Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 27. október 2011
Þróun hugarfarsins á að vera næsta skref.
Vissulega ber að fagna öllum tækniframförum á öllum sviðum, maðurinn á stöðugt að þróa nýja tækni, það kemur heiminum öllum til góða.
En á meðan heimurinn hefur gert kraftaverk í læknavísindum og á flestum sviðum tæknigreina, þá er hugarfarið enn það sama og það hefur verið, í aldanna rás.
Fyrr á öldum voru aðalsmenn og konungar sem stjórnuðu heiminum. Hinn almenni borgari hafði enga möguleika, nema að hann nyti velvildar hjá aðlinum. Sem betur fer tókst að breyta því og í dag er hinn vestræni heimur frjáls að öllu leiti, nema að hann er fastur í hlekkjum fortíðarhugsunar.
Þar sem að alþýðan var vön því, að þurfa að lúta yfiráðum aðalsins, þá hélt hún áfram af gömlum vana að kjósa yfirráð aðals sem hún bjó sjálf til. En það er huglægur undirlægjuháttur sem á enga stoð í raunveruleikanum.
Alþýðan neyðist ekki til að lúta yfirráðum markaðarins, hún er sjálf hluti af markaðnum.
Ef að fólki líkar ekki við framgöngu markaðsráðandi afla, þá hefur það möguleika á, að hætta að versla við þá sem því mislíkar við.
Í stað þess að notfæra sér möguleika frjáls markaðar, þá lætur heimurinn stjórnast af hugarfari fortíðar og telur sér trú um að það sé ekkert hægt að gera.
Í frjálsu hagkerfi er enginn neyddur til að borga uppsett verð og enginn neyddur til að versla við neinn. Það eru tækifæri fyrir alla til að hefja samkeppni og laða til sín viðskipti óánægðra viðskiptavina, en viðskiptavinirnir verða þá líka að vera tilbúnir til að beina sínum viðskiptum frá aðilum sem þeim mislíkar við.
Hverjir eru svo þessir auðmenn sem fólk er að ergja sig á?
Þeir eru ekki konungbornir og þeir eru ekki aðalsmenn, heldur dugmiklir einstaklingar af almúgaættum sem unnu sig upp í þá stöðu sem þeir eru í. Þeir eru ekkert betri eða verri en gengur og gerist.
Græðgi þeirra er sú sama og býr í öllum mönnum, en almúginn eflir græðgina hjá þeim, með því að borga uppsett það verð sem þeir setja upp.
Það er ekki til neitt sem heitir rétt eða rangt verð, heldur er verðmyndun samkomulag milli kaupenda og seljenda á markaði.
Það getur enginn selt fyrir verð sem enginn vill kaupa.
Frelsið er til staðar, en fólk vill ekki nota það.
Aldagömul hugsun og undirlægjuháttur stórs hluta heimsins kemur í veg fyrir að hann geti notið frjáls markaðar til fulls. Um leið og við slítum af okkur hlekkina og þróum hugarfarið í átt að frjálsum markaði nútímans, þá höfum við leyst eina hindrun af mörgum og varðað leið í átt til betra lífs.
Ríkið á ekki að skipta sér af hinum frjálsa markaði að öðru leiti en því, að sjá til þess að frjáls samkeppni sé fyrir hendi.
Fólk sem treystir á stjórnmálamenn dæmir sig sjálft til sárra vonbrigða, því stjórnmálamenn geta ekki einir og sér breytt heiminum.
Flestir þekkja þá gömlu speki sem segir að enginn geti breytt öðrum en sjálfum sér, maðurinn er ekki auðtamin skepna, sem betur fer.
Hvernig er þá hægt að ætlast til þess, að stjórnmálamenn, sem jafnvel eru afburðarmenn, geti breytt heiminum til góðs?
Lærum að þróa hugarfar okkar til betri vegar, þá mun okkur farnast vel um alla framtíð, því næstu kynslóðir munu taka okkar hugarfar í arf.
En hugarfarið verður að þróast með frelsi að leiðarljósi, þess vegna ber okkur að notast við frjálsa stefnu í stjórnmálum.
Boð og bönn breyta engu, varðandi hugarfarið. Fólk hélt áfram að drekka áfenga drykki, þrátt fyrir bann.
En með öflugum forvörnum og almennri hugarfarsbreytingu, þá minnkaði fólk áfengisneyslu sína, af fúsum og frjálsum vilja.
Það dugar heldur ekki að jafna fólk með lögum, við breytum ekki mannlegu eðli með boðum og bönnum.
En við getum sjálf breytt okkur, ef vilji er fyrir hendi.
Ef við þróum ekki okkar eigin hugarfar, þá breytist ekki neitt, þrátt fyrir nýja tækni og meiri lífsþægindi samfara henni.
Fólk sem á nóg að bíta og brenna, en upplifir hugarfarslegan skort, er í sömu stöðu hugarfarslega og fátæklingar fyrr á öldum.
Aldagamall undirlægjuháttur á ekki heima í vestrænu nútíma ríki, en samt eru margir sem vilja lofa honum að lifa, öllum til mikillar mæðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. október 2011
Hver er rót vandans?
Lítið hefur þokast í umræðunni um hvað miður fór í okkar ágæta samfélagi, þegar allt hrundi haustið 2008.
Að sönnu má segja, að gott sé að horfa til framtíðar og læra af mistökum fortíðar, en á meðan þjóðin er föst í hlekkjum blekkingarinnar, þá er lítil von um raunhæfa framtíðarsýn.
Gott og vel meinandi fólk, sem telur sig útbólgið af heilagri réttlætiskennd kemur hlaupandi niður í bæ og finnur djúpa samkennd hvert með öðru. Eftir innileg faðmlög þurrkar fólk tár af hvörmum og finnur að það hefur eignast bandamenn í hinni fölsku baráttu fyrir réttlæti.
Þá er farið að skammast yfir spillingunni sem ríkir í stjórnsýslunni og bankamenn eru úthúðaðir sem alverstu glæpamenn mannkynssögunnar, en það er holur hljómur í rödd þessa góða fólks.
Það er ekki leitað að rót vandans, heldur er allri sökinni varpað yfir á aðra.
Hvað er það sem almenningur, stjórnmálamenn og bankamenn eiga sameiginlegt?
Við erum öll menn, með okkar kosti og galla, en við eigum það sameiginlegt að vilja græða sem mest fyrir okkur sjálf.
Þessi fjandans græðgi er lævís bæði og lipur, hún heltekur háa jafnt sem lága og beitir hinum ýmsu blekkingum til þess að festast í sessi í hugum fólks. En hvað er til ráða?
Þjóðin öll þarf að sameinast um þau lífsgildi sem hún telur mikilvægust fyrir sig. Ef við viljum heiðarleik, þá þýðir ekki að kaupa svarta vinnu af því að hún er ódýrari. Ef það er gert, þá er slitinn hlekkur í keðju heiðarleikans og hún slitnar strax.
Við getum seint orðið nógu heiðarleg til þess að sómi hljótist af, hugarfar okkar er of sýkt af sjálfhverfum hugsunum. En með því að takast á við brestina, þá þokumst við í rétta átt.
Rót vandans er einfaldlega sú, að hver og einn hugsar um eigin hag óháð hagsmunum heildarinnar.
Á meðan mér gengur vel, þá er allt í lagi. Ef ég er ekki veikur, þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur osfrv.
Við eigum að elska okkur sjálf fyrst og fremst, því þá getum við gefið af okkur. En kærleikurinn líður ekkert siðrof.
Þeir sem að heimta það, að stjórnmálamenn gangi fyrstir fram í ræktun heiðarleikans, eru að varpa eigin ábyrgð yfir á aðra.
En ef stór hópur fólks ákveður að rækta með sér heiðarleika og góðar dyggðir, þá er von til þess að fleiri bætist við og þá getum við sagt, að þjóðin eigi sér viðreisnar von.
En á meðan stöðugt er verið að benda á aðra, þá breytist ekkert. Í stað breytinga heldur áfram aldagömul hringrás góðæris og kreppu, reiðiöldur koma og fara, ekkert breytist.
Rót vandans er sjálfhverft hugarfar heimsins, við erum öll meira og minna bullandi sek og enginn getur skorast undan ábyrgð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 26. október 2011
Hverjir byggðu upp bankanna?
Svarið við því, hverjir byggðu upp bankanna ætti að vera augljóst. Það er almenningur að mestu leiti og almenningur heldur áfram að leyfa bönkunum að græða á sér.
Sannleikurinn lætur ekki alltaf notaleg í eyrum, en hann er nauðsynlegur ef óskað er eftir endurreisn sasmfélagsins og jákvæðum breytingum.
Almenningur hefur tekið mikið af óþarfa neyslulánum og á því hafa bankarnir grætt gífurlegt fé. Meðan tekjustreymi almennings var viðunandi, þá voru tekin lán fyrir utanlandsferðum, flatskjám, jeppum osfrv. Óþolinmæði almennings er slík, að allir vilja eignast sem mest á örskömum tíma.
En það kostar að taka lán, bankarnir vita að fólk er tilbúið til að borga vel fyrir þægindin.
En hvað er þá til ráða, hvernig er hægt að stemma stigum við græðgi bankanna?
Þar kemur hinn frjálsi markaður til sögunnar.
Ef almenningur vill alls ekki láta bankanna græða svona mikið á sér og viðhalda ævilöngum og íþyngjandi skuldafjötrum, þá þarf að grípa til raunhæfra aðgerða.
Í hópi almennings leynist menntað fólk á fjármálasviði, það er leyfilegt að stofna banka eða sparisjóði að uppfylltum skilyrðum.
Þá þarf að komast að því, hvort hægt sé að reka fjármálastofnun sem veitir ódýrari lán og er miskunnsamari við skuldara sína.
Í framhaldinu tekur fólk út sínar innistæður, en það mun vissulega valda núverandi bönkum talsverðum vandræðum og líkur eru á, að stjórnendur þeirra hugsi sinn gang, ef þeir sjá að áhlaup sé yfirvofandi.
En það að standa ekki við sínar skuldbindingar og neita að greiða lánin, það er ólöglegt og veldur siðrofi í samfélaginu.
Hinar nýju fjármálastofnanir, sem stofnaðar verða þá af almenningi, gætu yfirtekið lánin og hugsanlega veitt hagstæðari kjör á afborgunum.
Það að standa niður í bæ með mótmælaspjöld og skammast út í bankanna hefur engin varanleg áhrif. Reiðin fjarar út um leið og efnahagsmálin fara batnandi og atvinna eykst í framhaldinu.
Þá fara mótmælendur glaðir og reifir til bankanna sem þeir voru að skammast út í og óska eftir láni fyrir næstu utanlandsferð, því gott er að slaka á eftir mikla vinnu.
Engin hugarfarsbreyting er boðuð með þessum mótmælum.
Þeir sem að byggðu upp bankanna geta hægt að byggja þá upp og jafnvel rifið þá niður ef vilji er til, á löglegan hátt og með friðsömum markaðstengdum aðgerðum.
Ef ekki væri óþolinnmóður almenningur, þá væri enginn ofsagróði hjá bönkunum.
Þá lánuðu þeir eingöngu til húsnæðiskaupa og fjármögnuðu fyrirtæki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. október 2011
Þjóðin þarf á alvöru frjálshyggju að halda.
Margir amast mjög við þeirri góðu og mannúðlegu stefnu sem frjálshygjan boðar, en virða má því ágæta fólki það til vorkunnar, að fæstir í þeim hópi hafa lesið boðskap frjálshyggjunnar, þeir sem eitthvað hafa lesið um hana, hafa eflaust misskilið flest.
Ef vilji er til þess, að kynna sér frjálshyggjuna eins og hún raunverulega er, þá er got að lesa nýútkomna bók sem heitir "Peningar græðgi og Guð".
Sú ágæta bók leiðréttir allar rangfærslur sem komið hafa fram um frjálshyggjuna.
Frjálshyggja boðar ekki græðgi, heldur hafnar frjálshyggjan græðginni, því græðgin hefur slæm áhrif á þann gráðuga og einnig á umhverfi hans.
Ef frjálshyggjan fengi að virka rétt, þá væri staðan önnur en hún er í dag.
Frjáls markaður gerir ráð fyrir kaupendum og seljendum, en þessir tveir aðilar á markaði ákveða verð á vörum og þjónustu.
Á frjálsum markaði er ekki mögulegt að selja neitt, án þess að einhver vilji kaupa.
Fólk hefur ekki ennþá skilið þessa meginreglu frjáls markaðar, þess vegna hafa seljendur að mestu leiti stjórnað verðinu, því kaupendur þrá vörur þeirra svo heitt. Græðgin virðist vera þar á báða bóga.
Félagshyggja og jafnaðarstefna gætu hugsanlega gengið upp, ef til væri nógu mikið af vitrum stjórnmálamönnum sem hefðu skilning á þörfum þjóðarinnar.
En á meðan stjórnmálamenn eru af holdi og blóði, þá er lítil von til þess að hægt sé að finna sextíu og þrjá vitringa sem tilbúnir eru til að setjast á þing, í þrjúhundruð þúsund manna samfélagi.
Og þótt svo væri, þá er ekki víst að það yrði til góðs, ef litið er til framtíðar.
Ef þjóðin venst því, að stjórnmálamenn sjái vel fyrir hennar þörfum og hún þarf ekki að hafa fyrir hlutunum, þá er hætt við stöðnun.
Það eru einmitt mistökin sem þróa menn og þroska, það er lögmál lífsins.
Og segja má að einhver hluti jarðarbúa er ekki ginkeyptur fyrir mikilli visku, fólk hefur þörf fyrir að fara eigin leiðir.
Frjálshyggjan boðar frelsi til athafna og orða. Þeir sem halda að hún snúist um ríkidæmi og völd eru á rangri leið.
Engir þekktir auðmenn hafa verið í hópi helstu boðbera frjálsyggjunnar, enda er frjálshyggja ekki mjög góð fyrir auðmenn sem eru búnir að festa sig í sessi. Þeim þykir betra að eiga sinn markað út af fyrir sig, en slíkt er ekki í anda frjálshyggju.
Frjálshyggjan neyðir fólk til að hugsa, það er vissulega auðvelt að misstíga sig illa í frjálsu efnahagsumhverfi.
En kosturinn við það er sá, að sá sem misstígur sig illa einu sinni, gætir sín í framtíðinni.
Þjóðin þarf að endurmeta flest sín gildi upp á nýtt.
Viljum við refsa dugmiklu fólki og hygla þeim sem minna leggja á sig?
Nei, við þurfum að virða rétt fólks til að ráðstafa eigin fjármagni, með eins hóflegri skattlagningu og mögulegt er.
Færa má gild rök fyrir því, að öflugt eftirlitskerfi geti komið í veg fyrir glæpi, en þar sem hætta er á misnotkun og persónunjósnum, þá viljum við ekki efla möguleika hins opinbera til að hafa eftirlit með okkur.
Öflugt forvarnarstarf, kraftmikið efnahagslíf og jákvætt hugarfar getur líka minnkað glæpi umtalsvert, en engin þekkt aðferð er til, sem útrýmir glæpum.
Og að lokum, sú lífseiga lygi um frjálshyggjuna, að hún vilji aldraða og sjúka út á Guð og gaddinn, stenst enga skoðun.
Það vilja allir að öldruðum og sjúkum líði sem best, annað er mannvonska af verstu gerð, en illskan er víst þverpólitíkst afl eins og flestir mannanna lestir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 26. október 2011
Rétt hjá Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það mun vera rétt hjá hæstvirtum forsætisráðherra að segja, að svartsýni hjálpi okkur ekki neitt, enda er svartsýni aldrei til góðs.
En raunsæi er hinsvegar nauðsynlegt og afstaða ASÍ endurspeglar raunsætt mat á aðstæðum hér á landi.
Því miður hefur ríkisstjórnin ekki gefið ástæður til bjartsýni, varðandi efnahagsbata, því ráðamenn hafa unnið ötullega gegn sköpun hagvaxtar.
Ómögulegt er að spá fyrir um framtíðina, en menn nota oftast nútíð og nýliðna fortíð sem forsendur fyrir sínum framtíðarspám.
Ríkisstjórnin hefur leynt bæði og ljóst unnið gegn álversframkvæmdum. Vissulega er það ekkert kappsmál fyrir þjóðina að fá endilega álver, en þau eru engu að síður góður kostur fyrir okkur. Álver skapa mörg störf, fleiri störf á byggingatímanum, en okkur veitir ekki af innspýtingu í atvinnulífið um þessar mundir.
Svo eru þau líka öruggir orkukaupendur, því álver gera orkusölusamninga til tuttugu og fimm ára, á meðan önnur fyrirtæki gera samninga til skemmri tíma. Stöðug eftirspurn er eftir áli og fátt sem bendir til þess, að eitthvað annað leysi það af hólmi í bráð.
Svo er náttúrulega hringlað með sjávarútvegsmálin fram og til baka, það veldur óvissu í greininni og fjárfesting verður þá í lágmarki ásamt eðlilegu viðhaldi skipa.
Háir skattar og pólitískur óstöðugleiki virka heldur ekki vel á erlenda fjárfesta.
Íslendingar standa að mörgu leiti ágætlega að vígi, því ríkisstjórnin hefur ekki setið nógu lengi til að rífa alt það góða niður sem byggt hefur verið upp. Það verða kosningar eftir eitt og hálft ár, rúmlega, þannig að von er til að það taki við ríkisstjórn, sem hatast ekki út í hagnað fólks og gróða fyrirtækja.
Þess vegna er engin ástæða til mikillar svartsýni, enda gerir hún engum gott eins og Jóhanna bendir réttilega á.
En það að vænta mikils hagvaxtar og umtalsverðri fjölgun starfa í tíð þessarar ríkisstjórnar, það er ekki bjartsýni.
Það eru draumórar, en draumórar eru jafnslæmir og svartsýni.
Raunsætt mat virkar alltaf best, en Hrannar hefur gleymt að segja Jóhönnu það, ef hann þá veit það sjálfur.
![]() |
Svartsýni hjálpar ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Föstudagur, 14. október 2011
Lærum af mistökunum og horfum til framtíðar.
Árin fyrir hrun fjármálamarkaða heimsins einkenndust fyrst og fremst af óraunsæi, hugsunarleysi og græðgi og þar bera allir hópar samfélagsins ábyrgð.
Stjórnmálamenn báru lotningarfulla virðingu fyrir öllum sem virtust ríkir, þeir slógust um að komast í vinfengi við þá. Stjórnmálamenn voru að leita eftir styrkjum fyrir sig og sína flokka og einnig glöddust þeir yfir fólki sem borgaði stórar upphæðir í ríkissjóð.
Ríkissjóður bólgnaði út og stjórnmálamenn eyddu hægri vinstri í misgáfuleg verkefni. Stjórnsýslan öll taldi allt vera í lagi og segja má að sofnað hafi verið á verðinum, auðmönnum var treyst í blindni.
Atvinnurekendur fjárfestu umfram eigin efnahag og það gerði almenningur líka.
Segja má að þeir sem fóru fram úr sér og urðu blindaðir af græðgi, settu miklar byrðar á þá sem fóru gætilega með fé. Sameiginlegir sjóðir þjóðarinnar eru notaðir til að bjarga þeim sem höguðu sér með óábyrgum hætti og ábyrgt fólk greiðir stöðugt hærri hluta af sínum tekjum í sameiginlega sjóði.
Björgunaraðgerðirnar eru mjög dýrar, en þó skila þær litlum árangri, skaðinn er svo stór.
Við þurfum að gera gott úr þesu öllu, sætta okkur við orðinn hlut, því fortíðinni er ekki hægt að breyta. Segja má að árin fyrir hrun hafi verið að mörgu leiti fordæmalaus fyrir okkur, þannig að við þurfum að komast í gegn um þetta saman.
Þeir sem ekki tóku þátt í vitleysunni þurfa að sætta sig við, að hjálpa þeim sem fóru fram úr sér, en sjá þarf til þess að slíkt gerist aldrei aftur.
Stjórnmálamönnum ber skylda til að sjá til þess, að gjaldeyrismálin verði í viðunandi horfi og finna lausn sem leiðir til þess, að lán af húsnæði stökkbreytist ekki á ný. Fólk þarf að safna fyrir útborgun í íbúð og eiga meira eigið fé til eigin neyslu, því of mikil lántaka er slæm fyrir hagkerfið í heild.
Sjórnmálamenn verða að aka til í eigin ranni og tala við þjóðina, viðurkenna mistök og lofa bót og betrun, með sannfærandi hætti.
Skuldbindingar eru orsök áhættu, því ber að sníða sérstakk eftir vexti. Eftir að við höfum komist í gegn um núverandi erfiðleika, þá þarf fólk að gera sér grein fyrir því, að ef það eyðir um of og tekur lán umfram greiðslugetu, þá er voðinn vís. Ríkið á aldrei aftur að bjarga fólki sem kemur sér í vandræði, slíkar björgunaraðgerðir eru bæði dýrar og þær koma í veg fyrir þroska.
Við þurfum að horfa til framtíðar og búa til þjóðfélag sem boðar frelsi til athafna og takmörkun ríkisumsvifa.
Hver og einn má gera það sem hann vill, innan löglegra marka, og verður að taka afleiðingum gjörða sina.
Ef vel gengur, þá græðir viðkomandi, ef illa gengur þá tapar fólk. Við eigum ekki að láta fólk borga háa skatta, heldur hafa þá í lágmarki.
Við eigum hvorki að þjóðnýta tap né gróða landsmanna, hver og einn á það sem hann aflar og tapar því sem hann tapar.
Við þurfum að gera upp fortíðina og leggja hana til hliðar. Það gerum við með því að fyrirgefa mistök sem framin voru vegna heimskunnar sem gekk yfir heiminn, ef lögbrot voru framin þá skera dómsstólar úr um refsingu. En ekki er hægt að refsa fyrir heimsku, þótt hún geti verið ansi dýr.
Ef við höldum áfram að festast í dómhörjku og reiði, þá verður engin hugarfarsleg endurreisn, þótt við mögulega öðlumst efnahagslegan bata.
En efnahagsbatinn verður tímabundinn ef hugarfarið breytist ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 13. október 2011
"Sameinaðir stöndur vér, sundraðir föllum vér".
Þeir sem fylgjandi eru sjálfstæðisstefnunni og telja hana virka best við stjórn landsins, eiga að sjálfsögðu að berjast saman innan raða Sjálfstæðisflokksins.
Könnun sem gerð var á Bylgjunni í sumar, gaf það til kynna að 70% íslendinga aðhyltust hægri sinnaða stjórnmálastefnu. Vígstaða okkar hægri manna í baráttunni við vinstri öflin verður vitanlega sterkari ef við erum öll í einum flokki.
Það að stofna nýja flokka hefur því miður ekki gefist vel hér á landi, enda er sagan og stefnan til staðar í gömlu flokkunum. Það hefur mikið að segja.
Vissulega er hægt að skilja óánægju margra hægri manna með Sjálfstæðisflokkinn, forysta hans hefur hvorki staðið sig nógu vel í stjórnarandstöðu né heldur varið stefnu flokksins og kynnt hana fyrir þjóðinni.
En ég er ekki Sjálfstæðisflokkurinn og heldur ekki þeir sem á þingi sitja, Sjálfstæðisflokkurinn er vitanlega það fólk sem er í honum hverju sinni. Ef að fólk er óánægt með eitthvað, þá ber að færa það til betri vegar.
Við þurfum að tala saman, hægri menn eiga að setja sig í samband við forystu flokksins og láta óánægju sína í ljós. Það breytir enginn Sjálfstæðisflokknum nema þeir sem í honum eru.
Við sem erum í Sjálfstæðisflokknum ráðum því hverjir komast í framlínuna og við ráðum öllu sem að flokknum snýr, eina sem þarf er að mæta og tala.
Vitanlega þarf að taka yfirvegaðar ákvarðanir, við þurfum að átta okkur á því, hvort raunveruleg nauðsyn sé til mikilla breytinga á framvarðarsveitinni osfrv., slíkar ákvarðanir verða teknar eftir að hafa rætt og íhugað málin í góðan tíma.
Það að fara úr Sjálfstæðisflokknum vegna óánægju, án þess að segja skilið við sjálfstæðisstefnuna bætir vígstöðu vinstri manna. Slíkt býr til deilur, það tekur tíma að þróa nýja flokka, afla fylgis osfrv.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur langa sögu og visst fastafylgi sem hægt er að byggja á. Við þurfum stöðugt að veita kjörnum fulltrúum aðhald og gæta þess að þeir fari ekki út af því spori sem við mörkum fyrir þá. Þeir eru í vinnu hjá okkur en ekki við hjá þeim.
Sameinaður öflugur Sjálfstæðisflokkur gerir okkur hægri mönnum kleyft, að stýra landinu eftir okkar leiðum. Við vitum að okkar leið er best, sagan staðfestir það með óyggjandi hætti.
Notum vopnin til að berja á okkar andstæðingum en höggvum ekki innan okkar eigin raða.
Hin spaklegu orð Jóns Sigurðssonar;"sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér", þau falla aldrei úr gildi, við skulum muna þessi góðu orð og fara eftir þeim.
Þá þarf þjóðin engar áhyggjur að hafa af framtíðinni, hún verður góð ef sjálfstæðisstefnan fær að ráða okkar för.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 13. október 2011
Hvar er lýðræðisástin hjá Hreyfingunni?
Borgarahreyfingin var kjörin á þing fyrir síðustu kosningar og þau ætluðu aldeilis að breyta til batnaðar.
Ekki skal efast um einlægan og góðan ásetning hjá þeim, en þau þurfa að gera sér grein fyrir því, að það er enginn munur á þeim og öðrum mönnum.
Til þess að þroska sig og efla, þarf að gera það með jákvæðu hugarfari og djúpri sjálfsskoðun.
Vissulega er það rétt, þjóðin þarf að endurskoða sig frá grunni, það á við um stjórnmálamenn jafnt sem almenning.
Borgarahreyfingin klofnaði fljótlega og þingmenn hennar ásamt öðru fólki myndaði nýjan hóp sem kallar sig Hreyfinguna. Þetta ágæta fólk kveðst þrá lýðræði mest af öllu og það er vissulega gott. En hvernig gengur þeim svo með framkvæmd þessa háleita markmiðs?
Það kom fram krafa á alþingi um kosningar, þannig að almenningur fengi að kjósa sér fulltrúa á þing.
Lýðræðiselskandi þingmaður Hreyfingarinnar greiddi atkvæði gegn því, að fólkið fengi að kjósa. Varla telst það dæmi um mikla lýðræðisást.
Svo hefur annar þingmaður Hreyfingarinnar sagt það, að sjálfstæðismenn ættu að halda sig til hlés, helst að hætta á þingi.
Vissulega hlaut Sjálfstæðisflokkurinn ekki góða kosningu, en 23,7% kjósenda völdu hann sem sinn málssvara á þingi. Ætlar þá hinn lýðræðissinnaði þingmaður að virða vilja 23,7% kjósenda að vettugi og svipta þá sínum eðlilegu lýðréttindum, sem felast í því að láta rödd sína hljóma?
Þeir hafa allir gengið svo langt, að segja að allur þingheimur ætti að víkja, nema þau þrjú að sjálfsögðu, því að hinir þingmennirnir tala víst ekki í anda þjóðarinnar.
Kjósendur þremenninganna voru 7.2% kosningabærra manna og ekki virðist fylgi þeirra vera að aukast.
Lýðræði þýðir það, að meirihlutinn ræður. Ekki er sjálfgefið að það sé hagstæðasta niðurstaðan, en lýðræðið virkar samt þannig.
Og fyrst að fólk dáist að lýðræðinu, hvers vegna þá ekki að virða það?
Svo eiga þau að gera eins og allir stjórnmálaflokkar eiga að gera, kynna sínar hugmyndir og leiðir að bættu samfélagi, án þess að vera í persónulegu skítkasti.
Kannski vita þau hvað virkar betur en það kerfi sem notað er í öllum vestrænum lýðræðisríkjum, en svo stórfelldar breytingar kalla vitanlega á ítarlegar útskýringar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 13. október 2011
Þjóðstjórn gengur aldrei upp.
Eftir að hrunið varð á fjármálamörkuðum heimsins, þá hefur þerri umræðu vaxið fiskur um hrygg hér á landi, að samvinna allra stjórnmálaflokka sé nauðsynleg og best væri að mynda þjóðstjórn.
Slíkt er vitanlega reginfirra, því það getur aldrei orðið til langs tíma.
Vissulega var það gott framtak hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að stuðla að samstarfi allra flokka í borgarstjórn, á þeim tímapunkti var það nauðsynlegt, því samfélagsástandið kallaði eftir því.
Einnig hefði hugsanlega verið gott í kjölfar hrunsins, að allir flokkar ynnu saman að björgunaraðgerðum og slíðruðu sverðin um stund.
Þjóðstjórn er eingöngu möguleg í skamman tíma, til þess að vinna að ákveðnu markmiði. Þá sættast stjórnmálaflokkarnir á ákveðna leið út úr tímabundnum vanda og reka samfélagið eins og fyrirtæki. Þá næst samkomulag um nauðsynlegar aðgerðir sem virka.
En slíkt fyrirkomulag gengur aldrei til lengdar, því eðli mannsins kemur í veg fyrir það. Við höfum ólíkar væntingar um lífið og stjórnmálaflokkar endurspegla þær.
Þjóðin er stórt samfélag, hjónaband er lítið samfélag sem myndað er af tveimur einstaklingum. Nauðsynlegt er að hjón hafi svipaða lífssýn til að hjónabandið geti gengið upp.
Fjölmörg dæmi eru til um hjónabönd sem ganga ekki upp, einfaldlega vegna þess að hjónin komast að því, að þeirra væntingar fara ekki saman lengur, þá er ekki hægt að vera í hjónabandi.
Hvernig dettur fólki þá í hug, að fjöldahreyfingar með ólíka sýn á lífið og leiðir að bættu samfélagi geti unnið saman?
Félagshyggju og jafnaðarmenn geta aldrei hugsað sér að búa í þjóðfélagi sem fylgir frjálshyggjustefnunni að málum, sama má segja um frjálshyggjumenn, leiðir félagshyggju og jafnaðarmennsku henta þeim einfaldlega ekki.
Þess vegna þurfa að vera til skýrir valkostir fyrir kjósendur og flokkarnir verða að kynna kjósendum nákvæmlega, hvaða stefnu þeir standa fyrir.
Sjálfsagt er að standa fyrir breytingum og skoða allar leiðir sem talið er að séu til góðs. En það er eitt sem að okkur tekst aldrei, sama hvaða leiðir við förum.
Við getum aldrei komið í veg fyrir það, að fólk hafi ólíka sýn á lífið og þar af leiðandi kosið ólíkar leiðir að sama markinu.
Þess vegna getur þjóðstjórn aldrei gengið upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. október 2011
Nú getur ríkisstjórnin fegrað tölur á blaði.
Nú er tækifæri fyrir ríkisstjórnina að sýna fram á minnkandi atvinnuleysi hér á landi.
Ef að hægt er að finna mörg störf fyrir íslendinginga í Evrópu, þá getur ríkisstjórnin væntanlega nýtt sér það.
Og ef að allt gengur upp, fjöldi manns flytur út, þá er ekki ósennilegt að spunameistarar komi með fallegan boðskap sem gælir við eyru vinstri manna.
Þá fær þjóðin að heyra af árangri ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, þá verða færri atvinnulausir á Íslandi og ríkisstjórnin þakkar sér þá væntanlega fyrir fjölgun starfa.
Þessi ríkisstjórn ætti að vera kölluð "Exelstjórnin", það nafn myndi hæfa henni vel.
![]() |
Atvinnutækifæri í Evrópu kynnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)