Miðvikudagur, 4. júlí 2012
Hvað tefur rannsóknina?
Þann 17. apríl árið 2010 sagði Jóhanna Sigurðardóttir að til stæði að rannsaka einkavæðingu ríkisbankanna tveggja í tíð framsóknar og sjálfstæðismanna
Ef Jóhanna hefur grunsemdir um að glæpsamlega hafi verið að verki staðið en lætur undir höfuð leggjast að láta rannsaka málið, þá er það vissulega mjög alvarlegt mál.
En líklegast er að þetta sé brella sem Hrannar hafi hvíslað að henni, ágætt væri að hóta reglulega rannsókn til að gefa í skyn að sjálfstæðis og framsóknarmenn hafi eitthvað að fela.
Kannski óttast þau Jóhanna og Hrannar að ekkert nýtt komi fram og þá væri búið að slá eitt af síðustu vopnunum úr þeirra höndum.
Lengi vel gátu þau logið því, að hrunið væri sjálfstæðis og framsóknarmönnum að kenna, en eftir að rannsóknarskýrslan kom út, þá vita þeir sem lesa hana, að það gat enginn stjórnmálaflokkur komið í veg fyrir hrunið og hún staðfestir einnig, að enginn stjórnmálaflokkur var ábyrgður fyrir því.
Huglægt mat sem byggir á, hefði, átti og gæti, dugar skammt í upplýstri umræðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. júní 2012
Hvers vegna eiga hægri menn að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?
Við hægri menn eigum að standa saman, efla Sjálfstæðisflokkinn og byggja hann upp. Ef við ætlum að dreifa okkar atkvæðum á milli margra flokka, þá skerðum við möguleika okkar að koma hægri stefnunni til valda.
Í áranna ráð hefur myndast gjá milli þings og þjóðar, hún dýpkar stöðugt, en með sameiginlegu átaki tekst okkur að brúa gjána. Kjósendum hættir til að misskilja stjórnmálamenn og ætla þeim vafasaman tilgang, spunameistarar vinstri flokkanna vinna sitt starf af mikilli elju og þeir hafa góðan aðgang að fjölmiðlum.
"Að gera hina ríku ríkari og fátæku fátækari", leiftursókn gegn lífskjörum", þetta var áróður sem notaður hefur verið gegn Sjálfstæðisflokknum áratugum saman, en staðreyndin er sú, að þjóðinni gengur alltaf best þegar sjálfstæðismenn eru við völd.
Árið 1991 var staða þjóðarbúsins ekki góð, en sjálfstæðismönnum tókst að skapa sátt og hún skiptir mestu máli.
Árið 1995 varð ég atvinnulaus, í hálfan mánuð hringdi ég stöðugt og gekk á milli staða til að fá vinnu. Það virtist algerlega vonlaust á höfðuborgarsvæðinu, þá hringdi ég í fyrirtæki úti á landi og fór hringinn, endaði á því að komast á humarbát frá Þorlákshöfn.
Sjálfsæðismenn gátu ekki skapað atvinnu, enda er það ekki verkefni stjórnmálamanna, en hvað gerðu sjálfstæðismenn til að skapa traust og fullvissa þjóðina um eigið ágæti?
Í bók Illuga Jökulssonar sem fjallar um tuttugustu öldina á Íslandi segir að efnahagskreppa hafi ríkt á fyrsta kjörtímabili sjálfstæðismanna, frá því þeir tóku við völdum árið 1991. En Illugi segir m.a.; "Jafnvel meðal andstæðinga Sjálfstæðisflokksins hneigðust margir til að treysta Davíð til að kollkeyra ekki samfélagið".
Sagt er frá mikilli gremju meðal almennings í bók Illuga, á fyrsta kjörtímabili hinnar löngu valdasetu Sjálfstæðisflokksins, en jafnframt að; "þótt margir ættu erfitt og ríkisstjórnin væri iðulega gagnrýnd harkalega fyrir atvinnuleysi hafði meirihluti þjóðarinnar ekki áhuga á að hverfa aftur til fyrri tíma, þegar iðulega var brugðist við versnandi kjörum með innihaldslausum kauphækkunum sem gerðu ekki annað en hleypa af stað verðbólgu".
Á þessum tíma stóð til að hækka laun þingmanna og ráðherra, en Davíð Oddsson beitti sér fyrir því að launahækkunin yrði dregin til baka og til hvers?
Launahækkun til þingmanna og ráðherra hafði óveruleg áhrif á stöðu ríkissjóðs, heldur var það vitanlega til þes að skapa sátt.
Illugi nefnir einnig lækkun skatta á fyrirtæki, sem var til þess að bæta þeira hag og umleið veita launþegum möguleika á bættum kjörum.
Eins og að ofan greinir, þá hafa vinstri menn stöðugt verið að sverta ímynd Sjálfstæðisflokksins með ýmsum dylgjum, því þeir vita sem er, stefnan dugar ekki en valdafíknin er sterk í þeirra fari.
Ef skoðuð er saga lýðveldistímans, þá sést með óyggjandi hætti, að Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn á Íslandi sem getur stjórnað.
Látum ekki blekkjast af fagurgala vinstri manna, við höfum mörg nýleg dæmi um vangetu þeirra.
Til þess að hægt sé að færa samfélagið til betri vegar, þarf að skapast sátt.
Sáttinn er svo farsæll vegur til framfara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Föstudagur, 22. júní 2012
Færsla fyrir DoctorE.
Maður sem kallar sig DoctorE er í hópi minna tryggustu lesenda og ég hef hálfgerðan móral yfir að hafa ekki sinnt honum ansi lengi. Það er búið að vera í mörgu að snúast hjá mér sl. vikur þannig að ég hef haft lítinn tíma til að blogga.
Ég gæti trúað því að DoctorE sé frekar einmanna sál sem finnur sinn tilgang í að rakka niður Guðsorðið og Sjálfstæðisflokkinn.
Að sjálfsögðu vil ég að öllum líði vel, þannig að ég ákvað að skrifa eina færslu fyrir piltinn, sem hann getur svo rakkað niður að vild, já maður á að vera góður við alla:
Drottinn Guð, skapari himins og jarðar skapaði manninn í sinni mynd, sjálfstæðan og frjálsan mann.
Hér á Íslandi fetuðu góðir menn í fótspor Guðs og stofnuðu Sjálfstæðisflokkinn, flokk frelsis og mannúðar.
Sjálfstæðismenn vita það, að Guð er fullkominn og fyrst að hann boðar frelsi, þá gera þeir það að sjálfsögðu líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Föstudagur, 22. júní 2012
Er landinu stjórnað af sérvisku?
Vinstri menn flestir eru afar laustengdir við jarðlífið að flestu leiti. Það þarf ekki endilega að vera slæmt, ef að fólk þekkir sín takmörk.
Margir eru sveimhugar og sérvitringar að upplagi, en flestir gera þeir sér grein fyrir því, þannig að sérviskan verður til skemmtunar en ekki skaða fyrir þjóðina.
Vinstri stefnan er ekkert annað en sérviska, en í hugum vinstri manna er hún stjórnviska, þeir gera lítinn mun á draumi og veruleika.
Og af þeim sökum trúa þeir því staðfastlega að þeim sé treystandi fyrir landsstjórninni og raunar að engum sé betur treystandi en þeim. Draumóramaðurinn og lífskúnstnerinn Steingrímur J. Sigfússon gengur um með þá grillu í höfðinu, að allt fari á öfugan enda ef hann heldur ekki um valdataumanna. Hann treystir sjálfum sér svo vel, að hann vill helst hafa öll ráðuneyti landsins á sinni könnu.
En sökum þreytu og mikils vinnuálags ákvað hann að dreifa byrðunum örlítið á milli sín og útvalinna samstarfsmanna.
Steingrímur er þekktur fyrir að halda fast í prinsippin, þann tíma sem hann hefur þau áður en hann skiptir þeim út fyrir ný. AGS fékk að njóta einlægs samstarfsvilja frá hans hendi, svo mikil var auðsvepni hans að forkólfar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins höfðu vart kynnst öðru eins ljúfmenni.
Sennilega hefur það verið þess vegna, sem starfsmaður sjóðsins vék að honum og sagði að það væri munur ef allir væru eins og hann. Kannski hefur maðurinn séð þreytumerki á Steingrími og langað til að peppa hann upp, þannig að hann sagði að gott hefði verið að hafa hann í Grikklandi.
Steingrímur er jú afskaplega svag fyrir hrósi, en honum er sjaldan hrósað af löndum sínum af eðlilegum ástæðum. Prinsippmaðurinn vaski tók skjall útlendsingsins svo bókstaflega, að hann trúði því að verið væri að óska eftir aðkomu sinni að málefnum Grikklands.
Steingrímur og Jóhanna berjast gegn því að fyrirtæki geti vaxið og blómstrað, það er vitanlega ekkert annað en sérviska. Það er sérviska að trúa því að það sé slæmt ef fólk nái að auðgast, vitanlega er það mjög gott.
Myndi einhver kjósa yfir sig stefnu, sem gengi út á að banna fólki að hefja störf á mánudegi, bannaði svörtum köttum að hlaupa í veg fyrir fólk og ætlaðist til þess að enginn hellti niður salti eða bryti spegla?
Að sjálfsögðu ekki, en hvers vegna kýs fólk þá vinstri stefnuna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 21. júní 2012
Hvernig skilgreinir ráðherrann réttlætið?
Guðbjartur Hannesson virðist álíta það óréttlátt að einhverjir nái að eignast mjög mikið af peningum, jöfn tekjuskipting virðist vera lykillinn að réttlætinu að mati ráðherrans.
Það er ekki mjög flókið að verða ofsalega ríkur, en það kostar mikla vinnu.
Fólk þarf að vera tilbúið til þess, að hugsa stöðugt um leiðir til að græða sem mest, þræla baki brotnu, spara og safna peningum. Eftir þónokkurn tíma, sem einkennist að blóði svita og tárum, ættu flestir að vera orðnir ansi vel stæðir ef þeir nenna að leggja þetta á sig.
Jafnaðarmenn gleyma því gjarnan, að fólk er mjög misjafnt að flestu leiti. Sumir finna fróun í því að eiga mikið af peningum og það er mjög gott fyrir samfélagið allt. Síkir einstaklingar skapa atvinnu og önnur verðmæti.
Frelsið er okkur mikilvægt, hver og einn á að hafa möguleika til að lifa eins og honum hentar best.
Ríkisvaldið á ekki að ákveða hvort hversu ríkir borgararnir eiga að vera, þeir eiga að ákveða það sjálfir.
Þótt ég sé frjálshyggjumaður, þá þykir mér það ákaflega andlaust líf, að vera stöðugt að spekúlera í peningum. Ég eyði þeim oftast jafnóðum og nýt lífsins í botn. Aldrei myndi ég nenna að eyða æfinni í að verða moldríkur, ég er auðugur af börnum, fjölskyldu og vinum.
Og sökum þess að ég er mjög sáttur við mitt líf, þótt ég teljist seint í hópi auðmanna, þá truflar það mig ekki hið minnsta þótt hópur fólks á Íslandi vissi ekki aura sinna tal. Það má hver sem er transportera í einkaþotum og þyrlum, eiga glæsibifreiðar osfrv, ef fólk vinnur fyrir þesu öllu með heiðarlegum hætti.
Illgirni og öfund er mikil meinsemd í okkar samfélagi. Vitanlega ber að fagna því, þegar fólk nær sínum markmiðum og þá er sama hvort þau ganga út á barneignir, árangur í íþróttum eða gífurlegt ríkidæmi.
Stjórnmálamönnum varðar ekkert um, hvort fólk verður hamingjusamt af peningum eða ekki.
Hamingjan fylgir ekki tekjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 21. júní 2012
Hvers vegna eigum við ekki að ganga í ESB?
ESB umræðan hér á landi er eins og umræður yfirleitt, yfirborðskennd og þraskennd.
Andstæðar fylkingar leita logandi ljósi að kostum og göllum við sambandið og reyna að finna veika punkta í málflutningi hvers annars.
Enginn veit hver framtíð Evrópusambandsins verður, hún er ekki björt um þessar mundir en vel getur verið að í náinni framtíð nái Brusselmenn að gera sambandið að efnahagslegu stórveldi og mögulega mun þá velsæld ríkja í öllum aðildarríkjum þess og Evran kannski sterkasti gjaldmiðill veraldar.
Ef að bjartsýnustu spár rætast og við göngum í ESB, þá þurfum við ekki að hafa afkomutengdar áhyggjur. Þá búum njótum við þess að búa við lágt matarverð, stöðugan gjaldmiðil og séð verður til þess að enginn þurfi að líða skort og sennilegt er að næg atvinna verði á Íslandi.
Er þá ekki best að vona það besta og ganga bara í ESB þegjandi og hljóðalaust?
Svar mitt er afdráttarlaust neitandi, við eigum að ríghalda í sjálfstæðið og nýta þá möguleika sem landið hefur upp á að bjóða.
Fjárhagslegt öryggi er mikilvægt og peningar eru nauðsynlegur grunnur fyrir öll samfélög heimsins. En peningar eru ekki allt.
Maðurinn þarf áskoranir til að þroskast og dafna, á Íslandi er enginn skortur á áskorunum og við eigum að fagna því. Það sem er vel gert hjá Evrópusambandinu, við getum tileinkað okkur það og sleppt því sem hentar okkur ekki.
Basl og erfiðleikar gera ekkert annað en að efla okkur og þroska. Íslenska þjóðin á að taka höndum saman og nýta allar auðlindir með hagkvæmum hætti, við eigum að bjóða upp á hagstætt rekstrarumhverfi fyrirtækja með lágum sköttum og pólitískum stöðugleika.
Við eigum ekki að óttast verkefnin, heldur að takast á við þau og hafa að lokum sigur.
Sjálfstðisbaráttan er fyrir löngu hafin og henni er ekki lokið.
Sjálfstæðið er raunverulega okkar dýrmætasti auður, við eigum aldrei að fórna því fyrir þægilegt líf innan vébanda ESB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 18. júní 2012
"Þegar ég var barn............."
Það er alltaf mjög sjarmerandi, þegar lítil börn koma með krot á blaði og segja það vera mynd af einhverju, einlægnin skín úr fallegu augunum og stolt barnsins gerir myndina að listaverki.
Við vitum að barnið er að mótast og með tíð og tíma, tekst því kannski að verða góður myndlistamaður.
Öðru máli gegnir ef fullorðið fólk gerir það sama og börnin, svo ekki sé talað um æðstu ráðamenn þjóðarinnar.
Jóhanna og Steingrímur hafa gert allt með öfugum klónum, frá fyrstu tíð þessarar ríkisstjórnar. Þau hafa valdið ósætti, snarhækkað skatta og svo mætti lengi telja.
Í Kastljósþætti sat Bjarni Benediktsson á móti Steingrími J. og þeir voru að takast á um hin ýmsu mál. Í lok þáttarins leit Steingrímur á Bjarna og spurði hann, hvort hann sæi virkilega ekki öll þau afrek, sem þessi ríkisstjórn hafi unnið.
Þá fipaðist Bjarni, því hann er barngóður mjög og eiginlega samþykkti það sem ráðherrann sagði.
Vanhæfni ríkisstjórnarinnar á sér margar birtingarmyndir, þeir sem fylgjast með fréttum vita við hvað er átt og þeir sem telja þetta góða ríkisstjórn, ja, þeir verða þá bara að hafa þá skoðun.
Páll postuli sagði frá því, að þegar hann var barn, þá hagaði hann sér eins og barn. En þegar hann varð fulltíða maður þá lagði hann niður barnaskapinn.
Þrátt fyrir að vera bæði komin yfir miðjan aldur, þá hafa þau Jóhanna og Steingrímur alveg gleymt að afleggja barnaskapinn, þau skilja sennilega ekki hvað postulinn átti við.
Með reglulegu millibili koma þau í fjölmiðla, eftir allt klúðrið og segja; "erum við ekki dugleg"?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 12. júní 2012
Friðurinn er vanmetin auðlind.
Við erum mjög heppin á Íslandi að hafa búið við friðsæld ansi lengi. Reyndar er fámennur hópur óróaseggja sem telja öskur og læti breyta einhverju til góðs, en sem betur fer er meirihluti þjóðarinnar það skynsamur, að við höldum friðinn.
En það þýðir ekki að allir séu sammála, slíkt er óhugsandi í mannlegum samfélögum.
Siðsamt fólk notast við hóflegt orðfæri og ræðir málin af yfirvegun. Það þarf ekki að grípa til gífuryrða til að koma sinni skoðun á framfæri.
Vonandi verður Búsáhaldabyltingin sú síðasta sem ég þarf að horfa upp á og óskandi er að fólk hætti að mæta á Austurvöll til að öskra.
Mótmæli LÍÚ voru til fyrirmyndar, fólk kom sínum skoðunum á framfæri, boðið var upp á góða tónlist og allt fór friðsamlega fram.
Ísland er friðsælasta landið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 14.6.2012 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 7. júní 2012
Voru eingöngu stórútgerðarmenn að mótmæla?
Fyrir forvitnissakir ákvað ég að mæta á Austurvöll og sjá í fyrsta skiptið, hvernig upplifun það er að vera viðstaddur mótmæli þar.
Ekki get ég sagt að það hafi verið skemmtileg lífsreynsla, hávaðinn í þeim sem eru svekktir út í útgerðarmenn fannst mér hvimleiður en sem betur fer var hinn hópurinn hallari undir siðmenningu, þannig að engin átök brutust út.
Hinsvegar er það ekkert launungarmál, að ég var í og með að mótmæla þessu arfavitlausa frumvarpi sem ríkisstjórnin er að keyra í gegn og það voru fleiri sjómenn og verkafólk að gera.
Það sem komið hefur fram, varðandi smölun og þrýsting á sjómenn að mæta er lygi og ekkert annað. reyndar ekki fyrsta lygin sem gripið er til, í þeim tilgangi að styrkja málstaðinn, en til lengdar þá getur enginn byggt málstað sinn á lygi, það er skammgóður vermir.
Við sjómenn á skipum HB Granda vorum boðaðir á fund í dag klukkan tvö. Engin var neyddur til að koma og það voru átta kallar, skipsfélagar mínir sem mættu ekki á fundinn. Þeir verða ekki reknir fyrir það, enda var enginn neyddur til að mæta.
Forstjóri fyrirtækisins bar fram þá ósk, að við myndum mæta á Austurvöll, en hann tók það skýrt fram að mönnum væri það í sjálfsvald sett, hvort þeir mættu eða ekki. Enda veit hann það að við sjómenn erum frjálsir menn með sjálfstæðan vilja og látum ekki smala okkur eitt eða neitt, gegn okkar eigin vilja.
En ég klappaði mikið fyrir ályktuninni sem stjórnarliðar fengu eftir fundinn, slíkt hið sama gerðu vinir mínir og kollegar, sem stóðu nálægt mér.
Ekki þekki ég neinn sjómann sem er sáttur við þetta frumvarp, einn ágætur maður hér um borð, sem hefur alla tíð verið eindreginn andstæðingur kvótans sagði að þetta frumvarp væri snargalið og hann var á Austurveli til að mótmæla því.
Við sjómenn flestir kærum okkur ekki um, að stór hluti af þeim verðmætum sem við komum á land verði nýttur í gæluverkefni stjórnvalda. Atvinnuskapandi verkefni kostuð af ríkinu ættu að vera liðin tíð.
Steingrímur á að segja allan sannleikann, í dag var sögulegur dagur fyrir okkur sem viljum stétt með stétt í framkvæmd. Á Austurvöll mættu útgerðarmenn og sjómenn, með sama markmið að leiðarljósi og hugsuðu eins og einn maður.
Reynir að láta útgerðina ekki gjalda aðgerðanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 5. júní 2012
Kolröng tímasetning.
Vel er hægt að taka undir margt af því sem Lilja bendir á, þegar upp er staðið þá eru kjör þingmanna alls ekki góð, ef miðað er við vinnu og álag.
En að benda á léleg kjör þingmanna akkúrat núna, þegar traust á þingmönnum er í sögulegu lágmarki og miklar efasemdir uppi um getu þeirra yfirleitt til að leysa vandamál þjóðarinnar, það er afleit og kolröng tímasetning fyrir svona umræðu.
Vantrú þjóðarinnar á þingmönum sínum er þingmönnunum sjálfum að kenna.
Til þess að eiga skilið að fá kjarabætur, þá verða þingmenn að sjálfsögðu að sannfæra borgara þessa lands um að þeir hafi getu til að sinna sínu hlutverki og muna það sem Kristur sagði fyrir löngu síðan, að það uppsker hver eins og hann sáir.
Ekki orðið vör við forréttindi þingmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)