Laugardagur, 19. maí 2012
Eru þau að komast í kosningagírinn?
Sú undarlega hugmynd stjórnarliða að setja stórfé í atvinnuskapandi verkefni er ekki réttlætanleg á þeim tímum, sem ríkja í íslensku efnahagslífi um þessar mundir.
Fyrirhugað er að taka ca. 4. ma. af því sem kemur vegna hækkunar auðlindargjalds, svo á að taka söluhagnaðinn sem hugsanlega kemur ef og þegar ríkið hefur sölu á sínum hlutum í bönkunum.
Þau vilja efla grænt hagkerfi og deila upphæðinni á milli flestra sveitarfélaga á landinu, einnig er hugað að fleiri atvinnuskapandi verkefnum.
Það að hætta miklu fé, í áhættusaman rekstur, sem óvíst er að skili hagnaði er vitaskuld glapræði og sérstaklega á tímum, þar sem ríkissjóður er stórskuldugur og mikil óvissa ríkir vegna dóma varðandi hin ólögmætu gengislán.
Ef stjórnaliðar hefðu lágmarks þekkingu á efnahagsmálum, þá myndi þeim ekki detta til hugar að fara út í svona vitleysu.
Vitaskuld á að geyma peninga til að mæta kostnaði sem fellur á ríkið vegna dóma um gengislánin, einnig væri stórsniðugt að nýta einhvern hluta til að greiða niður skuldir.
Atvinnulífið á að fá tækifæri til að vaxa, það gerir ríkisstjórnin best með því að þvælast ekki fyrir stóriðjuframkvæmdum og gæta þes að pína ekki sjávarútvegsfyrirtæki í drep.
Ekki er langt síðan að stjórnarliðar sögðu, að ríkið ætti ekki að skapa störf, en hvað hefur breyst hjá þeim?
Ætli ástæðan geti verið sú, að það fer að styttast í kosningar og þau kunna ekkert annað en að lofa því að eyða peningum til að gleðja kjósendur?
Illa gengur þeim að sannfæra þjóðina um getu sína til að stjórna og einnig trúa mjög fáir á þeirra stefnu, þannig að óábyrg eyðslupólitík er hugsanlega þeirra eina von.
Vonandi hafa kjósendur fengið nóg af eyðsluseggjum í valdastólum og óska þá eftir þeim, sem vilja spara, skera niður og hagsræða, auk þess að skapa jarðveg, án fjárútláta, handa fyrirtækjum til að vaxa og dafna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Miðvikudagur, 11. apríl 2012
Hvað er jákvætt við Jóhönnu og Steingrím?
Mikið hefur verið ritað og rætt um Jóhönnu og Steingrím á mjög neikvæðum nótum og það er ekki til fyrirmyndar.
Allir eiga að njóta sannmælis og það sama á við um þau, það hafa allir einhverja kosti.
Ef við skoðum Jóhönnu til dæmis, þá hún hefur eitt það, sem marga stjórnmálamenn skortir, en það er að horfa til framtíðar og festast ekki í baksýnisspeglinum.
Hún horfði til framtíðar strax í upphafi kjörtímabilsins og lofaði þúsundum starfa árið eftir. Það gekk reyndar ekki upp, en þá horfði hún ekkert í baksýnisspegilinn, heldur beint fram á veginn og lofaði sama fjölda starfa og bætti slatta við. Ekki gekk það nú eftir, en gæðakonan með rétlætiskenndina óvanalega sterku lét ekki teyma sig inn í fortíðarhyggju. Með sinn alþekkta sannfæringarkraft að leiðarljósi bætti hún um betur og lofaði þúsundum starfa í viðbót við hin og auknum hagvexti í kaupbæti.
Svo er það Steingrímur, hann er mikill málafylgjumaður og fylgir sínum prinsippum mjög fast eftir.
Hann var mikið á móti veru AGS hér á landi og það var hans bjargfasta sannfæring, sem enginn gat fengið hann ofan af. Svo fékk hann sannfæringu fyrir því, að AGS ætti að vera hér á landi um hríð, þá var það svo einlæg sannfæring hjá honum, að enginn mannlegur máttur gat haggað því og svei mér þá, ætli himnafeðgarnir hefðu ekki átt í vandræðum með það líka.
Icesave vildi hann alls ekki borga og stóð mjög fast á því. Taldi hinn mjög svo stefnufasti dugnaðarforkur það lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina og sig að komast til valda til að koma í veg fyrir að þjóðin yrði skuldbundin til að greiða fyrir skuldir einkafyrirtækja, það var hann bjargfasta sannfæring um tíma.
Svo fékk hann nýja sannfæringu fyrir Icesave, nú átti þjóðin að borga skuldina að fullu og var sú sannfæring ekki minna bjargföst en hin fyrri.
Það að horfa til framtíðar og standa fast á prinsippum eru dýrmætir eðliskostir og það er óumdeilt, að þau Steingrímur og Jóhanna hafa þessa góðu kosti í ríkum mæli.
Segið þið svo að það sé ekki hægt að tala vel um pólitíska andstæðinga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Miðvikudagur, 11. apríl 2012
Hvernig gerum við upp hrunið?
Margir fárast yfir því, að enginn hafi beðist afsökunar á neinu varðandi hrunið og þess vegna sé ekki hægt að framkvæma almennilegt uppgjör. Svo segja þeir hinir sömu oft, að stjórnmálamenn séu í afneitun, bankamenn líka eða að þetta sé alltsaman siðspillt lið.
Erfitt er að fá botn í það, hvort ofangreindar fullyrðingar standist. Fólk hefur æði misjafna sýn á hlutina, það sem einum finnst glæpur þykir öðrum vera hið besta mál.
Þes vegna hafa þjóðir komið sér upp löggjöf sem sker úr um, hvað sé glæpur og hvað ekki. Það geta aldrei allir verið sammála túlun laganna, enda eru þau ekki fullkomin, en þau eru það besta sem fundið hefur verið upp, til þess að ákvarða sekt eða sýknu.
Ef við viljum raunverulega gera upp hrunið, þá þarf að skoða hvað við getum lært af því. Svo treystum við sómsstólum til að ákvarða hverjir eru glæpamenn.
Græðgin tröllreið heiminum á árunum fyrir hrun. Við þurfum að gæta okkar á henni, sýna skynsemi í fjárfestingum og ekki reisa okkur hurðarás um öxl.
Stjórnmálamenn verða að gæta sín á að mynda ekki of sterk tengsl við hagsmunahópa, heldur að reyna að þjóna heildinni, þeir þurfa að setja skýrar og einfaldar reglur varðandi fjármálastarfsemi. Setja þarf lög þess efnis, að bankar finni leiðir til að tryggja innistæður, ríkið á ekki að vera neina ábyrgð varðandi þær.
Stjónmálamenn eiga ekki að koma nálægt framkvæmdum á einkavæðingu ríkisfyrirtækja, best er að fá óháða aðila til þess, helst erlend fyrirtæki til að koma í veg fyrir tortryggni.
Þjóðin öll þarf að rækta sinn garð, tóna niður umræðuna og leitast við að skapa sátt.
Uppgjörið við hrunið tekst ekki, þótt allir þingmenn sem sátu á alþingi fyrir hrun yrðu settir í fangelsi, ekki heldur þótt allir stjórnendur hinna föllnu banka fengju að dúsa í steininum með stjórnmálamönnunum.
Það eina sem gerist í refsiglöðu umhverfi er, að fleirum verður refsað en ekkert breytist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 3. apríl 2012
Þjóðin þarf öflugan Sjálfstæðisflokk.
Sjálfstæðisflokkurinn má muna fífil sinn fegri, hann hefur ekki góða ímynd hjá meginþorra þjóðarinnar. Kannski má segja að það sé ekki mjög sanngjarnt, því umræðan er ákaflega illvíg um þessar mundir, mikil dómharka í gangi og ýmiskonar þvættingur hefur fengið að festast í sessi.
Það er verkefni Sjálfstæðisflokksins að bæta úr því.
Það skiptir engu máli hvort ásakanir á hendur einstökum fulltrúum flokksins eru sannar eða lognar, þær eru til staðar og þær hverfa ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn skapaði þetta umhverfi með því að taka öllu þegjandi sem vinstri flokkarnir hafa sagt um verk hans og einstaka þingmenn. Þegar fólk ver sig ekki, þá endar með því að það verður barið niður og þá getur verið erfitt að standa upp, en ekki ómögulegt.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að efna til funda í kring um allt land, hvetja fólk til að tjá sig með hreinskilnum hætti og hlusta. Þetta verða erfiðir fundir, ef fólk lætur allt koma fram. Þeir sem þurfa að svara fyrir flokkinn þurfa að vera sterkir og með allt á hreinu, geta svarað öllum erfiðu spurningunum sem koma fram.
Ágætt væri að lesa rannsóknarskýrsluna nokkuð vel, hún útskýrir margt og getur leiðrétt margar rangfærslur í umræðunni, hún er ekki flokknum í óhag að öllu leiti.
Við sjálfstæðismenn verðum að kannast við þá staðreynd, að hagstjórnin hefur ekki gengið nógu vel í okkar tíð. Eyðslan var of mikil, ríkisstjórn sjálfstæðismanna jók þenslu á meðan Seðlabankinn leitaðist við að minnka hana. Við verðum að þora að horfast í augu við mistökin og læra af þeim.
Einnig er hægt að koma því á framfæri, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert margt mjög vel, þanig að hin langa valdatíð, frá árinu 1991 var ekki stanslaus hörmungarsaga eins og tíð núverandi ríkisstjórnar, raunar gerðu sjálfstæðismenn fleira rétt en rangt á meðan þessi ríkisstjórn gerir fleira rangt en rétt.
Svo þegar málin hafa verið gerð upp og flokkurinn lofað bót og betrun, þá þarf hann í auðmýkt, næstum því að grátbiðja þjóðina um tækifæri til að sanna sig, aðeins eitt tækifæri og ef það klúðrast, þá á hann ekki skilið að fá traust kjósenda á ný.
Sjálfstæðisflokkurinn á að lofa því, að viðhafa ábyrga fjármálastjórn. Það þarf að skera niður allan óþarfa og hið opinbera á að vera rekið með lágmarkstilkostnaði.
Öll opinber störf sem mögulegt er að vera án, þarf að leggja af eins fljótt og auðið er. Vitanlega er eki hægt að gera allt í einu, en flokkurinn þarf að setja sér skýr markmið, sem hann veit að hægt er að standa við.
Of mikill loforðaflaumur eyðileggur góðan ásetning, því kjósendur hafa fengið nóg af innihaldslausum loforðum.
Það þarf að segja þjóðinni hvað er raunhæft að gera, miðað við tekjur ríkissjóðs. Einnig þarf að lofa kjósendum því, að opna allt upp á gátt, varðandi fjármál og eyðslu ríkissins, þannig að ef upp koma kröfur um kostnaðarsöm verkefni, þá ber að útskýra með sannfærandi hætti, hvers vegna það er ekki hægt.
Ef stjórnmálamenn eru heiðarlegir og ræða við þjóðina með opinskáum hætti, þá öðlast þeir traust hjá kjósendum þessa lands.
Sjálfstæðisstefnan hefur alltaf dugað best og hún mun gera það áfram. Sjálfstæðisstefnan í sinni tærustu mynd slær í takti við hjarta hinnar íslensku þjóðar.
Ef við berjumst af öllu okkar afli, fyrir vexti og viðgangi sjálfstæðisstefnunnar og ef hún nær glæstum sigri í komandi kosningum, þá er hægt að fullyrða það, að þjóðinni mun vegna vel um ókomna tíð. Þ.e.a.s. ef sjálfstæðismenn gleyma ekki stefnunni sem þeir eru kosnir til að framfylgja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mánudagur, 2. apríl 2012
Hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn?
Í upphafi vil ég taka það fram, að ég get ekki svarað fyrir þingmenn eða forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég hef talað fyrir því að forysta flokksins láti fara fram hreinskilið uppgjör og að kjósendum verði gefinn kostur á að mæta og spyrja erfiðra spurninga.
Þeir sem grunaðir eru um vafasama hluti eiga að svara fyrir sig sjálfir.
Saga mín í hinni pólitísku umræðu er stutt, styttri en margir lesendur mínir augljóslega halda, einnig tengsl mín við Sjálfstæðisflokkinn.
Ég skráði mig í flokkinn árið 1986, bæði vegna þess að mér leist ágætlega á að kjósa hann og einn góður vinur minn þurfti á atkvæði að halda í prófkjöri sem haldið var það ár.
Ég hef lítið tekið þátt í pólitískri umræðu í gegn um tíðina, en vitanlega haft skoðanir eins og flestir hafa. En ég var ekkert sérstaklega sanntrúaður sjálfstæðismaður, mér fannst ekkert mál að samþykkja það, að hinir flokkarnir gætu haft eitthvað gott til málanna að leggja. Ég var svona tiltölulega víðsýnn í skoðunum og er það reynda enn.
Það sem að fékk mig til að taka fullan þátt í umræðunni var raunverulega hrunið á haustmánuðum 2008.
Heibrigð skynsemi sagði mér að það væri einfaldlega rangt að hengja þetta allt á Sjálfstæðisflokkinn, hann var aldrei einn í ríkisstjórn, mér fannst umræðan hjá Samfylkingunni hafa falskan hljóm, þau voru jú í stjórn með sjálfstæðismönnum.
Þá sá ég það að sjálfstæðismenn gátu ekki varið sig. Ég hef aldrei þolað það, þegar ráðist er á fólk með ósanngjörnum hætti, þannig að ég byrjaði ótrauður að verja flokkinn á síðari hluta ársins 2009.
Það er gaman að því, þegar fólk heldur því fram, að ég láti forystuna og Valhöll mata mig á upplýsingum.
Ég þurfti að beita suma þingmenn flokksins hörðu, skömmu eftir hrun, til að fá þá til að sjá, að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki alslæmur, sjálfstraustið var í molum.
En nóg um það, ég er ekki að berjast fyrir einstaka þingmenn né heldur forystuna. Vissulega ver ég þá sem mér finnst ráðist á, með ósangjörnum hætti. Ég hef varið bæði Jóhönnu og Steingrím þegar mínir flokksfélagar hafa sakað þau um óheiðarleik og spillingu. Það á enginn skilið slíkar sakagiftir nema að undangenginn vandaðri rannsókn og dómi í framhaldi af henni.
En þegar ég kynnti mér sögu Sjálfstæðisflokksins og vark hans, bar það saman við sögur og verk hina flokkana, þá varð ég sannfærður um það, að enginn kæmist í hálfkvist við Sjálfstæðisflokkinn.
Sjálfstæðismenn hafa reyndar ekki staðið sig nógu vel í hagsstjórninni, en engu að síður mun betur en hinir flokkarnir sem í boði eru. Einnig hafa þeir verið klaufar í samskiptum við kjósendur sína, það er ansi stór galli.
Hinsvegar styð ég forystuna og alla flokksmenn í því, að styrkja grunn sjálfstæðisstefnunnar og fá hana til að blómstra.
Að lokum langar mig til að nefna eitt dæmi sem sýnir yfirburði sjálfstæðisstefnunnar í verki.
Á lýðveldistímanum hefur aldrei verið einn flokkur við völd, þótt það megi finna dæmi um það, en það var svo skammur tími í senn, þannig að slík dæmi eru ekki marktæk.
En fyrir daga lýðveldisins þá ríkti stjórn Íhaldsflokksins í okkur ár og JónÞorláksson var fjármálaráðherra í þeirri ríkisstjórn.
Segja má, í anda amerískra bíómynda, að Jón Þorláksson hafi verið sjálfstæðisstefnan. Hann var líka höfundur hennar, ásamt öðrum og hann vék ekkert frá þeirri stefnu.
Árið 1924 gerði þensla vart við sig í íslensku efnahagslífi. Í stað þess að auka ríkisútgjöld og gleðja kjósendur, þá skar hann niður ríkisútgjöld og greiddi niður skuldir. Flestir eru sammála um að Jón Þorláksson hafi unnið mikið afrek á þessum tíma, enda vann hann í anda sjálfstæðisstefnunnar.
Svo minnkaði þenslan og það kom samdráttur. Þá stuðlaði Jón að opinberum framkvæmdum, setti tímabundinn halla á ríkissjóð, til að halda uppi hagvexti í landinu.
Þetta er rétt fjármálastjórn, en því miður hafa sjálfstæðismenn ekki fylgt þessari góðu stefnu Jóns Þorlákssonar í hvívetna, en þeir sýndu vissulega lit með því að greiða niður skuldir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 2. apríl 2012
Ég er að íhuga framboð til alþingis.
Fyrir skömmu tilkynnti ég þá ákvörðun mína, að gefa kost á mér til þingstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er nauðsynlegt að undirbúa sig vel, þess vegna nota ég þessar leiðir, skrifa um það á þessari síðu og á Pressunni.
Ég hef ekki hugsað mér að ílengjast lengi á þingi, hljóti ég brautargengi. Mér finnst engin ástæða fyrir mig og þjóðina, að sitja lengur en tvö kjörtímabil að hámarki.
Ástæðurnar fyrir því eru margar, en aðal ástæðan er sú, að ég hef mikla þörf fyrir að efla tengslin við eiginkonuna mína og börnin mín. Eftir tvö kjörtímabil verða börnin mín væntanlega búin að redda mér barnabörnum til að dekra við og gefa þeim það, sem ég gat ekki gefið foreldrum þeirra. Fyrir mörgum árum lagði ég grunn að því, að geta hætt að vinna sextugur. Eftir tvö kjörtímbilverða örfá ár í þann áfanga og mun ég þá væntanlega leita ásjár hjá vinum mínum í skipstjórastétt og fá að taka túr og túr, þar til að ég næ sextugasta aldursárinu.
Þingmennskan er erfitt starf og hún krefst þess, að maður fórni öllu einkalífi og sé í raun giftur starfinu. Ég mundi aldrei vilja sitja á þingi, nema að hafa skýr markmið og geta látið mikið að mér kveða. Þingmenn verða að vera í reglulegu sambandi við kjósendur, það er eflaust oftast gaman, en verður samt lýjandi til lengdar, að vera ofsetinn um of.
Ég mun kappkosta að skrifa greinar og blogga til að segja frá mínum störfum, eins mun ég leita til margra varðandi ráðleggingar.
Einn maður hefur aldrei svör við öllu, þess vegna er mikilvægt að hafa hóp í kring um sig, með fjölbreytta þekingu og reynslu af hinum ýmsu málum.
Kjósendur eiga að veita stjórnmálamönum aðhald. Þótt menn telji sig vera á réttri leið, þá er auðvelt að tapa sér í hraðanum sem einkennir stjórnmálin.
Það er mjög auðvelt að misstíga sig á hinu flughála svelli stjórnmálanna, en eitt loforð ætla ég sannarlega að gefa og það mun ég standa við.
Ég mun aldrei sitja á þingi í andstöðu við þjóðina, ég er of stoltur til þess.
Ef ég bregst þeim væntingum sem kjósendur gera til mín, þá verðskulda ég ekki þeira umboð.
Það er mitt að halda góðu sambandi við kjósendur, ég verð að bera ábyrgð á mínum málflutningi og það er í mínum höndum hvort ég viðheld traustinu eða ekki.
Það er ekkert nýtt hjá mér að koma eð marga pistla eftir mislöng frí frá bloggheimum, lesendur mínir þekkja það.
Ég mun semsagt skrifa fleiri pistla á næstunni og leitast við að útskýra mínar áherslur enn frekar og viðra mínar skoðanir á því, hvaða kröfur ég geri til stjórnmálamanna og þá til mín, ef ég kemst í þann hóp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. mars 2012
Sjómenn eru alltaf í námunda við dauðann.
Þessi sorgarfrétt af banaslysinu um borð í Sigurbjörgu ÓF vekur mann til umhugsunar varðandi öryggismál sjómanna.
Vissulega má ekki gleyma því, að Slysavarnaskóli sjámanna hefur unnið frábært starf og ekki er vafi á, að hægt er að þakka þeim að stórum hluta þá staðreynd, að banaslysum á sjó hefur fækkað umtalsvert.
Ekki veit ég hvað olli dauða mannsins á Sigurbjörgu, en sannarlega sendi ég fjölskyldu hans mínar dýpstu og einlægustu samúðarkveðjur, sannarlega deili ég sorginni með þeim.
Svona fréttir hreyfa að sjálfsögðu við mér, því ég veit að dauðinn er alltaf nálægur okkur úti á sjó. Maður þarf stöðugt að vera á varðbergi, því hætturnar leynast víða.
Á niðurskurðartímum er það mikilvægt fyrir stjórnvöld að vita, að ekki má skera niður varðandi öryggismál sjómanna, það þarf frekar að bæta í, ef eitthvað er.
Þyrlumálin hafa ekki verið í nógu góðu standi, en þeir sem við þau mál starfa eru til fyrirmyndar.
Seint á síðasta ári þurftum við á aðstoð þyrlunnar að halda,það varð slys um borð en sem betur fer ekki lífshættulegt.
Það var tilkomumikið að sjá þyrluna koma, þeir voru eldsnöggir að hífa hinn slasaða um borð, jafnvel þótt það hafi verið leiðinda bræla.
En ég þekki líka eitt dæmi sem hefði getað endað illa.
Sjómaður fékk hjartaáfall um borð í togara og þyrlan var ekki tiltæk. Skipið þurfti að sigla með manninn til hafnar, í heila sex tíma.
Það var ekki stjórnvöldum að þakka, að maðurinn lifði.
Stjórnvöldum ver skýlaus skylda til að hafa þessi mál í lagi. Það þarf alltaf að vera tiltæk þyrla, því skip hætta ekki við að sökkva þegar þyrlan er í reglubundnu eftirliti og engin önnur til að leysa hana af hólmi.
Sem betur fer þá höfum við upplifað ár, þar sem ekkert banaslys var á sjó.
Við getum aldrei komið í veg fyrir banaslys á sjó, en það er nauðsynlegt að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að fækka þeim.
Sjómaðurinn látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. mars 2012
Sumir hneggja eins og hestar.
Sumir hneggja eins og hestar, aðrir gelta sem hundar og þónokkrir mjálma eins og kettir.
Já, það er margbreytilegt mannlífið á Íslandi, en öll elskum við þó Davíð Oddsson og Guð almáttugan skapara himins og jarðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Sunnudagur, 18. mars 2012
Hvernig fólk býr á Íslandi?
Íslendingar eru margir dökkir á hörund, þónokkrir eru gulir á lit og eiga ættir að rekja til Asíu.
Margir íslendingar starfa sem rafvirkjar, einnig starfa sumir við pípulagnir.
Margir íslendingar hafa gaman af að teikna og mála, einnig hafa margir gaman af að prjóna lopapeysur.
Þessi lýsing á íslendingum er í ætt við skrif margra í bloggheimum.
Það er ekki hægt að neita því að margir íslendingar eru dökkir á hörund og sumir eru gulir og ættaðir frá Asíu, en það er ekki tæmandi lýsing á íslensku þjóðinni og langt frá því að gefa rétta mynd af henni.
Einnig er það rétt að margir starfa við rafvirkjun og pípulagnir, þótt þeir séu ekki stór hópur miðað við heildarfjölda þjóðarinnar.
Umræðan í bloggheimum einkennist því miður af ýmsum fullyrðingum, sem eru ekki endilega ósannar en villandi fyrir vitræna umræðu.
Þá er ég búin að nöldra aðeins, án þess að hafa skilgreint markmið með því.
Enda þarf ekki að hafa skilgreind markmið til að geta bloggað, það er nóg að hafa þörf til a'ð nöldra og það er ágætt út af fyrir sig, en afskaplega döpur umræða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. mars 2012
Pása frá moggablogginu.
Fyrir nokkru ákvað ég að taka mér hvíld frá moggablogginu og hún mun vara um óákveðinn tíma, sennilega þangað til að ég verð í skapi til að þvarga við vitleysinga.
Ég hef undarlega kímnigáfu og get stundum haft gaman af að þræta við þessa apaketti sem hafa óseðjandi tjáningarþörf, en segja þó aldrei neitt.
Á þessum stutta tíma sem ég hef bloggað hef ég kynnst greindu og athyglisverðu fólki í bloggheimum, það gefur mér mjög mikið og ég er þakklátur fyrir það.
Á síðasta landsfundi sagði ungur maður vestan af fjörðum mér frá því, að faðir sinn fyrir vestan læsi hvern einasta pistil sem ég skrifaði og mér þykir mjög vænt um það, vestfirðingar eru alltaf í miklum metum hjá mér, dugnaðarfólk sem býr yfir miklu andlegu atgervi og ekki er það líkamlega síðra.
Ekki er ég samt hættur að skrifa, tjáningarþörfin er orðin afskaplega mikil og gott ef að ekki er farið að votta fyrir athyglisþörf að einhverju leiti.
Lesendur mínir geta smellt á Pressuna, en ég skrifa pistla þar um þessar mundir.
Ég nenni ekki að lesa þessar vitlausu athugasemdir sem koma í hvert sinn er ég nefni Sjálfstæðisflokkinn eða Guð á nafn. Ekki myndi ég kvarta ef þetta væri málefnaleg gagnrýni eða mér væri bent á rangfærslur í pistlunum, alltaf getur maður lært af öðrum og mesta vinsemd sem hægt er að sýna nokkrum manni er að benda honum á mistökin sem hann gerir.
Ég ætla að vona að einhver sé tilbúinn til að þvarga við þessa einstaklinga, á meðan ég er í hvíld, og leyfa þeim að tjá sig. Það er þó betra að þeir skeyti skapi sínu á einhverjum bloggurum, heldur en ef þeir fara að ráðast á einhvern nákominn, sparka í eiginkonuna eða hundinn.
Sem betur fer er ekki athugasemdakerfi á Pressunni, en það er vísað í netfang fyrir neðan myndina af mér og endilega sendið mér póst ef þið viljið spjalla.
Þvargararnir geta sent mér líka ef þeir eru í þörf, en ég eyði þeim póstum án þes að lesa þá, ég þekki flest nöfnin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)