Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 12. október 2011
Það þarf kannski að heimta hærri skatta?
Það hljómar vissuleg undarlega að heimta hærri skatta á þessum tímapunkti, en við búum við afskaplega undarlega ríkisstjórn.
Þetta er ríkisstjórn sem vildi auka völd alþingis og jók þess vegna ráðherraræði.
Þetta er ríkisstjórn sem vildi slá skjaldborg um heimilin en sló skjaldborg um fjármálafyrirtæki og vogunarsjóði.
Þetta er ríkisstjórn sem vildi berjast fyrir Norrænu velferðarkerfi og sker niður eins og hægt er í heilbrigðiskerfinu.
Svo komum við að sköttunum.
Þegar sjálfstæðismenn lækkuðu skatta, þá sögðu vinstri menn að skattar hefðu hækkað .
Svo kemur ríkisstjórnin og hækkar skatta en segir þá hafa lækkað.
Kannski lækka þau skatta ef þau ætla sér að hækka þá?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
Mánudagur, 10. október 2011
Eru skattar ekki háir á Íslandi?
Skyldu þau skötuhjú trúa því sem Jónas Kristjánsson hefur haldið fram lengi, að íslendingar séu fávitar?
Miðað við málflutning þeirra, þá er auðvelt að ætla að svo sé.
Þau hafa bæði haldið því fram, að skattar á Íslandi séu lágir miðað við hin Norðurlöndin, en eru þeir það í raun?
Lægstu skattar eru rúm 37%, það virkar kannski ekki svo hátt miðað við háskattaríki frænda okkar á hinum Norðurlöndunum. En frændur vorir eru ekki skyldugir til að greiða í lífeyrissjóði, það eru íslendingar og lífeyrisgreiðslur má túlka sem skatt.
Greiðslur í lífeyrissjóð eru 12%, þannig að lægstu skattar hér á landi eru raunverulega 49%, næsta þrep er 53% og hæsta þrep er 58%, þannig að í öllum þrepum er tekinn helmingur launa fólks í skatt.
Vissulega borgum við ekki alla þessa upphæð, því persónuafslátturinn vegur upp á móti, en hin Norðurlöndin gera örugglega ekki minna fyrir sína skattgreiðendur, frændur okkar fá meira fyrir skattpeninginn heldur en við, það skiptir líka máli.
Það er annars ekki skrítið að þau haldi að íslendingar séu fávitar, að nokkur maður skuli hafa kosið þau, það er hulin ráðgáta sem seint verður leyst.
En kjósendur þeirra eru ekki fávitar, skynsemin hvarf í hruninu en hún er óðum að koma aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Sunnudagur, 9. október 2011
Núna elska allir Styrmi.
Styrmir Gunnarsson er ágætis kunningi minn og ég get staðfest það, að hann er mikill heiðursmaður, en það tók þjóðina talsverðan tíma að átta sig á því. Vegna þess að hann var ristjóri Morgunblaðisins og frasadýrkun íslendinga er ekki ný af nálinni, hugtakið "moggalygi" gerði það að verkum, að fáir nenntu að lesa blaðið en allir höfðu og hafa skoðanir á því, frasarnir virka.
Í tíð Mathíasar Johannessen voru formleg tengsl við Sjálfstæðisflokkinn afnumin, Styrmir fylgdi þeirri stefnu ásamt Matthíasi alla tíð. Oft var mogginn í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn, en það hentaði ekki spunameisturum og höfundum grípandi frasa. Styrmir hefur ekkert breyst, Matthías ekki heldur.
Styrmir hefur árum saman barist fyrir beinu lýðræði og skrifað um það í Morgunblaðið, á tímabili þegar umræðan um sjávarútvegsmálin stóð hæst, þá var Styrmir kallaður sósíalisti af forystu LÍÚ, hann var ekki á sömu línu og þeir.
Þegar Styrmir gegnir ekki lengur stöðu ritstjóra, þá fer fólk að hlusta á það sem hann segir.
Það var gaman að heyra svör Styrmis þegar maður einn bar upp á hann, að hann væri ótrúverðugur vegna þess að maður sem hefur stutt spillingaröflin alla tíð, getur ekki komið fram og þóst berjast fyrir réttlæti.
Styrmir spurði manninn, hvort hann hefði lesið Morgunblaðið, viðmælandinn hélt nú það. Þá sagði Styrmir að eflaust hafi hann aldrei lesið neitt annað en myndasögurnar, þvínæst rifjaði hann upp nokkra leiðara og bauðst til að senda þessum ágæta manni þá í tölvupósti.
Það þarf ekki að taka fram, að viðmælandi Styrmis skammaðist sín mjög og hafði lítið meira um málið að segja.
Það breytist ekkert í umræðunni, fyrr en fólk fer að lesa og kynna sér málin, í stað þess að láta frasa fylla eyrun og stöðva sjálfstæða hugsun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Sunnudagur, 9. október 2011
Gengur jafnaðarstefnan upp?
Reynsla okkar íslendinga af jafnaðarstefnunni er ekki góð, enda hafa félagshyggjustjórnir ávallt verið skammlífar, nema kannski núverandi ríkisstjórn en erfitt er að sjá að hún sé til góðs.
Jafnaðarstefnan vill setja fólk í ákveðinn ramma, enginn má eignast of mikið því þá veldur það ójöfnuði. En með þessu hugarfari, þá ganga jafnaðarmenn í berhögg við höfund lífsins og það er erfitt að breyta náttúrunni, en maðurinn er jú hluti af henni.
Við fæðumst ekki jöfn, samkvæmt þröngri skilgreiningu breyskra manna, sem gengur út á veraldleg gæði.
Hvernig á svo að jafna það?
Sá sem að á foreldra í efri stigum samfélagsins á greiðari aðgang þar inn. Eigum við þá að koma í veg fyrir, að sá sem á foreldra í stjórnsýslunni eigi möguleika á frama þar? Þá erum við farin að skerða þeirra möguleika á sama tíma og við aukum möguleika þeirra sem fæðast inn í verkamannafjölskyldur.
Er það réttlæti að takmarka rétt ákveðins hóps til þess að auka rétt annars?
Millifærsla á réttlæti er ekki réttlát, við þurfum að skoða heiminn eins og hann er og fara varlega í breytingar sem ekki eru nauðsynlega fyrir alla.
Svo er það jöfnun tekna, það bitnar á duglegu fólki sem er að stofna heimili. Ungt og dugmikið fólk vinnur myrkranna á milli, oft í mörgum störfum og þénar mikið. Jafnaðarstefnan vill jafna tekjur, þannig að dugmiklu ungmennin þurfa að leggja harðar að sér og eyða minni tíma með börnunum.
Raunverulegir auðmenn finna ekkert fyrir skattahækkunum, þeir hafa allt sitt á þurru, þannig að jöfnunin bítur unga fólkið sem er duglegt. En raunverulegir auðmenn geta hinsvegar föndrað meira við bókhaldið, þannig að þeir borga eins lítið og þeir mögulega geta, jafnvel minna en ef skattar væru lægri.
Hvort sem jafnaðarmönnum líkar það betur eða ver, þá efla háir skattar svarta hagkerfið auk þess kallar flókið skattkerfi á dýrara innheimtukerfi.
Jafnaðarstefnan er óréttlát, því hún umbunar fólki án verðleika. Þeir sem nenna ekki að vinna eiga að fá styrki til að geta lifað og það bitnar á þeim sem nenna að vinna, færri hendur standa undir samfélaginu og vinnandi fólk þarf að leggja harðar að sér, til þess að letingjarnir geti lifað.
Jafnaðarstefnan er líka letjandi, því fólk sér ekki tilgang með því að leggja hart að sér, það fer allt í skatta.
Hægt er að efla letingja og hvetja þá til sjálfshjálpar, en jafnaðarstefnan framleiðir letingja. Um leið og einstaklingum verður það ljóst, að enginn styrkur er í boði, þá er ekkert annað að gera en að fara að vinna fyrir sér.
Peningar eru nauðsynlegir, en það skiptir ekki mestu máli að eiga mikið af þeim.
Það er kærleikurinn sem mestu máli skiptir, en jafnaðarstefnan leggur litla áherslu á hann.
Jafnaðarstefnan býr til átök á milli stétta og skapar biturð og reiði. Við erum öll jöfn í víðu samhengi og við þurfum á hvert öðru að halda.
Auðmaðurinn þarf á aðstoð verkalýðsins að halda til að viðhalda sínum eignum, verkalýðurinn þarf á auðmanninum að halda því hann skapar þeim tekjur og því ríkari sem vinnuveitandinn er, því meira öryggi skapar hann hjá sínu fólki.
Hver einasta stétt myndar mikilvægan hlekk í samfelldri keðju samfélagsins, við getum ekki lifað án hvers annars. En ef allir vilja vera auðmenn, atvinnurekendur eða verkamenn, þá verður til einsleitt samfélag sem deyr mjög fljótt.
Við getum ekki ætlast til þess, að sá sem tekur alla áhættuna og ber alla ábyrgðina lifi við sömu kjör og þeir sem hjá honum starfa. því meiri ábyrgð sem fylgir hverju starfi, kallar á hærri laun.
Verkamaðurinn getur unað sáttur við sitt, hafi hann nóg að bíta og brenna. Hver og einn þarf að horfast í augu við staðreyndir og sníða sér stakk eftir vexti. Vitanlega þarf atvinnurekandinn að borga það mikið, að verkamaðurinn geti haft laun sem duga fyrir grunnþörfum.
Verkamaðurinn hefur meiri möguleika á að rækta sína fjölskyldu, því hann þarf ekki að hugsa um vinnuna eftir að heim er komið. Sjálfur ólst ég upp við mjög takmörkuð veraldleg gæði en mikinn kærleik. Það kenndi mér hvað skiptir mestu máli í lífinu og kærleikurinn fæst ekki keyptur fyrir fé.
Vinnuveitandinn getur verið mjög kærleiksríkur, en hann hefur minni tíma til að ausa úr sínum kærleiksbrunni en verkamaðurin.
Við eigum að virða hvert annað og þakka hvert öðru. Verkamaðurinn á að þakka vinnuveitendum fyrir atvinnuna og vinnuveitandinn á að þakka verkamanninum fyrir stuðninginn við uppbyggingu fyrirtækissins. Þessir tveir aðilar eiga aða læra að skilja þarfir hvers annars.
Það heitir stétt með stétt.
Jafnaðarstefnan boðar það, að auðaldið arðræni verkalýðinn og að atvinnurekendur vilji helst að verkafólk vinni á smánarlaunum.
Það heitir stétt gegn stétt.
Jafnaðarstefnan virkar illa, því hún er í eðli sínu sundurlyndisstefna.
Sundurlyndi drepur niður samlyndi og sátt, lítið þjóð á borð við íslendinga þolir því ekki jafnaðarstefnu til lengdar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 9. október 2011
Frjálshyggjan er mannræktarstefna.
Frjálshyggja í sinni tærustu mynd er sú heilbrigðasta stjórnmálastefna sem hugsast getur.
Í hreinni frjálshyggju hafa einstaklingarnir tækifæri til vaxtar og þroska. Heimurinn er enn í stöðugri mótun, oft verður fólki á, en mistökin eru til að læra af þeim.
Hrunið varð til þess, að margir fordæmdu frjálshyggjuna og sögðu hana hafa verið orsakavaldinn að öllu, en það er rangt. Það vantaði meiri frjálshyggju, þess vegna fór sem fór.
Ef að frjálshyggjan hefði ráðið för, þá hefði sennilega ekki orðið svona hressilegt hrun. Stjórnendur bankanna hefðu farið mun gætilegar í lánveitingar og krafist tryggari veða. Frjálshyggjan gerir nefnilega ekki ráð fyrir því að ríkið komi bönkum til bjargar. Ef þeir fara á hausinn, þá tapa eigendur þeirra aleigunni og rúmlega það.
En hvað með innistæðueigendur?
Gera þarf þá kröfu á banka að þeir hafi traustar innistæðutryggingar sem bæta innnistæðueigendum það sem þeir eiga.
Svo eru það skattarnir. Frjálshyggjan boðar lága skatta því það er réttur hvers og eins, að ráðstafa sínu aflafé samkvæmt eigin vilja. Það er líka nauðsynlegt fyrir ríkið, að hafa lágmarksfé til rekstrar, vegna þess að ríkið eyðir jafnóðum öllu því sem það kemst yfir að eyða.
Stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum lofa auknum ríkisútgjöldum fyrir kosningar, ef innistæða er til staðar og þá skiptir engu máli hvað flokkurinn heitir.
Vinstri menn reyna að telja fólki trú um að frjálshyggjumenn vilji senda aldraða og öryrkja út á guð og gaddinn, ekkert er fjarri sanni.
Þótt frjálshyggjan sem slík boði ekki opinbert velferðarkerfi, þá eru frjálshyggjumenn mannlegir eins og annað fólk.
Sá maður sem ekki vill hjálpa öldruðum og sjúkum er einfaldlega siðblindur eða óhæfur til að finna til með öðrum. En frjálshyggjumenn vilja ekki hjálpa þeim sem geta hjálpað sér sjálfir.
Ríkið á að rækja sínar skyldur, sjá borgurunum fyrir menntun og góðri heilbrigðisþjónustu. Skoða þarf hagkvæmustu leiðirnar til þess, en augljóst er að það hefur ekki verið gert til þessa. Einnig ber ríkinu skylda til þess að hafa löggæslumál í viðunandi horfi og greiða lögreglumönnum sanngjörn laun.
Frjálshyggjan hvetur einstaklinginn til þátttöku í samfélaginu, allir verða að leggjast á árarnar til þess að þessi litla þjóð geti lifað af. Hver og einn á að njóta sín á eigin forsendum.
Heimur jafnaðarstefnunnar fær illa staðist, vegna þess að of fáir eru til þess að vinna fyrir þörfum samfélagsins. Kröfurnar til ríkissins eru of miklar á kostnað kröfunnar til einstaklinganna.
Burtséð frá allri stjórnmálastefnu, þá berum við ábyrgð á hvert öðru. Ef einhverjum líður illa í okkar nærumhverfi, þá eigum við að styrkja hann eftir mætti. Sá sem er gefandi í dag getur orðið þyggjandi á morgun, heilsan er fengin að láni og við vitum ekki hversu lengi við fáum að njóta hennar.
Ræktum okkur sjálf og hugsum um hvert annað, notum leiðir frjálshyggjunnar, þá verða okkur allir vegir færir.
Við skulum ekki ríkisvæða náungakærleikann, heldur einkavæða hann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 28. september 2011
Við höfum öll jöfn tækifæri.
Fyrir nokkrum dögum heyrði ég hluta af viðtali við mann á Útvarpi Sögu. Þessum ágæta manni var mikið niðri fyrir og hann sagði að við værum öll þrælar, þ.e.a.s. almenningur í landinu. Maðurinn talaði af mikilli sannfæringu og sagði að góðu þrælarnir vildu að húsbændunum vegnaði vel, en til væru þrælar, væntanlega eins og hann, sem vildu breytingar og frelsi úr ánauðinni.
Margir í þeim hópi sem segjast vera þjóðin og tala umboðslitlir fyrir hennar hönd, ala á reiði og biturð. Það hlýtur að hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks, ef það upplifir sig sem þræla og þverrandi sjálfsvirðing er ekki það sem við þurfum um þessar mundir, við eigum að bera höfuði hátt, því við erum frjálsir borgarar í frjálsu landi.
En það er erfitt að hrekja þessi rök hans með hefðbundum hætti, því þau standast alveg, miðað við vissar forsendur sem fólk með óhefðbundnar skoðanir gefur sér..
Atvinnurekendur eru þá þrælar starfsfólksins, því þeir eru háðir því, einnig eru þeir þá þrælar sinna viðskiptavina, því þeir verða að þóknast þeim.
Stjórnmálamenn eru á líka þrælar kjósenda því þeir þurfa að þóknast þeim, við erum þá öll þrælar og þar af leiðandi jöfn. Bankamennirnir eru þá þrælar matsfyrirtækja og þeirra sem fjármagna þá osfrv.
Þá eru allir í sömu sporum, allir eru þrælar einhvers, miðað við röksemdir mannsins.
En þessi rök halda ekki miðað við raunverulegar forsendur, því enginn neyðir neinn til að gera nokkurn skapaðan hlut sem er gegn hans vilja, en þrælar eru neyddir til að vinna gegn þeirra vilja.
Tækifærin eru til staðar, við þurfum að nýta þau. Alla tíð hefur verið hópur af góðu fólki sem reynir að telja mér trú um að ég sé fórnarlamb og verið sé að fara illa með mig.
Það er rangt, enginn hefur farið illa með mig og ég hef getað gert allt sem mig hefur langað til, af því að ég er frjáls maður í frjálsu landi.
Ég ólst upp við mikil blankheit, við vorum þrír bræður í einu herbergi og íbúðin var sextíu fermetrar að stærð. Foreldrar okkar eru ómenntaðir og ekkert sérstaklegavar lagt að okkur að fara í nám.
Ég byrjaði ungur á sjó og hef verið það mestalla starfsævina. Svo á ég bróður, sem ólst upp við nákvæmlega sömu aðstæður og ég og enginn munur var á okkar uppeldi.
Bróðir minn er aftur á móti útibússtjóri Landsbankans úti á landi og hann fær þrjúhundruð fermetra hús til afnota, flottan jeppa og góð laun. Hann gekk menntaveginn og hefur unnið hjá Landsbankanum alla sína starfsævi.
Ég er stoltur af stráknum, hann gerði það sem hann vildi og uppskar vel.
Ef ég hefði nennt að vera í skóla og farið sömu braut, þá þyrfti ég ekki að berjast úti á sjó í allavega veðrum og vera langdvölum að heiman.
En þetta var mitt val og ég er sáttur við það, sjómennskan hefur marga góða kosti eins og öll störf.
Ef ég er ósátur í vinnu, þá hætti ég. Ef ég væri ósáttur við íslenskt samfélag, þá myndi ég flytja til útlanda og ef ég væri ósáttur við menntunarskortinn minn, þá færi ég í skóla.
Þetta allt get ég vegna þess, að ég er ekki þræll, heldur frjáls maður í frjálsu landi.
Við höfum öll jöfn tækifæri, en stundum kostar það fyrirhöfn að nýta þau.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 27. september 2011
Jóhanna er sár bæði og svekkt.
Jóhanna Sigurðardóttir kvaðst vera sár bæði og svekkt yfir gagnrýni SA.
En er gagnrýni SA ómakleg?
Þeir sem eru að reka fyrirtæki eiga erfitt með að fá lán, stýrivextir eru hækkaðir og stöðugt er þrengt að möguleikum fyrirtækjanna til að reka sig.
Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir því, að fyrirtæki eru yfirtekin og þau fyrirtæki hafa yfirburða stöðu í samkeppni við einkarekin fyrirtæki.
Það er ekkert óeðlilegt við það, að þeir sem standa í rekstri og hafa alltaf borgað það sem þeim ber, farið varlega í sínum rekstri, verði mjög sárir og svekktir þegar ríkið er að styrkja samkeppnisaðila þeirra.
Miðað við orð og efndir ríkisstjórnarinnar, þá er ekkert óeðlilegt að forsvarsmenn SA séu sárir og svekktir. En hvers vegna er Jóhanna Sigurðardóttir sár og svekkt?
Ástæðan er vitanlega sú, að hún hefur aldrei þolað aðra skoðun en sína eigin.
![]() |
Sár og svekkt vegna orða SA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 25. september 2011
Ræðum við börnin okkar um skaðsemi eineltis.
Ég vaknaði um eittleitið eftir hádegi og sat inni í stofu með sterkt og gott kaffi og las blöðin, ég hafði komið í land um morguninn og lagði mig eftir að ég hafði komið konunni í vinnuna og strákunum í skólann.
Allt í einu varð ég var við unglingspilt sem stóð yfir mér og fór að spjalla við mig. Það fór ekki á milli mála að drengurinn átti erfitt, fas hans benti til þess.
Ég vissi ekki hvað þessi drengur var að gera á heimili mínu, en ég spjallaði bara við hann. Síðan kom sonur minn og sagði stráknum að koma með sér inn í herbergi.
Þegar drengurinn kvaddi og fór, reis ég á fætur og gekk inn í herbergi sonar míns og spurði hann hvaða drengur þetta væri eiginlega. Þá hló pilturinn, því honum er oft skemmt ef faðir hans lendir í vandræðalegum aðstæðum. Enda veit hann fullvel, að mér er meinilla við að það sé talað við mig þegar ég er nývaknaður og nýstiginn á land. Þá vill ég fá frið með kaffibollan og blöðin, svo þegar ég er búinn að lesa þá er ég tilbúinn til að eiga stund með fjölskyldunni.
Hann sagði mér að þetta væri strákur í hinum bekknum, enginn nennir að tala við hann, því hann þykir undarlegur í háttum. Ég hrósaði syninum fyrir að sýna svona mikla velvild, því ég veit að sonur minn er vinsæll í skólanum og hann hefur alltaf verið leiðtoginn í sínum vina hópi.
Við ræddum saman dágóða stund og þá vissi ég að samtöl okkar, um skaðsemi eineltis höfðu skilað árangri.
Ég hef kappkostað að fræða börnin mín um skaðsemi eineltis og nauðsyn þess að sýna öllum jafna virðingu og vinsemd.
Það stjórnar því enginn hvaða lundarfar hann fær í vöggugjöf, en allir hafa þörf fyrir vináttu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 25. september 2011
Hver er helsta meinsemdin í umræðunni?
Átæðan fyrir því að erfiðlega gengur að ræða pólitík hér á landi er sú, að stjórnmálamenn notast við rætnar kjaftasögur til þess að niðurlægja andstæðinginn. Þá þarf sá sem þvættingurinn beinist að, að svara fyrir sig og bera af sér gróusögurnar í leiðinni.
Og kjósendur vita ekkert fyrir hvað flokkarnir standa.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur orð frelsarans í öndvegi; "eins og maðurinn sáir mun hann uppskera", en Vinstri grænir og Samfylking vilja að verri sáningamenn njóti uppskeru þeirra sem duglegir eru að sá.
Sumum kann að þykja þetta falleg hugsun hjá vinstri flokkunum, en hún er það ekki.
Vill einhver leggja mikið á sig og vinna hörðum höndum í þeirri vissu, að letingjarnir fáir að líka að uppskera það sem þeir sá?
Reyndar skildu vinstri menn, eftir langa umhugsun að stefnan þeirra gengur ekki í kjósendur. Þá viðurkenndu þeir kosti markaðarins, en þeir gerðu það aðeins hálfa leið.
Jafnaðarmenn vilja hefta frelsi einstaklingsins til að græða eins og hann vill. En það getur aldrei gengið að stjórnmálamenn setji viðmið um, hversu ríkir menn mega vera.
Sjálfstæðismenn vilja horfa á raunveruleikann eins og hann er, á meðan vinstri menn, vilja semja handrit fyrir raunveruleikann, og láta þjóðina leika þá rullu sem handritið segir til um.
Fólki líður best þegar það er frjálst, þess vegna er alltaf mesta hagsældin þegar sjálfstæðismenn eru við völd.
Sumum bregður við ofanritaða fullyrðingu, en staðreyndin er sú, að á átján ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins upplifði þjóðin mestu hagsæld lýðveldistímans. Árin 1993-2000 var stöðugt gengi og mikil kaupmáttaraukning. Reynda fóru sjálfstæðismenn fram úr sér í eyðslu þegar líða tók á valdatíma þeirra og vissulega gerðu þeir mistök í aðdraganda hrunsins.
En það sem mestu máli skiptir er að Sjálfstæðisflokkurinn er í stöðugri sjálfsskoðun og við sjálfstæðsimenn viljum læra af mistökunum.
Það getur enginn flokkur lofað að gera aldrei mistök, stundum gera hinir bestu stjórnmálamenn stór og afdrifarík mistök.
En þeir sem viðurkenna mistökin geta líka lært af þeim og komið fram sterkari á eftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 25. september 2011
Sjálfstæðisflokkurinn sýnir frumkvæði.
Ekki er hægt að efast um það, að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir vinstri flokkanna að öllu leiti.
Það var haldinn opinn fundur um gjaldmiðilsmál í Turninum í Kópavogi og var til hans stofnað að frumkvæði Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.
Það skiptir miklu máli fyrir okkur íslendinga, að ræða alla möguleika í gjaldmiðilsmálum með opnum huga og komast að farsælli niðurstöðu. Peningar eru vissulega ekki allt, en í nútímasamfélagi, þá skipta þeir höfuðmáli, því það getur enginn lifað án peninga.
Það skiptir máli að traust ríki á þeim gjaldmiðli sem við notum, því það kostar mikið að halda úti veikum gjaldmiðli.
Það mátti glöggt finna að fundurinn var að stærstum hluta skipaður sjálfstæðismönnum. Þrír frambærilegir fummælendur töluðu og þeir voru ekki sammála, fundarmenn voru heldur ekki allir sammála þeim.
En fyrirspurnir voru bornar fram, án gífuryrða og allir voru hófsamir í málflutningi eins og sönnum sjálfstæðismönnum sæmir.
Hvað vilja vinstri flokkarnir í gjaldmiðilsmálum? Það skiptir máli því þeir bera ábyrgð á efnahagsstefnunni um þessar mundir.
Vinstri grænir eru lítið fyrir að ræða peningamál, þeim þykir best að sækja fé í opinbera sjóði, án þess að gera sér grein fyrir því, hvernig á að safna fé í sjóðina. Eina sem komið hefur fram er að þeir vilja krónuna áfram, án þess þó að koma með raunhæfar leiðir til að styrkja gjaldmiðilinn.
Samfylkingin hefur aðeins eina stefnu fyrir alla málaflokka, inngöngu í ESB og þá er vitanlega eina stefnan að taka upp Evru. Það má þó hrósa Samfylkingunni fyrir að hafa einfalda og auðkiljanlega stefnu; "Ísland í ESB", það segir allt sem segja þarf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)