Hvers vegna á að leita ráða hjá vinstri flokkunum?

Formaður Samfylkingarinnar undraðast að ekki hafi verið haft samráð við vinstri flokkanna varðandi nefndir um afnám verðtryggingar og skuldavanda heimilanna.

Ef ríkisstjórnin hefði haft samráð við vinstri flokkanna um þessi mál, þá væri það augljóst merki vanhæfni.

Afnám verðtryggingar og lausnir á skuldavanda heimilanna voru meginástæður þess að stjórnarflokkarnir náðu meirihluta. Vinstri flokkarnir töldu loforðin ósannfærandi og efuðust um að hægt væri að efna þau.

Vinstri flokkarnir guldu afhroð í kosningum, það mesta sem ríki V-Evrópu hafa séð í sjötíu ár. Það bendir til þess að ólíklegt er að þeir muni gera mikið til þess að ríkisstjórnin nái að klára verkefni sem þeim mistókst að gera og að afnema vertrygginguna?

Afnám verðtryggingar hefur verið nauðsynlegt lengi en engin ríkisstjórn haft dug til þess, enda er það gríðarlega erfitt verk. Ef þessari ríkisstjórn tekst að koma með sannfærandi lausnir fyrir heimilin og búa til sanngjarnan lánamarkað þá er líklegt að stjórnarflokkarnir uppskeri mikinn heiður sem verður til þess, að þeir nái aftur völdum.

Það kemur sér best fyrir stjórnarandstöðuna að ríkisstjórnin klúðri sem mestu, þau hafa engan hag af því að hjálpa þeim að uppfylla mikilvægustu loforðin. Svo talar Árni Páll um að ekki sé æskilegt að nefndarmenn hafi sömu skoðanir á þessum málum.

Fátt er nú betra í samstarfi fólks en einhugur um markmið og leiðir að þeim.

Og skortur á sérfræðingum?

Sérfræðingar í viðskipta og markaðsmálum stjórnuðu bönkunum sem féllu árið 2008, það er kominn tími til að leyfa öðrum að komast að. 


mbl.is Sérvaldir vegna skoðana sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eftirlit með hlutleysi RÚV."

Á fésbókinni er síða sem nefnist "Eftirlit með hlutleysi RÚV" og takmark hennar er að stuðla að upplýstri umræðu um sameign þjóðarinnar.

Vitaskuld eru skiptar skoðanir um hlutleysi stofnunarinnar og íslensk umræðuhefð gengur út á sterkari lýsingarorð en nauðsynlegt er. En öllum skoðunum er hleypt á síðuna og í hópnum fann ég tvo nafngreinda einstaklinga sem oftast eru í harðri andstöðu við ríkjandi skoðanir hópsins.

Það kallast lýðræðisleg umræða og Frosta Sigurjónssyni, stofnanda síðunnar til mikils sóma. Það virðist engum hent úr hópnum fyrir það eitt að vera á öndverðum meiði við flesta meðlimi hans.

Það getur hver sem er skoðað síðuna, umræðan þar er ekki rætnari en gengur og gerist á netinu. Flest er málefnalegtm kannski má finna einstaka ummæli sem hægt er segja á gráu svæði. 

En Lára Hanna Einarsdóttir finnur hópnum flest til foráttu og segir hún að á síðu hópsins vaði uppi rógur, lygar og fasismi. Svo mikið blöskrar henni að hún segir innlegg síðunnar misbjóða heilbrigðri skynsemi og siðferði.

Þá er eins gott að hún lendi ekki í því sama og Halldór Laxness, að vera stundum ósammála sjálfri sér.

Hún segir eftirfarandi um Sjálfstæðisflokkinn í einni bloggfærslu; "Sjálfstæðisflokkurinn gerði út um fylgið á landsfundinum um síðustu helgi. Aðeins gallhörðustu frjálshyggjumenn, frambjóðendurnir sjálfir og nánasta fjölskylda kýs flokkinn enda segir Styrmir að hann sé ógeðslegur, prinsipplaus og stjórnist af tækifærismennsku og valdabaráttu. Á fundum er boðið upp á te".

Varla getur hún staðið við þessa færslu því nýfrjálshyggjumenn (þeir eru raunar ekki til, en þetta orðskrípi hefur merkingu sem flestir þekkja) eru ekki nógu margir í Sjálfstæðisflokknum, hvað þá frambjóðendur og þeirra nánasta fjölskylda, til að dekka þann fjölda sem kaus Sjálfstæðisflokkinn.

Svo rangtúlkar hún ummæli Styrmis Gunnarssonar, en hann sagði að íslenskt þjóðfélag væri ógeðslegt og prinsipplaust, átti ekki við Sjálfstæðisflokkinn einan og ef ummælin eru tekin hrá, þá er Lára Hanna líka ógeðslega prinsipplaus, hún er jú hluti af íslensku þjóðfélagi.

Sem betur fer eru engar líkur á að Lára Hanna gerist sjálfstæðiskona, því þá þyrfti hún margra ára sálfræðimeðferð sem tæki hressilega í budduna.

Ef hún er dæmd með hennar hætti, þá er hún væntanlega fasisti, rógberi og lygari sem ásundar svæsinn hatursáróður.  

En hún er það líklega ekki heldur kona með sterkar skoðanir og takmarkaðan tíma eða of litla dómgreind til að meta raunverulegar staðreyndir.

Síðasta setningin var raunar rétt, það er boðið upp á te á landsfundum Sjálfstæðisflokksins og raunar kaffi líka, því flokkurinn tekur tillit til allra þarfa.


Hvað er líkt með Jóni Gnarr og Winston Churchill?

Jón Gnarr hefur náð að höfða til samúðar fólks með því að segja frá þeirri hörðu lífsreynslu sem hann hefur þurft að þola. Margir telja hann eiga að njóta friðhelgi af þeim sökum og þess vegna er hann meðhöndlaður með silkihönskum af fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni.

Erfið æska, ADHD og ýmsar andlegar veilur duga ekki til að réttlæta vanhæfni hans í embætti borgarstjóra.

Allir hafa heyrt um Winston Churchill og flestir vita að hann er af mörgum talinn fremsti stjórnmálaskörungur allra tíma. Færri vita að hann átti við sambærileg vandamál að stríða og Jón Gnarr.

Þegar Winston Churchill hóf sína barnaskólagöngu þjáðist hann mjög, því hann gat ekkert lært. Stærðfræðin var honum hin mesta kvöl og pína, hann hataði flestar námsbækurnar því hann skildi ekkert hvað í þeim stóð.

Sjálfsmynd hans var mjög döpur því hann var sonur stjórnmálamanns sem tilheyrði háaðlinum breska og faðir hans leyndi því ekki að honum fannst Winston litli vera fábjáni.

Alla ævi þjakaði minnimáttarkenndin þennan mikla skörung. Með reglulegu millibili fékk hann þunglyndis og kvíðaköst sem hann deyfði með áfengi.

Þetta er sameiginlegt með Winston Churchill og Jóni Gnarr, en hvað skilur þá að?

Jón Gnarr hefur enga hæfileika til að vera leiðtogi en það hafði hinn í ríkum mæli. Strax í upphafi byrjaði Churchill að tileinka sér aðferðir sem virka í pólitík, það hefur Jón Gnarr aldrei gert.

Jón Gnarr lyppast niður er hann mætir andstreymi en Churchill færðist allur í aukanna. Breska þingið lýsti yfir vantrausti á Churchill. Þá flutti hann magnaða varnarræðu og sagði að þingið gæti jú sett hann af. Ef það yrði gert þá vonaðist hann til að eftirmaður hans í embætti fengi sanngjarnari umfjöllun.

Hættum þessari meðvirkni, Jón Gnarr hefur enga hæfileika til að stjórna borginni og andlegar veilur eða erfið æska ná aldrei að afsaka neitt. 


"Húsnæði fyrir alla".

Gamalt og sígilt slagorð Sjálfstæðisflokksins er enn í fullu gildi, okkur finnst það nauðsynlegt að sem flestum verði gert kleyft að eignast eigið húsnæði.

Það kemur sér vel fyrir aldraða að geta búið í skuldlausri eign og þurfa ekki að borga leigu. Vinstri flokkarnir skilja það ekki, þeir berjast fyrir leigumarkaði sem verður til þess að aldraðir þurfa að borga leigu fram í andlátið.

Sjálfstæðisflokkurinn sýnir viljann í verki með því að bjóða ungu fólki skattaafslátt ef það leggur inn á sérstakan sparnaðarreikning sem nýttur verður til húsnæðiskaupa.

Nýlátin er járnfrúin breska en hún er dæmi um stjórnmálamann sem ber hag sinnar þjóðar mjög fyrir brjósti.

Hún stóð ekki í loforðaslag við ístöðulitla stjórnmálamenn sem gældu við eyru kjósenda og notuðu peninga þeirra til að fjármagna lamandi fyrirheit.

Margaret Thatcher var göfug kona og hún vildi gera sem flesta að húsnæðiseigendum. Hennar aðferð var sú að gefa fólki skattafrádrátt vegna fyrstu 30.000. pundanna af lögmætum veðlánum til íbúðarkaupa.

Nigel Lawson var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Thatcher, honum ofbauð kostnaðurinn við skattaafslættina og hann benti járnfrúnni á að margir keyptu sér fleiri fasteignir en eina.

Stjórnmálaskörungar eru stórir í sniðum og með göfugt hjartalag. Fátt gladdi Margaret Thatcher eins mikið og framtakssemi fólksins, hún skellti skollaeyrum við ábendingum Lawson og sagðist vilja að allir nýttu afsláttinn til hins ýtrasta.

 


"Hver sá sem styður þessa hugmynd kemst til valda".

Vinstri flokkarnir hafa engin afrek unnið og af þeim sökum leitast þeir við að eigna sér hluti sem þeim finnst líklegt að virki vel á kjósendur.

Þeir hrósa sér af því að hafa fundið upp velferðarkerfið, en það er lygi eins og margt sem frá þeim kemur.

Sá sem að hannaði velferðarkerfið sem við þekkjum hét Otto Von Bismarck og hann var of stór til að aðhyllast lítilsiglda lífsstefnu. Ekki er hægt að efast um að járnkanslarinn hafi viljað sinni þjóð allt hið besta, en hann var líka mjög klókur stjórnmálamaður.

Hann sagði að hver sem styddi þetta kerfi kæmist örugglega til valda, en honum óraði ekki fyrir afleiðingum gjörða sinna.

Það er í eðli mannsins að vilja sleppa auðveldlega frá flestu, þess vegna varð velferðarkerfið til þess að letja fólk.

Niall Fergusson er sérfræðingur í fjármálasögu veraldar og hann var einn af örfáum sem sá hrunið fyrir áður en það skall á.

Hann skrifaði bók sem nefnist "Peningarnir sigra heiminn" og þar lýsir hann vel hversu mikinn þrótt rausnarlegt velferðarkerfi dregur úr þjóðum.

Fyrir fullfrískt fólk á auðsældin að vera gulrót og fátæktin vöndurinn sem knýr það til sjálfsbjargar. Heimsframleiðslan nær ekki að standa undir rausnarskap stjórnmálamanna á skattfé kjósenda. 


Ég ætla að afþakka réttlætið þeirra.

Þau sem að Dögun standa eru svo elskuleg að bjóða kjósendum upp á réttlæti sitt, en í ljósi skilnings þeirra á hugtakinu þá líst mér ekkert á það.

Tvö úr hópi þungavigtarfólks flokksins hafa ástundað réttlætið sitt í fjögur ár og eiginlega er það frekar ranglátt réttlæti, allavega fyrir minn smekk.

Þeim fannst mjög sniðugt að draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm og ekki var annað að heyra á Margréti Tryggvadóttur í Kryddsíldinni árið 2011, að hann yrði örugglega dæmdur sekur.

Fyrir íhaldsmann eins og mig, sem aðhyllist sígilda og góða meginreglu réttarríkisins að enginn sé sekur uns sekt sé sönnuð, þá er frekar dapurt að heyra kjörinn fulltrúa brjóta þessa góðu reglu í beinni útsendingu. Einnig hefur félagi hennar, Þór Saari oft talað fjálglega um spillingu án þess að sanna mál sitt.

Satt að segja hugnast mér betur réttlæti sem nær til allra og kýs því Sjálfstæðisflokkinn sem hefur hagsmuni allra stétta að leiðarljósi.


Í Sjálfstæðisflokknum eru allir jafnir.

Frá upphafi hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið opinn lýðræðisflokkur og öllum frjáls innganga og þátttaka í störfum hans. 

Og allir hafa jafna möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri ásamt því að komast til valda í flokknum.

Davíð Oddsson er besti rökstuðningurinn en hann er dæmi um mann sem vann sig upp á eigin verðleikum. Hann ólst upp á efnalitlu alþýðuheimili og ekki fékk hann mikla meðgjöf út í lífið, annað en góðar gáfur sem hann kunni að nýta rétt.

Í upphafi þótti hann hálfgerður sprelligosi og fyrstu skref hans í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins voru ekki létt. Það tók tíma að öðlast traust þingflokksins og ekki var einhugur um hann sem formann því margir studdu Þorstein Pálsson.

Framhaldið þekkja svo allir, en eru til fleiri dæmi um einstaklinga sem náðu sínu fram af festu og reisn?

Á landsfund flokksins árið 2003 mætti Guðmundur nokkur Halldórsson trillusjómaður vestan af fjörðum. Hann var með tillögu sem vitað var að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru andvígir og það sem meira var, hún var í andstöðu við LÍÚ en þau samtök eru að sögn þeirra sem þekkja ekki Sjálfstæðisflokkinn allsráðandi.

Guðmundur flutti tillögu sína í sjávarútvegsnefnd og hún var felld. En hljóp ekki út af fundinum vælandi í fjölmiðla út af illsku Sjálfstæðisflokksins og hann sagði sig heldur ekki úr flokknum.

Eins og sönnum vestfirðingi sæmir, gafst hann ekki upp heldur barðist fyrir sínum málsstað af yfirvegun og festu. Guðmundur bar upp tillögu sína fyrir framan landsfundinn allan, rökstuddi mál sitt með miklum þunga og fékk samþykki fyrir því sem hann bar upp.

Og hvernig tók nú Davíð því þegar trillukall að vestan hjólaði í LÍÚ og ráðherralið Sjálfstæðisflokksins?

Davíð skrapp í heimsókn til Guðmundar í beitningaskúrinn fyrir vestan og hafði gaman af.

Þegar fólk boðar sínar hugsjónir þá þarf að gera það með reisn og án þess að vera með nöldur og stagl.

Þeir sem ekki hafa náð sínu fram innan Sjálfstæðisflokksins og klofið sig úr honum með látum, þeir hafa aldrei náð eyrum þjóðarinnar.

Margir hafa sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum og reynt að boða sínar hugsjónir á öðrum vettvangi. Engum hefur til þessa tekist að ná eyrum þjóðarinnar.

Það bendir til þess að ekki er flokknum um að kenna heldur er aðferðarfræðin röng. 

 


Já, það varð hrun.

Fáir eru eins meðvitaðir um þá staðreynd að fjármálakerfi heimsins hrundi fyrir örfáum árum og sjálfstæðismenn. Við vitum það einnig að enn er hrunið að verki og ekki sér fyrir endann á efnahagserfiðleikum okkar viðskiptaþjóða.

Þess vegna er nauðsynlegt að fara gætilega í loforðum fyrir kosningar, ríkissjóður skuldar of mikið og nauðsynlegt er að búa sig undir lítið fjárstreymi til landsins á næstu misserum.

Í ljósi síðustu skoðanakannana er mjög freistandi fyrir sjálfstæðismenn að taka undir loforðaflauminn um tugi prósenta niðurfellingu skulda. Mörg heimili eru ofurskuldsett og standa ekki undir greiðslum af lánum. Af þeim sökum fagnar fólk öllum hugmyndum um lækkun skulda.

En er raunhæft að lækka skuldir heimilanna án þess að það kosti ríkissjóð stórar upphæðir? 

Sannarlega langar okkur öll til að trúa því og lagðar hafa verið fram sannfærandi tillögur um að það sé hægt. En ekkert í þessum heimi er sjálfgefið, sama hversu tillögurnar eru sannfærandi þá geta komið upp ófyrirséð vandamál.

Góðir og hæfir verkfræðingar gera nákvæmar kostnaðar og verkáætlanir en þær standast ekki alltaf. Oftast kosta verk meira en talið var.

Helst eigum við ekki að taka neina áhættu heldur draga saman seglin og fara mjög varlega í fjármálum. En það er nauðsynlegt að hjálpa heimilum landsins eins vel og mögulegt er.

Þess vegna ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að nýta skattkerfið til að auðvelda fólki að borga af lánum. Það er ekki mjög rausnarlegt en ábyrgt á óvissutímum. Þetta er loforð sem örugglega er hægt að standa við án þess að ríkissjóður verði settur í mikla hættu. Sjálfstæðisflokkurinn bætir svo um betur, hann kemur til móts við þann hóp sem skuldar ekkert og á ekki húsnæði. Þeim býðst að nýta afsláttinn til að safna fyrir íbúð. Slík leið er líka hagkvæm því hún hvetur til sparnaðar. 

Það þarf ekki að reikna út tillögur sjálfstæðismanna, þær eru einfaldar í framkvæmd og hægt að gera þær að veruleika strax eftir kosningar.

 

 


Það tryggir enginn eftirá.

Aðildarsinnar telja það brýna nauðsyn að fá aðild að ESB og hógværi hluti hópsins vill kíkja í pakkann.

En með því að ganga í ESB erum við að afsala okkur sjálfstæðinu og skuldbinda þjóðina til fylgislags við önnur ríki.

Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér, hvort ESB verði ríkasta stórveldi veraldar, Bandaríkin eða Asíulöndin.

En eitt er ljóst, að ef við göngum í ESB þá er við um leið skuldbundin til að standa með ríkjum þess.

Aðildarsinnar nota það sem rök gegn okkur, sem erum andvígir inngöngu að við séum einangrunarsinnar. Án þess að saka Brusselvini um einangrunarhyggju, þá virðist hún vera nær þeim en okkur. Við viljum horfa til samstarfs við heiminn allan.

Fyrir okkur sem erum bæði frjálslynd og víðsýn er mjög erfið hugsun að neyðast til að vera skuldbundin einu ríkjabandalagi í stað þess að nýta alla möguleika sem heimurinn getur boðið upp á í framtíðinni.

Að sjálfsögðu reyna aðildarsinnar að telja sjálfum sér og öðrum trú um að við, sem ekki viljum sjá aðild, gleðjumst yfir erfiðleikum ESB. En fátt er fjarri sannleikanum, við óttumst þessa erfiðleika og vonum að sambandið nái sem fyrst að vinna bug á þeim. Þá getum við aftur haft blómleg viðskipti við Grikkland, Portúgal og Spán.

Líkur eru á að ESB verði eitt sambandsríki og þá eigum við ekki okkar dýrmætu auðlindir lengur ein. Ef það kemur til styrjaldar, sem vonandi gerist ekki og sambandsríki ESB á í stríði, geta íslendingar ekki neitað að taka þátt í því.

Margt getur gerst sem vonandi gerist aldrei, en sjálfstæðið og fullveldið er okkar dýrmætasta auðlind. Það gefur okkur tækifæri til að þroskast og læra, eiga viðskipt við þau ríki sem henta okkar mörkuðum best osfrv.

Segja má um sjálfstæðið og fullveldið, við höfum notið þess lengi en það var hvorugt sjálfgefið.

Ef við fórnum því, þá leggjum við í óvissuför sem enginn veit hvar endar og við höfum litla stjórn þar á. Ekkert bendir til þess að við getum ekki stjórnað okkur sjálf, ESB gerir líka mistök eins og við.

Sýnum fyrirhyggju og látum ekki óljósa stundarhagsmuni ráða för, því það tryggir jú enginn eftir á. 


Myrkrahöfðingjarnir.

Eftir vel heppnaðan fund með sjálfstæðismönnum átti ég gott spjall við einn af þingmönnum flokksins.

Okkur bar saman um að við ættum gott innlegg í kosningabaráttuna, skýra stefnu í skuldaaðlögun fólks sem lágmarkaði kostnað ríkissjóðs eins mikið og mögulegt er. Við getum ekki boðið upp á kostnaðarsamar lausnir á meðan ríkissjóður skuldar mikið og óvissa ríkir í heimsbúskapnum.

Við vorum svolítið hissa á hversu lágt við skorum í skoðanakönnunum og þá benti þingmaðurinn mér á að ennþá væri til fólk sem kenndi Sjálfstæðisflokknum um hrunið og treysti honum ekki.

Það kemur á óvart að eftir allan þennan tíma og allar fyrirliggjandi upplýsingar skuli vera til fólk í upplýstu landi sem trúir á þessa dellu. Rannsóknarskýrslan skýrir ágætlega frá ástandinu sem ríkti í heiminum árin fyrir hrun og augljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn átti engan þátt í því. Mikið fjármagn safnaðist upp og leitaði ávöxtunar, ofurtraust ríkti á mörkuðum þannig að vextir voru mjög lágir. Svo komu ýmsar afleiður til sögunnar, undirmálslánum pakkað í vafninga osfrv., þetta var hættuleg blanda.

Heimurinn var heltekinn af græðgi og auðmenn stjórnuðu umræðunni á Íslandi, þeir áttu fjölmiðlanna. Ef einhver stjórnmálamaður hefði farið að setja bönkum stólinn fyrir dyrnar, þá hefði viðkomandi verið tekinn af lífi í öllum fjölmiðlum eins og skot.

Þetta eru staðreyndir málsins, en hvers vegna trúa margir því ennþá að Sjálfstæðisflokkurinn hafi valdið hruninu?

Jú, myrkrahöfðingjarnir sem hafa hæst í netheimum. Ekki er verið að líkja þeim við djöfla, heldur var oft talað um ljós þekkingar og myrkur vanþekkingar til forna, það er ástæðan fyrir því að talað er um "að vera upplýstur".

Myrkrahöfðingjarnir forðast ljós þekkingar því það hentar ekki þeirra málsstað og of fáir nenna að kynna sér staðreyndir.

Í stað þess að trúa þeim sem forðast þekkinguna ætti fólk að lesa fyrsta bindi rannsóknarskýrslunnar bls. 58 og skoða nokkrar blaðsíður í viðbót. Svo er hægt að skoða ýmsar gamlar fréttir til að skilja stemminguna sem ríkti og rifja upp ástandið sem var árin fyrir hrun.

Ef ljósið er kveikt þá hverfur myrkrið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband