Færsluflokkur: Bloggar

Það vantar kjark í íslenska pólitík.

Stjórnmálamenn nútímans, hvar í flokki sem þeir standa, gera lítið annað en að hlera stemminguna í þjóðfélaginu og finna út, hvað er best að leggja áherslu á til þess að gæla við eyru kjósenda og smala atkvæðum.

Með svona pólitík, þá er lítil von á breytingum.

Stjórnmálamenn eiga að vera leiðandi afl í umræðunni, berjast fyrir sínum skoðunum og stefnum og sýna fólki nýja vinkla á umræðunni, boða nýjar leiðir.

Það tekur oft tíma að valda hugarfarsbreytingu þjóða, stundum gengur það ekki upp. En það er samt skylda stjórnmálamanna, þrátt fyrir allt.

Skoðum umræðuna um styrkjamálin, hún er á algjörum villigötum.

Árin fyrir hrun einkenndust af taumlausri græðgi og peningar flóðu um allt. Stjórnmálamenn voru með her af fólki í kring um sig, sem að aflaði styrkja fyrir þá.

Sumum gekk vel og öðrum ekki eins vel.

Þeir sem höfðu öfluga fjáraflamenn eru nú úthrópaðir sem gjörspilltir einstaklingar og heimtað er að þeir segi af sér. Ekki kemur á óvart að flokkur sá sem mest fylgir tískustraumum, Samfylkingin, þvingaði ágæta, en atkvæðalitla konu til að segja af sér þingmensku. En hún fékk ágætt jobb í staðinn.

Staðreyndin er sú, að það hefur ekki heyrst af neinum frambjóðenda í prófkjöri sem neitaði styrkjum, enginn taldi sig vera kominn með of mikla styrki og að nú væri komið nóg, það voru allir að leitast við að fá sem mest.

Ef réttlætis væri gætt og þjóðin væri sjálfri sér samkvæm, þá ættu allir þingmenn að segja af sér sem þegið höfðu styrki. En slíkt er vitaskuld ekki í myndinni.

Því miður sýndu sjálfstæðismenn meðvirkni í þessari umræðu, jafnvel forystan líka.

Ef að grunur er um misbeitingu valds og mútuþægni, þá ber að kæra það strax. Ef það er erfitt að kæra slíkt, þá á þingið að gera það auðveldara.

En stjórnmálamenn eiga ekki að stjórnast af lýðskrumi og dægurmálum.

Þeir eiga að marka sér stefnu og standa og falla með henni. Það á enginn að vera í pólitík til að hafa þægilega innivinnu, pólitík á að vera blóð sviti og tár, tími sárra vonbrigða og stórra sigra.

Stjórnmálamenn eru eins og hver önnur söluvara, þeir selja sig út á ákveðna stefnu og þeir mega ekki, kjósenda sinna vegna hverfa frá henni.

Ef að hugarfarið breytist og stefnan hentar ekki lengur, þá ber stjórnmálamanni að víkja, hann var ekki kosinn út á geðþóttaákvörðun sína, heldur fyrir hvað hann stóð í sinni kosningabaráttu.


Eru sjómenn einir um að plata nýliða?

Mikil umræða hefur skapast um svokallaða "manndómsvígslu" til sjós og segja margir að nýliðar séu plataðir þar fram og til baka og þeir svívirtir og hæddir.

Það er mikið til í þessu, nýliðar fá oft svona mótttökur til sjós, en þetta er allt gert í gríni og enginn, eða þá mjög fáir, hefur borið varanlegan skaða af.

En grunnhyggni umræðunnar breytist lítt, nú heldur fólk að sjómenn séu einir um þetta.

Ég hef verið sjómaður mestalla tíð, en fyrir mörgum árum lagði ég stund á trésmíðanám, þannig að nokkur ár starfaði ég sem smiður.

Nýliðar í byggingavinnu eru sendir eftir hringvinkli, rishallaréttskeið, hæðarpunktum og negulnöglum. Í vinnuskúrum er líka notast við klámfenginn húmor og talsverða kaldhæðni.

Ég þekki ekki önnur störf en sjómennsku og trésmíði, en veit að rafvirkjar, píparar, málarar og aðrir iðnaðarmenn hafa sama húmorinn að þessu leiti.

Líklegt er að pervertar leynist líka í röðum iðnaðarmanna eins og í öðrum stéttum.

Nú hafa einstaklingar hér á landi, sem starfað hafa með börnum í kristilegu starfi verið kærðir fyrir kynferðislegt ofbeldi á börnum.

Eigum við þá að segja að allir sem starfi með börnum, séu þeir karlkyns, séu þá pervertar?

Þessi umræða má aldrei fara á þann veg, að fólk trúi því, að sjómenn upp til hópa ástundi klám og barnaníð, slíkt er ekki hægt að sætta sig við.

Ég mundi heldur ekki sætta mig við, að allir sem starfa með börnum hafi vafasamar kenndir í þeirra garð.

Það fer að koma tími á, að þjóðin fari að hugsa, annars kemst ekkert vit í neina umræðu.


Er það lausn að fá ungt fólk og konur?

Heyrst hefur innan Sjálftæðisflokksins það sjónarmið, að það sé heppilegt til vinsælda að fjölga ungu fólki og konum í flokknum og fá þessa hópa til trúnaðarstarfa fyrir flokkinn.

Því miður minnir það óþægilega á þvaðrið í vinstri flokkunum.

Konur eru vitanlega eins og karlmenn, varðandi hæfileika, greind og getu, misjafnar. Sama má segja um ungt fólk. Ekki er sjálfgefið, þótt herskari ungs fólks og kvenna yfirtaki flokkinn, að traustið aukist á flokknum.

Reyndar, miðað við þessa heimsku sem ríkir í þjóðfélaginu, þá er mögulegt að ímynd flokksins batni um stundarsakir, því mörgum þykir svo ægilega merkilegt að sjá ungt fólk og konur í ábyrgðarstöðum.

Í raunveruleikanum er verið að takmarka möguleika flokksins til vaxtar með svona ódýrri auglýsingamennsku.

Konur hafa sýnt það og sannað að þær geta gert allt það sama og karlmenn, varðandi stjórnun ríkja, fyrirtækja osfrv., þær standa vitanlega fullkomlega jafnfætis körlum á þessum sviðum, ég hélt að allir vissu þetta, aðrir en vinstri menn, þeir halda að það sé nóg að fá konu við stjórnvölinn og þá reddist allt. Jóhanna Sigurðardóttir er kona og ekki hefur hún verið farsæll stjórnmálamaður, þannig að alhæfingar um að konur séu hæfari en karlmenn standast ekki.

Við þurfum að notast við skynsemi og heilbrigða dómgreind, ekki eltast við tískubylgjur eins og Samfylkingin gerir.

Við eigum að sjálfsögðu að kjósa hæfasta einstaklinginn og leita eftir góðu fólki til að vera í forsvari fyrir okkur.

Heppilegustu kandídatarnir geta verið karlar á áttræðisaldri, konur um þrítugt og piltar rúmlega tvítugir, ungar stúlkur nýkomnar með kosningarétt osfrv., einfaldir staðlar henta ekki þegar verið er að velja fólk í ábyrgðarstöður.

Sjálfstæðismenn eiga að horfa á einstaklinginn en ekki á aldur, kyn, litarhátt eða kynhneigð.

Við þurfum heiðarlegt fólk til starfa og við höfum heiðarlegt fólk í forystu, enginn hefur verið dæmdur fyrir neitt í þessum hópi og allir eru saklausir uns sekt er sönnuð, samkvæmt meginstoðum réttarríkisins.

Sjálfstæðisflokkurinn fetar vafasamar brautir ef hann ætlar að einskorða sig við ákveðinn aldur og ákveðið kyn, þá verður engin alvöru dómgreind til staðar.

Nú dettur einhverjum í hug, að ég sé að lýsa vantrausti á Hönnu Birnu, en það er ekki rétt.

Hún getur leitt flokkinn eins og Bjarni getur það líka. Ég sef alveg rólegur alla helgina, því ég get sætt mig við þau bæði. Það eru fleiri aðilar en einn formaður sem markar stefnuna og eflir fylgið.

Mér er meinlilla við alla frasa, hvort sem þeir segja að konur séu hæfari en karlar eða öfugt. Frasar eru eina vopn vinstri manna, því þeirra stefna hefur aldrei virkað.

Við sjálfstæðismenn höfum stefnu sem er löngu búin að sanna sig, þess vegna höfum við ekkert með ódýra frasa að gera.

Sjálfstæðisflokkurinn á að selja sína stefnu og ekkert annað. Ef þjóðin kaupir ekki sjálfstæðisstefnuna eins og hún er, þá verður svo að vera.

En að laga sig að tískubylgjum, það er engum flokki til nokkurs sóma.


"Væg busun"?

Sá sem að kallar það "væga busun", að bera kynsfæri sín fyrir framan þrettán ára pilt, hlýtur að vera afskaplega mikið brenglaður í hugsun.

Ef rétt væri að málum staðið, hjá dómsvaldinu, þá hefði átt að senda þann einstakling í geðrannsókn sem heldur þessu fram.

Ósjálfrátt leitaði hugur minn þrjátíu ár aftur í tímann, en þá byrjaði ég til sjós.

Kallarnir sem tóku á móti mér voru ekkert sérstaklega blíðlegir við þennan strákpjakk sem þeir áttu að vinna með. Ég var kallaður "strákur" eða "drengur" fyrsta túrinn og "drengdjöfull" og "strákandskoti" ef ég skildi ekki hvað þeir voru að segja. Þegar þeir ávörpuðu mig með nafni, þá fann ég að þeir voru að taka mig í sátt.

Svo var ég kallaður elskan mín og vinur, þegar ég var farinn að sýna smá frumkvæði.

Þetta voru hörkunaglar, sem höfðu verið úti á sjó allt sitt líf og aldrei tekið sér frí, en þeir kepptust við að vernda mig og þar sem að ég var einungis sextán ára, þá finnst mér sem þeir, í minningunni, hafa haft föðurlegar tilfinningar til mín, það bjó mikil og einlæg hlýja fyrir innan harða skrápinn sem hafði hlaðist utan á þessa jaxla.

Þegar ég fór í mína fyrstu siglingu til Grimsby, þá var mér bent á það, að menn ættu að slá limnum utan í lunninguna, það átti víst að vera gamall og góður siður, en ekki var þrýst á mig að gera það, þótt þeir fífluðust oft með það.

Þetta voru fallegar og saklausar sálir sem þekktu ekkert annað en þann þrönga heim sem skipið hafði upp á að bjóða.

Ég geri ráð fyrir að fleiri sjómenn hafi upplifað svipað og ég, þegar þeir byrjuðu til sjós, en lýsing drengsins á framferði þessara manna er vonandi einsdæmi.

Ekki er ég ofbeldisfullur að eðlisfari, reyndar er ég alfarið á móti ofbeldi.

En ég efast um að hugurinn hefði náð, að hafa stjórn á hnefunum, ef minn sonur hefði lent í þessu, sjálfsagt hefði ég ráðist á manninn, hætt hið snarasta á skipinu og dreift myndum af þessum óþverrum með nákvæmum lýsingum á eðli þeirra, sem víðast í netheimum öllum.

Svona framferði á aldrei að viðurkennast í siðuðu samfélagi og fiskiskip eru sannarlega siðuð samfélög sem misbjóða ekki óhörðnuðum unglingum, með  svona klámfengum og ógeðslegum hætti.

 


mbl.is Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjan verðskuldar að fá að sanna sig til fulls.

Hægt er að færa rök fyrir því, að ekkert samfélag hafi byggst upp með jafnaðarstefnu að leiðarljósi.

Nú spyrja sig margir, getur þetta verið rétt? Hvað með hin Norðurlöndin, t.d. Danmörku og Svíþjóð, er ekki ástandið hvað best þar?

Vissulega hafa þessi ríki verið ansi rausnarleg, varðandi framlög í sín velferðarkerfi, en hvað byggði þau upp?

Svíþjóð byggðist á iðnaðarframleiðslu og frjálsum viðskiptum, Danmörk byggðist upp á kaupmennsku ýmiskonar og frjálsum viðskiptum.

Það var kapítalisminn sem gerði þessum ríkjum kleyft að búa við jafnaðarstefnu áratugum saman, en samt sem áður hefur kostnaðurinn við þesi ofþöndu velferðarkerfi þeirra oft verið ansi íþyngjandi, þrátt fyrir mikla verðmætasköpun áður en jafnaðarstefnan komst til valda.

Miðað við reynslu þessara ríkja af jafnaðarstefnunni, sem stöðugt þarf á meiri hagvexti að halda til að standa undir sér, þá er frjálshyggjan það eina sem getur bjargað okkur íslendingum.

Nú fer reiðin að krauma í mörgum sem lesa þessi orð, þeir spyrja sig að því, hvort þessi skrítni pistlahöfundur sé orðinn endanlega snargalinn, var það ekki frjálshyggjan sem olli hruninu?

Nei, frjálshyggjan boðar ekki ríkisvæðingu á tapi einkafyrirtækja, heldur eiga þeir að tapa sem fara illa að ráði sínu. Frjálshyggjan hefði aldrei leyft það, að ríkið gerði tilraun til að semja um Icesave-skuldir einkabanka.

Frjálshyggjan hefði heldur aldrei leyft ofþanin ríkisútgjöld, því slíkt er eitur í beinum frjálshyggjufólks.

Það sem að vantaði hér á landi á árunum fyrir hrun, var einmitt hrein og tær frjálshyggja, því ekki er hægt að neita því, að Sjálfstæðisflokkurinn boðaði frjálshyggju upp að vissu marki, en fór aldrei alla leið, þess vegna fór sem fór. 

En Bandaríkin, Mekka frjálshyggjunnar spyrja sumir, er ekki þar allt á öðrum endanum?

Jú, það er vegna þess að Bandaríkjamen eiga það sammerkt með þeim sem fóru með völd fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, að vera hrifnir af frjálshyggju, en leyfa henni ekki að njóta sín til fulls. Segja má að það sé vegna þess samspils á milli stjórnmálamanna og kjósenda, sem þekkist í flestum löndum, stjórnmálamenn verða að gefa kjósendum vinsældanammi til að hljóta atkvæði þeirra.

Bandaríkjastjórn ákvað það, að allir ættu að eiga húsnæði óháð efnahag. Ósangjarnt er að segja það einu ástæðu hrunsins, en undirmálslánin vógu ansi þungt.

Svo má ekki gleyma öllum þessum ofurríku Bandaríkjamönnum, sem hafa stjórnmálamenn í vasanum. Þeir sem að kaupa sér hlunnindi, með því að styrkja stjórnmálamenn, eru ekki frjálshyggjumenn, enda er þesi hópur lítt hrifinn af frjálshyggju yfirhöfuð, þeir vilja ekki samkeppni.

Frelsið er okkur ákaflega dýrmætt, en það er erfitt að höndla það. En sú staðreynd er einmitt helsti kosturinn við frelsið, því án erfiðleika þá kemur enginn þroski.

Sumir telja það, að vitrir og góðir stjórnmálamenn reddi öllum málum.

Gefum okkur það, að við fáum vitra og réttsýna stjórnmálamenn, sem gera allt 100% og það verður ekkert vesen, öllum líður vel. Vissulega er það ákaflega notaleg tilhugsun, en engin rós er án þyrna.

Þegar hugsað er fyrir fólk í einu og öllu, þá sljóvgast öll sjáfsbjargarviðleitni, fólk líður áfram í sæluvímu og allt gengur upp.

Stjórnmálamenn eru dauðlegar skepnur og þeir hafa ekki endalaust starfsþrek, einhver þarf að taka við.

Þegar sterkir leiðtogar hverfa, þá myndast ákveðið tómarúm sem erfitt er að fylla í, þannig að það koma erfið ár, upplausn og jafnvel óeirðir í kjölfarið.

Þess vegna er betra að hver og einn, sem er sjálfbjarga, treysti á sjálfan sig og gæti sín sjálfur á lífsins hálu braut. Menn hljóta harðar byltur, en rísa upp og halda áfram, læra af mistökunum og verða á endanum betri menn.

Frjálshyggjan ætlast ekki til þess að allir verði ríkir, en þeir sem vilja verða ríkir fá tækifæri til þess.

Það er göfugt að veita fólki frelsi, en frjálshyggjan getur ekki breytt mannlegu eðli. Sumir eru sterkari en aðrir og það er gott, því aðrir njóta góðs af því. Þeir sem eru sterkir á viðskiptasviðinu veita fólki atvinnu, þeir sem eru sterkir á fræðasviðinu veita fólki fræðslu osfrv. Svo er það markaðarins að ákveða kaup og kjör, ríkið á hvergi að koma nálægt því.

Ríkið á að sjá borgurunum fyrir grunnþjónustu, sjá til þess að hlúð sé að þeim sem eru ósjálfbjarga af ýmsum sökum, ríkið á að sjá til þess að skýrum og einföldum leikreglum sé fylgt eftir og að enginn geti troðið öðrum um tær.

Sjálfstæðisflokkurinn á að ganga alla leið og boða alvöru frjálshyggju en ekki eithvað hálfkák. Við erum sköpuð með samkennd í okkar hjarta, þannig að við viljum ekki að illa sé farið með neinn.

Það er siðleysi að fara illa með fólk og frjálshyggjan er ekki siðlaus stefna, heldur mannræktarstefna byggð á kristilegum gildum.

Í hinni helgu bók segir m.a. að;"eins og maðurinn sáir mun hann uppskera", það er frjálshyggjan í hnotskurn.

Frjálshyggjan er líka algerlega litblind, hörundslitur skiptir engu máli né heldur kynhneigð viðkomandi, aðeins að hver og einn sýni sjálfsagða tillitsemi og hlýði einföldum lögum og reglum.


Hver gleðst yfir erfiðleikum ESB ríkja?

Það er athyglisvert að lesa ýmis ummæli í netheimum, en nokkrir úr hópi aðildarsinna halda því fram, að við sem kjósum ekki aðild að ESB, gleðjumst yfir erfiðleikum nokkurra ríkja sambandsins.

Hvergi hef ég séð það á prenti né heyrt nokkurn gleðjast yfir erfiðleikum þjóða, en það ber vissulega vott um sjúkt hugarfar viðkomandi ef svo er. Við íslendingar höfum engan hag af því að bandalagsþjóðum gangi illa í efnahagsmálum, þvert á móti hefur það neikvæð áhrif á okkur, því við seljum Grikkjum, Spánverjum og Portúgölum saltfisk eins og kunnugt er, þannig að erfiðleikar þeirra hljóta að bitna illa á okkur.

Vissulega fer ekki á milli mála hver er ástæðan fyrir þessum spuna aðildarsinna.

Ástæðan er einfaldlega sú, að bent hefur verið a, að ríki geta verið í miklum erfiðleikum þrátt fyrir að þau séu innan vébanda ESB. Það er m.a. vegna þess að aðildarsinnar sögðu það lengi vel, að með inngöngu í ESB, þá myndi stjórnsýslan stórbatna hér á landi og kreppan af völdum hrunsins vera okkur léttbærari.

Það stenst ekki, vegna þess að slæm stjórnsýsla þekkist í aðildarríkjum ESB og þar er alvarleg staða í efnahagsmálum. Málflutningur andstæðinga gengur út á það, að útskýra fyrir þjóðinni að það batnar ekkert við ingöngu í ESB.

Vitanlega ósku við þess öll, að ESB ríki þau sem illa standa um þessar mundir nái tökum á sínum efnahagsmálum. Það er nefnilega okkar hagur að sambandsríkjunum öllum gangi sem best.

Ástæðan fyrir því að ég vil ekki inngöngu í ESB er einföld, ég hef ekki sömu pólitísku sýn og þeir í Brussel.

Til að nefna dæmi er hagt að tala um anstöðu þeirra við hvalveiðar.

Á sama tíma og ESB mótmælir hvalveiðum og bannar þær, þá finnst þeim í lagi að spánverjar píni saklausa nautgripi sér til skemmtunar, en það þykir mér óþverraháttur af verstu gerð.

Einnig er mér illa við afskiptasemi þeirra í Brussel, þeim á ekki að koma við, hvort íbúar aðildarríkjanna taki fínkorna tóbak í nefið eða skelli sænsku munntóbaki í vörina. Það undarlega er, að þeim þykir í lagi að fólk keðjureyki eins og gamlir kolatogarar, sjálfum sér og öðrum til skaða.

Við sem andstæð erum aðild þurfum enga efnahagserfiðleika til að rökstyðja okkar málsstað, nóg er til af haldgóðum rökum.

Ég þori að fullyrða það, að enginn aðildarandstæðingur sem áberandi er í umræðunni gleðjist yfir erfiðleikum bandalagsríkjanna, þetta er ekkert annað en ódýr spuni aðildarsinna sem þeir nota í sínu ofsafengna ESB trúboði.


Það er enginn öfgaþjóðernisflokkur í framboði.

Þessi ESB umræða einkennist af mikilli móðursýki og jafnvel hámenntaðir og vel gefnir einstaklingar á borð við Eirík Bergmann bregða fyrir sig ómarktækum líkingum í sínum málflutningi.

Kannski segir hann það ekki berum orðum, en slíka merkingu má lesa út úr því sem hann setur fram.

Það er enginn flokkur á Íslandi öfgaþjóðernissinnaður. Til eru öfgaþjóðernissinnar hér á landi, en sem betur fer eru þeir ekki margir.

Það er engin öfgaþjóðernishyggja að elska sitt land og vilja veg þess sem mestan, heldur er það miklu fremur heilbrigð skynsemi.

Sú þjóð sem ekki hefur mikla trú á eigin getu og djúpa sannfæringu fyrir ágæti sínu, verður aldrei annað en þiggjandi í samfélagi heimsins.

Ef við segjum við okkur, að við séum ekkert merkilegri en aðrar þjóðir, jafnvel minni, þá verðum við það.

En ef við segjum við okkur, að við séum kraftmikil og dugleg þjóð, sem hefur möguleika á að ná langt í samkeppni við aðrar þjóðir, þá tekst okkur það. Vitanlega verðum við að þjálfa okkur og rækta, en án trúar á eigin getu, þá er allt unnið fyrir gíg.

Sá sem er stoltur af sjálfum sér og hefur mikið sjálfstraust, hann hefur oftast trú á öðrum og sýnir þeim virðingu. Góð sjálfsvirðing er gulls í gildi og forsenda framfara.

Að mínu viti er það ekkert annað en uppgjöf og aumingjaskapur, að skríða til Brussel í þeirri von, að okkur verði nú bjargað þar, við eigum og getum vel bjargað okkur sjálf.

En ef nógu margir missa trúna á hina íslensku þjóð, þá höfum við enga möguleika.

Öfgaþjóðernishyggja er hroki og heimska, við eigum að bera virðingu fyrir örðum þjóðum og dást að því sem þær gera vel, þannig getum við þroskað okkur um leið og við tryggjum okkur vinsemd og virðingu annarra þjóða.

Hagkerfi heimsins er samofið, þannig að öll lönd í hinum vestræna heimi eru háð öðrum löndum, þetta vita allir.

ESB gerir ekkert fyrir okkur, sem við getum ekki gert sjálf. Háskólakennarar ættu að þróa sín fræði í stað þess að grípa til samsæriskenninga að hætti heimskra manna.


mbl.is Gagnrýna grein dósents
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandamenn reiðinnar.

Reiðin á sér nokkra trygga bandamenn á Íslandi sem fylgja henni í blindni.

Gjarna hlaupa þessir bandamenn reiðinnar niður á Austurvöll og gera þar ýmsan óskunda, í nafni þjóðarinnar.

Ekki er ætlunin að lítilsvirða þetta ágæta fólk, því í þessum hópi er vel meinandi og gott fólk, en reiðin gerir greindan mann sauðheimskan, eins og dæmin sanna.

Vissulega erum við íslendingar að súpa seiðið af afleiðingum fjármálakreppunnar sem reið yfir heiminn fyrir þremur árum, en reiðialdan setti allt á annan endann.

Það var reiðin sem kom þessari ríkisstjórn til valda. Frá árinu 1991 og fram að hruni, kom engum hugsandi einstakling til hugar að kjósa yfir sig vinstri stjórn, en hin trygglynda reiðinnar systir, heimskan, kemur ávallt í kjölfar systur sinnar og bregður sér í skynseminnar líki.

Það verður engin sögubók sem telur Jóhönnu eða Steingrím vera merkilega leiðtoga, en vissulega eru til einstaka sérvitringar hér á landi sem trúa að þau séu það.

Þeir sem að trúa því, að hægt hafi verið að koma í veg fyrir kreppu á Íslandi hafa afskaplega slaka dómgreind, svo ekki sé nú dýpra í árina tekið.

Íslenska þjóðin vildi veg og vanda útrásarvíkinga sem mestan, á árunum fyrir hrun, þannig að allar tilraunir hins opinbera til þess að hamla vexti fjármálakerfisins hefðu þýtt pólitískt sjálfmorð fyrir sitjandi ríkisstjórn þess tíma. Það fer enginn stjórnmálamaður í berhögg við eindreginn vilja þjóðar sinnar, nema að hann sé ákveðinn í að hætta í pólitík.

En bandamenn reiðinnar þykjast tala í nafni þjóðarinnar.

Sjálfur hef ég megnustu andúð á öllum þessum mótmælum. Skynsamlegra er að nýta orkuna til þess að finna lausnir sem virka.

Allar kreppur taka enda, en þær koma alltaf aftur, vegna þess að heimurinn er svo lengi að læra.

Heimurinn er heltekinn af græðgi, við hendum nýtilegum hlutum og við hendum miklum mat. 

Með því að temja sér nægjusemi og nýtni, jákvætt hugarfar og kærleik, þá er hægt að endurreisa heiminn.

En með úreltum og gamaldags mótmælum, sem stjórnast af múgsefjun og reiði, þá halda bandamenn reiðinnar okkur föstum í viðjum fortíðar.

Hægt er að fullyrða að kreppan tekur enda og það kemur aftur góðæri og þensla. Síðan gleymir heimurinn sér í græðginni, eyðir um efni fram, ríkin fara í óeðlilega mikla peningaprentun og svo kemur aftur kreppa, mótmæli, múgsefjun osfrv.

Við komumst aldrei úr þessum vítahring öðruvísi en að sigrast á reiðinni.

Þeir bandamenn reiðinnar sem þykjast vera að berjast fyrir hinn almenna borgara, ættu að staldra aðeins við og nýta löngu gleymda dómgreind.

Þá myndu þeir sjá, að þeir hafa dýpkað kreppuna og fest hana í sessi. Hún hverfur um stund, en kemur alltaf aftur. Græðgin er nefnilega líka náskyld þeim hvimleiðu systrum, Reiði og Heimsku.


Dagur án listar?

Í viðtali við Sirrý á Rás 2. í morgun, kvaðst Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Samtaka listamanna, ætla að lofa fólki að lifa ein dag án listar, þann 1. nóvember næstkomandi. Þetta mun vera gjörningur, sem á að sýna fólki fram á að það sé hryllileg tilvera, að lifa án listar.

Ef gengið er út frá þeirri skoðun, að list sé sköpun sem valdi hughrifum, þá er ómögulegt að lifa einn dag án listar. Lífið hefur að geyma fegurstu listaverk, sem hægt er að njóta allan ársins hring, án þess að finna til leiða.

Þeir sem eiga börn þekkja það vel, hversu stórkostleg listaverk börnin eru, þau eru fegursta sköpun heimsins.

Og fyrir foreldra að fylgjast með barni vaxa, frá því að það kemur úr móðurkviði og þar til barnið nær fullorðinsaldri, það veldur miklum og djúpum hughrifum sem engin manngerð list getur nálgast. Börnin hreyfa við okkur, þau geta verið krefjandi og erfið, indæl og ljúf og öll erum við sammála um, að lífið sé einskis virði án þeirra.

Það ber merki um andlega fátækt að sjá ekki listina í lífinu sjálfu.

Fjöllin, í mismunandi birtu, hafið í sinni margbreytilegu mynd, stundum brosir það ljúflega til mín og stundum er það skelfilega úfið og illvígt að sjá, það veldur alltaf ýmiskonar hughrifum.

 Kolbrún hefur eflaust átt við manngerða list, en það geta allir lifað án hennar, ef þeir kunna að meta  listaverk skaparans í sinni fjölbreytilegustu mynd.

Ekki er ætlunin að skammast út í manngerða list, vissulega er hún stórkostleg ef hún er vel gerð, en að sama skapi er hún hræðileg, ef listamanninn skortir auga og næmni fyrir því, hvað fólk þarf að finna út úr listinni.

Kolbrún benti líka á, að listageirinn væri að skapa jafnmikið í tekjum og sjávarútvegurinn. Það er óttaleg einföldun, þótt upphæðin sem hún nefnir sé ansi há og komist nálægt tölunum í sjávarútvegnum, þá er stór munur á. Sjávarútvegurinn kemur með nýtt fjármagn í landið, á meðan listageirinn, að mestu leiti, sópar til sín því fjármagni sem útflutningsgreinarnar skapa.

En list er góð, sé hún framkvæmd á réttan hátt. Listamaður má aldrei láta hrokann ná tökum á sér, hann má ekki ofmetnast.

Listamaðurinn þarf að vera eins og lítið barn, sem sýnir nýteiknaða mynd, feimið á svip og óöruggt með viðbrögðin við listinni. Barnið tekur við hrósinu og hrósið fær það til að vaxa, barnið fær hrósið því það hefur hreint hjarta.

Sannur listamaður þarf að viðhalda hreinu hjarta, annars verður list hans fölsk.

Listamenn auðga lífið, ekki er hægt að mótmæla því.

En þeir geta aldrei keppt við sjálfan höfund lífsins, hans list er fullkomin og allir listamenn mennskir, keppast við að endurgera hans list, með misjöfnum árangri.

Þess vegna er aldrei hægt að lifa eina einustu mínútu án listar, því listin er jú lífið sjálft og heimurinn allur.


Steingrímur er á rangri hillu.

Ég stóð í aðgerð og hlustaði á útvarpsfréttir í morgun. Þar var flutt brot úr landsfundarræðu Steingríms J. Sigfússonar.

Ég er víst karlmaður og á þar af leiðandi erfitt með að gera tvennt í einu, þannig að ég gat ekki hlustað á ræðuna af athygli og gert að ufsa, en ég tel mig hafa náð heildarmyndinni af málflutningi fjármálaráðherrans.

Hann er raunar svo fyrirsjáanlegur, Steingrímur er eins og rispuð hljómplata, skammast út í Sjálfstæðisflokkinn og finnst öll gagnrýni ómálefnaleg.

Eitthvað minntist hann á, að ríkisstjórnin þyrfti að útskýra betur fyrir þjóðinni öll þau góðu verk sem hún hefði framkvæmt og að breyta þyrfti umræðuhefðinni í stjórnmálunum.

Það væri nú reyndar sniðugt að byrja á því að framkvæma góð verk og kynna þau svo, en Steingrímur hefur ekki alveg áttað sig á því.

Það telst ekki afrek að geta föndrað við fjármál, með dyggri aðstoð AGS og fleiri sérfræðinga og náð þeim árangri, að einhverjar jákvæðar tölur birtast á pappírum.

Hann ætti kannski að skoða verk sín varðandi skipan Svavars í samninganefndina, tæpa tvöhundruð milljarða sem settir voru í ónýtar fjármálastofnanir og illa rekið tryggingafélag.

Steingrímur getur aldrei sannfært þjóðina um sín góðu verk, því þau eru ekki til. Honum skortir þann kjark sem leiðtogi þarf til að bera.

Það getur hver sem er, ef viðkomandi hefur góðan talanda og frjótt ímyndunarafl, öskrað úr pontu, en öskrin duga skammt og öskur eru einkenni kjarklausra manna sem eru í afneitun á eigin heigulshátt.

Hann varð hræddur við Breta og Hollendinga, þjóðin sá að óttinn var ástæðulaus. Eflaust hefur hann líka verið hræddur við vogunarsjóðina sem hann leyfði að njóta niðurfellingu lánasafnanna osfrv.

Steingrímur ætti að staldra við og hugsa áður en hann talar.

Geir H. Haarde, sá sem hann kærði með sorg í hjarta, hafði kjark. En Geir öskrar ekki heldur gengur einbeittur til verks og eins og sönnum heiðursmanni sæmir, þá gortar Geir sig ekki mikið, en það gerir Steingrímur mjög oft, en það er innistæðulaust grobb að hætti lítilsigldra manna.

Geir og félagar settu neyðarlögin, en þau voru tvísýn og ekki sjálfgefið að þau héldu. Það þarf áræðni og kjark á erfiðum stundum, Steingrími skortir þann kjark.

Steingrímur ætti líka að muna það, að fyrir kosningarnar 2007, gaf hann þeirri hugmynd undir fótinn, að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, þannig að ummæli hans um sjálfstæðismenn fela í sér holan hljóm.

Hann hrósaði Sjálfstæðisflokknum fyrir hrun, hann sagði ýmislegt hafa gengið vel hjá þeim og vafalaust hafa það verið sömu verkin er hann hrósaði þá, sem hann gagnrýnir hvað mest í dag.

Steingrímur er ágætur málafylgjumaður í stjórnarandstöðu og fínn talsmaður fyrir vinstri menn. En sem leiðtogi í ríkisstjórn fær hann falleinkunn.

Það þarf engan kjark í stjórnarandstöðu, þar geta menn hrópað og kallað og glatt sína stuðningsmenn með innihaldslausu orðagjálfri. En það gengur ekki í ráðherraembætti, þá verða menn að hafa kjark og þor til að taka erfiðar ákvarðanir, oft tvísýnar og kunna að standa og falla með eigin gjörðum.

Enginn stjórnmálamaður getur lofað að taka alltaf réttar ákvarðanir, stundum er það ekki hægt því staðan getur verið á þann veg.

Við getum þakkað Guði fyrir það, að Steingrímur var ekki í ríkisstjórn í aðdraganda hrunsins.

Þá hefði þjóðin neyðst til að axla allar byrðar, 7000. milljarðar hefðu fallið á hana, greiðslumiðlun við útlönd hefðu eflaust ekki gengið eins vel osfrv., þá værum við í djúpri kreppu.

Tími Steingríms rennur brátt sitt skeið, því þjóðin hlýtur að vera farin að sjá í gegn um hann.

Ekki skal gripið til þess óþverraskapar sem vinstri menn iðka og rakka hann niður sem persónu.

Steingrímur er örugglega vel meinandi og góður hugsjónamaður, ég gæti trúað að hann sé skemmtilegur í viðkynningu og ágætur félagi.

En sem æðsti ráðamaður þjóðarinnar er hann vonlaus, kjarkurinn er lítill og dómgreindin afskaplega slök.

Það er enginn gallalaus, en fólk þarf að velja sér störf við hæfi, til þess að kostir þess fái að njóta sín til fulls.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband