Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 14. september 2011
Best að svara fyrir forsetann.
Björn Valur Gíslason hnerrar ákaflega mikið, enda er leiðtogi hans þrælstíflaður af pólitísku kvefi um þessar mundir.
Fjármálaráðherrann var hálf raddlaus í viðtalinu sem tekið var við hann á mbl.is varðandi afkomu ríkissjóðs, þannig að Björn Valur þarf að ræskja hann líka, Steingrímur er of upptekinn til að hreinsa kverkaskítinn sjálfur.
Þar sem að forsetinn er of upptekinn til að svara kjánalegum spurningum þingmanna, þá er best að ég reddi því fyrir kallinn, ég vona að stjórnarliðar séu ennþá eins dyggir lesendur á þessari síðu og þeir hafa verið til þessa.
Forsetinn átti við það, að hann ætlaði að svara fyrir sig. Ekkert bendir til þess að hann grípi til annarra aðgerða, enda sagði hann það í viðtali á Bylgjunni að hann fyndi sig knúinn til að verja sig, forsetaembættið og þjóðina.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur eitt fram yfir alla pólitíkusa íslensku þjóðarinnar, hann kann að svara fyrir sig, notast við rök og verja heiður sinn.
![]() |
Krefur forsetann svara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 14. september 2011
Afneitun Svavars Gestssonar.
Öll lendum við í því að gera mistök, slíkt er afskaplega eðlilegt en hvimleitt samt. Þegar fólk gerir alvarleg mistök, þá fer það oft í afneitun vegna þess að það getur verið erfitt að horfast í augu við klúðrið. En oftast hverfur afneitunin eftir að fólk hefur fengið tíma til að hugsa, stundum er beðist afsökunar, stundum þegir fólk og skammast sín í hljóði.
Ef að menn hafa vit á að þegja og halda sig til hlés, þá er enginn ástæða til að vera að nudda þeim upp úr mistökunum. En þegar haldið er áfram að verja vitleysuna, tveimur árum seinna, þá er erfitt að horfa framhjá því.
Enginn vafi er á því, að samningur sá sem Svavar gerði var hryllilegur og hann hefði kostað þjóðina stórfé.
Réttlætingar hans hafa verið ótrúverðugar allan tímann og undarlegt að hann reyni enn að klóra í bakkann.
Fyrst sagði hann að íslendingar þyrftu að bera burtu syndir heimsins eins og frelsarinn forðum, hætta var víst á, að innistæðutryggingakerfi Evrópu hefði hrunið ef hann hefði ekki fetað í fótspor frelsarans frá Nazaret.
Það er undarlegt að Svavar Gestsson, sem ekki hefur verið með Guðsorð á vörum skuli notast við málsvörn á þessum nótum, en kannski hefur hann hugsað til Guðs þegar hann sá þvílíka hörmung hann hafði gert fyrir íslensku þjóðina. Hann veit sannleikann í málinu, en eins og margir vinstri menn, þá heldur hann að hægt sé að ljúga öllu að þjóðinni.
Svo sagði hann að EES samningurinn hafi verið í uppnámi, þegar ofangreindar réttlætingar dugðu ekki, þá kom Þórólfur vinur hans úr háskólanum og sagði að við yrðum í hryllilegum sporum, gjladmiðillinn myndi hrynja, atvinnuleysi aukast og ástandið hér á landi hræðilegt í alla staði.
Ekkert af heimsendaspám þeirra hafa gengið eftir, enda er lítið mark takandi á mönnum sem eru í þjakaðir af hræðslu.
Þórólfur og Svavar eru í sömu súpunni, þess vegna styrkja þeir hvern annan, því vinstri menn geta aldrei horfst í augu við eigin veikleika.
Svavar vitnar í útreikninga vinar síns og þeir eru sammála um, að samningurinn hans Svavars hafi verið besti kosturinn.
Ætla má að þeir séu tveir um þesa skoðun, Steingrímur Joð hefur þó haft vit á, að hætta að dásama samninginn hans Svavars, honum þykir fátt leiðinlegra en að vera minntur á hann.
En Svavar Gestsson, það er sama hversu sterk rök koma gegn hans samningi, það virka engin rök á hann, enda er hann í hópi hörðustu vinstri manna þjóðarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. september 2011
Nauðsynlegt að skipta reglulega um prinsipp.
Frændi minn einn var á sínum yngri árum ógurlega duglegur vinnuþjarkur, hann var sívinnandi alla daga. Hann sagði mér að hann fengi hvíld út úr því að fara í önnur störf, þá endurnærðist hann fullkomlega.
Þessi ágæti maður starfaði sem trésmiður, en honum fannst gaman að skreppa túr og túr á togara, hjálpa til við sveitastörf osfrv.
Sama má segja um Steingrím J. Sigfússon, hann er vitanlega stöðugt með hin ýmsu prinsipp og til að fá tilbreytingu frá gráma hversdagsins, skiptir hann reglulega um prinsipp.
Hann var alfarið á móti því að greiða Iceve og vera í samstarfi við AGS. Þetta prinsipp ver ríkjandi hjá honum í smátíma, en þar sem að þetta eru stór mál, þá er nauðsynlegt að endurnýja prinsippin til að ofkeyra sig ekki á erfiðum prinsippum, breyta til eins og frændi minn gerði gjarna.
Þá ákvað hann að setja sér það prinsipp að vera eindreginn talsmaður þess að borga Icesave og vera í samstarfi við AGS, það frískaði upp á tilveruna hjá honum.
Svo hafði hann prinsipp varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur, á alþingi sagði hann í ræðu að ekkert mál væri svo flókið að það hentaði ekki í þjóðaratkvæði.
Eftir að hafa burðast með slíkt prinsipp ansi lengi, ákvað hann að breyta til og hann greiddi atkvæði gegn því að þjóðin fengi að kjósa um hvort sækja ætti um aðild að ESB, sló þar tvær flugur í einu höggi og breytti um prinsipp varðandi aðild að ESB, það hefur verið hressandi fyrir hann.
Áratugum saman hafði hann burðast með sama prinsippið, að hugsa um hag alþýðunnar, það var orðið frekar einhæft og kominn tími á að breyta til.
Þess vegna afhenti hann erlendum vogunarsjóðum afföll lána og það var nú aldeilis hressandi tilbreyting. Til að kóróna breyttan lífsstíl ákvað hann að dæla tæpum tvöhundruð milljörðum í fjármálafyrirtæki, nú var hann eins og nýhreinsaður hundur.
Það hentar sumum að breyta reglulega um prinsipp og ekkert við því að segja.
En það er spurning hvort þjóðin eigi að velja stjórnmálamenn sem fá leið á sínum lífsskoðunum með reglulegu millibili.
Er ekki best að jarðfræðingurinn velti fyrir sér síbreytileika jarðarinnar, þá getur hann öllum að skaðlausu skipt út eins mörgum prinsippum og honum sýnist.
![]() |
Lítið fylgi hefur ekki áhrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 13. september 2011
Stofnun stjórnlagaráðs var vanvirðing við hæstarétt.
Ekki skal efast um það, að meðlimir stjórnlagaráðsins eru einlægt hugsjónafólk sem vill gera samfélagi sínu gott eitt. Einnig hef ég aldrei dregið það í efa, að ríkisstjórnin, eins klaufaleg og hún er, vill af einlægni bæta samfélagið og efla réttlæti hér á landi.
En stundum dugar ekki einlægur ásetningur, það þarf meira til.
Ríkisstjórn sem virðir ekki hæstarétt landsins getur aldrei talist trúverðug, það eitt og sér ætti að vekja fólk til umhugsunar.
Engu máli breytir þótt mörgum hafi þótt dómur hæstaréttar byggður á vafasömum forsendum eða að hæstaréttadómarar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að þóknast hagsmunum sjálfstæðismanna.
Á meðan hæstiréttur er til staðar og hefur það vald sem hann hefur, þá ber öllum hér á landi skilyrðislaus skylda til að hlýða hans dómum.
Það ber nú reyndar vott um roluhátt hjá stjórnvöldum, að segja hæstarétt ganga erinda ákveðinna afla í þjóðfélaginu og láta þar við sitja. Ef stjórnvöld hafa rökstuddan grun um að svo sé, þá er það vitaskuld fáránlegt að grípa ekki til ráðstafanna, því úrræðin hljóta að vera til staðar.
En ætli staðreyndin sé ekki sú, að þessi ríkisstjórn vill ekki hlýða neinu öðru en því sem fellur að hennar geðþótta hverju sinni.
En eftir stendur óvéfengjanleg staðreynd, hæstiréttur felldi sinn dóm og ríkisstjórnin fann leið til að koma sér framhjá hlýðni við æðsta dómstól landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Mánudagur, 12. september 2011
Á að ganga í berhögg við núverandi stjórnarskrá?
Það hefur myndast athyglisverður hópur fólks, sem krefst þess að allir ástundi réttlæti í hvívetna sem og skýlausa hlýðni við lög og reglur samfélagsins.
Þess vegna er að illskiljanlegt þeim, sem ekki eru inmúraðir í þennan ágæta hóp réttsýnna einstaklinga, hvers vegna þau vilja ganga í berhögg við það sem margir lögspekingar segja æðstu lög lýðveldisins.
Núverandi stjórnarskrá kveður skýrt á um breytingar á sjálfri sér, það er ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á henni, hvað þá nýja stjórnarskrá, sem hönnuð er frá grunni.
Löghlýðni krefst aga, oft þarf að virða lög, þótt viðkomandi kunni ekki vel við þau og finnist þau til óþurftar.
Oft læðist að manni sá grunur, að þessir ágætu borgarar sem útbelgdir eru af helgri réttlætiskennd, séu ekki eins löghlýðnir og þeir þykjast vera. Hörðustu prinsippmenn eins og Steingrímur Joð láta öll prinsipp lönd og leið, ef það getur þjónað sérvisku hans, eins og sást glöggt í Magma málinu.
Það einfaldlega gengur ekki upp, að boða nýja stjórnarskrá, sem öllum ber að virða og ganga í berhögg við ákvæði núgildandi stjórnarskrár.
Þótt ég sé eindreginn talsmaður beins lýðræðis, þá er ekki hægt að setja nýju stjórnarskrána í þjóðaratkvæði, vegna þess að núgildandi stjórnarskrá leyfir það ekki.
Okkar samfélag byggist á lögum sem ber að hlýða, hvort sem okkur líkar það vel eða illa, annars erum við búin að setja ákveðinn brest í réttarríkið.
![]() |
Borgarafundur um nýja stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Sunnudagur, 11. september 2011
"Stétt með stétt".
Hvað þýðir slagorðið stétt með stétt?
Eins og flestir þekkja, þá er maðurinn ákaflega sjálfhverf skepna og á vont með að skilja þá sem tilheyra öðrum stéttum. Þess vegna hafa mynda átök á milli þeirra. Samt vitum við það að öll hugsum við á sama veg, við hugsum um okkar eigin hag.
Atvinnurekandinn vill borga eins lítil laun og hann mögulega getur því hann vill græða sem mest, verkamaðurinn vill hins vegar fá eins mikið kaup og mögulegt er, án þess að hugsa um hag atvinnurekandans. Þetta eru augljósar staðreyndir, en þær valda ákveðnum vandamálum í samskiptum þessara aðila.
Þótt maðurinn sé ákaflega sjálfhverfur í eðli sínu, þá fer honum ósjálfsrátt að þykja vænt um það fólk sem hann kynnist vel og þá um leið, hugsar hann um hag þes sem hann tengist, þótt hann hugsi vitanlega alltaf fyrst og fremst um sjálfan sig.
Um leið og atvinnurekendur og launþegar fara að tengjast hver öðrum, þá skapast ákveðin tengsl og samkennd kemur í kjölfarið.
Þá er í framhaldinu orðin raunhæfur möguleiki á því, að atvinnurekandinn verði tilbúinn til að leyfa launþeganum að njóta stærri hluta af innkomu fyrirtækisins, innkoman vitanlega eykst þegar launþeginn fer að hugsa meira um hag fyrirtækisins.
Allar stéttir samfélagsins eiga að þroska með sér sameiginlegan skilning á þörfum allra, þá skapast sátt sem smitar svo út í samfélagið allt. Sáttin eflir svo nýsköpun á meðan deilur drepa hana niður.
Vinstri flokkarnir hafa mjög ólíka sýn á þetta atriði, þeir vilja frekar stríð á milli stétta með tilheyrandi verkföllum, aukinni verðbólgu osfrv.
Þeirra eðli er að skipa í fylkingar og stríða á móti þeim sem þeir halda að séu óþarflega ríkir fyrir þeirra smekk.
Til þess að endurreisnin geti farið fram og hér á landi geti verið þokkalegt efnahagsástand, þá verður að skapa sátt á milli stétta.
Sátt á milli hægri og vinstri getur aldrei orðið, því það er himin og haf á milli grundvallarhugsjóna þessara flokka.
Kjósendur verða að gera það upp við sig, hvort þeir kjósa sátt eða sundurlyndi í næstu kosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Laugardagur, 10. september 2011
Er Ólafur Ragnar heppilegur kostur?
Forsetinn á að vera sameiningartákn þjóðarinnar og hann á að sitja á friðarstóli.
Ólafur Ragnar Grímsson er oft ansi fljótfær og hann á það til að missa út úr sér orð sem betur hefðu verið ósögð, einnig var það afskaplega klaufalegt að svíkja sendiherra Bandaríkjanna um orðuna á sínum tíma.
En það var gott að hafa hann þegar Icesave vitleysan gekk yfir, hann bjargaði þjóðinni í því máli.
Ólafur Ragnar er í eðli sínu harðskeyttur pólitíkus og hann kann alla þá klæki sem pólitíkin býr yfir.
Þegar hann var að undirbúa forsetaframboðið, þá fór hann að vera óskaplega rólegur og mildur á þingi, samanborið við það sem hann áður var, einnig fór hann að sækja messur og spjalla um Guð, þótt hann hafi verið yfirlýstur trúleysingi áður en hann fór í forsetaframboðið.
Á meðan útrásin var í blóma, sýndi hann mikinn dómgreindarbrest, því hann trúði því af öllu hjarta, að íslendingar væru mesta viðskiptaþjóðin.
Óvíst er hvort það sé heppilegt að maður á borð við forsetann sé að gefa afgerandi yfirlýsingar um hin ýmsu mál, hann á að vera fulltrúi lands og þjóðar og skapa sátt meðal þjóðarinnar.
Ólafur Ragnar skapar ekki sátt, hann heldur sínum skoðunum mjög á lofti og hann er allt of pólitíksur í þetta embætti.
Segja má um flesta leiðtoga, að stundum er tíminn réttur fyrir þá og stundum ekki. Óumdeilt er að Icesave tíminn var réttur tími fyrir Ólaf Ragnar.
Því miður hættir ansi mörgum til að horfa aðeins á eitt atriði og gleyma öllum hinum.
Ef það ríkir eðlilegt ástand í samfélaginu, er þá Ólafur Ragnar besti kosturinn?
![]() |
Forsetinn á allra vörum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Föstudagur, 9. september 2011
Hún þorir ekki að mæta honum.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki kjark til að ræða við forsetann um ummæli hans, varðandi undirlægjuhátt ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu.
Hún hefur heldur ekki kjark til að standa við þau loforð sem hún gaf, varðandi rannsókn á einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka, en nauðsynlegt er að rannsaka það ef hún telur að það hafi verið gert með ólögmætum hætti.
Eflaust telur hún einkavæðinguna hafa verið löglega og hún veit upp á sig skömmina í Icesave málinu fræga.
En hún er orðhákur mikill, slíkir einstaklingar eru oftast kjarklitlir þegar kemur að því að standa fyrir máli sínu.
Vitanlega á hún að rannsaka einkavæðingarferlið og eins stuðninginn við innrásina í Írak, ef hún telur að eitthvað misjafnt hafi verið á seiði.
Við sjálfstæðismenn viljum hafa allt uppi á borðum, benda má á að Geir H. Haarde skipaði rannsóknarnefnd til að kanna eigin verk og Davíð Oddsson lét Ríkisendurskoðun fjalla um einkavæðingu bankanna.
Það á enginn að óttast rannsókn á sínum verkum, það er nauðsynlegt til að skapa traust.
Kjarklausir stjórnmálamenn eins og Jóhanna og Steingrímur þora ekki að standa við stóru orðin, þau halda að hróp í ræðustól alþingis styðji þeirra veika málstað.
![]() |
Gagnrýnir forseta Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 8. september 2011
Fjallræðan er enn í fullu gildi.
Í hinni frægu fjallræðu, sagði frelsarinn m.a.; dæmið ei, því með þeim dómi verðið þér dæmdir og með þeim mæli sem þér mælið, munuð þér og dæmdir verða".
Óhætt er að segja það kaldhæðni örlaganna, að Steingrímur J. Sigfússon, sem ekki þykir trúrækinn maður, skuli vera lifandi sönnun þess sem Kristur sagði í fjallræðunni forðum.
Steingrímur hefur fellt þann dóm yfir sjálfstæðismönnum, að þeir hafi dregið taum fjármálafyrirtækja og þess vegna hafi hrunið orðið.
Segja má að fáir stjórnmálamenn hafi verið eins hjálplegir við fjármálafyrirtæki og Steingrímur Joð, en hann byrjaði á því að afhenda vogunarsjóðum niðurfellinguna sem stóð til að notuð yrði til niðurfellingar á lánum fyrir almenning og fyrirtæki landsins. Vogunarsjóðir ættu að vera í augum vinstri manns það hræðilegasta sem fyrirfinnst í víðri veröld, en Steingrímur er sérstæður vinstri maður eins og flestir vita.
Svo dældi hann hátt í tvöhundruð milljörðum í ónýt fjármálafyrirtæki og bágstatt tryggingafélag, það var eitthvað sem sjálfstæðismenn reyndu að forðast eins og heitan eldinn, eins og fram hefur komið oftar en einu sinni.
Hann hefur hlotið þann dóm sem hann gaf sjálfstæðismönnum, meðan hann var í stjórnarandstöðu.
Svo er það seinni hlutinn; "og með þeim mæli sem þér mælið, mun yður og mælt verða".
Steingrímur kvað Davíð Oddsson vera gungu bæði og druslu, af því að Davíð nennti víst ekki að hlusta á innantómt orðagjálfrið í honum, einu sinni enn.
Forsetinn hefur vegið harkalega að Steingrími og hans ríkisstjórn. Steingrímur kveðst ekki vilja munnhöggvast við forsetann, en hljómar það sannfærandi hjá manni sem notar hvert tækifæri sem gefst, til að munnhöggvast við fólk?
Nei, ætli hann óttist ekki að forsetinn hafi betur í þeim átökum, því Steingrímur er ekki mjög rökfimur maður og sennilega veit hann af því. Öskur og gífuryrði hafa virkað ágætlega á friðelskandi og kurteisa sjálfstæðismenn, en slíkt hrín ekki á stjórnmálarefinn Ólaf Ragnar, því hann kann bæði að beita rökum og gífuryrðum betur en flestir stjórnmálamenn samtímans.
Augljóst er að ummæli hans um Davíð hitta hann sjálfan, nema kannski orðið "drusla", það er eflaust of gróft.
Bloggar | Breytt 9.9.2011 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 7. september 2011
Sjálfstæðisflokkurinn á að kynna sínar áherslur.
Nú er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn kyni sínar áherslur og sannfæri kjósendur um, að flokknum sé treystandi fyrir stjórn landsins. Það að benda á mistök og vanhæfni núverandi ríkisstjórnar eykur ekki traust á Sjálfstæðisflokknum, það vita allir um vanhæfni vinstri flokkanna, en upplýsingar vantar tilfinnanlega um hæfni sjálfstæðismanna.
Það hefur orðið trúnðarbrestur á milli Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar, þess vegna þarf flokkurinn að ávinna sér traust á ný.
Það er best gert með því, að efna til funda og ræða við fólk á opinskáan hátt. Forysta flokksins þarf að biðja þjóðina um tækifæri og gefa loforð sem verður staðið við.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið andvígur mikilli eyðslu, nú þarf að sýna það í verki og boða stórfelldan niðurskurð á flestum sviðum. Flokkurinn fór því miður of geyst í útþenslu báknsins og þarf að bæta fyrir það.
Það þarf að móta tillögur og skoða hvað við þurfum og hvað við getum verið án. Utanríkisþjónustan hefur bólgnað út, þar verður að skera niður.
Niðurskurður verður alltaf sársaukafullur fyrir einhverja og þeir sem eiga hagsmuna að gæta, snúast alltaf gegn honum. Vissulega þarf að sýna fólki virðingu og skilja öll sjónarmið, en þjóðin á takmarkað fjármagn um þessar mundir, þess vegna getum við ekki leyft okkur að halda í óarðbær störf.
Þegar hinum sársaukafulla niðurskurði er lokið, þá þarf að gæta þess að halda ríkisútgjöldum alltaf innan skynsamlegra marka, ríkið á aldrei að búa til störf sem ekki eru lífsnauðsynleg fyrir heill lands og þjóðar.
Sjálfstæðislfokkurinn þarf að móta raunhæfar lausnir sem miða að því að lækka skatta og skera hraustlega niður í opinberum rekstri. Hið opinbera á raunverulega ekki að gera neitt annað, en að sjá til þess að reglurverkið virkar og huga að þeim sem sjúkir eru og aldraðir.
Velferðarkerfi heimsins stendur á brauðfótum, við þurfum að horfast í augu við það og haga okkur samkvæmt þeirri staðreynd. Ekki á að lofa kjósendum dúsum sem auka ríkisútgjöld, heldur að lofa þeim og standa við það, að fólk geti notað eins mikið og mögulegt er, af því fjármagni sem það aflar með heiðarlegum hætti.
Finna þarf leiðir til að hvetja fólk til góðra verka og efla sjálfsbjargarviðleitni þess.
Sjálfstæðisflokkurinn á að lofa þjóðinni því, að hann fari eftir þeirri stefnu sem búin var til árið 1929 og vinna í að gera öll slagorð flokksins að veruleika.
Flokkurinn þarf eitt tækifæri til að sanna sig, kjósendur eiga að veita honum það, því saga flokksins er glæsileg að stærstum hluta, reyndar hafa komið slæmir tímar, en það má læra af þeim.
Hægri menn eiga allir að sameinast í einum flokki, Sjálfstæðisflokknum og veita forystunni aðhald. Hægri menn í mörgum flokkum veikja málsataðinn.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki við orð sín og loforð, þá er ekkert hægt að kvarta yfir vantrausti kjósenda.
Fortíðin er liðin, nútíðin gefur tækifæri fyrir glæsta framtíð.
"Veldur hver á heldur".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)