Færsluflokkur: Bloggar

Er þetta eitt stórt "leyndó" hjá þeim?

Þau skötuhjú, Jóhanna og Steingrímur upplýstu þjóð og þing um að þau hafi unnið ýmis afrek, við afar erfiðar aðstæður.

Steingrímur lét þess getið, að sennilega væri íslenska ríkisstjórnin sú næst besta í ríkjum OECD. Það eru aldeilis góðar fréttir sem ættu að gleðja landann.

En hvar eru afrekin? Þau virðast sveipuð dulúð, því enginn hefur víst séð þau, aðrir en innmúraðir.

Gylfi Arnbjörnsson hefur lengi verið stuðningsmaður Samfylkingarinnar, þannig að honum ætti að vera treyst fyrir leyndarmálunum, en svo er víst ekki. Hann undrast vanmátt flokksfélaga sinna í efnahagsmálum, sennilega vegna þess að hann er ekki í hópi hinna upplýstu.

Hvernig væri nú að svipta leyndinni af öllum afrekunum og leyfa landsmönnum að njóta þeirra.


Vonandi verða þetta síðustu pólitísku réttarhöldin á Íslandi.

Vinstri flokkarnir hafa oft beitt ýmsum óhugnalegum aðferðum til að styrkja sinn málstað,  en réttarhöldin yfir Geir H. Haarde eru vonandi síðustu pólitísku réttarhöldin sem framkvæmd verða hér á landi.

Þótt pólitíkin geti oft verið ansi ljót á köflum, þá þekkist það ekki í siðmenntuðum löndum að stefna pólitískum andstæðingum fyrir dóm, án viðeigandi rannsóknar og fyrir óljósar sakir. Ekki hefur enn komið fram, hvernig hægt hefði verið að bregðast við, heldur hefur verið sagt, eftir að atburðirnir gerðust, hvað hefði verið hægt að gera betur.

En eftir að mistök hafa átt sér stað, þá sést oftast hvað hefði átt að gera betur, þá er hægt að læra af reynslunni.

Þar sem að sjálfstæðismenn stunda ekki óþverapólitík af þessu tagi, þá er ólíklegt að Steingrímur og Jóhanna þurfi að svara til saka, fyrir Landsdómi, fyrir skipun Svavarsnefndarinnar, tilraunir þeirra til að þvinga risaskuld upp á þjóðina vegna Icesave, en þau fullyrtu að nauðsynlegt væri að samþykkja Svavarssamninginn sem fyrst, annars færi hér allt á verri veg.

Augljóst er að þau voru með kolrangt stöðumat á þessum tíma og hefði þjóðin ekki risið upp, með forsetann í fararbroddi, þá hefðu þau setið uppi með stóra skömm í farteskinu. Augljóst er að það mál hefði mátt vinna mikið betur og stjórnvöld frömdu alverleg afglöp í því máli.

Þau eiga ekki að svara til saka fyrir það, heldur eiga þau að hljóta sanngjarnan og eðlilegan dóm þegar talið verður upp úr kjörkössum næst.

Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt af sér ótrúlegan óþverrahátt, svo mikinn að slíkt þekkist ekki í pólitík hjá siðmentuðum þjóðum.

Þau hafa sýnt það og sannað með þessu, að réttlæti skiptir þau engu máli, heldur það eitt, að höggva eins nærri Sjálfstæðisflokknum og mögulegt er. Flestir stjórnmálamenn hafa einhver siðferðisviðmið, en Jóhanna og Steingrímur, þau þekkja engin mörk.


mbl.is „Allt skilið eftir opið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þurfum að standa saman.

Í morgun bankaði upp á hjá mér maður sem ég hafði aldrei séð áður. Hann var með svarta plastpoka og spurði hvort ég ætti tómar gosflöskur.

Þar sem að fjölskyldan þambar gosdrykki í lítratali, þá safnast fljótt upp haugur af tómum gosflöskum á mínu heimili, þannig að ég kvaðst geta útvegað nokkrar, spurði manninn fyrir hverja væri verið að safna.

Hann sagðist vilja vera hreinskilinn við mig, þetta væri fyrir hann sjálfan, því hann hefur verið atvinnulaus ansi lengi.

Vitanlega fékk maðurinn tvo troðfulla svarta plastpoka af tómum gosflöskum og mér fannst gott að geta gefið honum þá. Ekki fann ég til vorkunnar gagnvart manninum, heldur fannst mér hann maður að meiri, fyrir að hafa kjark til að banka upp á hjá bláókunnugu fólki og leita eftir aðstoð.

Við horfumst í augu við erfiða tíma, margir eru án atvinnu og það ríkir fátækt og vonleysi á mörgum heimilum. Þess vegna er mikilvægt að við, sem erum aflögufær, leggjum okkar af mörkum til hjálpa þeim, sem ekki eru eins lánsamir og við.

Ef við þekkjum einhvern í okkar nærumhverfi sem er í erfiðleikum, þá ber okkur skylda til að hjálpa. Því við berum öll ábyrgð á hvert öðru, við erum öll á sama báti þótt aðstæður okkar séu mismunandi.

Með því að víkja litlu að fólki, þá gerum við gagn og ef margir gefa lítið þá verður það að lokum ansi stórt.

Við eigum ekki að ætlast til þess að ríkið bjargi öllum, heldur eigum við að standa saman og hjálpast að.

Sá sem er gefandi í dag, getur orðið þiggjandi á morgun.


Ábyrgðarlaus umræða.

Mikið væri gott ef hinn almenni kjósandi færi að velta fyrir sér ummælum stjórnmálamanna í víðu samhengi.

Margir stjórnmálamenn og ekki síst þeir sem telja sig ekki vera stjórnmálamenn á þingi, hafa fjallað um spillingu og mútuþægni sjálfstæðismanna. Að auki tel ég ekki að spilling og mútuþægni eigi sér stað hjá þingmönnumSjálfstæðisflokksins, en vera kann að ég hafi rangt fyrir mér í þessu máli.

Mútuþægni og spilling eru grafalvarleg mál og ætti að kæra skilyrðislaust. Það skal fúslenga játast, að í þessu máli er ég ekki hlutlaus, enda virkur í Sjálfstæðisflokknum og þingmenn hans eru góðir vinir mínir og kunningjar.

Þess vegna verða þeir sem eru óháðir Sjálfstæðisfloknum að láta til sín taka í þessu máli. Ef staðfestur grunur er til staðar, varðandi mútuþægni hjá stjórnmálamönnum og alvarlega spillingu, þá má slíkt ekki líðast.

Nú eru vinstri flokkarnir í stjórn, þeir eiga vitanlega að finna leiðir, ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar, til þess að draga þá sjálfstæðismenn fyrir dóm og láta þá svara til saka. Ef þetta ágæta fólk gerir það ekki, þá er verið að hylma yfir alvarlegum glæp og slíkt sæmir ekki stjórnmálamönnum sem hrópa það á torgum, að þeir berjist fyrir réttlæti.

Þeir eru ekki að þjóna réttlætinu með þessum málflutningi, það ættu allir að vera sammála um.

Ef ásakanir þeirra eru sannar, þá stuðla þeir að því, að á alþingi sitji fólk sem sekt er um alvarlega glæpi og að sá flokkur, sem að þeirra mati er gjörspiltur, njóti traust hjá stórum hluta þjóðarinnar.

Alvarlegar ásakanir á aldrei að hafa í flimtingum, ekki ef fólk er kosið til að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Ef þessi ummæli eru notuð í pólitískum tilgangi, þá er verið að sverta mannorð hjá saklausu fólki, slíkt telst vera ansi alvarlegur glæpur, kallast meiðyrði á lagamáli. 

Kjósendur eiga að reka á eftir því, að hið sanna komi í ljós. Ef um spillingu og mútur er að ræða, þá þurfa viðkomandi einstaklingar að axla ábyrgð á því sem og Sjálfstæðisflokkurinn í heild.

Ef þeir þingmenn sem hafa haldið þessu fram eru eingöngu að styrkja sína stöðu með þessu, þá ættu þeir ekki að fá atkvæði frá réttsýnum kjósendum þessa lands.


Óásættanlegur árangur ríkisstjórnarinnar.

Árangur af tveggja ára starfi "hinnar tæru vinstri stjórnar" er gjöramlega óásættanlegur með öllu, staðreyndin er sú að þeim hefur ekkert miðað áfram í efnahagsmálum.

Sá efnahagsbati sem þau stæra sig af er ýmist tekin að láni eða með skatttekjum sem eru að sliga flest heimili og fyrirtæki í landinu.

Steingrímur og Jóhanna töluðu um neikvæðni stjórnarandstöðunnar og Jóhanna sagði að stjórnarandstaðan væri mesti efnahagsvandinn. Þessi ummæli lýsa slæmri dómgreind, því ríkisstjórnin er mesti efnahagsvandinn sem við búum við.

Það eina sem þjóðin þarf til að vinna sig út úr efnahagsvandanum eru auknar gjaldeyristekjur og þessi ríkisstjórn hefur einmitt komið í veg fyrir auknar gjaldeyristekjur. Ef það þykir góður árangur, þá væri gaman að heyra þau lýsa slæmum árangri í efnahagsstjórn.

Strax eftir hrunið var búið að leggja drög að álveri í Helguvík. Það hefði átt að vera fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar, að keyra það verkefni áfram til að efla bjartsýni og von.

Síðan hefði átt að sjálfsögðu að halda áfram með hugmyndir að einkarekna sjúkrahúsinu á suðurnesjum, allar svona aðgerðir auka tiltrú á efnahagsstefnu stjórnvalda, þótt þær leysi ekki allan vandann.

Utanríkisráðuneytið hefði átt að vera á fullu, með aðstoð allra bestu viðskiptamanna sem völ er á, innlendum jafnt sem erlendum, við að afla viðskiptasambanda út um allan heim.

Varðandi Icesave, þá hefðu reyndir stjórnmálamenn átt að vita að Svavar Gestsson væri ekki heppilegur samningamaður, best hefði verið að fá harðsnúið lið erlendra lögfræðinga, með mikla reynslu af milliríkjasamningum til starfans. Það hefði átt að gerast strax, þá hefðu deilurnar ekki orðið eins harðar og þær voru, en deilur magna reiði og hamla framförum.

Sannur leiðtogi hefði lesið í þjóðarsálina og komist að því, að nú væri tími til að færa umræðuna niður á hófstillt plan, lægja þurfti reiðiöldurnar sem mögnuðust í búsáhaldabyltingunni. Í stað þess að lægja öldurnar bjó ríkisstjórnin til bullandi brotsjói sem skullu á þjóðarskútunni og hefðu getað grandað henni, ef sjálfstæðismenn hefðu ekki byggt traust og vandað skip til að standa af sér brotin.

 


Horft til framtíðar, á röngum forsendum.

Á löngum ferli í pólitík hefur margt síast inn hjá Jóhönnu og Steingrími en fátt markvert virðist sitja eftir hjá þeim, af einhverjum ástæðum.

Vitanlega hafa þau oft heyrt um nauðsyn þess að horfa til framtíðar og sannarlega gera þau það, en það eitt og sér er ekki nóg.

Þau horfðu til framtíðar árið 2009, en þá sagði fjármálaráðuneytið að það yrði 5% hagvöxtur árið 2011.

Svo var haldið áfram að horfa til framtíðar og þau sögðu að það kæmi til hellingur af störfum, mörgþúsund störf, á næstu árum. Svo þegar ekkert gekk, þá var bara sagt að þetta væri allt að koma, á næsta ári yrði þetta allt betra osfrv.

Þau gleyma því sem sagt , að það er ekki nóg að horfa bara til framtíðar. Vitanlega er nauðsynlegt að vinna vel í nútíðinni til þess að skapa góða framtíð.

þau gleyma þessari mikilvægu staðreynd, en þess í stað gera þau ekkert annað en að horfa til framtíðar, á röngum forsendu.


Eru allir fífl nema Steingrímur Joð?

Steingrímur J. Sigfússon virðist standa í þeirri meiningu, að hann einn viti staðreyndir í efnahagsmálunum, allir aðrir eru þá bara fífl, að hans mati væntanlega.

Forseti ASÍ, sem oft hefur verið jákvæður í garð vinstri stjórnarinnar er búinn að fá nóg, allir hagsmunaaðilar atvinnulífsins eru líka orðnir þreyttir á verkleysi ríkisstjórnarinnar og almenningur í landinu er að sligast undan ofursköttum og álögum, sem, síðan hækka afborganir á öllum lánum fólks.

En Steingrímur hlustar ekki á svona bölmóð, enda hefur venjulegt fólk víst ekkert farið svo illa út úr hruninu, að hans mati.

Hann hrópaði hátt í þingsalnum og sagði, að miðað við skýrslu OECD, þá væri ríkisstjórnin hans sú næstbesta af öllum ríkisstjórnum ríkja innan OECD.

Steingrímur J. Sigfússon er hinn veruleikafirrti stjórnmálamaður holdi klæddur, hans verður lengi minnst fyrir þær sakir.


Hver verður þróun ESB?.

Evrópusambandið er sannarlega athyglisverður félagsskapur.

Brusslemenn hafa tekið því með æðruleysi sl. tvö ár, að íslendingar væru ekki með það á hreinu, hvort þeir vilji ganga í sambandið og ekki veit þessi sérstæða þjóð í norðri, hvers vegna hún vill fara þangað inn.

Hætt er við að mörg félög myndu missa þolinmæðina, en það gerir ESB ekki. Heldur borgar 230. milljónir til að kynna sig fyrir íslendingum.

Þótt aðdáendur og stuðningsmenn ESB hér á landi telji sig hafa svör við öllum spurningum, þá er erfitt að taka þau góð og gild, vegna þess að ýmislegt er nú plottað í pólitík og ekki er almenningur í ESB upplýstur um allt plottið sem þar fer fram, sumir halda eflaust að "reykfyllt bakherbergi" séu einungis til á Íslandi, en þau þekkjast ansi víða.

Ekki er óeðlilegt, svona ef litið er til reynslu heimsins af pólitík, að Evrópusambandið stefni í að verða eitt ríki, það er hagur embættismanna í Brussel, en ekki endilega hagsmunir almennings. Sameiginleg hagstjórn vegna Evrunnar virðist vera ósk margra þungavigtamanna innan sambandsins.

Íslendingar hafa miklar auðlindir upp á að bjóða, Evrópusambandið veit af því. ESB gæti sannarlega fengið verkefni fyrir flota sinn í íslensku lögsögunni, ef þeim sýnist svo.

En það er einn galli við þessa umræðu, eingöngu er verið að spá í framtíðina, en hún er víst öllum hulin.

Enginn getur fullyrt nokkuð um þróun ESB, en hægt er að setja fram kenningar. Kenningin um að ESB verði eitt ríki hljómar sennilega hjá mörgum, öðrum finnst það vera bull.

Enginn getur sannað hvoruga kenninguna, en á meðan íslendingar hafa möguleika á að standa á eigin fótum, þá eigum við að sjálfsögðu að standa utan við ESB.

 


Jóhanna og postulinn Páll.

Jóhanna Sigurðardóttir á í sömu vandræðunum með sjálfa sig og postulinn Páll átti meðan hann lifði á meðal manna.

Páll sagði í einu bréfa sinna, að það góða sem hann vildi gera, gerði hann ekki, heldur gerði hann það illa sem hann vildi ekki gera, sama á við um Jóhönnu Sigurðardóttur.

Jóhanna Sigurðardóttir vildi gera fólki gott, með því að slá skjaldborg utan um það. Hún sló svo skjaldborg um fjármálafyrirtæki og erlenda vogunarsjóði.

Jóhanna Sigurðardótti vildi sannarlega gera gott, með því að auðvelda fólki að borga af lánunum sínum. En hún hækkaði allt sem hægt var að hækka og þá jukust afborganir af lánum fólks.

Hún vill gera gott með því að efla völd þingsins og minnka ítök framkvæmdavaldsins. Í staðinn leggur hún það til, að framkvæmdavaldið fari með öll mál er varða fjölda ráðherra og verkaskiptingu þeirra í millum.

Er þá Jóhanna Sigurðardótti eins og Páll postuli?

Nei, það er grundvallarmunur á þeirra nálgun við þenna hvimleiða kæk.

Pál postuli iðraðist og hann vissi af breyskleika sínum, þannig tókst honum að vinna bug á sínum veikleika.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur aldrei séð neitt athugavert við sínar athafnir, lengi vel kenndi hún sjálfstæðismönnum um allt sem miður fór, en núna kennir hún VG um allt sem miður fer í stjórn landsins um þessar mundir.

Sá sem að kann ekki að iðrast getur aldrei gert gott, Jóhanna er lifandi sönnun þess.

Kjósendur eiga að hugsa vel, áður en kosið er næst og treysta þeim sem kunna að iðrast, því öllum verður fótaskortur á stjórnmálanna hálu braut.

 


Ríkisstjórnin er mesti efnahagsvandinn.

Ósamstíga ríkisstjórn sem stendur í deilum um aukaatriði, er ekki heppilegur kostur fyrir þjóð sem er að byggja sig upp.

Steingrímur og Jóhanna segja bæði, að fulltrúar frá AGS hafi hrósð þeim og ríkisstjórninni, fyrir afskaplega góð verk, en sennilega hafa þau misskilið kurteisi vimælenda sinna.

Það segir enginn útlendur sendimaður við leiðtoga ríkisstjórnar viðkomandi lands, að þau hafi staðið sig illa, ekki í samtölum. Vitanlega hafa þau skötuhjú þráspurt starfsmenn AGS um hvernig þau hafi staðið sig, starfsmenn AGS hafa kannski sagt að þau væru ágæt eða nokkuð góð.

Svona svipað og maður segir við konu sem þjáist af minnimáttarkennd og er í ljótum kjól, ef hún spyr mann að því, hvort kjóllinn sé ekki flottur. Auðvitað er ekki hægt að segja annað en að kjóllinn sé flottur.

Þvínæst segja þeir álit sitt í skýrsluformi og þá kemur í ljós, að ríkisstjórnin er mesti efnahagsvandinn sem Ísland þarf að glíma við.

Morgunblaðið vitnar í skýrslu sem AGS birti í vikunni og kemur með eftirfarandi tilvitnun;"Það hefur verið töluverður áhugi á nýjum fjárfestingum hér í starfsemi sem krefst mikillar orku, en yfirvinna þarf tæknilegar og fjárhagslegar hindranir. Af hálfu ríkisstjórnarinnar skortir á skýra stefnu um fjárfestingu, en það hefur aukið óvissu og dregið úr tiltrú viðskiptalífsins."

Stjórnarliðar þykjast ógurlega sniðugir þegar þeir segja að ríkið eigi ekki að skapa störf, það sé orðið gamaldags lumma. Vitanlega eru allir sammála því, betra er að einkageirinn skapi störf.

Gallinn er sá, að ríkisstjórnin kemur í veg fyrir það að einkageirinn geti skapað störf.

Varla á ríkið bæði að sleppa því að skapa störf og koma í veg fyrir að hægt sé að skapa störf, það er þá alveg ný og óþekkt hagfræði, sem vafasamt er að þróa frekar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband