Hefði Steingrímur sett neyðarlögin?

 Steingrímur er farinn að tala eins og hann hafi alltaf verið ráðherra, en hann hefur gleymt öllu sem hann sagði sem óbreyttur þingmaður.

Núna hrósar hann sér af neyðarlögunum, en hann var ekkert sérstaklega hrifin af þeim í denn. En hefði hann sett á neyðarlögin sjálfur?

Örugglega ekki ef litið er til verka hans. Steingrímur er lafhræddur við útlendinga, ef þeir eiga eitthvað undir sér eins og sást í einkavæðingu bankanna og Icesave.  


mbl.is Evrópa geti lært af Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eiga stjórnmálamenn að gera?

Stjórnmálamenn eiga að sjá til þess að fólk fái vernd gegn glæpum og viðunandi heilbrigðisþjónustu og sjá til þess að menntun sé viðunandi. Einnig eiga þeir að hugsa um hag þeirra sem eru ósjálfbjarga sökum örorku eða elli.

En þegar þeir telja sig hafa meira vit en hinn almenni borgari hefur, þá verða þeir hættulegir.

Færa má rök fyrir því, að með forsjárhyggju hafi stjórnvöld í Bandaríkjunum byggt upp glæpaveldi sem stendur enn, þegar ákveðið var að fólk ætti ekki að drekka áfengi.

Bann við vændi, eiturlyfjum osfrv. gerir lítið annað en að byggja upp stórveldi í undirheimunum og stefna hinum almenna borgara í hættu.

Við lifum í ófullkomnum heimi og stjórnmálamenn geta engu um það breytt. Stjórnmálamenn eru heldur ekkert vitrari en gengur og gerist, þeir eru hinsvegar duglegri við að telja öðrum trú um eigið ágæti og hafa betra sjálfsmat en gengur og gerist, stundum reynist það ofmat.

Sá stjórnmálamaður sem sýnir auðmýkt og þekkir sína bresti, hann er vitur. Vitur stjórnmálamaður veit að boð og bönn gera lítið gagn, en oftast ógagn.

Stjórnmálamenn eiga að tengjast þjóðinni og skynja hjartslátt hennar, þá fyrst geta þeir stjórnað.

Einfaldar og skýrar reglur virka best, flókin regluverk sem hægt er að túlka á ótal vegu verða til þess að virðing fólks fyrir lögum og reglum fer þverrandi, slíkt veldur siðrofi í samfélaginu.

Sjómannamál er mörgum  tamt og oft er talað um þjóðarskútuna. Það gildir sama lögmálið við að stýra þjóðarskútunni og skipi.

Hreyfa stýrið sem minnst. 


Lífeyrissjóðir eiga ekki að reka fyrirtæki.

Stofnun Framtakssjóðsins skekkti samkeppnistöðu á markaði og velvilji stjórnvalda í hans garð er enn eitt tákn um vanhæfni þeirra.

Hlutverk lífeyrissjóða er að ávaxta peninga eigenda sinna en ekki rekstur og uppbygging fyrirtækja.

Framtakssjóðurinn rak Húsasmiðjuna í bullandi samkeppni við Byko og það er að öllu leiti óeðlilegt ekki síst í ljósi þess að starfsfólk og stjórnendur BYKO eiga sinn hlut í lífeyrissjóðunum.

Lífeyrissjóðir geta ávaxtað fé með útlánastarfsemi eins og þeir reyndar gera. Ef við tökum Húsasmiðjuna sem dæmi, þá var það fyrirtæki illa rekið. Stjórnvöld áttu ekki að skipta sér af því, í frjálsu markaðshagkerfi eiga illa rekin fyrirtæki að verða gjaldþrota.

Ef það er eftirspurn eftir vörum illa rekinna fyrirtækja, þá munu væntanlega starfsmenn þeirra eða aðrir geta tekið reksturinn yfir og jafnvel samið við lífeyrissjóði um lán, sú leið á að vera fær, ef stjórnvöld vilja endilega að þeir taki þátt í að byggja upp atvinnulífið.

Eðlilegra er að sjálfsögðu að bankar láni og lífeyrissjóðir ávaxti mest í útlöndum, en ef nauðsyn ber til þá er eðlilegt að þeir láni, með sama hætti og almennir bankar.

Til þess að lífeyrissjóðir geti fjárfest erlendis, þá þarf að endurskoða gjaldeyrishöftin. Það er skynsamlegra en að þvinga lífeyrissjóði til að vera með starfsemi sem virkar íþyngjandi á vel rekin fyrirtæki, því enginn getur keppt við lífeyrissjóðina, það segir sig sjálft.

Vonandi hugsar næsta ríkisstjórn um hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, stóru fyrirtækin og fjármálastofnanir geta séð um sig sjálf, og sér til þess að lífeyrissjóðir hafi engin ítök á vinnumarkaði. 


Tækifæri fyrir ASÍ að sýna jafnréttið í verki.

ASÍ hefur talsverð ítök í lífeyrissjóðum landsmanna, þess vegna stendur upp á samtökin að sýna jafréttisviljann í verki

Lífeyrissjóðir gefa út loforð um réttindi sjóðsfélaga, en um leið og greiðslugetan minnkar, oftast vegna klúðurs stjórnenda þeirra, þá skerða þeir greiðslur til eigendanna.

Líklegt er að eigendur lífeyrissjóðanna myndu sýna því meiri skilning ef þeir gætu gert slíkt hið sama.

En stjórnendurnir hafa lítinn skilning á minnkandi greiðslugetu eigenda sem þiggja lán af þeim.

Sniðugt væri að sjá viðbrögð starfsmanna lífeyrissjóða ef lántakendur úr hópi eigenda myndu tilkynna þeim, að nú væri þröngt í búi hjá þeim sökum eyðslusemi, þannig að sjóðsfélaginn ætlaði eingöngu að borga samkvæmd fjárhagsstöðu hverju sinni og núna væri hún ansi döpur.

Stjórnendur lífeyrissjóða eiga, eins og allir, að standa við það sem þeir lofa. Það vita allir að áhættufjárfestingar geta brugðist til beggja vona. Þess vegna eiga þeir að lofa greiðslum sem þeir geta staðið við.

Ef þeir treysta sér ekki til þess, þá ætti ASÍ að beita sér fyrir rétti sjóðsfélaga sinna, þannig að þeir geti tekið lán og lofað endurgreiðslum ásamt vöxtum, ef þeir geta það ekki, þá eiga þeir, alveg eins og stjórnendur sjóðanna, að geta tilkynnt breyttar forsendur og borgað samkvæmt greiðslugetu hverju sinni.

Skuldbindingar eiga að vega jafnt á báða bóga, það ættu jafnréttisboðberar ASÍ að vita manna best.


Vinnur ASÍ gegn hagsmunum verkafólks?

Vilhjálmur Birgisson gerði kröfur um 200.000. króna mánaðarlaun fyrir fiskverkafólk og hann taldi útgerðum engin vorkunn að borga þá upphæð í ljósi góðrar stöðu þeirra undanfarið.

Forseti ASÍ tík ekki undir þessa kröfu Vilhjálms og vildi meina að efnahagskerfið þyldi ekki svona miklar launahækanir.

Á sama tíma og forseti ASÍ vill ekki hækka laun fiskverkafólks, þá styður hann ríkisstjórnina í þeirri vitleysu, að taka meira fé frá útgerðarmönnum til að setja í vitleysu.

Það er ekki hagur verkafólks að skattpína fyrirtæki, heldur á ríkið að lofa einkageiranum að græða sem mest, það eru hagsmunir verkafólks.

Atvinnurekendur hafa oft, stundum með réttu, bent á það í samningaviðræðum að kröfur verkalýðsins væru of íþyngjandi fyrir þá. Ef fyrirtækin græða á tá og fingri, þá hafa verkalýðsfélögin mjög góða aðstöðu til að koma með hára launakröfur og atvinnurekendur hafa þá enga afsökun.

Það er allra hagur að fyrirtækin græði sem mest, en vinstri sinnað fólk hefur aldrei skilið þá einföldu staðreynd. 


Kjör sjómanna hafa versnað.

Fjölmiðlar hafa óskaplega gaman af að segja frá í hvert sinn sem einstakar áhafnir þéna vel. Að sjálfsögðu er það alltaf gleðilegt þegar vel fiskast, fyrir útgerðir, sjómenn og þjóðarbúið í heild og eining ber að gleðjast yfir háum launum flestra sjómanna um þessar mundir, en það er villandi að tala eingöngu um launin á þessum óvenjulegum tímum.

Kjör sjómanna versnuðu í síðustu kjarasamningum, skiptaprósentan lækkaði um rúmlega eitt prósent og auk þess lækka launin okkar ef útgerðir fjárfesta í nýjum skipum.

Það gleymist líka að ræða um laun sjómanna á bóluárunum, þá voru þau lág og vandræði að manna flotann. Svo lækkaði gengið umtalsvert eftir hrun og það hefur haldist lágt síðan. Þess vegna eru launin svona há og þau lækka um leið og gengið styrkist.

Ekki má heldur gleyma að á sama tíma og launin okkar hækka, þá hækkar verð á innfluttum varningi og afborganir af verðtryggðum lánum hækka líka.

Við sjómenn höfum góð laun núna, en enginn veit hversu lengi það varir, því kauphækkunin er ekki tilkomin vegna kjarabóta og ekki má gleyma því að tryggingin er innan við tvöhundruð þúsund á mánuði, margir eru á henni hluta úr ári og  hásetar á trillum eru án kjarasamninga. 

 


Sérstaða Sjálfstæðisflokksins.

Vinstri flokkarnir grundvallast á sundurlyndi, þeir sameinast um einhvern óvin sem þeir berjast gegn. Nýju framboðin gera slíkt hið sama, þau sameinast um andstöðu sína við alla flokkanna fjóra.

Þegar óánægja og reiði sameina fólk, þá er það vanhæft til að skapa velsæld og sátt. Við höfum reynslu af vinstri stjórnum, sundurlyndiseðli þeirra smitast til þjóðarinnar.

Einnig sáum við átökin og klofningnum í Borgarahreyfingunni, svo voru mikil átök í Frjálslynda flokknum sem sundruðu honum, samt er það flokkur með ágæta stefnu í flestum málum.

Sjálfstæðisstefnan boðar engin átök, boðskapur hennar er frelsi og velmegun öllum til handa. Hægt er að deila um hvernig til hefur tekist, en sáttin virkar betur en sundurlyndisfjandinn sem eyðileggur allt.

Hægt er að skoða sögu lýðveldistímans, sjálfstæðismenn náðu að halda ríkisstjórnum saman og sætta ólík sjónarmið.

Við getum endalaust deilt um efnahagsstjórn allra flokka, allir hafa þeir gert mistök en Sjálfstæðisflokkurinn staðið sig best.

Það sem enginn getur deilt um er, að friður innan flokka virkar best fyrir þjóðina. Átökin eiga að vera á milli stjórnmálastefna en ekki persóna. Það er staðreynd sem vinstri menn skilja seint. 

Skynsamlegasti kosturinn í næstu kosningum er þess vegna X-D, sama hvað sumir kjósa að berja haus við stein.

Vinstri menn ættu að muna eftir hjálminum öllum stundum. 


Fjölnir getur sigrað Liverpool 3:0.

Ef ég myndi halda því fram á opinberum vettvangi, að knattspyrnudeild Fjölnis gæti hæglega sigrað Liverpool 3:0, þá þætti ég sauðheimskur.

Einhver velviljaður myndi kannski reyna að koma vitinu fyrir mig og segja, að Fjölnir væri yngra lið og leikmennirnir hefðu ekki eins mikla reynslu og Liverppol.

Ef ég myndi halda þessu til streitu, þá missti fólk allt álit á mér, enginn tæki framar mark á einu orði sem ég segði.

Svo er til fullt af fólki, jafnvel hámenntaðir háskólamenn sem halda, að íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnanir hefðu hugsanlega getað afstýrt hruninu. 

Eins og í fótboltanum, þá erum við ung þjóð með stutta reynslu af fjármálamörkuðum. Þekking starfsfólks stjórnsýslunnar er minni en í öðrum löndum, af eðlilegum ástæðum.

Bankar hrundu út um allan heim, þrátt fyrir að margar þjóðir hafi verið að stunda bankastarsemi á sama tíma og íslendingar skiptust aðallega á vörum, peningar voru lítið í umferð þá.

Það er alveg jafnvitlaust að halda því fram, að íslensk stjórnvöld hafi getað komið í veg fyrir hrunið eins og að Fjölnir geti sigrað Liverpool 3:0.

 


Er gott að miða okkur við aðrar þjóðir?

Að mestu leiti hefur samanburður íslendinga við aðrar þjóðir verið villandi. Við erum ung og lítil þjóð og við höfum byggt okkur upp á skemmri tíma en þjóðir sem við miðum okkur við.

Við höfum ekki náð að safna peningum í sama mæli og þær af eðlilegum sökum, einhæft atvinnulíf byggt mest á hrávöru veldur því.

En þurfum við að hafa minnimáttarkennd vegna þess?

Nei, fólk í millistétt þarf ekki að hafa minnimáttarkennd gagnvart efri stigum hennar. Lægri stig millistéttar ná að öngla fyrir nauðsynjum en getur ekki leyft sér sama munað og hærri stigin.

Við getum lifað góðu lífi, miðað við núverandi aðstæður og við eigum möguleika á vaxandi tekjum vegna auðlindanna.

Íslenska ríkið getur ekki leyft sér það sama og stærri ríki, það er jákvætt og stjórnvöldum ber að temja sér nægjusemi. Einstaklingar og fyrirtæki eiga að njóta gróðans, ekki ríkið.

Við eigum ekki að bera okkur saman við aðrar þjóðir, í umsvifum ríkisreksturs. En vissulega er skynsamlegt að fylgjast með og notast við allt sem er gott í öðrum löndum. 

Ef við viljum eyða eins miklu í velferðarkerfið og Norðurlöndin gera, þá gengur okkar samfélag aldrei upp. Við eigum að sjá til þess að ósjálfbjarga fólki sé hjálpað og grunnstoðir velferðar séu til staðar.

 


Hvers vegna á að lækka skatta?

Lækkun skatta er besta og varanlegasta kjarabót sem stjórnvöld geta veitt alþýðu þessa lands.

Háir skattar bitna ekki á þeim sem eru vel stæðir,  þeir bitna á dugmiklu og ungu alþýðufólki sem er að kaupa sér þak yfir höfuðið og vill gjarna vinna fyrir því sem keypt er og lágmarka lántökur.

Húsnæðisbætur og vaxtabætur eru kostnaðarsamar og ekki er sjálfgefið að þær nýtist sem skyldi. Fólk fær ágæta upphæð einu sinni á ári, fáir nota hana til að niðurgreiða skuldir, heldur nota margir peninganna í neyslu. Lægri skattar verða til þess að almenningur hefur meira ráðstöfunarfé og þeir virka líka hvetjandi fyrir dugmikið fólk.

Lágir skattar hvetja einstaklinga og fyrirtæki til athafna og það skilar sér að lokum, oftast, í hærri tekjum til ríkissins.

Helst ætti að setja ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins þess efnis, að stjórnvöldum væri óheimilt með öllu að leggja á hærri skatta en ca. 25%, þá er átt við skatta og útsvar. Æskilegast er að skattar séu aldrei hærri en 15-20%, en við sérstakar aðstæður mættu þeir hugsanlega fara í 25%.

Ríkið hefur áratugum saman bruðlað með fé skattborgara, nú er komið nóg.

Krafa þjóðarinnar á að vera sú, að stjórnmálamenn berjist fyrir hægræðingu og skeri niður allan óþarfa. Það krefst útsjónarsemi að gera mikið úr litlu, þess vegna þarf að gera miklar kröfur á stjórnvöld í þeim efum og kjósendur eiga að strika út þá frambjóðendur sem lofa ekki að bera virðingu fyrir peningunum þeirra.

Lækkun skatta er brýnasta hagsmunamál alþýðu þessa lands, við höfum þolað eyðlusemi flestra ríkisstjórna og nú er mál að linni.

Sá flokkur sem lofar lægstu sköttunum og sparsemi í hvívetna, kjósendur eiga að setja x-ið við hann.

Nær öruggt má telja, að það verð X við D. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband