Hefur Besti flokkurinn breytt miklu til góðs?

Ný framboð skammast yfir vinnubrögðum gömlu flokkanna og fullyrða að þau bjóði upp á bætt vinnubrögð og minni spillingu.

Besti flokkurinn er sá eini af nýju framboðunum sem fékk tækifæri til að standa við stóru orðin, en í ljósi skýrslu úttektarnefndar varðandi borgarmálin er erfitt að sjá miklar breytingar til góðs.

Bent er á að Besti flokkurinn hafi fundið þokkalegan náunga til að bjarga málum orkuveitunnar og nær hann væntanlega að bæta þann skaða sem borgarstjórinn olli með því að segja fyrirtækið gjaldþrota. Orkuveita Reykjavíkur getur ekki orðið gjaldþrota, þetta er fyrirtæki með stöðuga innkomu og einokunaraðstöðu, þegar sverfur að þá er bara að hækka gjöldin.

Skýrsla úttektarnefndar um stjórnsýslu borgarinnar bendir ekki til að nýju vendirnir hafi flýtt sér að sópa. Þvert á móti gera þeir sumt verra en forverarnir og flest eins og þeir.

Það sem er verra hjá nýja fólkinu er að leiðtoganum finnst ekkert gaman að hugsa mikið um reksturinn. Þess vegna þurfa starfsmenn og embættismenn borgarinnar að leita til annarra og það skapar óvissu, að mati skýrsluhöfunda.

Allir eru sammála kostunum við að mynda þverpólitíska sátt um flest mál og tekið var fram í skýrslunni að fyrri borgarstjórn, undir forystu sjálfstæðismanna, hafi bjargað því sem hægt var með því að skapa þverpólitíska sátt um mikilvægar aðgerðir.

Besti flokkurinn eyðilagði sáttina og þar með góðan vilja forvera sinna.

Vitaskuld þarf margt að bæta í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og margar hefðir skapast sem ættu ekki að vera til staðar.

Árið 2012 sá úttektarnefndin ástæðu til að nefna atriði sem juku líkur á pólitískum ráðningum, þrátt fyrir að hafa setið í tvö ár, sá Besti flokkurinn ekki ástæðu til að hafa frumkvæði í þeim málum.

Ekki þarf að hafa mörg orð um verri sorphirðu og umhirðu grasbletta í borginni. Á sama tíma hefur kostnaður borgarbúa vegna stjórnsýslunnar hækkað.

Göfugt markmið er "báknið burt" og það hafa sjálfstæðismenn því miður oft svikið.

En Besti flokkurinn gerir það sem sjálfstæðismenn hafa aldrei gert, býr til embætti og störf til að minnka vinnuna hjá borgarstjóranum. Reyndar hefur enginn flokkur í borginni gert slíkt áður, svo ég viti til.

Þannig að Besti flokkurinn er þá fyrstur til að búa til störf til að sleppa leiðtoganum við erfiðustu og leiðinlegustu verkin.

Það er eina nýjungin sem þau hafa komið með varðandi stjórnsýslu borgarinnar, þ.e.a.s. eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband