Færsluflokkur: Bloggar

Óþverrapólitík vinstri manna.

Í stjórnmálum eiga menn að takast á um ólíkar skoðanir og í þeim umræðum getur oft verið sótt hart að mönnum. Það er óhjákvæmilegt að ýmis orð séu látin flakka í hita umræðunnar, slíkt er hægt að fyrirgefa.

En þegar vegið er að pólitískum andstæðingi með óþverra hætti og hann þarf að líða fyrir það mánuðum saman, þá eru það aðeins sjálfstæðismenn sem geta hugsanlega fyrirgefið slíkt, því það þarf mikla auðmýkt og mikið drenglyndi til að svo geti orðið. Flestir vinstri menn eru ekki þekktir af slíku, þótt einhverjir þeirrar gerðar geti leynst í þeirra röðum.

Geir H. Haarde hefur þurft að bíða lengi eftir dómi í sínu máli, það er óásættanlegt að búa við slíkt. En þar sem að Geir er sérstaklega vandaður og sterkur maður, þá ber hann væntanlega minni skaða af því heldur en margir aðrir, en þetta er engu að síður ótréttlætanlegur gjörningur í alla staði.

Jón Steinsson hagfræðingur, er enginn sérstakur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann fylgdist náið með aðgerðum í kjölfar hrunsins hér á landi. Jón skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann lýsir því, hversu vel Geir og hans samstarfsfólk vann og þau spöruðuð þjóðinn nokkur þúsund milljarða. En var það auðveld ákvörðun?

Jón segir m.a.; "Ef horft er yfir sögu síðustu áratuga hefur það gerst ítrekað að bankakerfi landa hafa lent í vandræðum. Viðbrögð stjórnvalda hafa nánast án undantekninga verið þau að hlaupa undir bagga með bankakerfinu, óháð þeim kostnaði sem neyðaraðstoðin kallar yfir venjulega skattgreiðendur í viðkomandi landi."

Og svo segir Jón einnig frá frægum ummælum yfirmanns Seðlabanka Evrópu, en hann sagði að bönkum yrði aldrei leyft að fara á hausinn.

Og svo fyrir bullukollanna sem segja að íslendingar hafi neyðst til að fara þessa leið, þá segir Jón í grein sinni; "Þegar kreppan skall á var ríkissjóður nánast skuldlaus og í aðstöðu til að veita bönkunum hundruð milljarða í fyrirgreiðslu". Það var einmitt leiðin sem Már Guðmundsson vildi fara og hún hefði verið farin, ef Samfylkingin hefði fengið að ráða, en SF vildi fá Má í stað Davíðs Oddssonar.

Þegar fjármálakerfi heimsins hrundi, þá var það íslenska ríkisstjórnin sem tók réttu ákvörðunina, um það er ekki lengur deilt.

Hvergi í hinum vestræna heimi bíður fyrrum ráðherra dóms fyrir athafnir sínar í aðdraganda hrunsins, nema á Íslandi.

Og það á að sakfella forsætisráðherrann sem tók bestu ákvörðunina, er nokkur furða þótt efast sé um hæfni núverandi ríkisstjórnar?


Sjálfstæðisflokkurinn er frjálslyndur flokkur.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa um hríð talið mörgum trú um að flokkurinn væri ekki frjálslyndur, vegna þess að hann hafnaði aðild að ESB

Þetta virðist virka hjá þeim að vissu leiti, vegna þess að sjálfstæðismenn svara sjaldan fyrir sig af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.

Vitanlega finnst öllum slæmt að vera ekki frjálslyndur, enda er það slæmt, og ef eitthvað neikvætt er sagt um Sjálfstæðisflokkinn þá trúir fólk því.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf haft frjálslynd viðhorf í heiðri og hann mun gera það áfram, en hann er ekki skoðanalaus flokkur, enda á slíkur flokkur  ekkert erindi í pólitík.

Meirihluti sjálfstæðismanna vill ekkert með ESB hafa, þess vegna er það sjálfsagt og eðlilegt að álykta sterkt gegn aðild að Evrópusambandinu. En í Sjálfstæðisflokknum eru mjög öflugir liðsmenn sem eru fylgjandi aðild, það er ekkert óeðlilegt né slæmt við það.

Þessir einstaklingar njóta margir hverjir trausts og vinsælda innan flokksins, enda er rúm fyrir allar skoðanir þar. Í lýðræðisflokkum geta ekki öll sjónarmið haft sigur, það ætti öllum að vera ljóst.

Það getur enginn haldið því fram, með gildum rökum, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki frjálslyndur stjórnmálaflokkur, fólk á ekki að trúa svona þvælu.


Vinstri grænir eru á móti hagkvæmni.

Það er gott framtak hjá Katrínu Júlíusdóttur að kjósa frekar fólk með þekkingu heldur en að burðast með vildarvini VG í stjórn Byggðarstofnunar.

En vinstri grænir eru á móti hagkvæmni, þeir vilja dunda sér í skjóli flokksins við hin ýmsu gæluverkefni.

Frægt er þegar vinstri grænir sögðu að hagkvæmnin ein og sér ætti ekki að ráða för í sjávarútvegsmálum, en það eru vitanlega helber ósannindi.

Vinstri grænir seldu ESB stefnu sína fyrir ráðherrastóla og nú tryllast þeir af því að þeir fá ekki að sitja í stjórn Byggðarstofnunar.

Það væri gaman að heyra forystu VG rökstyðja það, að hagkvæmnisjónarmið ráði för hjá þeim, varðandi skoðun þeirra á framtaki iðnaðarráðherra.


Afnema skólaskyldu barna?

Hinn afar sérstæði borgarstjóri mun hafa komið með þá tillögu, að afnema skólaskyldu barna ef marka má þá hjá Útvarpi Sögu, en sagt var frá því í morgun.

Eins mikið og ég er á móti boðum og bönnum, þá get ég aldrei tekið undir það sjónarmið að afnema skuli skólaskyldu barna, slíkt er brot á þeirra réttindum.

Nú kann einhverjum að þykja kjánalegt að vera að velta fyrir sér umælum borgarstjórans, en í ljósi atburða síðustu ára, þá virðist allt geta gerst hér á landi.

Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum, að Jón Gnarr yrði borgarstjóri? Og hverjum hefði komið til hugar að ríkisstjórn með eingöngu vinstri menn innanborðs ætti eftir að setjast að völdum hér á landi, þegar litið er til hörmungarsögu vinstri stjórna á lýðveldistímanum?

Undarleg sjónarmið virðast hafa hljómgrunn, þess vegna þarf að kæfa þau í fæðingu.

Grunnhyggni borgarstjórans endurspeglast í þessari skoðun hans. Ástæða þess að börn eru skyldug til að mæta í skóla er vitanlega sú, að þau hafa ekki þroska til að ráða sér sjálf. Ekki þarf að uppfylla sérstök skilyrði til þess að vera foreldri og einhverjir foreldrar myndu eflaust grípa það fegins hendi, ef skólaskylda yrði afnumin og telja sig spara á því að kenna börnunum sjálf.

Í breyttum heimi, þar sem krafist er meiri þekkingar en áður, þá er það lífsnauðsynlegt fyrir börn að fagfólk sjái um menntun þeirra. Það dugar ekki lengur að kenna börnum að draga til stafs og læra stafrófskverið, auk þess er hraðinn orðinn svo mikill, að foreldrar gætu ekki frætt börn sín með viðeigandi hætti.


Hvað um friðhelgi einkalífsins?

Misjafnt er hversu miklar upplýsingar einstaklingar vilja veita varðandi sína einkahagi. Í frjálsu ríki ættu stjórnvöld að virða þann rétt, en því miður er það ekki gert með fullnægjandi hætti.

Einu sinni á ári getur hver sem er skoðað álagningaskrár skattstjóra og þar af leiðandi vitað, hversu mikið nágrannar þeirra bera úr bítum. Slíkt er vitanlega óásættanlegt, því margir kæra sig ekkert um að allir geti vitað um tekjur þeirra.

Til þess að kóróna vitleysuna, þá birtir hið annars vandaða tímarit "Frjáls verslun" heljarinnar lista yfir laun fólks í öllum stéttum.

Ég komst yfir blaðið og rýndi í það fyrir forvitnis sakir, en slíkt hafði ég ekki áður gert, því mig langar lítið til að vita hvað samborgarar mínir hafa í laun. Það eru mín laun sem skipta máli fyrir mig en ekki annarra.

Þar sá ég nöfn manna sem tengjast sjávarútvegi og í þeim hluta var nafn eins vinar míns sem er sjómaður.

Sá góði drengur hefur verið til sjós alla tíð og aldrei gert neitt annað. Stuttu eftir að ég hafði lesið nafnið hans hringdi hann í mig, svona til að spjalla.

Ég sagði honum hvað ég hafði lesið í tekjublaðinu og það kom honum ekki á óvart, þetta var þá annað árið í röð sem að nafnið hans hafði birst.

Þetta er duglegur maður sem á skilið að þéna vel. Með eigin höndum hefur hann í erfiðu starfi unnið fyrir hverri krónu og vel það.

Honum fannst þetta frekar fyndið, en við ræddum þetta mál aðeins og urðum sammála um, að þetta væri aðför að einkalífi fólks.

Það má kannski færa rök fyrir því, þótt ég sé ekki sammála þeim, að í lagi sé að birta laun hjá þeim sem eru opinberar persónur.

En venjulegir sjómenn sem komnir eru af alþýðuættum, það er fulllangt gengið.

Hver græðir á því að vita hvað aðrir hafa í laun?


Lítilsvirðing við frændur okkar og vini.

Sú ákvörðun stjórnenda RÚV, að sýna ekki beint frá minningarathöfninni í Noregi er ekkert annað en lítilsvirðing við frændur okkar og vini í Noregi, sem glíma við dýpri sorg en við höfum nokkru sinni þekkt.

Það er kominn tími til að þeir sem ráða málum hér á landi læri að sýna öðrum virðingu og samúð, slíkt er bæði sjálfsagt og eðlilegt, auk þess gæti það hugsanlega styrkt okkar tengsl við Norðmenn, en íslendingum veitir ekki af bandamönnum um þessar mundir.

Burtséð frá öllum praktískum hugleiðingum, þá ber okkur skylda til að syrgja með norðmönnum.

Það vantar ekki vælinn í öllum fjölmiðlum heimsins ef eitthvað smávægilegt hnökur kemur hjá okkur eins og efnahagssamdráttur og eldgos.

Án þess að gera lítið úr efnahagssamdrætti og eldgosum, þá eru það smávægilegir hnökrar í samanburðinum við voðaatburðina í Noregi.

Það sem fór mest fyrir í netheimum þegar Norðmenn voru í mesta sjokkinu, það voru heimskulegar tilraunir grunnhygginna manna, til að slá pólitískar keilur.

Hætt er við að þjóðin þurfi ansi djúpa naflaskoðun um þessar mundir.


mbl.is RÚV eitt um að sýna ekki frá athöfninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þurfum alvöru frjálshyggju hér á landi.

Velferðarkerfi heimsins og risavaxin útgjöld hins opinbera eru að sliga flestar þjóðir.

Stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum hafa tælt kjósendur til fylgis við sig, gegn því að fá einhverjar dúsir sem greiddar eru síðan af kjósendum. Það þarf nýja hugsun í pólitíkina hér á landi.

Stjórnmálamenn eiga að finna út lágmarkskostnað við rekstur ríkisins og halda sig innan þeirra marka.

Þarf þjóð sem telur þrjúhundruð þúsund sálir fjóra háskóla á meðan aðrar þjóðir reka einn háskóla á milljón íbúa?

Þurfum við ofvaxna utanríkisþjónustu sem rekur rándýr sendiráð víða um heim?

Stjórnmálamenn þurfa að hafa kjark til að flytja kjósendum sínum boðskap sem lætur ekki endilega vel í eyrum, en er til farsældar þegar til lengri tíma er litið.

Fólk þarf að axla ábyrgð á sínu lífi, þannig næst aukinn þroski. Ef borgararnir standa í þeirri meiningu að ríkið reddi þeim alltaf, þá svæfir það sjálfsbjargarviðleitnina.

En til þess að frjálshyggjan nái að blómstra, þá þarf grundvallar hugarfarsbreytingu hjá fólki.

Hver og einn þarf að vera meðvitaður um það, að hann beri ábyrgð á eigin lífi og annarra. Með því að taka út óverðskuldaðar bætur þá er um leið verið að takmarka möguleika þeirra sem þurfa raunverulega á aðstoð að halda.

Við eigum að leitast við að vera gefendur frekar en þiggjendur. Þeir sem heilbrigðir eru eiga að huga að þeim sem aldraðir eru og sjúkir, við erum öll á sama báti.

Á meðan félagshyggjan útdeilir peningum hægri vinstri og hækkar skatta, þá vill frjálshyggjan lækka skatta og leyfa borgurunum að stjórna í hvaða farveg þeir vilja setja sitt fjármagn í.

Fimmtán til tuttugu prósent flatur skattur eykur ráðstöfunartekjur heimilanna umtalsvert og það hlýtur að koma sér vel fyrir landsmenn alla.

Þeir sem að kenna stjórnsýsluna á Íslandi við frjálshyggju ættu að lesa sér betur til um hana, frjálshyggja hefur aldrei ríkt á Íslandi, því er nú ver og miður.


Er kominn sértrúarsöfnuður ESB sinna?

Aldrei hef ég komið auga á nauðsyn þess að ganga í ESB, en sumir eru á annarri skoðun.

Átök á milli ólíkra sjónarmiða eru nauðsynleg í öllum lýðræðisríkjum og því ber að fagna upplýstri umræðu, en þegar málsvarar ESB haga sínum málflutningi með sama hætti og hörðustu talsmenn sértrúarsafnaða, þá hlýtur það að veikja þeirra málstað.

Þorsteinn Pálsson hefur til þessa ekki talist öfgamaður, en hann er aðildarsinni og þekkt er að margir breytast við inngöngu í hina ýmsu sértrúarhópa.

Það nýjasta hjá Þorsteini er að halda því fram, að nú hafi Sjálfstæðisflokkurinn skaðað sjálfan sig, með því að lýsa yfir andstöðu við Evrópusambandsaðild. Hann vill meina að með því takmarki flokkurinn möguleika sína í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka.

Það væri hægt að brosa góðlátlega að þessu bulli, ef einhver annar en Þorsteinn úr hópi aðildarsinna hefði haldið þessu fram. En öllu nöturlegt er að sjá þetta ritað eftir fyrrum forsætisráðherra þjóðarinnar og mann sem þekktur er af ágætum gáfum.

En svona eru sértrúarsöfnuðir, fólk tapar allri dómgreind.

Á alþingi sitja fimm flokkar og aðeins einn flokkur hefur sagt það hreint út, að hann vilji ganga í ESB.

Vinstri grænir eru upp til hópa andstæðir aðild, sama má segja um Framsóknarflokkinn og Hreyfingin hefur ekki gefið neina afgerandi yfirlýsingu varðandi ESB. Þess vegna er erfitt að sjá það, að afstaða Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum geti skemmt fyrir hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

Vissulega eru litlir möguleikar á að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking nái saman vegna ólíkrar afstöðu í Evrópumálum, en það eru til aðrir möguleikar, eins og frjálslyndir og víðsýnir menn hljóta að sjá.


Sérhagsmunagæsla Þráins Bertelsonar.

Þráinn Bertelsson og félagar hans í VG hafa lengi skammast yfir sérhagsmunagæslu hér á landi, þeim þykir hún bæði ranglát og spillt.

Réttara væri að segja, að Þráni og félögum þykir rangt að styrkja hagsmuna hópa ef sjálfstæðismenn gera það, vitanlega er það í lagi ef hann gerir það.

Hvað er það annað en sérhagsmunagæsla, að neita að styðja fjárlög og eiga það á hættu, að draumaríkisstjórnin hans spryngi, ef að vegið er að Kvikmyndaskóla Íslands?

Þráinn mun vera afar vel tengdur inn í kvikmyndageirann, þannig að líklegt er að hann beri hag menntastofnunar kvikmyndafólks mjög fyrir brjósti.

Vissulega sárnar skólafólki alltaf ef skera þarf niður í skólanum þeirra, taka ber fram að ég hef ekkert á móti Kvikmyndaskóla Íslands, nema að síður sé. Íslenskar kvikmyndir eru mjög góðar og myndirnar hans Þráins eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

En erfitt er að færa rök fyrir því, að það hrynji allt hér á landi, þótt kvikmyndaskólinn fái ekki það fé sem honum ber.

Það þarf að skera mikið niður í rekstri ríkisins og það kemur alltaf illa við einhverja hópa.


Kolröng stefna í peningamálum.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur nú hækkað stýrivexti, því hann óttast hækkandi verðbólgu.

Stýrivaxtahækkunin bendir til þess, að seðlabankastjórinn hafi ekki næma tilfinningu fyrir stjórn peningamála. Reynda kom það fram í kjölfar hrunsins, en þá vildi hann ásamt Þorvaldi Gylfasyni fara írsku leiðina, sem hefði kostað okkur ca. 5-8000. milljarða.

Hækkun stýrivaxta er rétlætanleg þegar hvetja þarf fólk til sparnaðar og þörf er á takmörkunum útlána.

Þjóðfélagið þarf aftur á móti á því að halda, að fólk og fyrirtæki eyði meiru, þannig að hækkun stýrivaxta er algerlega óskiljanleg við núverandi aðstæður.

Núna þarf að lækka vexti og koma peningum í umferð, við þurfum aukna neyslu á öllum sviðum. Í framhaldinu gætu stjórnarliðar lækkað gjöld til jafns við tekjuaukninguna sem kæmi til vegna aukinnar neyslu.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband