Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 19. ágúst 2011
Stjórnlagaráðið þurfti lengri tíma.
Hinir hugsjónaríku mannvinir sem skipuðu hið margrómaða stjórnlagaráð hefðu gjarna mátt fá lengri frest til þess að koma fleiri nauðsynlegum ákvæðum í tillögur sínar að stjórnarskrá lýðveldisins.
Tíunda grein frumvarpsins mótmælir harðlega hverskyns ofbeldi á heimilum og þar sem stjórnarskráin er öllum lögum æðri, þá má ætla að ofbeldisinnaðir heimilisfeður staldri við og hætti við að meiða konurnar sínar.
Enginn vill vera sekur um stjórnarskrárbrot og það að beita ofbeldi á heimilum verður brot á stjórnarskrá, ef tillögurnar fá náð fyrir augum yfirvalda.
Hefði stjórnlagaráðið haft lengri tíma, þá hefði verið hægt að setja skiptingu heimilisverka í stjórnarskrána líka.
Nú er það svo að konur vinna utan heimilis til jafns við karla. Hvaða réttlæti er í því að konur sjái um heimilisverkin líka?
Hægt hefði verið að setja í frumvarpið ákvæði þess efnis, að báðir aðilar öxluðu jafna ábyrgð á tiltekt og þrifum á heimilum.
Ef karlmenn ætla sér að setjast í sófann eftir erfiðan vinnudag, þá getur eiginkonan veifað stjórnarskránni og þá um leið rís eiginmaðurinn á fætur og þýtur um húsið eins og hvítur stormsveipur, annars er hann sekur um stjórnarskrárbrot, hvorki meira né minna.
Góð og vönduð stjórnarskrá getur leyst allan vanda eins og stjórnlagaráðsfólkið veit fullvel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 18. ágúst 2011
Er Gunnar líka óvirkur sem forstjóri FME?
Að eigin sögn var Gunnar Andersen óvirkur stjórnarmaður í nokkrum aflandsfélögum.
Ef litið er yfir sögu Gunnars, þá virðist hann hafa verið óvirkur ansi lengi.
Hann var stjórnandi dótturfyrirtækis Hafskips sáluga og þrátt fyrir ítrekuð loforð hans, þá gekk hvorki né rak, enda var fyrirtækið með óvirkan framkvæmdastjóra.
Hann hét því, eftir að hann var rekinn frá Hafskip, að hann skildi aldrei aftur vinna fyrir íslendinga því þeir voru fávitar að hans mati.
En hann fór að vinna fyrir íslendinga aftur, sennilega vegna þess að hann er óvirkur varðandi prinsipp eins og flest annað. Nema að útlendingum hafi mislíkað óvirkni Gunnars, þeir munu margir vera hrifnari af mönnum sem eru virkir í starfi.
Ætli hann sé ekki líka óvirkur sem forstjóri FME?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 16. ágúst 2011
Hvað með málefni transfólks?
Grunnhyggni og hugsunarleysi stjórnlagaráðs er með ólíkindum. Silja Bára Ómarsdóttir vildi skerpa á réttindum transfólks í hinni nýju stjórnarskrá, en það fékk takmarkaðan hljómgrunn hinna í ráðinu.
Taka skal fram, að sjálfur er ég er gagnkynhneigður karlmaður og hef enga löngun til þess að vera kona og engan þekki ég sem hefur löngun til að breyta um kyn. Það breytir því þó ekki að ég hef bæði samúð og skilning á sjónarmiðum transfólksins og það ætti að vera lágmarks krafa upplýstu nútímasamfélagi, að fólk ráði því í hvaða kynhlutverki það vill lifa.
Því fylgir óverulegur kostnaður fyrir ríkið að lofa fólki að breyta um nafn í þjóðskrá, komið hefur fram að mörgum transgender einstaklingum myndi nægja að fá nafn tengt því kyni sem viðkomandi vill tilheyra. Við eigum heldur ekki að hæðast að karlmönnum sem kjósa að klæðast kvenmannsfötum, það ætti að vera sjálfsögð og eðlileg mannréttindi, sama máli gegnir vitaskuld um konur sem vilja líta út eins og karlar.
Öðru máli gegnir um kostnaðarþátttöku ríkisins í dýrum kynskiptiaðgerðum. Það þarf að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu og finna þarf út, hvort rétlætanlegt sé að gera rándýrar aðgerðir á kostnað annarra sem mikilvægari eru.
En umfram allt, þá eigum við að sjálfsögðu að virða rétt fólks til að gegna því kynhlutverki sem það kýs sjálft og alls ekki vera með fordóma á því sviði.
Ekki má gleyma þeirri sálarangist sem fylgir því að passa ekki inn í rammann, við þurfum að henda út þessum ramma og búa til nýjan, þar sem allir passa inn, sem ekki skaða aðra með framferði sínu.
Og erfitt er að sjá að karl klæddur sem kona skaði samborgara sína að einhverju leiti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 16. ágúst 2011
Jákvæðar fréttir frá ESB.
Það væri sannarlega óskandi að Evruríkin fari að rétta úr kútnum og vonandi tekst ESB ríkjunum að ráða fram úr efnahagsvandanum sem skekur sambandið um þessar mundir.
Það er alltaf slæmt þegar ríki lenda í erfiðleikum og almenningur þarf að axla ábyrgðina á fíflagangi stjórnvalda.
Ég ákvað það fyrir nokkru, þegar einhver bullukollur úr hópi ESB sinna hélt því fram, að andstæðingar aðildar að ESB vektu aldrei athygli á jákvæðum fréttum af ESB, að fjalla alltaf um jákvæðar fréttir sem bærust af Evrusvæðinu, því batnandi hagur ESB hefur vitanlega góð áhrif á hag okkar íslendinga. Einnig þykir mér gleðilegt ef það fer að birta til á Evrusvæðinu, því það er aldrei gaman ef það er vandræðagangur í efnahagsmálum einhversstaðar í heiminum.
Þröngsýni margra ESB sinna er slík, að þeir trúa því virkilega að erfiðleikar í ESB gleðji okkur sem erum stjórnarmenn í Heimssýn.
ESB ríkin eru mikilvægir viðskiptavinir okkar íslendinga og að sjálfsögðu hentar það ákaflega vel okkar hagsmunum, ef þeim gengur vel í efnahagsmálum.
![]() |
Hækkun í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 9. ágúst 2011
Samræðustjórnmál virka ekki.
Á síðustu árum hefur verið rætt og ritað um nauðsyn þess, að átakastjórnmál heyrðu sögunni til. Sumir virðast telja að allir flokkar vilji það sama og því miður hafa sumir stjórnmálamenn tekið undir þetta vafasama sjónarmið.
Himinn og haf er á milli hugmynda hægri og vinstri manna í pólitík, gallinn er sá að stjórnmálamenn hafa ekkert verið að ræða pólitík ansi lengi.
Vinstri flokkarnir telja Sjálfstæðisflokkinn vera rót alls ills og halda þeirri skoðun mjög á lofti, þeir sem eru "ekkistjórnmálamenn" á þingi fyrir Hreyfinguna telja hins vegar að allir flokkarnir fjórir séu gjörspilltir. Svo eru sjálfstæðismenn svo brotnir eftir allar árásir vinstri mannanna, að þeir geta vart varist þessum ómaklegu árásum.
Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna með Hönnu Birnu í broddi fylkingar gerði stórkostlega hluti, borgin hélt sjó þrátt fyrir efnahagsþrengingarnar, þau eiga hrós skilið fyrir það og ekki er vafi á því, að þeim er best treystandi fyrir stórn Reykjavíkurborgar. En því miður fetuðu þau vafasama braut samræðustjórnmála, þar sem allir áttu að vinna saman í sátt og samlyndi.
Þeir kjósendur sem vildu velja flokk til að stýra borginni gátu illa gert upp hug sinn þegar horft var á leiðtoga flokkanna koma saman í sjónvarpssal.
Vinstri flokkarnir fengu hrós fyrir góðar hugmyndir frá leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, þeir þökkuðu fyrir sig með því að reyna að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn, á klaufalegan hátt þar sem sjálfstæðismenn voru skammaðir fyrir að hafa uppfyllt loforð R-listans sáluga.
Fyrst að allir flokkar í borgarstjórn voru svona æðislega frábærir, þá skipti víst engu máli hvaða flokkur var kosinn og flestir kusu Besta flokkinn eins og frægt er orðið.
Dagur B Eggertsson laug því í kosningapésa Samfylkingarinnar að hann hafi komið í veg fyrir samruna Geysis Green og REI. Sjálfstæðismenn voru í sömu friðsemdarvitleysunni, það var ekkert verið að hafa fyrir því að upplýsa kjósendur um sannleikann. Það voru sjálfstæðismenn sem komu í veg fyrir samrunann, Dagur B. útilokaði ekki samruna eftir að hann varð borgarstjóri.
Stjórnmálamenn eiga að berjast fyrir sínum stefnumálum, pólitíkin er vígvöllur þar sem barist er með tungu og penna. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hvað flokkarnir standa, en ekki að kjósa flokka út á það hversu mikið þeir sverta sína pólitísku andstæðinga. Pólitík á að snúast um hugsjónir og ekkert annað.
Jafnaðarmenn eiga að sannfæra kjósendur um nauðsyn þess að hafa jafnaðarstefnuna við völd, frjálshyggjumenn eiga að gera slíkt hið sama. Í stærri málum á aldrei að gera málamiðlanir.
Milton Friedman sagði ólíkar skoðanir bæta heiminn, það eru orð að sönnu.
Í samsteypustjórnum eru málamiðlanir nauðsylegar, en málamiðlun má aldrei gera nema að vandlega yfirveguðu ráði.
Kjósendur eiga rétt á að vita um hvað þeir eru að kjósa og stjórnmálamenn eiga að berjast fyrir sína kjósendur, fram í rauðan dauðann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 9. ágúst 2011
Hvernig verður staðið að tekjuöflun í þetta sinn?
Þjóðin hlýtur að bíða spennt eftir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi tekjuöflun ríkisjóðs. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú fullvissað þjóð sína um, að ekki standi til að hækka virðisaukaskatt á matvæli og ekki komi tekjuskattshækkanir á einstaklinga og fyrirtæki til greina.
Ef svo ólíklega vill til, að forsætisráðherra þjóðarinnar standi ekki við þessi loforð, þá þarf þjóðin að íhuga næsta skref.
![]() |
Engin áform um matarskatt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 3. ágúst 2011
Nú er Steingrímur með kvef.
Alltaf þegar hæstvirtur fjármálaráðherra þjáist af pólitísku kvefi, þá kemur Ólafsfirðingurinn knái og hnerrar í gríð og erg fyrir hönd meistara síns.
Hnerrarinn hnerrar á bloggsíðu sinni og kveður Ísland hafa spillst ægilega mikið í tíð ríkisstjórnar sjálfstæðis og framsóknarmanna.
Vesalings maðurinn gerir sér ekki grein fyrir því, að með þessum yfirlýsingum öllum, í hnerrakastinu, þá er hann að fella áfellisdóm yfir eftirlitskerfi heimsins, hvorki meira né minna.
Greco er heiti yfir stofnun sem fylgist reglulega með spillingu í ríkjum Vestur Evrópu. Sú ágæta stofnun hefur alltaf komist að þeirri niðurstöðu að hér á landi sé spilling með minnsta móti, í samanburði við önnur lönd álfunnar.
Hrunið hér á landi er vissulega staðreynd, en það er víst ansi víða vandræði vegna hins ódýra fjármagns sem flæddi um heiminn hér fyrr á árum.
Erfitt er að skilja þá ofurtrú á íslenskri stjórnsýslu, að halda að hún hafi getað komið í veg fyrir að afleiðingar hruns fjármálamarkaða heimsins gættu hér á landi.
Það er ekkert sem bendir til þess, að hér á landi ríki meiri spilling en annars staðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 28. júlí 2011
Stærstu mistök ríkisstjórnarinnar.
Stærstu mistök ríkisstjórnarinnar voru vitanlega þau í upphafi, að hafa ekki stuðlað að meiri sátt hjá þjóðinni.
Þegar þau komust til valda, þá var þjóðin hrædd, reið og kvíðin fyrir því, hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Þeir sem veljast til leiðtogastarfa þurfa að tileinka sér yfirvegun og skynsemi, nota eins milt orðalag og hægt er á erfiðum stundum til þess að róa fólk, það þarf líka að skapa samstöðu.
Góður og sannur leiðtogi hefði byrjað á því að ræða við stjórnarandstöðuna og semja við hana um, að pólitískar deilur yrðu settar til hliðar og allir ynnu saman að lausn allra mála.
Það að byrja á því að væla yfir erfiðum verkefnum og skammast yfir verkum fyrri ríkisstjórnar var náttúrulega fáránlegt, vitanlega var betra að leita lausna strax í upphafi.
Það er vel hægt að skilja það, að Samfylkingin þráir að ganga í ESB, en það er afar umdeilt og hefði mátt bíða þar til meiri ró var komin yfir samfélagið.
Ríkisstjórnin hefði átt að leggja eingöngu fé í lífsnauðsynleg verkefni og sleppa öllu, sem ekki var fullkomin sátt um.
Með því að byrja á að fá stjórnarandstöðuna í lið með sér og lofa henni að koma með lausnir, þá væri meiri friður á stjórnarheimilinu.
Það hafa allir flokkar einhverjar lausnir sem virka, að halda öðru fram er vitanlega della.
Svo þegar endureisnarstarfið er komið vel á veg og líður að kosningum, þá er hægt að fara að skammast út í hina flokkanna og fá útrás, því þá væri hægt að þakka sér góðar lausnir osfrv.
En því miður hefur þessi ríkisstjórn klúðrað flestu sem hún hefur gert, hún náði ekki því auðveldasta af öllu, að skapa ró hjá þjóðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 27. júlí 2011
Hvers vegna er aldrei rætt um pólitík hér á landi?
Pólitísk umræða hér á landi er varla til og hún er nær óþekkt í fjölmiðlum landsins.
Vinstri flokkarnir með dyggri aðstoð fjölmiðlanna halda því fram, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ábyrgur fyrir öllu því sem neikvætt er hér á landi og sjálfstæðismenn neita því afskaplega sjaldan, því það er víst svo ómálefnanlegt að verja sig segja þeir.
Í stuttu máli má segja, að hér á landi hefur aldrei verið einn flokkur við völd, í landsmálum. Vinstri flokkarnir hafa stjórnað með Sjálfstæðisflokknum allan lýðveldistímann, þegar vel hefur gengið, þá er það góðu samstarfi Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka að þakka, það sem miður hefur gerst, er einnig öllum flokkunum fjórum að kenna.
Kvótakerfið, framsalið, kvótabraskið, verðtrygging, einkavæðing bankanna og hrunið, allt þetta skrifast á flokkanna fjóra, VG eru reynda saklausir af aðdraganda hrunsins, en það er vegna þess að flokkurinn var í stjórnarandstöðu ansi lengi.
Það er staðreynd, sem allir ættu að þekkja, að VG er á móti öllu þegar þau eru í stjórnarandstöðu og samþykkja allt þegar þau eru í ríkisstjórn, þanig að þau hefðu verið jafnsek og hinir flokkarnir þrír, varðandi hrunið, ef flokkurinn hefði verið í ríkisstjórn.
Um leið og vinstri flokkarnir hætta að firra sig ábyrgð og sleppa því að ljúga upp á sjálfstæðismenn, þá er hægt að fara að ræða pólitík.
Þá geta flokkarnir kynnt sínar stefnur fyrir kjósendum og fengið atkvæði út á eigin verðleika, en ekki lygaáróður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Miðvikudagur, 27. júlí 2011
Hvernig á góður stjórnmálamaður að vera?
Góður stjórnmálamaður á fyrst og fremst að varðveita sinn eigin karakter og ekki láta valdið breyta sér að neinu leiti. Góður stjórnmálamaður á að skynja hjartslátt eigin þjóðar og tala til hennar, á máli sem hún skilur.
Góður stjórnmálamaður þarf ekkert að vera gáfaðri en gengur og gerist, en hann þarf að hafa næmt auga fyrir því sem skynsamlegt er og hyggilegt.
Ólafur Thors er af mörgum talinn mesti stjórnmálaforingi þjóðarinnar, hann var fyrst og fremst mikilmenni.
En hann var ekki gáfaðri en gengur og gerist, þótt hann hafi vissulega verið afskaplega greindur. En hann var ekkert afburðagáfumenni. Þegar talað er um Ólaf Thors, þá má ekki gleyma Bjarna heitnum Benediktssyni, en hann var afburðagreindur og reyndist Ólafi mjög vel í þeirra samstarfi. Ekki er vafi á því, að Bjarni var heiðarlegur og vandaður maður í alla staði og ávalt sjálfum sér samkvæmur.
En þeir voru ólíkir að því leiti, að Ólafur var meiri æringi og óx aldrei upp úr því að vera strákslegur í tilsvörum og tali. Mikilmenni varðveita barnið í sér og kannast við alla sína kosti og galla, á meðan minni spámenn í pólitík leitast við að telja sjálfum sér og öðrum trú um, að þeir séu merkilegri en aðrir. Slíkt er vitanlega ekki stórmannlegt, eins og allir vita.
Ævisaga Ólafs Thors er merkileg lesning og í síðari hluta bókarinnar er birt viðtal sem dönsk blaðakona átti við Ólaf. Viðtalið lýsir vel hinum mikla stjórnmálaleiðtoga og langar mig til að birta glefsur úr því, til að fólk geti séð, hvernig sönn mikilmenni hugsa.
Um góða stjórnmálamenn sagði Ólafur: "Góður stjórnmálamaður á að vera miklu heiðarlegri en aðrir stjórnmálamenn eru, hann á einfaldlega að taka sannleikann framyfir lygina. Hann á að vera hugrakkur, vinnusamur og hafa hjartað á réttu stað, og helst ekki allt of heimskur. Hann verður að vita að enginn vex á því að sitja í stól, heldur af því að vinna starf sitt."
Blaðakonan danska sagðist hafa heyrt að hann sé góður ræðumaður. Þá sagðist Ólafur verða feiminn þegar honum er hrósað"ég roðna jafnvel þegar fólk er gott við mig, ég er vanari því að vera skammaður". Þetta ber vott um einlægni þá sem mikilmenni hafa til að bera, en litla fólkið þekkir ekki.
Danska blaðakonan spurði hann um skoðun hans á Danmörku, hvort það sé rétt að íslendingar hati Dani. Ólafur svarar; Danahatur er ekki til, við hötum hvern annan og elskum Dani".
Svo segir hann í sömu orðræðu;"Ég elska Danmörku. Þið eruð engir englar, en indælt fólk og mér þykir afar vænt um ykkur, en nú verðið þér að vera svo góðar að skilja á milli þess, hvenær ég er einlægur og hvenær ég er skúrkur, því ég er hvorttveggja".
Ólafur er spurður að því, hvers vegna séu svona margir kommúnistar á Íslandi, ég hef undrast það líka, en Ólafur svaraði því nokkuð vel;"Þeir eiga duglega foringja, en kjósendur þeirra eru ekki kommúnistar frekar en ég".
Þetta var rétt hjá Ólafi Thors, hann þekkti dugnað vinstri manna varðandi það, að ljúga að fólki og laða það þannig til fylgilags við sig.
Sjálfur varð hann fyrir barðinu á óheiðarlegum málflutningi vinstri manna, en þeir náðu aldrei höggstað á honum.
Hann kunni að verja sig, en sú kunnátta hefur því miður dáið með honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)