmt þeim skilningi sem hér er verið að halda fram eru allar forsetakosningar í Bandaríkjunum ómarktækar af því að aðeins 25-30% kjósendea á kjörskrá kusu forsetann hverju sinni.
Og sama á þá við um kosningarnar um sambaandslögin 1918 þar sem 43,8% tóku þátt.
Eða um þjóðaratkvæðagreiðslu í Austurríki nú nýlega þar sem vel innan við helmingur kosningabærra manna skilaði sér á kjörstað og mjög mjótt var á munum. Ég sá hvergi því haldið fram í evrópskum fjölmiðlum að þær kosningar hefðu verið ómarktækar.
Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum hér s. s. um þegnskyldu, áfengisbann og afléttingu þess var lítil þátttaka en samt fór Alþingi í öllum tilfellum eftir niðurstöðunni.
Ómar Ragnarsson, 8.3.2013 kl. 01:25
Jón Ríkharðsson er orðinn málssvari ógreiddra atkvæða. Hvernig svo sem hann veit hug þeirra sem ekki mættu.
Hörður 8.3.2013 kl. 11:50
Ekki alveg réttur skilningur hjá þér Ómar minn, en það er að hluta til mér að kenna því ég flækti aðeins málið með því að vitna í kjörsóknina.
Tölurnar eru aukatriði, þær eru eingöngu rökstuðningur fyrir því að fátt bendir til þess að um þjóðarvilja sé að ræða. Það eru ekki margir að krefjast nýrrar stjórnarskrár og í ljósi mætinga á samstöðu fundi tillögunum til stuðnings, þá er erfitt að sjá að meirihlutinn vilji þessar tillögur að nýrri stjórnarskrá.
En það má segja að fólk geti sjálfu sér um kennt, ef fleiri hefðu mætt, helst sem allra flestir, þá er líklegt að niðustaðan hefði verið öðruvísi.
Jón Ríkharðsson, 10.3.2013 kl. 06:44
Ég er ekki málsvari ógreiddra atkvæða Hörður og ég veit ekki hug þeirra sem ekki mættu. Þess vegna segi ég að mér finnist líklegt að það sé ekki meirihlutavilji fyrir tillögunum.
Þegar sagt er líklegt, þá er ekki verið að fullyrða neitt.
Jón Ríkharðsson, 10.3.2013 kl. 06:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.