Fimmtudagur, 12. september 2013
Geta sjálfstæðismenn hvílt sig á Reykjavík?
Ef marka má umræðu síðustu ára þá virðast sjálfstæðismenn lítið hafa út á stjórn borgarinnar að setja. Ástandið minnir að vissu leiti á pólitíkina árið 1999 þegar vinstri menn reyndu að berjast við að hanka Sjálfstæðisflokkinn en ekkert gekk, það var allt í þokkalegu standi.
Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hefur haft sig lítið í frammi á síðasta kjörtímabili og heyrst hefur að amk. einn úr þeirra hópi sé nokkuð kátur með verk Besta flokksins og Samfylkingar og lítið hafa aðrir sjálfstæðismenn mótmælt því.
Kosningabaráttur eru kostnaðarsamar og þær útheimta gríðarlega vinnu grasrótar flokksins, en þeir sem tilheyra henni eru í vinnu og eiga flestir fjölskyldur sem þarf að sinna.
Sé það skoðun borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna að mál borgarinnar séu í þokkalegu standi og lítil ástæða til að breyta um stjórn, þá þarf takmarkað púður í næstu kosningar, kannski koma örfáum fulltrúum að til aðhalds og þá getur flokkurinn einbeitt sér að öðrum málum.
Því miður hef ég lítinn tíma til að skoða borgarmálin, en úr fjarlægð þykir mér Jón Gnarr ekki traustvekjandi stjórnmálamaður, en hvað finnst þeim sem vinna í návist hans allt árið? Mér virðist að kostnaður við yfirstjórn borgarinnar sé óeðlilega mikill og á sama tíma er skorið niður í þjónustu við íbúanna. Það lítur ekki vel út, einhverjir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa bent á þetta, en hópurinn í heild hefur litla athygli vakið á þessu.
Ég frétti það líka frá einum sem þekkir til, að PR maður borgarstjórnarflokksins hafi sagt að það sé óheppileg taktík að ráðast á Jón Gnarr, hann nýtur svo mikillar samúðar.
Ef þetta er rétt, þá ættu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að fá sér betri ráðgjafa. Að sjálfsögðu á aldrei að hlífa pólitískum andstæðingum, hvað þá æðsta yfirmanni höfuðborgar landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 4. september 2013
Kveðja til AMX, frá Vilhjálmi Þorsteinssyni.
Vilhjálmur Þorsteinsson gjaldkeri Samfylkingar bað mig fyrir kveðju til AMX og er henni hér með komið til skila.
Fúslega skal ég viðurkenna að beiðnin kom mér á óvart, því ekki þekki ég stjórnanda AMX, hef ekki einu sinni séð honum bregða fyrir. En stundum les ég vefinn og er ekki einn um það. Ég nefndi þetta við góðan vin sem hefur ljósmyndaminni og hann taldi strax að hugsanlega væri þetta kaldhæðni hjá Vilhjálmi, honum væri ekkert sérstaklega vel við AMX. Smáfuglarnir voru eitthvað að agnúast út í grein sem Vilhjálmur skrifaði árið 1987.
Í þeirri grein óttaðist Vilhjálmur afleiðingar þess að lögleiða bjór á Íslandi og varaði við því.
Eftir að hafa lesið greinina var ekki annað hægt en hafa talverða samúð með gjaldkera Samfylkingar. Hann hefur verið mjög óheppinn með sannfæringar en verið ódeigur að halda þeim á lofti. Og þegar menn hafa oftast vitlaust fyrir sér en hætta ekki að boða sannfæringar á skjön við veruleikann, þá er það orðið svart.
Kommentið sem innihélt kveðjuna til AMX er ágætt dæmi um ranga sannfæringu sem studd er með vísindalegum rökum, en það er á þessa leið:"Ég hef hvorki séð þig játa né neita því að þú fáir línuna senda annarsstaðar frá Jón Ragnar. Hef sjálfur lýst yfir efasemdum um að þú sért að lesa sjö ára gamlar skýrslur í rúminu á kvöldin eða úti á sjó. Rakhnífur Occams segir mér að líklegri skýring sé að einhver annar sé að fóðra þig á efninu. Svo bið ég að heilsa AMX."
Vilhjálmur hefur verið mjög sannfærður um að einhver annar fái mig til að skrifa. Eitthvað er pilturinn orðinn stressaður því ég hef hvorki játað því né neitað, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir frá hans hendi. Ástæðan er einföld, ef maður þrætir við kjána þá verður maður kjáni sjálfur. En það er ekkert athugavert við að skrifa um og vekja athygli á kjánalegum og kynlegum kvistum, slíkt er sígild þjóðleg skemmtun.
Það eru takmörk fyrir því hverju maður nennir að svara fyrir og þrátt fyrir að ég svari flestu, þá finnst mér þessi ásökun of vitlaus og vonandi er Vilhjálmur einn um þessa skoðun.
Svo má ekki gleyma fleiri vitlausum sannfæringum, hann taldi það heillavænlegast fyrir okkur að borga Icesave kröfuna svo taldi hann það lífsnauðsyn fyrir þjóðina að nota tillögur stjórnlagaráðs til að búa til nýja stjórnarskrá.
Kvenskörungurinn Ragnhildur vinkona mín Kolka hefur ekki farið varhluta af vitlausum sannfæringum gjaldkerans. Eftir mikla yfirlegu og vandlega íhugun hefur hann komist að því að hún sé nú raunverulega til, drengurinn kíkti í þjóðskrá og sá að á Íslandi byggi kona með þessu nafni. En honum þykir líklegt að Skafti Harðarson misnoti nafnið hennar Ragnhildar til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Þótt menn séu ekki sammála Skafta, þá þarf ekki að efast um að hann ritar allt undir sínu nafni. En hvað með Ragnhildi?
Jú, honum finnast stílbrögðin benda til að fleiri skrifi undir þessu nafni, en gleymir að googla hana. Þá kæmi nefnilega í ljós að hún er bókmenntafræðingur og það eitt og sér segir að hún hefur vald á mörgum stílbrögðum, auk þess að vera frábær penni frá náttúrunnar hendi.
Svo er hægt að nefna fleiri rangar sannfæringar hjá piltinum, hann er sannfærður um að Jóhanna Sigurðardóttir hafi staðið sig svo vel sem forsætisráðherra að enginn hafi gert það betur.
Hafandi haldið fram röngum sannfæringum áratugum saman, sú elsta síðan 1987, þá er auðvelt að efast um dómgreindina hans.
Og ef það er rétt sem einn fótgönguliði Samfylkingar hefur haldið fram, að flokkurinn þiggi hans ráð, þá má einnig efast um að Samfylkingin hafi næmt pólitískt nef.
Raunar kom það í ljós í vor.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 1. september 2013
"Eftirlit með hlutleysi RÚV."
Ég hafði verið skráður í þennan ágæta hóp í talsverðan tíma þegar Lára Hanna skammaðist út í hann. Fyrir forvitnis sakir ákvað ég að skoða síðuna og þekkti þar nokkra sem tóku þátt í umræðunni.
Ekki var hægt að finna neina rætni hjá hægri mönnum, en vissulega er hægt með góðum vilja að telja ýmislegt á gráu svæði, því stór lýsingarorð falla hjá flestum þegar verið er að tjá sig um hitamál.
Fljótlega fór ég að tjá mig á síðunni og þá varð ég var við fasisma hjá gjaldkera Samfylkingar, Vilhjálmi Þorsteinssyni. Ekki að hann boðaði fasisma, heldur sagði hann mig boða fasisma, en frá því hef ég áður sagt á þessari síðu.
Markmið hópsins er að hafa áhrif á RÚV og sjá til þess að öll sjónarmið hafi jafnt vægi. Hægri menn og vinstri menn eiga að njóta sanngirni og hafa tækifæri til að boða sínar stefnur og tjá sínar skoðanir á landsmálunum.
Hópurinn "Eftirlit með hlutleysi RÚV" á erindi til allra sem vilja opna og víðsýna umræðu um fjölmiðil allra landsmanna. Þótt ég vilji helst einkavæða stofnunina, þá er hún ennþá í eigu ríkisins.
Að mínu viti er þessi síða ekki vettvangur til að tjá sig um einkavæðingu eða ríkisrekstur, hægt er að stofna aðra síðu til þess og þar mun ég líka glaður taka þátt. Með því að ræða um tvö óskyld mál á sömu síðu er líklegt að hún nái ekki markmiðum sínum til fulls.
En ég hvet alla til að skoða síðuna og taka þátt, við hægri menn þolum ekki fasisma, enda vitum við öll hvaða afleiðingar sú stefna hefur haft.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. ágúst 2013
Þegar Ragnhildur Kolka lokaði bloggsíðunni.
Hafandi fylgst með gjaldkera Samfylkingar í nokkra daga, vaða á súðum í hópnum sem vill veita ríkismiðlinum aðhald, þá er erfitt að skilja linkind minna góðu vina í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. En þeir eru vonandi að vakna og margt bendir til þess.
Líklegt er að Vilhjálmur sé einn af spunameisturum vinstri manna, hvorki betri né verri en aðrir í þessum vafasama hópi.
Ég hef áður sagt frá því þegar Vilhjálmur kvað Skafta Harðarson skrifa undir nafninu Ragnhildur Kolka, en við sem þekkjum hana og höfum fylgst með hennar skrifum vitum betur. Rökin sem gjaldkerinn og stjórnlagaráðsmaðurinn kemur með eru furðuleg, eins og röksemdir spunameistara yfirleitt.
Vilhjálmur talar reyndar eins og hugsanlega fleiri skrifi í nafni Ragnhildar og rökin eru þau að skrifin endurspegli marga ólíka stíla. Skýringin á því er einföld. Ragnhildur er góður penni og lærður bókmenntafræðingur, en þetta eru ekki fáránlegustu rökin hans í þessu máli.
Þau eru varðandi það, þegar Ragnhildur átti að hafa lokað bloggsíðunni, því hún vildi ekki gefa upp rétt nafn. Máli sínu til stuðnings vísar spunakallinn í blogg Ragnhildar þann 31. desember árið 2008.
Hann kveðst undrast það að hún vilji ekki gefa upp rétt nafn og kennitölu, en það er rangt. Sannleikurinn er sá að hún vildi ekki geta millinafns sem hún hefur aldrei notað.
Blogginu hennar var aldrei lokað, hvorki af henni né stjórnendum moggabloggsins.
Hvers vegna er ég ennþá að skrifa um Vilhjálm Þorsteinsson?
Til þess að afhjúpa rætna spunameistara vinstri flokkanna sem hafa stjórnað umræðunni allt of lengi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 29. ágúst 2013
"Þessi fullyrðing þín um Vilhjálm er haugalygi".
Undanfarið hef ég vakið athygli á hegðun gjaldkera Samfylkingarinnar er hann tjáir sig í hópnum "Eftirlit með hlutleysi RÚV", sem er á Facebook.
Ekki er óalgengt að fjörugar umræður skapist á þessari síðu og fyrsta athugasemd við eina umfjöllunina um gjaldkerann hugumstóra var frá Gunnlaugi Ingvarssyni, félaga mínum í Heimssýn.
Gunnlaugur sagði frá því þegar Vilhjálmur gjaldkeri Samfylkingar og stjórnlagaráðsmaður boðaði til opins fundar á vegum Samfylkingarfélags Reykjavíkurvarðandi niðurstöðu dómsins um Icesave og líklegt er að hann hafi búist við hinu versta.
Eftir að í ljós kom að Ísland vann fullan sigur í málinu ákvað Vilhjálmur að aflýsa fundinum, hafandi misst af góðu tækifæri til að rakka niður Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan var sögð sú, að um plássleysi var að ræða vegna undirbúnings landsfundar flokksins.
Félag framsóknarmanna í Reykjavík brást skjótt við og bauðst til að lána Vilhjálmi húsnæði án endurgjalds, til að hann gæti fjallað um samninginn. En svo viss var Vilhjálmur, að hann gleymdi að semja ræðu um hugsanlegan sigur í málinu og hefur ekki haft tíma til að semja nýja.
Nú, þessi ummæli Gunnlaugs voru ekki síður sönn en sú staðreynd að það haustar á hverju ári.
En á þessa síðu mætir þrautþjálfaður fótgönguliði Samfylkingar, hokinn, ef ekki kengboginn af reynslu, við að réttlæta ýmsar þvælur sinna forystumanna.
Hann hundskammar Gunnlaug, segir hann sýna Vilhjálmi óbilgirni og fullyrðir að þetta sé haugalygi.
Hinn duglegi varðmaður Samfylkingarinnar benti á máli sínu til stuðnings, að Vilhjálmur hafi talað á fundi Samfylkingarfélags Kópavogs og þar hafi menn verið mjög glaðir með niðurstöðuna.
En ljóst er að Gunnlaugur var aðeins að tala um opna fundinn, menn utan flokksins hafa enga hugmynd um bjórdrykkju og fagnaðarlæti Samfylkingarfólks í Kópavogi, enda ekki hægt að ætlast til þess.
Eftir stendur að Gunnlaugur hafði að sjálfsögðu rétt fyrir sér og fótgönguliðinn gerði klaufalega tilraun, að hætti Samfylkingar, til að dreifa umræðunni.
Þessi Samfylkingarrökfræði er ósköp döpur, enda sjáum við árangurinn í síðustu kosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Mánudagur, 26. ágúst 2013
Rannsóknarblaðamaður Stjórnlagaráðs.
Nú er það ljóst að stjórnlagaráð hafði innan sinna raða rannsóknablaðamann í frístundum sem heitir Vilhjálmur Þorsteinsson, en pilturinn er athafnasamur mjög.
Hann hefur stundum haldið því fram að AMX léti mig skrifa fyrir sig og sendi mér ýmsar heimildir í tölvupósti. Ástæðuna fyrir því sagði hann vera kenningu sem hann nefndi. Kenningin sagði honum að ólíklegt væri að sjómenn læsu sjö ára gamlar skýrslur heima hjá sér á kvöldin, hvað þá á sjónum, en ég vitnaði í skýrslu á einum stað.
Sálkönnuðurinn taldi Ragnhildi Kolka vera hugarfóstur Skafta Harðarsonar því stílbrögðin bentu til þess.
Eftir talsverða rannsóknarvinnu tókst honum að komast að því að Ragnhildur er raunveruleg kona en ekki hugarfóstur Skafta Harðarsonar, nefndi hróðugur að hún væri fædd árið 1942, sem staðfesti þá miklu vinnu er hann hafði lagt í.
Er ekki komið nóg af pistlum um gjaldkera Samfylkingarinnar og stjórnlagaráðsmanninn Vilhjalm Þorsteinsson?
Það kann vel að vera, en ég get ekki hætt, maðurinn er óborganlega fyndinn:)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Sunnudagur, 25. ágúst 2013
Er Páll Steingrímsson, Ragnhildur Kolka og Skafti Harðarson einn maður?
Gjaldkeri Samfylkingarinnar, hann Vilhjálmur Þorsteinsson hefur farið mikinn í hópi áhugafólks varðandi hlutleysi eða hlutdrægni RÚV. Ég hef nefnt hann áður og ekki hægt annað en nefna hann aftur.
Svona kynlegir kvistir eru gullnáma fyrir mann eins og mig, sem er hugfanginn af fólki sem hugsar ekki eins og fjöldinn.
Núna er hann hættur í bili að tala um vopnaða menn í leðurstígvélum sem eiga að stjórna umræðunni.
Það nýjasta er að segja að Skafti Harðarson bregði sér í allra kvikinda líki til að hafa áhrif á umræðuna.
Stundum heitir Skafti Páll Steingrímsson og þegar hann vill breyta til þá heitir hann Ragnhildur Kolka.
Þetta virðist ótrúlegt, en er samt satt og ef ég þekkti ekki ágætlega til þeirra þriggja sem um ræðir, þá myndi ég trúa gjaldkeranum, svo sannfærandi er hann.
Óhætt er að segja að Samfylkingin geymir marga kynlega kvisti, eins og allir flokkar, en enginn kemst í hálfkvist við hann Vilhjálm Þorsteinsson, gjaldkera og lífskúnstners með meiru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Laugardagur, 24. ágúst 2013
"Uss, ekki viljum við menntun, brjóstvitið er best".
Mér þóttu ummæli gjaldkera Samfylkingar úr fjörugum umræðum geta virkað sem ansi grípandi fyrirsögn og það er sama hvaðan gott kemur. Ég hef mjög gaman af stráknum enda áhugasamur um kynlega kvisti.
En ég er sammála því sem hann sagði, brjóstvitið er best og virtustu háskólar veraldar kenna engum brjóstvit. Það er einfaldlega meðfætt og ómetanlegt þeim sem fá það í vöggugjöf. Og fari þeir ekki dult með það, þá nýtist það samborgurunum, í besta falli heiminum öllum.
Winston Churchill er gott dæmi um mann sem hafði frábært brjóstvit en takmarkaða menntun. Það var vegna þess að honum var ómögulegt að standast kröfur menntakerfisins. En brjóstvitið sagði honum hvað Hitler ætlaðist fyrir og það hjálpaði honum einnig að leiða þjóð sína til sigurs.
Fræðimaðurinn og háskólakennarinn Stefán Ólafsson bloggar mikið og sýnir þar takmarkað brjóstvit. Af mörgu er að taka, hann segir frjálshyggjumenn hafa viljað viðhalda þrælahaldi til að verja eignarétt þrælahaldara. Það var mjög klaufalegt því frjálshyggjan er ekki vinsæl hjá öllum en hún bannar alfarið að fólk sé þvingað til einhvers gegn þeirra vilja.
Svo segir hann á einum stað að Hannes Hólmsteinn reki Evrópuvaktina ásamt vinum sínum. Það hefur hvergi komið fram og háskólakennari sem kemur með svona fullyrðingar sýnir ekki mikið brjóstvit.
En allir sem notast við gagnrýna hugsun öðlast dýrmæta menntun,ekki endilega úr skólum. Þannig að þetta getur verið villandi. Við gerum of mikið úr skólamenntun á kostnað brjóstvits. Það er leti nútímans, það nennir enginn að hugsa og það er einfaldast að benda á gráður úr virtum skólum. Þá þykir viðkomandi mjög klár, jafnvel þótt hann hafi takmarkað brjóstvit en gangi vel að muna það sem lesið er.
Það er ekki nóg að þekkja fræðin, til að þau nýtist þarf að skilja þau. Stjórnendur bankanna fyrir hrun og helstu gerendur á fjármálamörkuðum heimsins höfðu flestir gráður úr skólum, en brjóstvitið var ekki nægt til að stöðva græðgina.
En hvað með gott brjóstvit og langskólamenntun? Slíkir einstaklingar eru vitaskuld til og slatti af þeim. Þeir eru vitaskuld mjög dýrmætir þegnar allra þjóða.
Þetta var rétt hjá gjaldkeranum, brjóstvitið er alltaf best.
Oft ratast kjöftugum satt orð á munn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Föstudagur, 23. ágúst 2013
Gjaldkeri Samfylkingar veður á súðum.
Frosti Sigurjónsson stofnaði hóp á Facebook til að hafa eftirlit með hlutleysi RÚV. Hópurinn hefur farið fyrir brjóstið á Samfylkingunni enda margir af helstu stuðningsmönnum stofnunarinnar í þeim flokki.
Samfylkingin er ekkert sérstaklega hrifin af staðreyndum, enda geta þær rústað fylginu. Ætli þetta sé ekki fyrsti flokkurinn í veraldarsögunni sem kemst til valda eftir að hafa tilkynnt þjóðinni að þeim skorti sjálfstæða hugsun á meðan þau tóku þátt í að stjórna landinu?
Eflaust hefur forystu flokksins borist það til eyrna að RÚV tæki ekki jafnmikið tillit til allra skoðana og talið að stofnunin væri staðreyndafælin eins og þau. Rann þeim þá blóðið til skyldunnar og sendu gjaldkerann til að rugla umræðuna á síðu hópsins "Eftirlit með hlutleysi RÚV".
Aðeins hef ég tekið þátt í umræðum síðunnar og viðraði þá skoðun mína, ekki í fyrsta skiptið, að hægri menn mættu gjarna vera grimmari að leiðrétta ýmsar rangfærslur og svara fyrir sig almennt. Þá kom sérstætt svar frá gjaldkera flokksins: "Því má vitaskuld bjarga með leðurstígvélum, vopnaðri lögreglu og réttum innanríkisráðherra og hreinsunum á RÚV".
Í nokkur skipti hefur gjaldkerinn gefið í skyn að ég og félagar mínir aðhylltumst fasisma og m.a. sagði hann á einum stað: "Á svo að pússa leðurstígvélin og horfa á eina Jerry Brucheimer mynd í kvöld? Þær eru spennandi og fullar af föðurlandsást".
Hann sleppir nú stundum að ræða leðurstígvélin en örvæntingin er ávalt sú sama: "Markmið þeirra sem vilja RÚV feigt er ekki að spara peninga, ég get lofað ykkur því", svo sagði hann að við sem höfum efasemdir um að rétt sé að ríkið reki fjölmiðil viljum stjórna umræðunni, sennilega íklædd leðurstígvélum með skammbyssur til að hafa fulla stjórn á því sem sagt er.
Er gjaldkerinn sá eini sem er upptekinn af leðurstígvélum og skotvopnum í stjórn flokksins, eða ætli þetta sé algengar fantasíur á Hallveigarstígnum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. ágúst 2013
Hvar er hægt að finna einangrunarsinna?
ESB sinnar fara oft mikinn og tala þá gjarna um einangrunarsinna en það er hópur sem enginn kannast við.
Á netinu má sjá margar furðulegar skoðanir en einangrunarhyggja, það fyrirbæri finnst hvergi.
Tja, það skyldi þá aldrei vera að verið sé að reyna aðferðir sófistanna í Grikklandi til forna? Þeim tókst mjög oft að gera andstæðinga sína tortryggilega með ýmsum blekkingum, en það voru blekkingar sem erfitt var að sjá í gegn um. En að tala um einangrunarsinna þegar ekki finnst neinn nógu vitlaus til að vilja einangra landið, því það þýðir endalok þjóðarinnar, það er mjög lélegur sófismi, telst varla almennilegur útúrsnúningur.
Þetta er svo ódýr brella vegna þess að allir vita hvað samtök okkar aðildarandstæðinga heita, fyrir þa´sem ekki vita þá heita þau Heimssýn og það er ekki að ástæðulausu. Við viljum hafa viðskipti og góð samskipti við öll ríki veraldar, Evrópu að sjálfsögðu líka. Og svo er önnur brella, þeir þeim er ekki viðbjargandi í orðræðunni.
Þeir segja að við sem viljum ekki aðild gleðjumst yfir efnahagserfiðleikum Evrópu. Erfiðleikarnir á Evrusvæðinu eru mjög íþyngjandi fyrir íslendinga, við stórtöpum á því. Þess vegna vilja allir íslendingar sem hugsa um þjóðarhag að Evruríkin rétti úr kútnum sem fyrst.
Nú ef þeir hafa þá rétt fyrir sér og þekkja einhvern sem vill einangra okkur frá umheiminum eða gleðst yfir erfiðleikum Evruríkjanna, þá er líklegt að fjölmiðlar sláist um að fá viðkomandi í viðtal.
Þannig að þeir ættu þá að nefna amk. eitt nafn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)