Besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi?

Fullyrt er að stjórnmálamönnum hafi tekist það merka afrek að skapa "besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi". Íslensk umræðuhefð hefur komið í veg fyrir að mögulegt sé að sanna eða afsanna þessa kenningu.

Rétt er að tekist hefur að skapa hagkvæmni í greininni og gera hana sjálfbæra. Liðin er sú tíð, þegar ríkið þurfti stöðugt að bjarga útgerðinni og því ber að fagna.

En að þakka eingöngu kvótakerfinu betri meðferð á fiski, það er einföldun.

Einokun í útflutningi var aflétt og með tilkomu fiskmarkaða komu fram dugmiklir einstaklingar sem fundu nýja markaði. En ekki skal lítið gert úr því merka afreki útgerðarmanna að hagnast miklu betur á örfáum tonnum en þeir gerðu áður, með því að veiða umtalsvert meira af fiski.

Ekki skal gert lítið úr því, að kvótakerfið jók sannarlega hagkvæmni í greininni. En forsendur kerfisins eru þær að það megi veiða mjög lítið af fiski.

Á áttunda áratugnum kom út svört skýrsla frá Hafró, sem fullyrti að þorskurinn væri í stórhættu vegna ofveiði. Hún orsakaði ótta vísindamanna sem sér ekki fyrir endann á.

Lítið er vitað um hegðun og atferli þorska annað en hann hefur sporð sem nýtist honum vel til að ferðast víða eftir æti. Fræðimenn eru ekki sammála, Hafró segir eitt, Jón Kristjánsson annað og stjórnvöld hafa ekki hugmyndaflug til að láta fleiri aðila rannsaka vistkerfi hafsins.

Ótti vísindamanna Hafró varð til þess að við veiddum miklu minna frá hruni, en hefði verið hægt.

Ástandið á Halanum fyrir nokkrum árum var þannig, að þegar búið var að láta trollið fara, þá þurfti skipstjórinn að gæta þess að fá ekki of mikinn fisk í trollið. Bætt meðferð á fiski gerir þær kröfur til skipstjórnarmanna að þeir taki ekki meira en 6-7. tonn í hali.

Ef skipstjórinn þjáðist af kvefi og þurfti að hnerra oft, gat hann átt von á því að fá þrjátíu tonn eftir örfáar sekúndur.

Þá mátti ekki veiða, svo þegar ástandið hefur róast á miðunum, þá er hlaupið til og veiðar auknar. Taka ber fram að ekkert bendir ennþá til að þorskveiðin sé að hrynja, en það er ekki sama magnið og var, þegar ekki mátti veiða meira.

Allt hefur sína kosti og galla. Kostir kerfisins felast í hagkvæmninni en gallarnir eru líka til staðar.

Það er erfitt fyrir nýliða að komast í greinina. Það þýðir að við vitum aldrei hvort mögulega hefðu komið fram einstaklingar sem sköruðu svo mikið fram úr, að greinin hefði vaxið margfalt miðað við það sem við þekkjum í dag.

Einokun er líka ranglát og aldrei til góðs. Að sumu leiti hafa stjórnmálamenn skapað skrímsli sem valdið hefur miklum deilum, framsalið var ekki alslæmt en ekki er hægt að réttlæta þann ofurhagnað sem margir fengu fyrir að hætta í útgerð.

Það er erfitt, jafnvel illmögulegt að skapa réttlæti í greininni. Útgerðarmenn sem í góðri trú hafa fjárfest í aflaheimildum verðskulda ekki að missa þær og setja reksturinn í uppnám.

Helstu mistök okkar í stjórnun fiskveiða eru of litlar rannsóknir og að hafa eingöngu eina stofnun, sem túlkar eitt sjónarmið.

Því hefur aldrei verið svarað, hvers vegna veiðar aukast stöðugt í Barentshafinu. Þar er ekkert hlustað á fiskifræðinga heldur veitt meira frá ári til árs.

Ekki er langt síðan Hafró samþykkti að til væru fleiri en einn stofn af þorski við landið og þorskurinn þvældist á milli Grænlands og Íslands.

Kvótakerfið hefur vissulega aukið samkeppnishæfnina og við erum framarlega í fiskveiðum, vinnslu á afurðum og sölu á þeim.

En við vitum aldei hvað hefði gerst, ef við hefðum veitt meira alla tíð og haft frjálsa aðkomu að greininni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband