Færsluflokkur: Bloggar

Eru þetta góðir leiðtogar?

 Ég horfði á viðtalið við Guðmund Steingrímsson og Heiðu Helgadóttur í Silfri Egils. Eiginlega er ég enn að klóra mér í hausnum yfir því, ég skil ekki hvað þau eru að fara.

Það er verið að stofna nýtt framboð til alþingis, þau eru ekki viss hvort það verður stjórnmálaflokkur, stjórnmálafélag eða einhverskonar partý. Svo vilja þau endilega fá hugmyndir frá hinum almenna borgara varðandi nafn á fyrirbærinu og ekki er verra að einhverjir komi með sniðuga stefnuskrá handa þeim.

Guðmundur og Heiða voru ósköp vinaleg að sjá og ekki er hægt að efast um að þau vilji vel, en er það nóg?

Nei, því fer víðs fjarri.

Stjórnmálaflokkar verða að marka sér skýrar stefnur í öllum málum sem þjóðina varða, leiðtogarnir verða að vita hvað þeir ætla að gera og hvaða leiðir þeir vilja fara.

Stjórnmálamenn geta ekki ætlast til þess að hinn almenni borgari segi þeim, hvernig þeir eiga að vinna vinnuna sína, pólitíkusar fá borgað fyrir að búa til hugmyndir og bæta samfélagið.

Því er ekki að neita, að það er áhætta sem fylgir því að vera í stjórnmálum, leiðtogi þarf að vera tilbúinn til að svara fyrir alvarleg mistök sem hann gerði, jafnvel þótt hann hafi talið sig vera að gera rétt. Þess vegna er betra að velja fólk sem þekkt er fyrir yfirvegaða hugsun, sjálfstæði í skoðunum og einörð vinnubrögð.

En hins vegar er það gott fyrir leiðtoga að tileinka sér þjálfun í að hlusta á fólk, lesa sér til og taka tillit til ólíkra sjónarmiða. Það þýðir ekki að viðkomandi þurfi stöðugt að vera að spyrja og vandræðast með sínar ákvarðanir, svörin eru oftast til staðar ef menn gefa sér næði til að yfirvega málin og kynna sér þau vel og vandlega.

Alltaf er talað um að það þurfi að breyta pólitíkinni og það er margt til í því. En sá grunnur sem hún byggir á er traustur og hann hefur sannað sig.

Hann er sá, að stjórnmálamenn marka sér stefnu sem þeir fara eftir, svo kemur í ljós hvort kjósendur kaupi hana og á endanum kemur í ljós hvort hún virkar.

Það er margfalt betra heldur en eitthvað þóknunarhlutverk gagnvart samfélagsstemmingunni hverju sinni, hún breytist jafn ört og veðrið.

 


Er að skapast hér minnihlutaræði?

Mannréttindaráð Reykjavíkur gladdi mjög hina sanntrúuðu Vantrúar-menn með nýrri reglugerð er varðar aðkomu presta að skólastarfi barna.

Nú eru meðlimir Vantrúar að eigin sögn algjörlega trúlausir, en samt eru þeir trúaðri á sinn málsstað en margir kristnir menn.

Þeir í Vantrú þverneita því alfarið, að nokkur Guð sé til, það er þeirra staðfasta trú. Aftur á móti eru margir í hópi kristinna sem eru ekki eins vissir í sinni sök og meðlimir Vantrúar, enda ansi snúið að sanna nokkuð í þessum efnum, með óyggjandi hætti.

Ef gengið er útfrá því, að Guð sé til, þá eru til sennilegar skýringar til á aldalangri fjarveru hans frá mannheimum.

Hann rölti með Adam og Evu, samkvæmt hinni helgu bók, um Aldingarðinn og honum leið ágætlega í félagsskap kórónu sköpunarverksins. En þau óhlýðnuðust honum, átu af skilningstrénu. Það gerði Guði vitanlega gramt í geði, hann gaf þeim frelsi til að velja og hafna, en vonaðist vissulega  til þess að kórónur sköpunarverksins hlýddu betur hans fyrirmælum.

Svo sendi hann son sinn eingetinn, að sögn Biblíunnar, til þess að koma vitinu fyrir jarðarbúa, en þeir þökkuðu frelsaranum öll kraftaverkin og allan kærleikann með því að hæða hann, pína og að lokum var hann látinn þola hryllilegan dauðdaga á krossi.

Það er ósköp eðlilegt í ljósi ofangreinds, að Guð nenni lítt að skreppa til jarðar, eftir fyrri reynslu sína af mannfólkinu, en hann  vonast eflaust til þess,  að mannkynið fari nú að læra eitthvað af mistökunum.

Frelsið er jú mesta kærleiksverk Guðs, því það kennir okkur best og þroskar okkur á allan hátt.

Til þess að öðlast visku og þroska, þá dugir lítt að notast eingöngu við augu, eyru og holdlega skynjun, ásamt því að túlka forsendur eins og þær eru á hverjum tíma fyrir sig. Þróunin hefur orðið fyrir tilstilli manna, sem gáfu hugarfluginu lausan tauminn, notuðust við hugsjónir og hugsuðu út fyrir hinn þrönga ramma sem sumir notast eingöngu við.

Samkvæmt þröngum ramma og holdlegum skilningi er ekkert Guðlegt til, skynjunin er andlegs eðlis, en hún virkar prýðilega.

Trúarleg iðkun og bænagjörð hefur um aldir virkað sem hin besta sáluhjálp, Guð var það eina sem forfeður okkar gátu treyst á og trúin blés þeim baráttuanda í brjóst og gaf þeim von um betri tíð, ef ekki í jarðlífinu, þá í hinu næsta.

Rannsóknir hafa sýnt það, að trúuðum einstaklingum líður vel, trúin gefur lífsfyllingu og ekki veitir af henni um þessar mundir.

Þótt enginn Guð sé til, þá er það staðreynd, að kærleiksríkar hugsanir sem fylgja bænar og messuhaldi veita aukinn sálarfrið, börn eru næm og opin fyrir slíku og á erfiðum tímum sem þessum, þá væri óhætt að auka helgi og bænahald í skólum.

Þá segja hinir sanntrúuðu meðlimir Vantrúar, að þeim sé ákaflega illa við að börnum þeirra sé innrætt trú.

Sem fimm barna faðir, þá hef ég aldrei viljað ráða því, hverju börnin mín trúa. Börnin mín eru sjálfstæðir einstaklingar og þeim ber engin skylda til að tileinka sér mínar lífsskoðanir, en ég er skyldugur til að elska þau, sama hvaða leiðir þau velja. Og sú skylda er mér ákaflega ljúf, ég elska börnin mín heitar en allt í þessum heimi, þótt þau yrðu öll trúlaus og gallharðir sósíalistar.

Það er verið að ráðast á góðar hefðir að ástæðulausu. Ef ég hefði þá trú sem ég hef í dag, en væri alinn upp í landi þar sem trúleysi væri hefðin, kærleikurinn væri kenndur eftir öðrum leiðum, þá myndi ég aldrei amast við því. Það hefði engan tilgang að neyða minni trú upp á þjóðina, væri hún sátt við sína lífssýn.

Mannréttindaráðið sagði að fjöldi kvartanna hefði borist, en þær voru víst ekki nema 24 smkv. tölum sem ég sá á netinu. Kannski eru kvartanirnar fleiri, en þær eru greinilega ekki nógu margar til þess að rústa gömlum og fögrum siðum.

Vantrú er ekki fjöldahreyfing, flestir íslendingar eru ekkert á móti trúboði í skólum, Siðmennt er ekki fjöldahreyfing heldur.

Lýðræðishefðin gamla, þar sem stuðst er við vilja meirihlutans hefur reynst ágætlega, en hún er að sönnu ekki fullkomin.

En hún er þó mun betri heldur en sú hefð sem virðist vera að skapast, að láta lítinn minnihluta þjóðarinnar eyðileggja það sem mörgum er heilagt.


Að byggja upp grænt hagkerfi og ferðamannaþjónustu.

Það hefur lengi verið markmið Vinstri grænna að koma í veg fyrir álframleiðslu hér á landi og byggja upp í staðinn, ferðamannaiðnað og grænt hagkerfi.

Þetta hljómar notalega í eyrum margra og hefur nú hið nýja framboð Guðmundar Steingrímssonar tekið græna hagkerfið upp á sína arma, ekki vilja þau fleiri álver, svo mikið er víst.

En hvernig virkar þessi stefna í reynd?

Ferðamannaiðnaður býr til fjölda láglaunastarfa og líklegt er, miðað við þróunina í fiskvinnslunni að útlendingar starfi að miklu leiti í þessari grein. En samt skal ekki gert lítið úr áhrifum ferðamennsku á efnahag þjóðarinnar, því vissulega skapar ferðamannaþjónusta gjaldeyri og ekki eru öll störf innan hennar lágt launuð. 

Þær þjóðir sem byggjast nær eingöngu á ferðamnannaiðnaði standa ekki vel, þannig að ekki dugar hann einn og sér til þess að halda hagkerfinu uppi.

Svo er það græni iðnaðurinn, hann er að mestu leiti óskilgreindur. En talað hefur verið um að grænmetisbændur geti keypt ódýra orku og ræktað jafnvel ávexti og grænmeti til útflutnings. Svo hefur verið talað um gagnaver, flutning raforku með sæstrengjum osfrv., allt nema álver.

Á tímum sem þessum getum við ekki leyft okkur að taka mikla áhættu, varðandi hagkerfið. Árum saman höfum við niðurgreitt lambakjöt til útflutnings, það hefur ekki skilað hagnaði þótt eitthvað virðist vera að rofa til í þeim málum.

Hversu langan tíma mun það taka Ísland, að markaðsetja íslenskt grænmeti og ávexti í útlöndum?

Líklegt er að fólk í öðrum löndum verði ekkert sérlega upprifið yfir íslensku ávöxtunum og grænmetinu, því ísland hefur ekki þá ímynd í huga íbúa heimsins, að vera mikið ávaxta og grænmetisland.

Við þyrftum að eyða stórum upphæðum, upp á von og óvon, til þess að öðlast markað fyrir ávexti og grænmeti, óvíst er hvort það takist.

Við megum heldur ekki gleyma því, að þær þjóðir sem framleiða mest af ávöxtum og grænmeti munu ekki taka samkeppninni fagnandi.

Fyrir utan sjavarútveginn, þá eru það álverin sem hafa sannað sig, sem burðarás atvinnu og efnahagslífsins.

Álver skapa fjölda starfa og allt eru það ágætlega borguð störf, það eru engin láglaunastörf í álverum.

Álver kaupa einnig mikið af vöru og þjónustu, mörg fyrirtæki hafa byggst upp í kring um álver, nægir að nefna Vélsmiðju Hjalta Einarssonar, en það fyrirtæki blómstrar og skaffar mörgum atvinnu.

Andstæðingar álvera benda á það, að þjóðin sé ekki aðgræða á raforkusölunni.

Ekki hef ég forsendur til að meta það, en að þessu sinni gef ég mér það, að við gætum grætt meira á orkunni ef hún færi annað en til álvera.

Er þá betra fyrir íslensku þjóðina, að græða á raforkunni þannig að orkufyrirtækin blómstra sem aldrei fyrr og ríkið græðir á tá og fingri?

Á sama tíma fáum við ekki að njóta þess fjölda vel launaðra starfa sem álver hafa upp á að bjóða, auk þeirrar rannsóknarvinnu sem þar fer fram, þjónustugreinarnar verða þá af þeim tekjum sem þær fengju frá álverunum.

Í staðinn gætu kannski grænmetisframleiðendur ræktað meira grænmeti til útflutnings. Þeir þyrftu þá að taka á sig mikinn fórnarkostnað á eðan er verið að finna markaði fyrir afurðirnar og óvíst er hvort þeir geti borgað mannsæmandi laun.

Gagnaver skapa ekki eins mörg störf og álver, en þau gætu samt verið góð viðbót við hagkerfið.

Vaxandi hópur stjórnmálamanna vill ekki þá atvinnugrein sem skapar fjölda starfa, hefur tryggan markað fyrir sínar afurðir og borgar betri laun en þau fyrirtæki sem þeir vilja leggja áhersla á.

Þeir leggja meiri áherslu á, að orkufyrirtækin geti selt orkuna á hærra verði, heldur en að horfa á heildarhagsmuni þjóðarinnar.


Ætlar Ólína þá að biðjast afsökunar?

Nú er Ólína Þorvarðardóttir ógurlega ánægð með Siv Friðleifsdóttur.

Það er vegna þess að Siv kom forseta alþingis til varnar og taldi að þingmenn ættu að sýna meiri virðingu.

Þá hefur Siv eignast tvær vinkonur úr hópi stjórnarliða, en hin vinkonan er vitanlega sjálfur forsætisráðherrann. Það gladdi Jóhönnu mjög þegar Siv studdi hana í, að koma á alræðisvaldi forsætisráðherra þegar fjallað var um Stjórnarráð Íslands.

Kannski þær stöllur bjóði vinkonu sinni úr Framsóknarflokknum að ganga til liðs við Samfylkinguna, eða smeygja henni inn bakdyramegin og láta hana fylgja Guðmundi Steingrímssyni, en hann mun vera að búa til nýjan flokk sem verður sennilega deild innan Samfylkingarinnar, þótt flokkur hans heiti öðru nafni á opinberum vettvangi.

En ætli Ólína biðji á ekki forseta alþiingis afsökunar, fyrst hún talar á þessum nótum?

Hún hnakkreifst við flokksystur sína, sem er forseti alþingis, úr ræðustól á þessu ári.

Gaman verður að fylgjast með því.


mbl.is Siv skammaði Vigdísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ekki gagnrýna Fjármálaeftirlitið?

Umræðan um forstjóra FME og aukning kostnaðar við rekstur stofnunarinnar virðist fara mikið fyrir brjóstið á fyrrum ráðherra viðskiptamála, Gylfa Magnússyni.

Gylfi hefur að mestu haldið sig til hlés eftir að hann hrökklaðist úr embætti, sökum rangra upplýsinga varðandi myntkörfulánin. En hann lætur í sér heyra ef einhver vogar sér að gagnrýna FME eða forstjóra stofnunarinnar.

Gylfi heldur að þeir sem að gagnrýni forstjóra FME og eða stofnunina sjálfa, hafi eitthvað að óttast.

Hann sagði m.a. á eyjunni.is;"Ýmsir málsmetandi aðilar sækja nú af miklum þunga að Fjármálaeftirlitinu og reyna hvað þeir geta, að grafa undan stofnuninni. Á því er einungis ein líkleg skýring-það er mörgum mjög á móti skapi að stofnunin nái árangri í starfi, m.a. við að grafa það upp sem úrskeiðis fór í bankakerfinu í aðdraganda hrunsins".

Varla telst ég í hópi "málsmetandi manna", því ég er ósköp venjuleg hásetablók á togara, þótt ég tjái gjarna mínar skoðanir annað slagið þegar ég er í landi. En ég þekki engan af fyrrum stjórnendum hinna föllnu banka og gjarna vill ég að allur sannleikur komi í ljós.

Það er hinsvegar ekki hlutverk FME, það er að störfum Sérstakur saksóknari, það embætti sér um þau verkefni sem Gylfi heldur að sé á verkssviði FME.

Ef við skoðum forstjóra FME, þá er það undarlegt að slíkur maður skuli stjórna stofnun sem á að hafa eftirlit með mönnum eins og honum.

Hann gerði vafasama hluti í viðskiptum eins og komið hefur fram, hans afsökun var sú að hann hafi verið óvirkur stjórnarmaður, en það er ekki til neitt sem heitir óvirkur stjórnarmaður. Sá sem er í stjórn hlutafélags ber alltaf ábyrgð.

Það er óeðlilegt að efla stofnun sem hefur minni verkefni en hún hafði.

Bæði hefur bankasýslan minkað umtalsvert eftir hrun, einnig hefur ríkið verið að vasast í bankarekstri.

Fyrrum forstjóri FME var vammlaus maður, hann hafði aldrei gert neina vafasama hluti í viðskiptum, það hefur núverandi forstjóri hinsvegar gert. Í ljósi þess þykir mér óásættanlegt að núverandi forstjóri skuli gegna svona ábyrgðarmiklu starfi.

Hin auknu fjárframlög sem varið hefur verið til FME, væri betur varið til velferðarmála.

 


Sama lygin endurtekin í annað sinn.

Jóhanna Sigurðardóttir laug því að flokksfélögum sínum, að Greco, stofnun sem fylgist með spillingu í ríkjum Vestur- Evrópu, hafi hrósað ríkisstjórninni mikið fyrir eftirfylgni við tillögur stofnunarinnar.

Klókir stjórnmálamenn, sem vilja völd umfram allt, gæta sín á að segja hluti sem hægt er að túlka á tvo vegu eða fleiri, þannig að ekki er hægt að sanna á þá hreina lygi með óyggjandi hætti.

En Jóhanna verður seint talin klókur stjórnmálamaður, hún lýgur blákalt. Svo fékk hún Steingrím í lið með sér og fékk hann til að kvitta undir sömu lygina og hún fór með á flokksstjónarfundi Samfylkingarinnar þann 29. janúar á þessu ári.

Í sameiginlegri yfirlýsingu Steingríms og Jóhönnu segir m.a.; "stjórnmálakerfið er í mikilli gerjun. Lagalegur rammi þess hefur tvívegir verið skoðaður á liðnum árum, til að tryggja gagnsæi og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Árangurinn af þessu starfi sýnir sig m.a. í því, að Greco, samtök gegn spillingu mæla stöðuna hér á landi með því besta sem gerist í heiminum."

Þetta stendur orðrétt í grobbskjali þeirra skötuhjúa og vissulega hljómar þetta sannfærandi, þetta eru jú æðstu ráðamenn þjóðarinnar sem segja þetta og bæði hafa þau lýst yfir eindregnum vilja til að efla heiðarleika og gegnsæi í stjórnsýslunni.

Skýrsla Greco er aðgengilega öllum á vef stjórnarráðsins og í niðurlagi hennar segir m.a.; Í ljósi framangreinds er það niðurstaða Greco að hin afar takmarkaða fylgni við tilmæli nefndarinnar sé í heildina óviðundandi."

Þetta er allt hrósið sem leiðtogar þjóðarinnar tala um í sameiginlegri yfirlýsingu. Í skýrslu Greco er talað um að ríkisstjórnin hafi aðeins framkvæmt eitt af tilmælum stofnunarinnar, af fimmtán atriðum.

 

 


Vestfirðingar með hjartað á réttum stað.

Eitt er það sem fyllir mig alltaf stolti og það er, að ég skuli vera svo lánsamur að forfeður mínir voru vestfirskir sægarpar, sem börðust hetjulegri baráttu við hrikaleg náttúruöfl.

Hin risastóru vestfirsku fjöll geta virst hrikaleg en á sama tíma veita þau skjól fyrir veðrum og vindum, þau geta verið harkaleg og undurblíð á sama augnablikinu.

Sama má segja um vestfirðinga, þeir geta virst ansi harðir en svo er það þessi hjartahreina umhyggjusemi fyrir lífinu sem einkennir þá.

Ekki kemur á óvart, að það skuli vera vestfirðingur sem hvetur okkur til að hjálpa vinum okkar í Færeyjum og ég tek heilshugar undir með þessum ágæta manni, vitanlega eigum við að standa fyrir fjársöfnun og veita þeim myndarlegan stuðning.

Lífið gengur út á það, að gefa og þiggja. Í stað þess að vera stöðugt að gorta sig af engu, þá ætti ríkisstjórnin vitanlega að sjá sóma sinn í því, að bjóða fram aðstoð okkar íslendinga, á sama tíma og almenningur stendur fyrir söfnunarátaki.

Sýnum frændum vorum og vinum samhug í verki.


mbl.is Íslendingar hjálpi Færeyingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvaða Sjálfstæðisflokk er verið að tala?

Stundum heyri ég fólk ræða um einhvern Sjálfstæðisflokk þar sem foringjaræði ríkir. Í þeim flokki eru allar ákvarðanir teknar af einhverskonar elítu, sem stjórnar öllu og nytsamir sakleysingjar trúa öllu sem elítan segir þeim að trúa.

Í þeim flokki eru flestallir gjörspilltir og veikir fyrir mútum, þingmenn hans gera lítið annað en að skara eld að eigin köku.

Oft hef ég velt fyrir mér hvaða flokk er verið að fjalla um, en mögulega er það stjórnmálaflokkur í hulduheimum.

Þekkt er frá aldaöðli, að sumir telja sig í nánu sambandi við álfa og huldusfólk, sem sagt er að búi í steinum víða hér á landi. 

Kenningin um tilvist huldufólks og álfa hefur hvorki verið afsönnuð né sönnuð, þannig að vera má að slíkir einstaklingar búi víða í steinum og klettum landsins.

Kannski eru álitsgjafar og aðrir vinstri menn nátengdir við hulduheima, en vita ekki af því. Sumir spíritistar halda því fram að allt rafmagnið í umhverfinu trufli næmni hjá skyggnu fólki, þannig að mögulega vita álitsgjafarnir ekki hvort þeir eru tengdir við þennan heim eða annan. 

Mig skortir þessa næmni,þannig að ég get ekkert fullyrt um pólitík hulduheima, en ég er virkur þátttakandi í starfi Sjálfstæðisflokksins sem hefur tilvist hér í raunheimum og hann er annarra gerðar en nafni hans í hulduheimum.

Sá Sjálfstæðisflokkur sem ég þekki hafnar öllu foringjaræði. Á síðasta landsfundi, sumarið 2010 var sáttatillögu forystunnar varðandi ESB hafnað af hinum almenna flokksmanni. Forystan sætti sig við það, að sjálfsögðu, enda eru allir jafnir í Sjálfstæðisflokknum.

Svo gekk forystan í berhögg við hinn almenna flokksmann, varðandi Icesave. Þá hélt forystan sig til hlés og ákvað góða málamiðlun. Þjóðin fékk að greiða atkvæði um samningana.

Ég hef tekið þátt í landsfundum Sjálfstæðisflokksins og þar eru oft mikil átök. Umdeild mál geta verið lengi í umræðu þar til niðurstaða fæst og það er ekki alltaf sú niðurstaða sem hugnast forystunni best. En hún þarf að virða lýðræðið og sætta sig við að vera undir í sumum málum.

Vitaskuld hafa orð forystunnar oft meira vægi en annarra flokksmanna, það er ekkert óeðlilegt við það. Forystan er kosin með lýðræðislegum hætti og ástæða þess að fólk er kosið til forystustarfa er vitanlega sú, að hinn almenni flokksmaður ber virðingu fyrir því og álítur það fremst meðal jafningja.

Sem betur fer er ég félagi í Sjálfstæðisflokki mannheima en ekki þessum gjörspillta flokki hulduheima.

Álitsgjafarnir og vinstri mennirnir þurfa að jarðtengja sig betur, til þess að rugla ekki hulduheimum saman við mannheima.

 


Hver er svo glæpurinn?

Hver hefur ekki heyrt þá umræðu, að Bjarni Benediktsson sé með æði vafasama fortíð í viðskiptum og að Guðlaugur Þór eigi að segja af sér hið snarasta, vegna þess að hann fékk svo mikla styrki í prófkjörinu sínu.

Þeir sem hæst láta þykjast útbelgdir af helgri réttlætiskennd og segjast ekki þrá neitt heitar, en réttlátara samfélag.

Slæmt er þeirra réttlæti, þannig að ég vona sannarlega að þeir sýni ekki sína ranglátu hlið.

Bjarni Benediktsson tók þátt í viðskiptum sömu gerðar og voru almennt stunduð á árunum fyrir hrun Segja má að einstaklingar í viðskiptaheiminum hafi verið veruleikafirrtir vegna þess að peningar flóðu í stríðum straumum og allir héldu að þeir væru ríkari en þeir voru.

Jú Bjarni var þátttakandi í þessari vitleysu, sem reyndar virtist ekki svo vitlaus á sínum tíma.

Sennilega þekkja sjálfskipaðir dómarar dómsstóls götunnar ekki þá alkunnu staðreynd, að það sem virðist rétt í dag, getur verið rangt á morgun. Í dag vitum við að þetta voru galnir tímar, en það var ekki vitað þá.

Það merkilega er, að Bjarni Benediktsson er ekki grunaður um neina glæpi, af hefðbundnum dómsstól, dómstóll götunnar dýrkar Gróu á Leiti, þannig að hann er ekki marktækur.

Guðlaugur Þór þáði styrki, það var ekki óeðlilegt þá og engin umræða var um hámark styrkja til stjórnmálamanna, hann braut ekki lög.

Engum hefur tekist að sýna fram á að Guðlaugur hafi veitt neinar óeðlilegar fyrirgreiðslur, kjaftasögur sem duga sem vitnaleiðslur hjá dómsstólnum sem stofnaður er til heiðurs Gróu gömlu hafa ekkert vægi í eðlilegu réttarríki.

Steinunn Valdís óskarsdóttir framdi heldur engan glæp, en hún var fengin til að segja af sér, til að bæta ímynd Samfylkingarinnar og vitanlega fékk hún fínan bitling í staðinn.

Fyrsta skrefið, ef raunverulegur vilji er til þess að bæta siðferði þjóðarinnar, hlýtur að vera að rannsaka mál á hefðbundinn hátt.

Móðursýkislegar upphrópanir  dómara hjá dómsstólnum sem stofnaður er til heiður Gróu frá Leiti, eru til skammar fyrir þjóð sem byggir á siðmenntuðu réttarríki.


Vinstri menn, þið eruð vesalingar.

Mörgum kann að þykja fyrirsögnin ansi sterklega orðuð, en miðað vil tilefnið, þá þarf það ekki að vera.

Taka skal fram, að þessi fullyrðing á ekki við um alla vinstri menn, því til eru vinstri menn sem hafa trú á sinni hugsjón, en standa ekki í óþverrapólitík þeirri sem einkennir of marga í vinstri flokkunum.

Fyrir allnokkru síðan, þá ritaði ég pistil þar sem ég skoraði á þá, sem hafa grunsemdir um glæpsamlega spillingu og mútuþægni sjálfstæðismanna að kæra.

Áður en ég gerði það, ræddi ég við lögfræðing og spurði hann um, hvaða leiðir hægt er að fara ef einhver hefur staðfestan grun um glæpsamlegt athæfi, en spilling, sem stríðir gegn lögum er glæpur, sama má segja um mútur.

Enginn tók þessari áskorun minni, þannig að ég álít alla þá sem hæst hafa hrópað  vera vesalinga. Það er vesældómur að fylgja ekki eftir því sem maður segir, í besta falli marklaust nöldur, en það fylgir oft vesalingum að ástunda slíkt, kjarkurinn er enginn.

Það er til skammar í upplýstri umræðu, að ljúga upp á pólitíska andstæðinga til að leita eftir fylgi við sinn málsstað, það bendir til þess að málsstaðurinn er afskaplega veikur.

Þangað til að enginn hefur lagt fram kæru, þið hljótið að geta nurlað saman fyrir málskostnaði, eða sótt um opinberan styrk, ykkur líkar það ágætlega og vinstri stjórnin myndi örugglega vilja fá eitthvað bitastætt á sjálfstæðismenn, ef mögulegt er.

Þannig að þið skuluð kæra, eða sitja uppi með það, að vera nöldrandi vesalingar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband