Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 29. desember 2011
Vanhugsað stjórnlagaráð.
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skipa hið svonefnda stjórnlagaráð til að fjalla um breytingar á stjórnarskránni er skýrt dæmi um óvandaða stjórnsýslu, því miður eitt af mörgum.
Því er hinsvegar ekki að neita, að í stjórnlagaráði sat fólk sem hafði einlægar og fagrar hugsjónir, þau voru sannarlega að gera sitt besta og lögðu sálir sínar í verkið, en það er ekki nóg.
Til þess að semja stjórnarskrá, þá þurfa þeir sem veljast til verksins að hafa afburðarþekingu á lögvísindum, margir ágætir lögrfræðingar yrðu sennilega ekki hæfir til verksins, því stjórnarskráin inniheldur æðstu lög landsins og dómstólar hafa stjórnarskrárákvæði gjarna til hliðsjónar þegar fjallað er um ýmis mál.
Haft er eftir lektor í lögfræði við Háskóla Íslands í Viðskiptalaðinu, að hann teldi ýmsa lögfræðilega annmarka vera á tillögum stjórnlagaráðsins og tekur hann nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði í ræðu sinni á þjóðhátíðardaginn að alíslensk stjórnarskrá væri vel til þess fallin að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar.
Ef Jóhanna hefur hugsað sér að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar með verkum sínum, þá hefur það mistekist hjá henni eins og flest sem hún tekur sér fyrir hendur.
Það er mjög undarlegt, í ljósi þess að ríkisstjórnin lofaði faglegri vinnubrögðum en tíðkast hefðu til þessa, að hún skyldi þá ganga á svig við dóm hæstaréttar varðandi kosningar til stjórnlagaþings og velja fólk til að gera tillögur um breytingar á æðstu lögum landsins, sem hefur lítið annað til að bera en góðan vilja til að gera vel.
Það á að gera miklar kröfur til þeirra sem fjalla eiga um stjórnarskrána, slíkir einstaklingar verða að hafa yfirburðaþekkingu á lögum, eins og ég benti á hér fyrir ofan.
Meðlimir stjórnlagaráðsins gerðu sitt besta, ábyrgðin er í höndum forsætisráðherra, því hún þráði ekkert heitar en breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.
Það er reyndar ekki sjálfgefið að Jóhanna hafi lesið stjórnarskrána og hafi hún gert það, þá skilur hún hana ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 27. desember 2011
Hafa tölur á blaði of mikið vægi í umræðunni?
Þegar ég starfaði við húsasmíði vann ég með manni sem hafði undarlega ástríðu að mínu mati, en hann var mikill áhugamaður um stærðfræði og hann hefur lesið fjölda bóka um stærðfræði og eytt löngum stundum í að leysa stærðfræðiþrautir.
Mér þótt þetta einkennilegt áhugamál, en hann sagði að þetta væri ekkert öðruvísi en að hafa mikinn áhuga á skák eða golfi. Vissulega var það rétt hjá honum og sannarlega var gott að vinna með honum, hann renndi augum yfir teikningar og var búinn að leggja saman allar tölur sem við þurftum að vita, ég notaði alltaf blýjantinn og skrifaði tölur á næsta vegg, en hann þurfti aldrei að skrifa neitt.
Við vorum eitthvað að ræða pólitík og hann sagði að það væri ekkert að marka skýrslur og tölur á blaði, hægt væri að fá þær útkomur sem hentuðu málsstaðnum hverju sinni, svo sýndi hann mér athyglisverða jöfnu sem sannar það að tveir plús tveir séu fimm.
Þótt ég ætti að vinna mér það til lífs, þá gæti ég ekki rifjað hana upp, en hann skrifaði niður tvo plús tvo,svo komu einhverjir svigar og tölur inn í þá, á endanum lá það ljóst fyrir, hann sannaði að tveir plús tveir væru fimm. Ef það er einhver stærðfræðingur sem les þetta getur hann vafalaust útskýrt þetta betur, en niðurstaðan var þessi.
Svo sýndi hann mér allskyns trikk, lét mig hugsa tölu, reiknaði síðan og þá vissi hann alltaf hvaða tölu ég hugsaði mér.
Alltaf dettur mér þesi ágæti maður í hug, þegar verið er að þvarga um tölur á blaði. Þær gefa bara vísbendingar en segja aldrei sannleikann eins og hann er.
Ríkisstjórnin hefur sýnt tölur sem sýna ágætis ástand, Stefán Ólafsson hefur reiknað það út, að fátækir hafi það betra en þeir höfðu það áður að því leiti, að kaupmáttur ráðstöfunartekna þeirra hafi vaxið umfram kaupmátt annarra hópa.
Það er hægt að reikna sig út í það, að ástandið sé gott og að hagur þeirra sem eru fátækastir hafi batnað, en hvað segir raunveruleikinn?
Það er alveg ljóst, að ástandið hjá okkur er ekki gott, það vantar meiri fjárfestingu og meiri framleiðslu til að skapa hagvöxt sem eykur velmegun landsmanna.
Hagvöxtur sem felst í ferðalagi peninga á milli staða bætir ekki hag vinnandi fólks.
Fátækt fólk á Íslandi upplifir ekki bættan hag, þótt tölurnar segi það.
Einhver hefur beitt reiknigaldri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, þannig að hún sannfærðist um að fólksflutningar frá landinu hefðu ekki aukist, en fólk er að flýja ástandið á Íslandi, það er staðreynd.
Það er líðan þjóðarinnar sem skiptir mestu máli. Þjóð sem er óttaslegin og full af vantrausti lamast smátt og smátt, þess vegna þurfa stjórnvöld að kanna raunverulegt ástand og meta það með heilbrigðri dómgreind.
Tölur á blaði segja aldrei sannleikann, þær eru vísbendingar sem hætt að hártoga fram og til baka til að fá hagstæðar niðurstöður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Þriðjudagur, 27. desember 2011
Hvar stendur Guðmundur Steingrímsson í pólitík?
Guðmundur Steingrímsson var í Samfylkingunni og hann bauð sig fram í prófkjöri fyrir þann flokk fyrir kosningarnar árið 2007.
Þann 17. maí á hinu eftirminnilega ári ritaði hann langan pistil og kvaðst þá vera frjálslyndur félagshyggju og jafnaðarmaður. Pilturinn var ansi argur út í Steingrím J. Sigfússon og fannst að hann ætti að vera ögn vinalegri við framsóknarmenn, því það væri vænlegur kostur fyrir þjóðina að fá R-lista ríkisstjórn.
Árið 2007 var Guðmundur Steingrímsson sem sagt félagshyggju og jafnaðarmaður, frjálslyndur að eigin sögn.
Í Silfri Egils þann ellefta þessa mánaðar spurði Egill Guðmund að því, hvers vegna hann hafi yfirgefið Samfylkinguna og ekki stóð á svarinu.
Guðmundur er nefnilega frjálslyndur miðjumaður en ekki sósíaldemókrati. Erfitt er að átta sig á því, hver munurinn er á sósíaldemókrata og félagshyggju og jafnaðarmanni. Samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum er miðjumaður annað en félagshyggju og jafnaðarmaður, en Guðmundur vill fara ótroðnar slóðir, en samt margtroðnar.
Hann er andvígur álverum og sú slóð hefur verið margtroðin af vinstri mönnum áratugum saman, en sú hugmyndafræði hentar ekki þjóðinni.
Íslenska þjóðin er frumframleiðsluþjóð, við byggjum okkar hagkerfi að mestu leiti á fiskveiðum og álframleiðslu. Þær stoðir verðum við að styrkja ef þjóðin á að eiga sér viðreisnar von.
Vitanlega er það nauðsynlegt að fjölga undirstöðum hagkerfisins, en það að vilja eyða núverandi undirstöðum til að byggja upp nýjar, slíkt gengur aldrei upp.
Það eitt að vilja berjast á móti stóriðju gerir Guðmund Steingrímsson ekki traustvekjandi stjórnmálamann. Hugmyndafræði hans er raunverulega ekki ný, hún er samtíningur úr öllum stjórnmálastefnum sem heimurinn þekkir.
Framboð hans og Besta flokksins sver sig í ætt við Samfylkinguna, þau halda að ESB bjargi öllu.
Ætli Steingrímur sé ekki Samfylkingin holdi klædd, hann sér að félagshyggja og jafnaðarmennska nýtur ekki vinsælda um þessar mundir, miðjan virðist vera ónumin að einhverju leiti, þannig að félagshyggju og jafnaðarmaðurinn frjálslyndi sér sóknarfæri á miðjunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Laugardagur, 24. desember 2011
Jólakveðja.
Ég vil óska öllum mínum góðu bloggvinum gleðilegra jóla sem og þeim sem kíkja í heimsókn á þessa síðu.
Í dag sameinumst við um friðarboðskap jólanna og hvílum okkur á öllu þvargi. Ég bið algóðan Guð sérstaklega um að blessa þá sem eru að upplifa sín fyrstu jól eftir lát náins ástvinar, einnig hugsa ég til þeirra sem líða skort og hafa áhyggjur af afkomu sinni, en þeir eru margir um þessar mundir.
Við vitum það allflest, að öll ég birtir um síðir, efnahagsástandið kemur til með að lagast. En það sefar ekki óttann hjá öllum, óvissan er verst.
En jólin spyrja hvorki um stétt, stöðu né bankareikninga fólks, friður jólanna bankar upp á hjá öllum.
Svo höfum við val um, hvort við opnum dyrnar eða látum jólin standa fyrir utan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Stjórnmálaflokkar eiga að haga sér eins og fyrirtæki á markaði.
Hvernig ætli neytendur myndu bregðast við, ef framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækis kæmi fram í sjónvarpi og segði að keppinautur hans væri gjörspilltur glæpamaður sem svindlaði á neytendum hægri vinstri?
Það myndi stuða fólk og hætt er við að fyrirtæki framkvæmdastjórans myndi tapa talsvert í framhaldinu.
En þetta gera stjórnmálamenn, þeir koma fram í fjölmiðlum og saka hvern annan um spillingu, heimsku, afglöp og það, að hugsa ekki um hag kjósenda. Kjósendum þykir meira að segja flott ef einhver stjórnmálamaður kemur með krassandi samsæriskenningu um andstæðinginn, beri hann kenninguna fram á sannfærandi hátt og hún nær til hjarta kjósenda.
Þrátt fyrir þessa áráttu kjósenda, að trúa um of á samsæriskeningarnar, þá er þetta líka hluti vandans, varðandi gjána á milli þings og þjóðar.
Vitanlega eiga stjórnmálamenn að koma fram í fjölmiðlum og segja hvað þeir ætli að gera, nefna dæmi um góð verk sem þeir hafa unnið osfrv.
Það hefur fallið blettur á alla flokkanna fjóra, þeir þurfa að taka sig á og bæta sína ímynd, ef þeir ætla að lifa. Þeir þurfa líka að breyta um nálgun við kjósendur.
Þeir þurfa að útskýra sínar stefnur á mannamáli, viðurkenna sín mistök á heiðarlegan hátt og lofa bót og betrun af fullum heilindum.
Þeir verða að horfast í augu við það, þótt það sé sárt, að sumir innan þeirra raða njóta ekki trausts. Þá geta þeir sem hafa fallið mikið í trausti sýnt iðrun, vilji þeir halda áfram í pólitík og athugað hvort þjóðin er tilbúin til að fyrirgefa.
Það getur enginn gengið að þingsæti sínu vísu, þjóðin bæði velur og hafnar.
Oft er það víst þannig, að lífið er ekki endilega réttlátt, sumir eru ranglega dæmdir og aðrir eiga skilið að fá harða dóma. Það er þjóðarinnar að skera úr um það.
Stjórnmálamenn eru að komast á vissa endastöð, réttlætingar ganga ekki lengur og það þýðir ekki að reyna að ljúga sig út úr neinu, fólk er komið með nóg af því.
Nú er rétti tímin fyrir stjórnmálaflokka að skoða vel sínar afstöður í öllum málum og benda á raunhæfar leiðir, sem hægt er að standa við.
Persónulegt skítkast í pólitík ætti að heyra sögunni til.
Stjórnmálaflokkar eru að vissu leit eins og fyrirtæki á markaði, þeir þurfa að selja ímynd sína og ekkert annað, sannfæra fólk um einlægan vilja sinn til að efla sína þjóð og styrkja.
Sá flokkur sem sannfærir þjóðina um heilindi sín og auðmýkt gagnvart fortíðinni, iðrast þes að hafa ekki gert rétt, hann hlýtur að sigra að lokum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. desember 2011
Eru til dæmi um öfga hjá Vantrú?
Ég varpaði fram þeirri spurningu í pistli, hvort það væri munur á Vantrú og öðrum öfgahópum.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa, verjendur Vantrúar voru reynda ósköp kurteisir, en þeir héldu því ansi stíft fram að Vantrú væri algerlega laus við öfgar. Slíkt er vitanlega þvæla, það eru dæmi um öfgafullan málflutning á vef Vantrúar, einnig getur fólk ferðast um bloggið og fundið fleiri dæmi, en ég ætla einungis að nefna eitt dæmi sem staðfestir öfga Vantrúar með óyggjandi hætti.
Öfgar eru alls ekki gott innlegg í umræður, þess vegna er svona mikil reiði út í þennan ágæta félagsskap.
Til að taka af allan vafa, þá er í þesum pistli notast við útskýringu orðabókarinnar á hugtakinu "öfgar" og hún er eftirfarandi; "öfgar; KVK FT (staðbundið KVK FT) 1. ýkjur, of sterkt orðalag um e-ð 2. það stærsta, mesta sem til greina kemur (oft fjarstætt og í raun óhugsandi) td. fara út í öfgar, hófleysi, e-ð sem er ekki haldið innan skynsamlegra takmarka".
Á vef Vantrúar má finna greinarflokk sem nefnist; "Heilagur hryllingur".
Þar segir m.a.: "kristnir trúmenn kunna yfirleitt ekki að skammast sín frekar en aðrir helfarafneitarar". Það hefur enginn kristinn maður hér á landi afneitað helförinni, svo vitað sé, þannig að þetta hlýtur að vera dæmi um miklar öfgar og túlkast í ofanálag mjög meiðandi ummæli.
Svo segir á öðrum stað í sömu grein; "Ég get lofað ykkur því að ef við töpum lýðræði og málfrelsi á morgun þá mun kirkjan taka upp fyrri iðju", það má skilja þessi ummæli á þann veg, að greinarhöfundur sé sannfærður um, að um leið og kirkjan fær tækifæri til, þá muni hún hefja galdrabrennur og allar þessar ljótu pyntingar sem tíðkuðust fyrir alllöngu. Þvínæst segir greinarhöfundur;"Hún" (þ.e.a.s.kirkjan)"er sofandi talibanatröll með krumlur sínar um allt samfélagið"
Það eru svo fleiri greinar í þessum greinarflokki, þær fjalla m.a. um öll morðin sem framin voru af kirkjunnar mönnum fyrri alda, Musterisriddara osfrv.
Galdrafárið er löngu liðin tíð, þannig að þessar röksemdir eiga ekki við í dag, sé ætlun greinarhöfundar að vara við kristnum söfnuðum. Allir kristnir söfnuðir á Íslandi (en Vantrú er væntanlega að vara við þeim, annars hefðu þeir skrifað á erlendar tungur og beint sínum orðum til útlendinga) boða kærleika og frið. Það er engin ástæða til að ætla það, að einhver af kristnu söfnuðunum á Íslandi (þótt það séu ansi miklir öfgamenn í sumum þeirra) bíði eftir tækifæri til þess að lífláta menn, konur og börn á hryllilegan hátt.
Einnig hefur enginn afneitað þessum staðreyndum sem fram koma í greininni, kristnir menn vita um galdrabrennur, öll morðin og illskuna sem ríkti hjá kirkjunnar þjónum, en það getur víst enginn breytt því í dag þetta er löngu liðið og ólíklegt að svona hryllingur endurtaki sig á ný, mannkynið er orðið þroskaðra en það var fyrir hundruðum ára.
Engin dæmi eru um að boðskapur þjóðkirkjunnar, sem Vantrúarmönnum er óskaplega illa við hafi skaðað neinn.
En því er ekki að neita, að í deilunum á milli Vantrúar og þjóðkirkjunnar kunna kirkjunnar menn að hafa sagt eitthvað sem hefur sært Vantrúarmenn og hleypt í þá illu blóði. En þeir eru líka ansi viðkvæmir fyrir öllu sem sagt er við þá, þótt þeir séu ansi orðhvatir á köflum.
Þegar fólk viðhefur svona öfgakenndan málflutning eins og fram kemur í greinarflokknum "Heilagur hryllingur", þá er ekki hægt að búast við því að kristnir menn taki því þegjandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (107)
Þriðjudagur, 20. desember 2011
Vantraustsyfirlýsing á Össur.
Ósk þingmanna stjórnarndstöðunnar um að samskipti við ESA og EFTA, vegna Icesave, sé á forræði Árna Páls er augljóslega vantraust á Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Enda þekkja þingmenn vel undirlægjuhátt Össurar gagnvart ESB og hann hefði vafalaust uppfyllt ítrustu kröfur vina sinna í Bretlandi og Hollandi, hann hefur sýnt það og sannað að hagsmunir íslendinga skipta hann minna máli en hagsmunir Evrópusambandsins.
Flestir muna þegar hann sagði á þingi að hann skyldi halda fast í kröfur íslendinga varðandi sjávarútvegsmál, en skömmu síðar kvað hann okkur ekki þurfa sérstakar sérlausnir.
Reyndar má segja að afstaða Árna Páls í Icesave líkist meira afstöðu málflutningsmanns en stjórnmálamanns.
Stjórnmálamaður á að hafa skýra stefnu og vita hvað hann vill.
Árni Páll tók þát í því ásamt öðrum stjórnarliðum að berjast fyrir því að íslenskur almenningur tæki á sig gríðarlegar skuldbindingar án þess að skýr lagafyrirmæli lægju þar að baki.
Svo þegar þjóðin hafnaði Icesave í annað sinn, þá kom málflutningsmaðurinn Árni Páll og snarbreytti um kúrs, þá bar okkur ekki skylda til að borga, að hans sögn.
Alltaf er slæmt þegar þjóðin veit ekki hvaða stefnu stjórnmálamenn hafa, þeir tala sjaldan með skýrum hætti. Árni Páll hefði þá vitanlega átt að segja, að hann hefði séð að hann hafði rangt fyrir sér varðandi Icesave samninganna og ekki hefði veri verra ef hann hefði beðist afsökunar.
Icesave málið allt er til háborinnar skammar fyrir ríkisstjórnina, það mál eitt og sér ætti að nægja til afsagnar hennar. Ef þjóðin hefði ekki barist svona vel fyrir réttlætinu, eð forsetann í fararbroddi, þá værum við í verulega slæmri stöðu í dag.
![]() |
Icesave verði í höndum Árna Páls |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 18. desember 2011
Er munur á Vantrú og öðrum öfgahópum?
Heimurinn geymir öfgahópa af mörgum gerðum. Oftast samanstanda þeir af vel meinandi fólki sem er mikið í mun að sannfæra aðra um sín sjónarmið og yfirleitt telja meðlimir þessara hópa að þeir hafi höndlað sannleikann.
Sjálfur aðhyllist ég kristna trú, en mér leiðast ýmsir söfnuðir sem vilja segja mér hvernig ég á að lifa mínu lífi og á hvaða hátt ég á að skilja hina helgu bók. En ég á góða vini í þesum söfnuðum sem eru mjög góðir og kærleiksríkir.
Engan þekki ég í Vantrú, en ég efast ekki um að þar sé ágætis fólk sem meini vel. En þessir öfgar í þeim eru afskaplega hvimleiðir.
Þeir fullyrða að enginn Guð sé til, en sú fullyrðing fær engan veginn staðist.
Öldum saman hafa vísindamenn ýmist reynt að sanna eða afsanna tilvist skaparans, en engum hefur tekist það ennþá, þekking mannsins er nefnilega ekki svo mikil, þrátt fyrir allt.
Annars telja þeir hjá Vantrú sig vera afskaplega glögga og státa af meiri þekkingu á eðli og sköpun heimsins en Stephen nokkur Hawkins, en hann þykir einn fremsti raunvísindamaður veraldar og er gjarna settur í flokk með Einstein, en Einstein þótti mjög glöggur á raunvísindi, eins og alkunna er.
Fréttablaðið hafði eftir Stephen Hawkins í gær, að vonlaust væri að afsanna tilvist Guðs.
Ef Vantrúarmönnum hefur tekist það, sem Hawkins hefur ekki tekist, þrátt fyrir þrotlausar rannsóknir á eðli og upphafi heimsins, að afsanna tilvist Guðs, þá ættu þeir að koma sér á framfæri í vísindaheiminum og koma Íslandi þar með á kortið, ekki veitir okkur af góðri landkynningu um þessar mundir.
Flestir trúmenn efast oft um sína trú, enda þýðir trú ekki það sama og fullvissa. Við þurfum oft að slást við efann, en komumst að þeiri niðurstöðu að trúin geri okkur gott og sé okkur góð lífsfylling. Það er ekki svo lítið og ef trúin er klikkun, þá er sú klikkun mun betri en margt sem telst heilbrigt atferli hjá sumu fólki.
En félagar Vantrúar, þeir virðast aldrei efast um sína trú, það er vissulega trú að trúa því svona stíft að enginn Guð sé til.
Það virðist enginn munur vera á Vantrú og öðrum öfgahópum, Vantrúarmenn eru reyndar ekki ofbeldisfullir, en þeir eru ansi herskáir í orðum og stífir á meiningunni, þrátt fyrir takmarkaðar sannanir.
Sannleikurinn er ófundinn enn og mestu óvinir sannleikans eru svona öfgahópar, sem þykjast hafa fundið hann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (117)
Föstudagur, 16. desember 2011
Við þurfum bætta umræðuhefð.
Umræðuhef sú sem ríkir í okkar ágæta þjóðfélagi er fyrir neðan allar hellur. Sennilega er hún jafnvitlaus í öðrum löndum, en við höfum aðeins möguleika á að breyta okkur.
Algengt er að fólk saki hvert annað um að skrifa eða tjá sig á annarlegum forsendum, séu annaðhvort heilaþvegnir af stjórnmálaflokki eða fái greitt fyrir að verja ákveðinn málsstað.
Hversu margir eru heilaþvegnir af einhverjum stjórnmálaflokkum?
Sennilegast er, að þeir sem tjá sig í ræðu og riti um pólitík eru að túlka sínar eigin skoðanir. Það eru nefnilega ekki allir sem skilja það, að fólk hefur misjafnar skoðanir, við erum ekki öll eins.
Þótt ég sé þeirrar skoðunar að ekkert virki betur hér á landi, heldur en aðferðir sjálfstæðisstefnunnar, þá veit ég það, að til er fólk sem trúir á aðrar stefnur, sumir eru sannfærðir um að ekkert virki betur en jafnaðarstefna eða sósíalismi.
Þeir sem aðhyllast aðrar stefnur en ég þurfa ekki að vera vitlausir, slæmir eða spilltir.
Svo er það seinni kenningin, sem reyndar er svo vitlaus, að undarlegt er að nokkur skuli halda henni fram.
Þessi samsæriskenning hefur beinst að ólíklegasta fólki, sem varla getur tjáð sig skammlaust á íslenskri tungu. Að einhverjum skuli detta í hug, að stjórnmálaflokkar eða öfl í viðskiptalífinu greiði þessu fólki fyrir að skrifa, það er þyngra en tárum taki.
Það er mjög vinsælt að saka stjórnmálamenn um spillingu, sú árátta hefur verið til staðar ansi lengi.
Samt hefur engum komið til hugar að rannsaka það á viðeigandi hátt eða kæra, ekki má gleyma því að forystumenn vinstri flokkanna hafa ásakað sjálfstæðismenn um spillingu áratugum saman, en aldrei rannsakað það þegar þeir hafa sest við stjórnvölinn.
Eru þeta þá sannfærandi ásakanir?
Trúir einhver því, að íslenskir stjórnmálamenn séu þeir klókustu í öllum heiminum?
Miðað við það, að sumir skuli trúa því, að íslenskir stjórnmálamenn geti staðið í spillingu og mútuþægni áratugum saman, án þess að slíkt komist upp, en starfsbræður þeirra í öðrum löndum verið kærðir fyrir slíkt hið sama, þá hljóta menn að telja þá klókustu pólitíkusa heimsins, en þeir rísa vart undir því nafni eins og flestir vita.
Það getur enginn sannað né afsannað neitt nema að undangenginni rannsókn, þess vegna eigum við ekki að hafa órökstuddar dylgjur að leiðarljósi.
Við eigum að halda fram okkar skoðunum á málefnalegan hátt, en ekki saka þá sem eru á önverðum meiði um annarlegar hvatir.
Um leið og þing og þjóð hættir þessu ómálefnalega þvargi, þá er loksins hægt að ræða pólitík af einhverju viti.
Jafnaðarmenn ræða þá um sína stefnu og reyna að selja kjósendum hana, sama gera sósíalistar, hægri menn osfrv.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 16. desember 2011
Við þurfum að þjálfa með okkur samkennd.
Pressan birtir frásögn einstæðrar móður, en sú ágæta kona kveðst ekki hafa samúð með stallsystur sinni sem fékk ríflega fjárhagsaðstoð frá ónefndum einstaklingi sem hefur til að bera meiri kærleik heldur en við flest.
Sú sem hafði sambandi við Pressuna segir aðstæður sínar ekki góðar, en hún sé stolt og bein í baki og hún vill bera höfuðið hátt, henni þykir hin ósköp lítilfjörleg.
Þessi ágæta kona hefur margt gott til brunns að bera og það er gott að geta staðið stoltur og beinn í baki, þrátt fyrir ömurleg kjör.
En er þá rétt af henni að fordæma hina, sem augljóslega er ekki eins sterk?
Nei, við þurfum að rækta með okkur samkennd og læra að skilja hvert annað. Þeir sem eru sterkir og borið geta höfuðið hátt, þrátt fyrir mikla erfiðleika, eiga ekki að miklast af þeim eiginleikum, heldur að sýna auðmýkt og þakklæti fyrir góða eðliskosti. Þá getur viðkomandi orðið öðrum til fyrirmyndar.
Það er auðvelt að miklast yfir eigin styrk, vegna þess að margir gleyma einni augljósri staðreynd, við veljum okkur hvorki kosti né galla, við fáum þetta allt saman í vöggugjöf, algerlega óverðskuldað.
Stundum hafa fá orð djúpstæð áhrif á mann og þau gleymast aldrei. Þegar ég var nýkominn af unglingsskeiði, þá var ég mjög upptekinn af því, hversu flottur ég væri, en það er þekkt meðal ungs fólks, svo kemur þroskinn og þá sér maður gallana líka.
Þá sagði við mig gömul og Guðhrædd kona; "það sem þú ert, það er gjöf frá Guði til þín, það sem úr þér verður, það er gjöf frá þér til Guðs". Henni fannst ég óþarflega grobbinn með mig og það var sannarlega rétt mat hjá henni.
Hafi ég góða kosti, þá eru þeir ekki mér að þakka, en mér ber þá að nýta þá til góðs.
Einstæða móðirin á ekki að tala niður til konu sem á bágt. Stundum koma erfiðir tímar í okkar lífi, við brotnum niður og okkur finnst heimurinn vera að hruni kominn. Þá þurfum við stuðning og hjálp.
Það er mjög illa gert, að segja við þann sem er niðurbrotinn í hrikalegum aðstæðum, að hann eigi enga samúð skilda.
Öll eigum við rétt á samúð og skilningi, jákvæð hvatning virkar oft vel. Oft er gott að hlusta á viðkomandi og lofa honum að tjá sig, jafnvel falla tár ef þörf krefur, en slíkt er engin dauðasynd.
Svo þegar viðkomandi hefur fengið útrás fyrir tilfinningar sínar og við gerum ekkert nema að hlusta, þá vaknar von oft hjá þeim sorgmædda og hann finnur lausnir.
Við megum ekki dæma fólk hart og gera lítið úr tilfinningum þess.
Ef við erum sterk í dag, þá er sá möguleiki fyrir hendi, að við verðum jafnvel niðurbrotin og veik á morgun.
Hver vill þá láta segja að hann sé vesalingur og aumingi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)