Fimmtudagur, 19. september 2013
Skoðum og ræðum eftirlitsiðnaðinn.
Eftirlitsiðnaðurinn hefur bólgnað út síðustu ár án þess að mikilvægi hans sé beinlínis sannað.
Er nauðsynlegt að hafa öflugt og kostnaðarsamt matvælaeftirlit?
Nú er það svo, að matvælaframleiðendur hafa flestir menntun í meðhöndlun matvæla, allir hafa þeir fólk sem býr yfir þessari þekkingu. Við höfum frjálsa samkeppni og það er dauðadómur fyrir framleiðsluna ef hreinlæti er ábótavant og veldur sýkingu.
Áður en matvælaeftirlitið var sett á fót, er þá hægt að segja að matareitranir hafi verið stærra vandamál á Íslandi en í öðrum löndum?
Fullt af konum stunduðu greiðasölu á heimilum sínum og seldu heitar máltíðir. Ekki er vitað til þess að fjöldi manns hafi veikst af matnum.
Innfluttur matur er viðurkenndur af eftirlitsstofnunum ESB og Bandaríkjanna, þjást Evrópumenn og kanar af stöðugum matareitrunum? Nei, við þurfum ekki að fylgjast með mat sem er viðurkenndur af öðrum ríkjum, ekki búa íslendingar yfir meiri þekkingu á þessu sviði eða meiri tækni en önnur lönd.
Samkeppniseftirlitið, hefur það skilað góðum árangri?
Við þekkjum dæmi um fyrirtæki sem þurfa að þola samkeppni við fjármagn ríkisins og lífeyrissjóða, þannig að samkeppnin er ekki eðlileg. Réttast er að spara í rekstri samkeppnisstofnunar og gefa samkeppni frjálsa.
Í stað þess að hafa rándýrar stofnanir sem ná aldrei að sinna sínu hlutverki til fulls, þá þurfum við einfaldar og skilvirkar reglur. Vitanlega eiga að vera hörð viðurlög við brotum matvælafyrirtækja, ef þau eru uppvís að of litlu hreinlæti, óeðlilegri merkingu osfrv., neytendur og frjáls samtök þeirra geta sinnt þessu eftirliti með hagkvæmari hætti en ríkið.
Vitanlega bregðast forstöðumenn allra stofnanna illa við allri umræðu á þessum nótum. Þeir eru sérfræðingar í að verja sín störf, það er alltaf áfall að missa atvinnuna og öryggið sem henni fylgir.
En er ekki betra að hugsa um heildarhagsmuni en atvinnuöryggi nokkurra manna?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.