Fýlupúkar nýtast illa í pólitík.

Óhætt er að fullyrða að Samfylkingin er ekki mjög heppin með leiðtoga.

Formaðurinn tekur geðillskuköst með reglulegu millibili og varaformaðurinn fer í fýlu út í útgerðarmenn í Reykjavík.

Fýla er ákveðin tjáningarmáti sem börn notast við, þegar þau lýsa yfir óánægju.

Oftast rjátlast fýlan af með auknum þroska, en sumir varðveita barnið í sér með neikvæðum formerkjum.

Varaformaður Samfylkingarinnar lýsir yfir vanhæfi sínu með því að fara í fýlu og neita að þyggja boð Útgerðarmannafélags Reykjavíkur um að ræða málin. 

Væri einhver manndómur í varaformanninum, þá myndi hann vitaskuld mæta á fundinn, sem formaður borgarráðs og hlusta á sjónarmið útgerðarmanna. Reykjavík er ansi stór útgerðarbær, en það fer sennilega framhjá borgarstjórn Reykjavíkur, þau eru meira upptekin af öðrum málum en þeim sem snúa að hagsmunum Reykvíkinga.

Þegar ágreiningur er til staðar, þá hvílir sú skylda á stjórnmálamönnum að leitast við að leysa hann. Það er best gert með því að mæta á boðaða fundi, segja sínar skoðanir, takast jafnvel á við fundarmenn og sannir leiðtogar vita hvert þeir ætla að stefna og ná oftast að snúa fundum sér í hag. En hvorki formaður né varaformaður SF kemst nálægt því, að vera grunuð um vott af örlitlum leiðtogahæfileikum.

Það er kannski rangt að segja að fýlupúkar nýtist illa í pólitík, þeir nýtast alls ekki eins og dæmin sanna varðandi varaformann Samfylkingarinnar og formann borgarráðs.


Já, þjóðin á að njóta arðsins.

Ef útgerðarmenn eru látnir greiða háar upphæðir í ríkissjóð fyrir að fá að veiða, þá er það slæmt fyrir þjóðina alla og það lækkar tekjur sjómanna.

Þeim sem þekkja ekki til sjómennsku finnst í lagi að lækka tekjur sjómanna, því þær eru nokkuð góðar um þessar mundir. En sjómenn hafa aldrei þekkt föst laun, það hafa þingmenn og ráðherrar þó gert.

Enginn veit hve lengi sjómenn hafa góð laun, meðan hið svokallaða góðæri var í landinu, þá var vonlaust að manna fiskiskip því launin voru svo lág. 

En burtséð frá launum sjómanna, þá er það vitanlega mjög slæmt ef ríkissjóður á að fara að fá miklar tekjur, ríkissjóður á að hafa eins lítið fé og mögulegt er, til þess að halda geta staðið við skyldur sínar.

Nú þegar ætla stjórnarliðar að setja tugi miljarða af væntanlegum tekjum sem koma inn frá útgerðinni, í snarvitlaus gæluverkefni sem kallast atvinnusköpun í boði hins opinbera, en við höfum slæma reynslu af því.

Hinn almenni launamaður hefur aldrei fengið að njóta þess, þótt ríkissjóður bólgni út. Forstjórar ríkisstofnanna fara þá að þrýsta á stjórnmálamenn að hækka framlög til sinna stofnanna því þær séu svo fjársveltar, ekki er ólíklegt að stjórnarliðar launi velgjörðarmönnum sínum hina ýmsu greiða með góðum embættum sem verða búin til og þjóðinni talin trú um, að þetta sé alveg svakalega nauðsynlegt út af ýmsum ástæðum.

Ef það er eitthvað sem við eigum að berjast á móti, þá eru það hækkuð gjöld eða skattar til hins opinbera, hverju nafni sem þeir nefnast.

Heilbrigt fólk á að vinna fyrir sér, ríkið á að sjá um þá sem geta það ekki af eigin rammleik og uppfylla lágmarksskyldur gagnvart borgurunum.

Nú þegar höfum við of dýra stjórnsýslu og það þarf að skera hana niður hið fyrsta.

En að ríkið taki meira til sín, frá hvaða hópi sem er, það kemur ekki hinum almenna launamanni til góða, heldur þeim sem velviljaðir eru stjórnaliðum, þeir eru fáir en fá þó ríkulega greitt fyrir vinsemdina um leið og ríkiskassinn fær fleiri krónur í sinn hlut.


Hárrétt hjá Birni Val.

Björn Valur var lengi til sjós og hann þekkir það mjög vel, að á fiskiskipum er það illa séð að menn séu ekki saman að vinna við að skapa verðmæti.

Vinnulagið á alþingi myndi aldrei virka til sjós. Ríkisstjórnin heimtar ónauðsynlegar aðgerðir, nýja stjórnarskrá og breytingar á stjórnarráðinu, auk þess að eyðileggja útgerðina í landinu.

Ef að einhver væri uppvís að því, að vinna óþörf störf um borð í fiskiskipi og eyðileggja fiskinn, þá yrði viðkomandi öruglega rekinn hið snarasta.

Sjómaðurinn Björn Valur hefur sannarlega rétt fyrir sér, vinnulagið á alþingi í boði ríkisstjórnar Íslands þætti óboðlegt til sjós.

Hinsvegar efast ég um að skipstjóri eða útgerðarmaður myndi reka þann sem bendir á nauðsyn þess að gera að aflanum og koma honum í verð, yrði rekinn.

Stjórnarandstaðan hefur einmitt verið að benda á, að nauðsynlegt er að skapa jarðveg fyrir fjárfestingu og búa til aðstæður þar sem atvinnulífið getur blómstrað.

Örugglega myndi skynsamur útgerðarmaður vilja hafa áhöfn sem hugsaði fyrst og fremst um aflann og koma honum í verð heldur en áhöfn sem væri að huga að trollinu og dytta að skipinu, á meðan myndi fiskurinn rotna í mótttökunni. 


mbl.is Vinnulag sem ekki væri tekið gilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin þarf að efla sjálsftraustið.

Okkur vantar fátt annað en aukið sjálfstraust til að vinna okkur upp úr lægðinni. Það er reyndar erfiðara að finna sjálfstraustið þegar við búum við leiðtoga sem eru kjarklausir og þjást af minnimáttarkennd, en ekkert er ómögulegt ef viljinn er fyrir hendi.

Við höfum sýnt það og sannað að okkur er fátt ómögulegt.

Vitanlega hefði verið notalegt að vera í skjóli Dana og leyfa þeim að stjórna. Danmörk er ágætis ríki og þeir voru löngu hættir að kúga okkur þegar lýðveldið var stofnað. Ekki var einhugur um það, að slíta sambandinu við Dani, en sem betur fer áttum við eldhuga sem blésu okkur bjartsýni í brjóst og fengu þjóðina í lið með sér, það gerðist kraftaverk við stofnun lýðveldisins.

Ekki var hægt að segja að efnahagurinn hafi verið öflugur á fyrstu áratugum liðinnar aldar, fiskveiðar hafa alltaf verið veikur grunnur auk þess höfðum við ekki margar aldir til að byggja okkur upp eins og nágrannaþjóðirnar.

Stríðsgróðinn var drjúgur en hann einn og sér hafði lítið að segja, þegar hafin var uppbygging á því góða þjófélagskerfi sem við þekkjum í dag. Með stórkostlegri útsjónarsemi og bjartsýni tókst stjórnmálamönnum allra flokka að lyfta Grettistaki og koma okkur í flokk með fremstu þjóðum heims á flestum sviðum.

Mjög er í tísku að tala um íslenska stjórnmálamenn á neikvæðum nótum og telja þá verri en útlenda. Samt hefur þeim tekist að skapa og viðhalda góðu veferðarkerfi allar ghötur frá lýðveldisstofnun.

Það þurfti góða samningaleikni til að fá Marshallaðstoðina á sínum tíma, vitaskuld nýttu menn mikilvægi Íslands fyrir Bandaríkjamenn á þessum tíma. Af einskæru harðfylgi tókst okkur að öðlast gott lánstraust og öðlast virðingu heimsins.

Okkur efnahagsundirstöður eru mjög veikar, lengst af var fiskurinn ekki seldur á háu verði og aflabrestur hafði stundum sitt að segja. Samt hefur okkur tekist með þrjóskunni að komast af.

Það eru ekki bara stjórnmálamennirnir sem hafa skapað þetta góða samfélag, þjóðin er að sama skapi kröftug og dugmikil. Það var vitaskuld frábærum læknum að þakka, að ungbarnadauði er með því minnsta sem þekkist í heiminum, við eigum mikið af hæfileikafólki á öllum sviðum, á sumum sviðum eigum við fagfólk á heimsmælikvarða.

En það að státa af mikilli orku getur haft bæði jákvæðar og neikvæðar birtingarmyndir.

Þegar það koma leiðtogar sem tala allt niður og væla í fjölmiðlum, of stór hluti þjóðarinnar heldur að við getum ekki stjórnað okkur sjálf og sundrung ríkir, þá eigum við ekki mikla von.

En ef við eflum samkenndina og hvetjum hvert annað, verðum jákvæð og bjartsýn, þá nýtum við orkuna vel og getum hæglega komist í hóp fremstu þjóða veraldar. Þjóð sem af litlum efnum komst út úr torfkofum í nútíma hýbýli, fór af árabátum á tæknivædd fiskiskip, á tæpum mannsaldri, getur vitaskuld sigrast á þessari kreppu eins og hendi væri veifað.

Vilji er allt sem þarf.


Hver á fiskinn í sjónum?

Umræðan um sjávarútvegsmál er á svo miklum villigötum, ESB þjóðirnar þykjast eiga makrílinn og vísa í lög og reglur máli sínum til stuðnings, svo eru íslendingar að rífast um, hvort útgerðarmenn eigi fiskinn eða þjóðin.

Bændur eiga sín dýr, því þeir hirða þau og fæða. En það hirðir enginn um að fæða fiskinn í sjónum, enda er það eflaust ekki hægt. 

Fiskurinn í sjónum er villt og ótamin skepna, það á engin þjóð villtan fisk í sjó og heldur engir útgerðarmenn.

Það er undarlegt að vinstri menn, sem þykjast vera miklir náttúruverndarsinnar og segjast bera mikla virðingu fyrir öllu sem lifir, skuli voga sér að segja að einhver eigi villtan fisk í sjó.

Það þarf að breyta áherslum í þessaru umræðu, bæði á Íslandi og í öðrum löndum líka.

Við eigum hafsvæðið í kring um landið og höfum nýtingarréttinn á því.

Veiðar eru keppni á milli fisks og manns. Fiskur sem kemur í íslenska landhelgi má búast við að vera veiddur ef hann nær ekki að forða sér, en við sjómenn þekkjum það að fiskurinn nær oft að forðast veiðarfærin.

Það ruddist makríll inn í landhelgi okkar og ESB þykist eiga hann. Það hljómar kannski við lögin, en stenst ekki raunveruleikann.

Makríllinn tekur æti frá þeim fiskum sem við viljum hafa í landhelginni og það skaðar okkar hagsmuni.

Að sjálfsögðu eigum við sem fiskveiðiþjóð að tala á móti þessari vitleysu, að einhver geti átt fiskinn í sjónum.

Hver þjóð sem hefur viðurkenda landhelgi má að sjálfsögðu veiða þann fisk sem kemur í hana, án þess þó að stunda rányrkju og eyðileggja stofninn, slíkt er engum til góðs.


Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar?

Jóhanna Sigurðardóttir ritaði grein í Fréttablaðið þann 19. maí síðastliðinn.

Fátt kemur á óvart í greininni, hún er í svipuðum stíl og annað sem hún skrifar, en eitt vekur þó athygli.

Hún hrósar Guðmundi Steingrímssyni fyrir eyðslusemina og titlar hann sem þingmann Bjartrar framtíðar.

Varla getur Björt framtíð átt þingmann áður en flokkurinn setur upp framboðslista og fer í gegn um kosningar. 

 

Óhætt er að segja með sanni, að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi yfirgripsmikla og mjög víðtæka vanþekkingu á flestu sem að hennar starfi snýr. 


Hvað er það besta við Sjálfstæðisflokkinn?

Það sem mér finnst best við Sjálfstæðisflokkinn er, að hann var stofnaður með bjartsýni og trú að leiðarljósi og hann, einn flokka á Íslandi, hefur það í sinni stefnuskrá, að hafa hagsmuni allra stétta að leiðarljósi.

Hinir flokkarnir voru hinsvegar stofnaðir sem hagsmunabandalög einnar stéttar, verkalýðsstéttarinnar.

Mín skoðun fellur ekki að hefðbundinni stjórnmálafræði, en hún er að hagsmunabandalög eiga ekki að koma að stjórn landsins. 

Stjórnmálamenn eiga að hefja sig upp yfir hagsmunabaráttu hinna ýmsu stétta og huga að heildarhag þjóðarinnar. Það er snúið verkefni, því erfitt er að framkvæma þetta í reynd, en alls ekki ómögulegt.

Hlutverk stjórnmálamanna á að vera að sjá til þess að borgararnir njóti verndar fyrir óvönduðum samborgurum sínum, sjá um að greiða fyrir lágmarksmenntun, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og skaffa okkar minnstu bræðrum og systrum peninga sér til framfærslu.

Hagsmunabandalög atvinulífsins semja svo sín á milli um kaup og kjör, ríkið kemur þar hvergi að málum, en hinsvegar er nauðsynlegt að hægt sé að leita til stjórnvalda ef þörf er á að miðla málum og koma til móts við deilendur með hefðbundum lausnum, skattalækkunum osfrv.

Eflaust er þessi skoðun mín tilkomin vegna þess að við höfum mjög slæma reynslu af því að hleypa flokkum sem stofnaðir eru sem hagsmunasamtök að stjórn þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokurinn hefur virkað best af öllum flokkum, þrátt fyrir hliðarspor og mistök, sennilega vegna þess að stefnu sinnar vegna þá er hann ekki bundinn við neina ákveðna stétt.


"Nýja Ísland" boðar ekki gott.

Ég er þannig gerður, að fyrir mér eru allir menn jafnir og sýna ber öllum sömu virðingu, en þeim er boða "Nýtt Ísland" þykir í lagi að kalla fólk glæpahyski og spillingargosa, án þess að geta sannað sitt mál með fullnægjandi hætti.

Þeim finnst líka í lagi að rakka niður persónur ef þær tengjast Sjálfstæðisflokknum, en það er vitanlega argasta ranglæti, því allir eiga að njóta sömu virðingar eins og boðað er í siðmenntuðum ríkjum.

Boðberar "Nýja Íslands" vildu lögsækja Geir H. Haarde og helst fleiri ráðherra og mörgum í þesum hópi leið óskaplega vel þegar hann var færður fyrir rétt.

Mér leið illa, því ég sá mann, fullan af kvíða sem nýlega hefur gengið í gegn um mikla erfiðleika og þurft að takast á við þann harða dóm, að bera krabbamein í líkama sínum. Sami maður er þekktur af heiðarleik og vandvirkni í sínum störfum.

Mér hefði liðið jafnilla við að horfa upp á Jóhönnu eða Steingrím í sömu aðstæðum.

Reynt var að benda á, að hann hafi getað gert margt öðruvísi og ýmsar tillögur komu fram, en ekki tókst að sýna fram á að þessar aðgerðir hafi verið framkvæmdar allar í öðrum löndum og komið þar í veg fyrir hrun.

Vel getur verið að sumar aðgerðir aðrar hefðu dugað betur, en fáheyrt er að menn bregðist rétt við öllu í fordæmislausum aðstæðum, en viðurkennt er af flestum að Geir tók farsælar ákvarðanir í kjölfar hrunsins.

Geir var dæmdur saklaus og Landsdómur gekk sem betur fer í berhögg við dómsstól götunnar sem ætti að leggja niður hið fyrsta.

Þeir sem hæst boða nýtt Ísland eru flestir byltingarsinnaðir og vilja umbylta öllu á Íslandi. Þeir viðhafa málflutning sem byggður er á huglægu mati og sleggjudómum, í stað þess að leita staðreynda með yfirveguðum hætti.

Ég vil ekki búa á "Nýja Íslandi", en ég vil betrumbæta "Gamla Ísland", því í grunninn er það friðsælt og gott.


Svona eru ærlegir stjórnmálamenn.

Jón Gnarr verður seint í hópi farsælustu stjórnmálamanna þjóðarinnar, en hann er óneitanlega ærlegur maður sem stendur við það sem hann segir.

Hann lofaði því að svíkja loforð og einnig sagði hann hreint út, að hann væri að leita sér að þægilegri innivinnu og góðum launum.

Hann sveik loforðin um frítt sund fyrir alla og ókeypis afnot af handklæðum, einnig bólar ekkert á ísbirninum í húsdýragarðinn. Hinn mikli og eldheiti hugsjónamaður hefur ekki svikið sínar hugsjónir, heldur er hann ennþá á fullu að vinna í að láta þær verða að veruleika.

Hann hefur fjölgað í stjórnsýslu borgarinnar til að létta sér störfin, einnig hefur hann barist fyrir því, að fá annan borgarstjóra, því eins og hann benti á í sinni kosingabaráttu, þá er honum ekkert sérstaklega vel við að vinna of mikið.

Þetta er stjórnmálamaður sem bregst ekki sínum kjósendum.


mbl.is Engin hagræðing af breytingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju er hægt að lofa og hvað er hægt að standa við?

Þegar líða tekur að kosningum, þá stökkva stórnmálamenn á kjósendur og lofa því, að þeir muni sjá til þess að opinberu fé verði varið til að létta þeim lífið á allan hátt.

Kjósendur eru svo meðvirkir, þeir eru glaðir með stjórnmálamenn sem lofa hærri barnabótum, húsaleigubótum og vitanlega vaxtabótum og ef stjórnmálamenn standa við eyðsluloforðin, þá eru þeir elskaðir af kjósendum sínum og þeir glöðustu setja myndir af þeim á náttborðið sitt.

Ég man eftir því, þegar vinstri stjórnin var við völd sem ríkti á undan Viðeyjarstjórninni, þá var um tíma ókeypis að leita sér læknisaðstoðar á heilsugæslustöðvum.

Einn góður og gegn framsóknarmaður sagði mér, að þetta væri ástæðan fyrir því að fólk ætti að kjósa Framsóknarflokkinn, frí heilbrigðisþjónusta.

En það var ekki lengi, enda hefur ríkissjóður mjög takmarkað fjármagn.

Ábygir stjórnmálamenn notast ekki við "ég býð og þú borgar" pólitík, heldur bera þeir virðingu fyrir peningum fólksins sem þeir starfa í umboði fyrir. Þeir fara gætilega í skattamálum og sýna borgurunum þá kurteisi og sjálfsögðu tillitssemi, að lofa þeim að ráðstafa peningunum sem þeir vinna sér inn, að eins miklu leiti og mögulegt er.

Ábyrgir stjórnmálamenn vita líka sem er, að styrkir til fólks sljóvga sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar, fólk verður háð greiðslum frá hinu opinbera, svo þegar kemur samdráttur og nauðsynlegt er að skera niður, þá lækka bæturnar eða jafnvel hverfa.

Heilbrigt fólk á ekki að fá styrki frá hinu opinbera, en nauðsynlegt er að greiða niður ýmsa þjónustu sem er óviðráðanlegt fyrir flesta að greiða úr eigin vasa. 

Ábyrgir stjórnmálamenn vita að atvinna er besta lausnin til að skapa velferð og hún er líka varanleg. Með tímanum er hægt að skapa fyrirmyndarsamfélag á Íslandi, ef stjórnmálamenn sýna festu og ábyrgð, eyða eins litlu úr ríkissjóði og mögulegt er og þá stefnu má ekki svíkja þótt ríkissjóður verði svo stöndugur, að annað eins hefur aldrei sést.

Það er sama hversu há upphæð safnast í ríkissjóð, það er mjög auðvelt að eyða henni allri á skömum tíma, ef stjórnmálamenn hlaupa eftir kröfum hinna ýmsu hagsmunaaðila og þrýstihópa.

Það þarf að setja í lög, hörð viðurlög við því að svíkja út bætur, því við þurfum að geta séð fyrir þeim sem geta það ekki sjálfir og það er alvarlegur glæpur að þiggja óverðskuldaðar bætur, slíkt takmarkar tekjur þeirra sem eru raunverulega ósjálfbjarga.

Það er hægt að lofa því að spara eins mikið og mögulegt er, hafa skatta í algjöru lágmarki og lofa að standa ekki í vegi fyrir atvinuskapandi verkefnum í einkageiranum.

Það eru loforð sem auðvelt er að standa við, ekki þarf að afsaka sig með forsendubresti því alltaf eru forsendur fyrir ábyrga efnahagsstjórn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband